• Lykilorð:
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 22. maí 2019, í máli nr. E-1063/2018:

Bernhard ehf.

(Hannes Júlíus Hafstein lögmaður)

gegn

KK9 ehf.

(Gylfi Jens Gylfason lögmaður)

 

Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu þann 17. október 2018 og dómtekið þann 3. maí 2019.

Stefnandi er Bernhard ehf., kt. 000000-0000, Vatnagörðum 24-26, 104 Reykjavík.

Stefndi er KK9 ehf., kt. 000000-0000, Smiðjuvegi 34, 200 Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða honum skuld að fjárhæð 10.570.000 krónur ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2008, frá 11. júlí 2018 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins, og virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins.

I

Málsatvik

Stefnandi rekur bifreiðaumboð en stefndi rekur bílaleigu. Samkvæmt gögnum málsins voru nokkur viðskipti milli aðila með bifreiðar um skeið, og var umsýsla þeirra viðskipta færð á viðskiptamannareikning stefnda hjá stefnanda.

Þann 23. desember 2014 keypti stefndi 13 bifreiðar af stefnanda. Mál þetta varðar sjö þeirra, allar af gerðinni Honda CR-V. Kaupverð hverrar bifreiðar var 5.680.000 krónur eða samtals 39.760.000 krónur. Á reikningum vegna kaupanna kemur fram að hluti kaupverðs hverrar bifreiðar sé greitt með notaðri bifreið í eigu stefnda. Þannig skyldi stefndi afhenda stefnanda sex nánar tilgreindar bifreiðar af gerðinni Ford Escape, og eina bifreið af gerðinni Honda Civic. Nam uppítökuverð þeirra samtals 10.570.000 krónum. Í samræmi við það var mismunur kaupverðs og uppítökuverðs notuðu bifreiðanna færður á viðskiptamannareikning, eða 29.190.000 krónur. Ekki liggur annað fyrir en að stefndi hafi greitt þá viðskiptaskuld að fullu.

Þann 31. júlí 2017 fær starfsmaður stefnanda tölvupóst frá starfsmanni stefnda, þar sem upplýst er að stefndi sé að „vandræðast“ með Honda Civic bifreiðina sem var hluti kaupverðs samkvæmt framangreindu. Hafi stefndi allt árið 2015 greitt afborganir lána af þeirri bifreið og að lokum selt hana í janúar 2016. Spyr starfsmaður stefnda hvort stefnandi hafi aldrei tekið nefnda bifreið upp í við kaupin þann 23. desember 2014. Í svarpósti starfsmanns stefnanda kom fram að hún hafi skoðað reikninga sem voru útgefnir þann dag, en framangreindar sjö bifreiðar stefnda hefðu aldrei komið í vörslu stefnanda.

Þann 31. desember 2017 bakfærir stefnandi 10.570.000 krónur, vegna þeirra sjö bifreiða sem stefnda bar að afhenda stefnanda samkvæmt framangreindu, og færði sem skuld stefnda á viðskiptamannreikning. Snýr ágreiningur málsins að þeim höfuðstól.

Stefndi gerði í upphafi málsins eingöngu kröfu um frávísun þess með vísan til 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði. Með úrskurði dómsins þann 16. janúar 2019 var þeirri kröfu hafnað og málið tekið til efnismeðferðar.

Í málinu liggja meðal annars fyrir umstefndir sjö reikningar, viðskiptayfirlit, innheimtubréf, útskrift frá Creditinfo, og tölvupóstur.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því þeim bifreiðum sem stefnandi hafi ætlað að taka upp í framangreind kaup hafi ekki verið skilað til stefnanda. Hafi kaupverð þeirra sjö bifreiða sem keyptar voru þann 23. desember 2014 því aldrei verið greitt að fullu. Sé skuldin vegna eftirfarandi bifreiða: 1) Ford Escape NJE28, skv. yfirliti reiknings BS-00993 hafi kaupverðið verið 5.680.000 krónur, greitt hafi verið 4.180.000 krónur og eftirstöðvar því 1.500.000 krónur, 2) Ford Escape GOP17, skv. yfirliti reiknings BS-00994 hafi kaupverðið verið 5.680.000 krónur, greitt hafi verið 3.930.000 krónur og eftirstöðvar því 1.750.000 krónur, 3) Ford Escape RV286, skv. yfirliti reiknings BS-00995 hafi kaupverðið verið 5.680.000 krónur, greitt hafi verið 4.230.000 krónur og eftirstöðvar því 1.450.000 krónur, 4) Ford Escape DP359, skv. yfirliti reiknings BS-00996 hafi kaupverðið verið 5.680.000 krónur, greitt hafi verið 4.180.000 krónur og eftirstöðvar því 1.500.000 krónur, 5) Ford Escape LFY34, skv. yfirliti reiknings BS-00944 hafi kaupverðið verið 5.680.000 krónur, greitt hafi verið 4.260.000 krónur og eftirstöðvar því 1.420.000 krónur, 6) Ford Escape UFB62 skv. yfirliti reiknings BS-0099 hafi kaupverðið verið 5.680.000 krónur, greitt hafi verið 4.230.000 krónur og eftirstöðvar því 1.450.000 krónur, 7) Honda Civic JLZ11, skv. yfirliti reiknings BS-00999 hafi kaupverðið verið 5.680.000 krónur, greitt hafi verið 4.180.000 krónur og eftirstöðvar því 1.500.000 krónur. Samtals nemi eftirstöðvar skuldarinnar 10.570.000 krónum, sem samsvari stefnufjárhæð, auk dráttarvaxta og kostnaðar.

Stefnandi bendir á að stefnda hafi verið send innheimtuviðvörun þann 11. júní 2018, en krafist sé dráttarvaxta frá því að mánuður hafi liðið frá því bréfi og til greiðsludags. Þá hafi stefnda verið sent innheimtubréf þann 31. júlí 2018. Þrátt fyrir framangreint hafi skuldin ekki fengist greidd og sé því nauðsyn að höfða þetta mál. Sé þess krafist við ákvörðun málskostnaðar að tekið verði tillit til kostnaðar stefnanda af innheimtuviðvörunum og milliinnheimtu í samræmi við framlagt yfirlit.

Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.

 

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann standi ekki í skuld við stefnanda, enda beri framlagðir reikningar það með sér að þeir séu að fullu greiddir.

Stefndi byggir einnig á því að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti sem eigi að leiða til sýknu. Ljóst sé samkvæmt viðskiptayfirliti að aðilar málsins hafi verið í miklum viðskiptum eftir kaupin þann 23. desember 2014. Það verði því að teljast afar ótrúverðugt að stefnandi, sem væri sérfræðingur í bifreiðaviðskiptum og hafi opinbert leyfi til að stunda þau viðskipti, hafi ekki gert kröfur um greiðslu meintra skulda á sama tíma og aðilar hafi verið í enn frekari viðskiptum, og stefnandi m.a. haft milligöngu um sölu á bifreiðum sem hugsanlega hefði staðið til að taka upp í hjá stefnanda. Stefnandi hafi engan reka gert að því að halda uppi hinni meintu kröfu og innheimta fyrr en með útgáfu stefnu þann 24. maí 2018, eða nærri fjórum árum eftir að viðskiptin hafi átt sér stað, og beri því að sýkna stefnda með vísan til framangreinds tómlætis stefnanda.

Stefndi vísar til almennra meginreglna samninga- og kröfuréttar máli sínu til stuðnings, og til almennra reglna einkamálaréttarfarsins um sönnun og sönnunarbyrði. Krafa stefnda um málskostnað styðst við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefndi byggir á því að hann sé ekki í skuld við stefnanda. Stefndi hefur þó ekki með neinum hætti sýnt fram á að hann hafi þann 23. desember 2014 eða síðar afhent þær nánar tilgreindu bifreiðar sem honum bar og voru hluti af viðskiptunum bak við umstefnda reikninga, né greitt þá skuld sem varð til með bakfærslu reikninganna þann 31. desember 2017, og framkvæmd var vegna þess að bifreiðarnar voru ekki afhentar.

Einkum er á því byggt af hálfu stefnda að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu reikninganna og beri að sýkna af þeim sökum. Eins og getur um í málavaxtalýsingu málsins virðist sem stefnandi hafi ekki áttað sig á því að stefndi hafi ekki verið búinn að afhenda þær sjö uppítökubifreiðar sem voru hluti af viðskiptunum þann 23. desember 2014, fyrr en að starfsmaður stefnda fór að spyrjast fyrir um eina af þeim bifreiðum þann 31. júlí 2017. Óútskýrt er í málinu hvernig á því stóð að bifreiðarnar, sem tilgreindar eru með tegund og skráningarnúmeri á reikningum, voru aldrei afhentar eins og ráð var fyrir gert. Ætla verður að þar sé ekki við stefnanda einn að sakast, enda er aðkoma stefnda nauðsynleg því uppgjöri þar sem það heyrir undir hann að afhenda bifreiðarnar og ganga formlega frá afsali þeirra. Þótt fallast megi á það með stefnda að eðlilegt hefði verið að stefnandi hefði gengið á eftir afhendingu bifreiðanna, eða ella krafist greiðslu vegna þeirra mun fyrr, verður stefnandi þó ekki eins og hér stendur á talinn hafa sýnt af sér slíkt tómlæti með þeim drætti að krafa hans teljist fallin niður fyrir tómlætis sakir.

Með vísan til framangreinds verður fallist á kröfu stefnanda í málinu og verður stefnda því gert að greiða stefnanda 10.570.000 krónur, auk dráttarvaxta eins og nánar greinir í dómsorði, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem hæfilegur þykir að mati dómsins 400.000 krónur að teknu tilliti virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, KK9 ehf., greiði stefnanda, Bernhard ehf., 10.570.000 krónur auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2008, frá 11. júlí 2018 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.

 

Bogi Hjálmtýsson