• Lykilorð:
  • Kaupsamningur
  • Samningur
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, föstudaginn 11. janúar 2019, í máli nr. E-432/2018:

Lifa ehf.

(Hilmar Magnússon lögmaður)

gegn

Flæði ehf.

(Björgvin Jónsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 17. desember 2018, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness með stefnu birtri 30. apríl 2018.

Stefnandi er Lifa ehf., kt. 000000-0000, Köllunarklettsvegi 4, Reykjavík.

Stefndi er Flæði ehf., kt. 000000-0000, Óðinsvöllum 13, Reykjanesbæ.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.663.406 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá 16. febrúar 2018 til greiðsludags. Þá er þess jafnframt krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins, að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, gegn greiðslu á 212.447 krónum. Til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar, og aðeins teknar til greina að óverulegu leyti. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.

 

I

Málsatvik

Þann 7. desember 2017 var undirritaður samningur um kaup og sölu á félaginu Níl ehf., kt. 000000-0000, þar sem stefnandi seldi stefnda 100% hlutafjár í félaginu, að nafnvirði 1.500.000 krónur, á eina krónu. Með kaupunum fylgdu viðskiptasamningar og viðskiptavild, leigusamningar fyrir verslanir félagsins sem reknar eru í Smáralind og Kringlunni undir nafninu Duka, ásamt lager verslananna. Stefndi skyldi á móti gera upp og yfirtaka tilteknar skuldir, þar á meðal sem sjálfskuldaraðili ábyrgjast greiðslu á skuldum Nílar ehf. við stefnanda og annað félag í eigu stefnanda. Var um tilhögun þeirra greiðslna vísað til fylgiskjals nr. 7 með kaupsamningi.

Samkvæmt nefndu fylgiskjali skyldi stefndi takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu Nílar ehf. til stefnanda að fjárhæð 11.196.000 krónur, og átti sú greiðsla að fara fram þann 5. febrúar 2018. Greiðslan var ekki innt af hendi.

Þann 15. febrúar 2018 sendi stefndi stefnanda yfirlit yfir skuldir sem hann taldi að hefðu komið í ljós eftir söluna og hafi ekki verið getið á yfirliti því sem lá fyrir við kaupsamningsgerð, þar á meðal um launagreiðslur fyrir tímabilið 25. nóvember til og með 7. desember 2017, og orlof. Samkvæmt útreikningi endurskoðanda stefnda námu heildarskuldir, sem ekki var getið um við söluna, 3.663.406 krónum. Í samræmi við það greiddi stefndi stefnanda þann 16. febrúar 2018 mismun á þeirri fjárhæð og fyrrgreindum 11.196.000 krónum eða 7.532.594 krónur.

Í greinargerð stefnda er á því byggt að skuldir stefnanda hafi numið 3.450.959 krónum umfram uppgefnar skuldir, og séu því 212.447 krónum lægri en sú fjárhæð sem haldið var eftir samkvæmt framangreindu. Snýr ágreiningur aðila að því hvorum hafi borið að greiða þær skuldir, einkum út frá túlkun á grein 4.16 í samningi aðila.

Í grein 4.16 í samningi aðila segir: „Upphæðir samnings þessa miðist við prófjöfnuð dagsettur 8. desember 2017, eins og hann stendur vegna bókhalds í lok dags 7. desember 2017. Komi í ljós eftir að öll gögn hafi skilað sér inn til bókunar að heildarskuldir félagsins séu hærri eða lægri sem nemur kr. 3.000.000 miðað við framangreindan prófjöfnuð þá verði tekið tillit til þess við lokagreiðslu.“ Prófjöfnuður var gerður af stefnanda þann 8. desember 2017, og aftur þann 19. janúar 2018, sem miðast við tilgreinda dagsetningu í kaupsamningi, 7. desember 2017.

Í málinu liggja fyrir eftirfarandi gögn: kaupsamningsdrög, kaupsamningur, dags. 7. desember 2017 um framangreind kaup, fylgiskjöl kaupsamnings, prófjöfnuður Nílar ehf., dags. 8. desember 2017 og 19. janúar 2018, tölvupóstsamskipti, útreikningar hvors aðila á skuldum Nílar ehf. sem ekki eru í prófjöfnuði, leiðrétt yfirlit stefnda um ógreidd laun og orlof ásamt launatengdum gjöldum Nílar sem ekki hafi verið greint frá í prófjöfnuði, kvittanir, yfirlýsing Íslandsbanka, hlutafélagavottorð stefnda og ljósrit reikninga.

Aðilaskýrslur fyrir dómi gáfu fyrirsvarsmenn stefnanda, þær Auður og Magný Jóhannesdætur, og fyrirsvarsmaður stefnda, Skúli Rósantsson. Vitnaskýrslur gáfu Sigurður Jónsson og Sævar Gestur Jónsson, endurskoðendur, og Karl Jónsson lögmaður.

 

 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á kaupsamningi aðila og fylgiskjali merktu nr. 7, en það sé óumdeilt að stefndi hafi dregið stefnufjárhæð málsins frá lokagreiðslu. Krefst stefnandi þess að stefndi efni kaupsamning aðila í samræmi við samningsskilmála og inni af hendi lokagreiðslu. Stefnandi telur að ekkert í málinu hafi veitt stefnda heimild til að lækka lokagreiðslu eða kaupverðið líkt og hann hafi gert. Telur stefnandi að stefndi misskilji ákvæði 4.16 í kaupsamningi á þann hátt að hann eigi að fá afslátt af verðinu sem nemi 3.000.000 króna. Í umræddri grein komi skýrt fram að reynist skuldir hærri eða lægri en 3.000.000 króna miðað við fyrirliggjandi prófjöfnuð skuli taka tillit til þess við lokagreiðslu, þ.e. að lokagreiðsla sæti frádrætti eða viðbót sem nemi mismun á 3.000.000 króna og endanlegri fjárhæð skulda. Hafi það verið ætlun samningsaðila að til viðbótar frádrætti lokagreiðslu kæmi ekki einungis sú fjárhæð sem væri hærri en umrætt viðmiðunarmark, heldur og afsláttur eða lækkun kaupverðs er næmi viðmiðunarmarkinu sjálfu, þ.e. 3.000.000 króna, hefði þurft að geta þess skýrlega í samningi, enda um mjög háa fjárhæð að ræða. Fyrirliggjandi samningsákvæði verði engan veginn skýrt á þann veg sem stefndi haldi fram, þ.e. að viðmiðunarmarksfjárhæðin teljist geta verið hluti af samningsfjárhæðinni.

Stefnandi byggir á því að heildarskuldir félagsins hafi ekki farið yfir umrætt viðmiðunarmark þótt miðað sé við endanlegan prófjöfnuð frá 19. janúar 2018, og því engin frádráttarheimild til staðar frá öndverðu. Hafi skuldir félagsins við dagslok 7. desember 2017 nánast verið í fullu samræmi við fyrirliggjandi prófjöfnuð að teknu tilliti til krafna sem á félaginu hvíldu við umrætt tímamark en höfðu ekki verið færðar. Stefnandi bendir og á að aðilar hafi samið um að miða prófjöfnuð félagsins við mat á skuldastöðu þess, en eins og fram komi í umræddri grein samningsins skyldi miða við heildarskuldir félagsins á nánar tilteknu tímamarki miðað við fyrirliggjandi prófjöfnuð. Hugsanlega gætu þá verið óbókuð gögn er breyttu skuldastöðunni. Í því gagni sem stefndi hafi látið reikna út fyrir sig og hann byggi lokagreiðslu sína á hafi hlutfallslegur kostnaður verið reiknaður af kröfum og launum, þótt þær væru ekki komnar á gjalddaga þann 7. desember 2017, og hafi því ekki talist vera óbókuð skuld á umræddu tímamarki og því ekki í prófjöfnuði félagsins. Aðilar samnings hafi auðvitað verið meðvitaðir um að launþegar Nílar ehf. hafi verið starfandi fyrir félagið á því tímamarki sem eignayfirfærslan átti sér stað sem og vaxtaberandi skuldir og kröfur sem ekki voru komnar á gjalddaga. Með því að miða við prófjöfnuð félagsins, sem hafi verið færður skv. viðurkenndum reikningsskilavenjum, hafi aðilar komið sér saman um það hvaða mælikvarða skyldi nota. Stefnandi hafi hafnað þeim ákvæðum sem fram höfðu komið í fyrri samningsdrögum stefnda um að hlutfallsreikna kostnað miðað við afhendingardag og hafi ekki verið komin á gjalddaga. Það sama hafi átt við tekjur sem aflað hefði verið fyrir afhendingardag en voru ekki komnar til greiðslu hjá hinu selda félagi og því ekki bókaðar. Hafi stefnda því verið fullkunnugt um að ekki skyldi hlutfallsreikna kostnað líkt og hann hafi gert, þar sem aðilar hafi komið sér saman um aðra reikniaðferð sem komi skýrt fram í grein 4.16.

Stefnandi byggir á því, verði talið að stefnda hafi verið heimilt að hlutfallsreikna, að þá séu umræddir útreikningar rangir að nokkru leyti auk þess sem stefndi hafi einungis haft heimild til að draga frá lokagreiðslu þá fjárhæð umfram viðmiðunarmark sem greini í samningi aðila eða 3.000.000 króna. Nefnt viðmiðunarmark hafi að mati stefnanda á engan hátt tengst söluverðinu sjálfu og verði alls ekki skýrt á þann veg sem stefndi haldi fram. Ef fallast ætti á skýringar stefnda megi sjá að mikilsverðir hagsmunir væru í húfi fyrir stefnanda að lækka niðurstöðu prófjafnaðar þannig að hann næði ekki upp fyrir viðmiðunarmörkin, en til þess hefði stefnandi fulla heimild. Í stað þess að framkvæmdin yrði með þeim hætti hafi verið samið svo um að það sem umfram kynni að vera kæmi til frádráttar við lokagreiðsluna. Aldrei hafi verið um það rætt að veittur yrði sérstakur afsláttur eða lækkun á greiðslum er næmi þeirri viðmiðunarfjárhæð er aðilar sættust á, enda ekki um hluta kaupverðs að ræða heldur svigrúm sem aðilar voru tilbúnir að veita hvor öðrum.

Stefnandi byggir útreikning sinn á þeim forsendum sem hann telur gilda í samskiptum aðila, og telur útreikning stefnda rangan í einstaka liðum. Samkvæmt niðurstöðu stefnanda sé skuldin 3.059.968 krónur umfram þann prófjöfnuð sem lá fyrir við kaupsamningsgerð. Samkvæmt því hafi stefndi aðeins heimild til að draga frá lokagreiðslu 59.968 krónur verði á röksemdir stefnda fallist. Stefnandi telur að stefndi hafi ranglega við útreikning á orlofi starfsmanna lagt áunninn tímafjölda fyrir tímabilið 8. til 24. desember 2017 við áramótastöðu í stað þess að draga hann frá. Lækki krafan því úr 938.128 krónum í 822.028 krónur. Þá hafi stefnandi reiknað launatengd gjöld út miðað við raunverulega álagningu og sé krafan rétt um 35.000 krónum lægri en geti í útreikningi stefnda. Þá hafi stefnandi reiknað hlutfallslegan kostnað vegna jólagjafahandbókar sem hafi verið í dreifingu allan desembermánuð 2017, sem valdi því að krafa stefnda lækki um rúmar 232.000 krónur. Fleira komi til en stefnandi hafi ekki aðgang að bókhaldi félagsins lengur.

Stefnandi telur jafnframt að stefndi hafi ranglega reiknað ýmsa kostnaðarliði eins og símakostnað og kostnað endurskoðanda fyrir launavinnslu. Þá hafi stefndi ekki reiknað innvexti af bankareikningum og heldur ekki dregið inneignarnótur frá hinu selda félagi sem innleystar voru hjá Kokka ehf. eftir kaupsamningsdag, samtals 99.150 krónur, en umræddan kostnað hafi stefnandi leyst til sín. Samtals leiði leiðréttingar þessar til lækkunar á útreikningi stefnda um 603.437 krónur. Heildarskuldastaðan hækki því um 3.059.968 krónur frá þeim prófjöfnuði er hafi legið fyrir við kaupsamning, sé reikniaðferðum stefnda beitt. Af því leiði að lokagreiðsla geti aldrei lækkað meira en nemi 59.968 krónum að teknu tilliti til þess svigrúms er stefnandi hafði samkvæmt kaupsamningi.

Stefnandi telur skaðabótakröfu stefnda ósannaða og ekkert saknæmi sé í málinu. Hafi stefnendur opnað allt bókhald sitt og gögn fyrir stefnda og gefið honum réttar upplýsingar. Gögnin hafi gefið til kynna að ekki væri búið að greiða út laun til 7. desember 2017. Hafi fyrirsvarsmanni stefnda mátt vera það ljóst, enda margreyndur á þessu sviði og hafi auk þess notið faglegrar aðstoðar endurskoðanda. Þá hafi gilt trúnaður milli aðila með þeim hætti að starfsfólki yrði ekki tilkynnt um kaupin fyrr en eftir jólavertíð, en sá trúnaður hefði verið brotinn hefðu laun verið greidd út þann dag.

Stefnandi kveður fjárhæð dómkröfu byggjast á kaupsamningi aðila, sbr. fylgiskjal merkt 7, þar sem fram komi að stefndi skyldi greiða stefnanda sem lokagreiðslu þann 5. febrúar 2018 11.196.000 krónur. Stefndi hafi dregið frá þeirri fjárhæð 3.663.406 krónur sem væri stefnukrafa máls þessa, en dráttarvaxta sé krafist frá 16. febrúar 2018, en þann dag hafi stefndi greitt mismun ofangreindra fjárhæða auk 30.000 króna í dráttarvexti fyrir tímabilið 5. febrúar til 16. febrúar 2018. Geri stefnandi ekki athugasemd um greiðslu dráttarvaxta fyrir umrætt tímabil og krefjist því einungis dráttarvaxta af stefnufjárhæð málsins frá 16. febrúar 2018.

Stefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins um að gerða samninga skuli halda og um efndir skuldbindinga. Um dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001. Vísað er til 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um málskostnaðarkröfu stefnanda.

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að samkvæmt grein 4.16 í samningi aðila hafi honum verið heimilt að draga frá lokagreiðslu þá fjárhæð sem heildarskuldir Nílar ehf. hafi reynst hærri en skuldir þess námu samkvæmt uppgefinni skuldastöðu. Í umræddu samningsákvæði sé vísað til prófjafnaðar um stöðu skulda félagsins við kaupin 7. desember 2017, sem hafi reynst nema 3.450.959 krónum umfram uppgefnar skuldir af hendi stefnanda við kaupin. Samkvæmt ákvæðinu skyldi því tekið tillit til þeirra við lokagreiðslu til stefnanda, sbr. fylgiskjal nr. 7 með kaupsamningi. Orðalag nefnds samningsákvæðis mæli þannig fyrir um að nemi mismunur hærri fjárhæð en 3.000.000 króna skuli tekið tillit til hans í lokagreiðslu, en ekki aðeins þess sem umfram viðmiðunarfjárhæð sé, eins og stefnandi byggir á í sínum málatilbúnaði.

Stefndi vísar jafnframt til þess að hækkun á skuldum félagsins frá prófjöfnuði varði að langmestu leyti reglulegan kostnað í rekstri, þ.e. ógreidd laun til starfsmanna, ógreitt orlof og launatengd gjöld, er fyrirsvarsmönnum stefnanda hafi verið kunnugt um við söluna. Í prófjöfnuði hafi ekki verið greint frá ofangreindum skuldum af hálfu seljanda, enda ekki tilgreindar neinar skuldir hjá félaginu varðandi laun eða orlof.  Stefnanda hafi því borið að afhenda félagið í samræmi við það sem fram komi í prófjöfnuði um skuldir félagsins hvað þetta varði, þ.e. að gera upp umræddar launa- og orlofsskuldir við starfsfólk ásamt launatengdum gjöldum af þeim. Sé þeirra skulda jafnframt ekki getið í síðari prófjöfnuði, dags. 19. janúar 2018.

Stefndi byggir á því að hið selda hafi verið haldið leyndum galla þar sem stefnandi hafi við söluna ekki upplýst um og skilið eftir í hinu selda félagi skuldir er vörðuðu ógreidd laun og orlof til starfsmanna og ógreidd launatengd gjöld af þessum ógreiddu launum og orlofi, auk skulda er vörðuðu fastan kostnað við aðkeypta þjónustu KPMG. Gagnstætt þessu hafi á yfirliti um skuldir hins selda félags á prófjöfnuði, dags. 8. desember 2017, komið fram að félagið skuldaði hvorki laun eða orlof. Þá segi í samningsákvæði 4.6 í kaupsamningi aðila: ,,Seljandi staðfestir að ekki sé fyrir að fara öðrum skuldbindingum hjá félaginu en þeim sem fram koma í þeim gögnum sem lögð eru til grundvallar kaupsamningi þessum, t.d. samningar, skaðabótakröfur, kaupleigu-samningar, ábyrgðir o.fl.“  Af hálfu stefnda er byggt á því að hið selda teljist af þeim sökum hafa verið haldið leyndum galla, sbr. 1., sbr. 4., mgr. 17. gr., 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Hið selda hafi þannig ekki svarað til þeirra upplýsinga sem stefnandi gaf um hið selda við kaupin, en fyrirsvarsmenn stefnanda þekktu eða hlutu að þekkja til ofangreindra skulda félagsins. Röng upplýsingagjöf stefnanda/vanræksla hans í því efni að skýra frá ofangreindum skuldum við kaupin valdi því að hið selda teljist hafa verið haldið leyndum galla, þannig að stefndi eigi rétt til skaðabóta eða afsláttar af kaupverði, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og 1. mgr. 40. gr. sömu laga og 1. mgr. 30. gr. og 38. gr. laga nr. 50/2000. Ofangreindar skuldir varði fastan og reglulegan kostnað hjá félaginu, en ekkert tilfallandi smálegt sem bættist við eftir að stefndi var tekinn við rekstrinum, eins og tilgangurinn var með samningsákvæði 4.16.  Öll skilyrði skaðabótaábyrgðar stefnanda, þ.e. sök, ólögmæti, orsakatengsl, fjártjón og vávæni, séu þannig fyrir hendi. Fjártjón stefnda svari til þeirra fjárhæða er hið selda félag hafi þurft að greiða vegna framangreindra ótilgreindra skulda þess eftir að stefndi hafði tekið yfir rekstur þess, sem samkvæmt nánari sundurliðun nemi 2.516.832 krónum. Það sama eigi við varðandi útreikning afsláttar skv. 38. gr. laga nr. 50/2000 verði það niðurstaða dómsins að stefndi eigi ekki rétt til skaðabóta heldur afsláttar.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að stefnandi geti ekki skotið sér á bak við ákvæði greinar 4.16 í kaupsamningi um að hann hafi sem seljandi ekki þurft að upplýsa um umræddar skuldir. Nefndu samningsákvæði hafi eingöngu verið ætlað að ná til vaxtakostnaðar, bankakostnaðar, símkostnaðar og annars smálegs sem rukkanir kynnu að berast fyrir eftir að stefndi hefði tekið við félaginu, en ekki skulda vegna reglulegs kostnaðar sem stefnandi vissi af eða hlaut að vita af við kaupin.

Stefndi byggir kröfur sínar meðal annars á ofangreindu tjóni og hann eigi af þeim sökum rétt til skaðabóta úr hendi stefnanda skv. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, eða hlutfallslegs afsláttar af kaupverði skv. 38. gr. sömu laga, sem samsvari tjóni stefnda vegna lækkunar á verðgildi hins selda vegna gallans. Gagnkröfur stefnda á hendur stefnanda á ofangreindum grundvelli séu í málinu hafðar uppi til skuldajafnaðar við stefnukröfur skv. heimild í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála, enda eigi kröfurnar rætur sínar að rekja til kaupsamnings aðila. Er í varakröfum stefnda, um að kröfur stefnanda sæti lækkun, byggt á því að gagnkröfur stefnda um skaðabætur eða afslátt komi til skuldajafnaðar og lækkunar á fjárkröfum stefnanda.

Stefndi byggir gagnkröfur sínar á meginreglum samninga-, kaupa- og kröfuréttar og ákvæðum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, einkum 17. gr., 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr., 30. gr., 38. gr. og 1. mgr. 40. gr. og 42. gr. laganna. Um heimild til skuldajafnaðar er vísað til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

 

IV

Forsendur og niðurstaða

Ágreiningur aðila snýr einkum að túlkun á grein 4.16 í samningi aðila. Þar segir: „Upphæðir samnings þessa miðist við prófjöfnuð dagsettur 8. desember 2017, eins og hann stendur vegna bókhalds í lok dags 7. desember 2017. Komi í ljós eftir að öll gögn hafi skilað sér inn til bókunar að heildarskuldir félagsins séu hærri eða lægri sem nemur kr. 3.000.000 miðað við framangreindan prófjöfnuð þá verði tekið tillit til þess við lokagreiðslu.“

Vitnin Sævar Gestur Jónsson, endurskoðandi stefnda, og Karl Jónsson lögmaður sem komu að samningsgerðinni voru meðal annars krafðir skýringar á grein 4.16. Í skýrslu Sævars kom fram að ákvæðið hefði komið inn eftir samtal milli Magnýjar og Skúla. Hann kynni eiginlega ekki að segja hvaða túlkun væri þar á bak við. Í skýrslu Karls kom fram að ákvæðið hafi komið inn á lokametrunum á tveggja manna fundi þeirra Magnýjar og Skúla. Hann hafi sjálfur ekki verið með neina athygli á ákvæðinu en hafi fengið útskýringar á því hvernig ákvæðið væri hugsað frá Sævari og Skúla. Að mati dómsins getur framburður vitnanna um túlkun á nefndri grein ekki haft þýðingu við úrslausn málsins.

Stefnandi túlkar ákvæðið á þann hátt að fari heildarkröfur yfir nefnda fjárhæð þá verði hann einungis krafinn um það sem umfram er. Stefndi túlkar ákvæðið hins vegar þannig að fari heildarskuldir yfir nefnda fjárhæð beri stefnanda að greiða það sem umfram er, og 3.000.000 króna.

Í skýrslum fyrirsvarsmanna fyrir dómi kom að öðru leyti fram sami skilningur þeirra, að væru heildarskuldir hærri en prófjöfnuður segði til um, en næðu þó ekki 3.000.000 króna, þá ætti stefndi ekki frekari kröfu á hendur stefnanda. Þykir þannig ljóst að aðilar málsins voru með umræddu ákvæði að kveða á um hámark þeirrar fjárhæðar sem hvor þeirra var tilbúinn að bera án frekari eftirmála. Að mati dómsins leiðir þetta, sem og túlkun á orðalagi greinar 4.16 til þess að reynist heildarskuldir hærri en sem nemur viðmiðunarfjárhæðinni, þá beri eingöngu að taka tillit til þess við lokagreiðslu sem fer fram yfir 3.000.000 krónur.

Í útreikningi stefnda í greinargerð er fjárhæð heildarskulda umfram prófjöfnuð tiltekin sem 3.450.959 krónur. Með hliðsjón af því og framangreindri niðurstöðu geta einungis 450.959 krónur komið til álita sem frádráttur frá lokagreiðslu.

 

Samkvæmt grein 4.16 skyldu skuldir miðaðar við prófjöfnuð 8. desember 2017, eins og hann stæði í bókhaldi í lok dags 7. desember 2017, eftir að gögn hefðu skilað sér inn til bókunar. Virðist af því ljóst að uppgjör skulda skyldi miða við fyrirliggjandi bókhaldsgögn, og skulda sem stofnuðust fyrir lok dagsins án þess að gögn hefðu skilað sér. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til greina að hlutfallsreikna ýmsan kostnað vegna krafna sem stofnast eftir nefnt tímamark með þeim hætti sem stefndi gerir. Þá ber og til þess að líta að jafnvel þótt fallist væri á útreikning stefnda, og allar skuldir teknar til greina með hlutfallslegri skiptingu, þar á meðal laun og orlof, þá yrði einnig að horfa til forsendna sem fram koma í stefnu til lækkunar á þeim útreikningi, samtals 603.437 krónur. Staða heildarskulda gæti þannig hæst orðið 3.450.959 – 603.437 krónur eða 2.847.522 krónur, sem er undir framangreindum viðmiðunarmörkum, og sameiginlegur skilningur aðila samkvæmt framangreindu að það sé skuld sem stefndi þarf að bera.

Stefndi byggir kröfu sína um greiðslu skaðabóta á því að hið selda hafi verið haldið leyndum galla samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, þar sem stefnandi hafi ekki upplýst um og skilið eftir í hinu selda félagi skuldir er vörðuðu ógreidd laun frá 25. nóvember 2017 til 7. desember 2017 auk orlofs og launatengdra gjalda, samtals 2.435.232 krónur. Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir því tjóni eftir almennum reglum þar um.

Stefndi bendir á að samkvæmt prófjöfnuði, dags. 8. desember 2017 og 19. janúar 2018, sem unninn var af stefnanda, komi fram að hvorki væru til staðar ógreidd laun né orlof þann 7. desember 2017. Í máli Sigurðar Jónssonar, endurskoðanda stefnanda, hafi komið fram að eðlilegt hefði verið að laun fram til þessa dags væru í prófjöfnuði. Þá komi fram í grein 4.6 í samningi aðila að stefnandi staðfesti að ekki sé fyrir að fara öðrum skuldbindingum en fram hafi komið.

Í grein 4.13 í samningi kemur fram að stefndi hafi kynnt sér ráðningarsamninga allra starfsmanna. Stefndi kynnti sér ekki samningana og liggja þeir ekki fyrir í málinu, en af því sem fram kom við skýrslutökur þykir ljóst að launatímabil þeirra hafi verið frá 25. hvers mánaðar, og laun verið greidd út eftir á 1. næsta mánaðar. Laun fyrir nóvembermánuð 2017 voru þannig greidd út 1. desember 2017. Samkvæmt þessu var upplýst um skuldbindingar í ráðningarsamningum þar sem fram kemur hvenær skuli reikna og greiða launin út. Leiðir þetta jafnframt til þess að þær upplýsingar sem gefnar voru í prófjöfnuði, og byggðust á launabókhaldi, um að engin laun hafi verið ógreidd þann 7. desember 2017, voru réttar.

Upplýst er í málinu að kaupin á félaginu Níl ehf. hafi borið að með skömmum fyrirvara og samningsgerð verið hraðað vegna kröfu stefnda um yfirtöku áður en velta desembermánaðar kæmi inn að fullum krafti. Skýrir það uppgjörsdaginn 7. desember 2017 en nokkuð óvenjulegt þykir að miða ekki uppgjör við mánaðamót. Hefði út frá þeim forsendum þurft að kveða skýrar á um uppgjör launa. Aðilar ákváðu þess í stað, vegna tímaskorts, að setja inn framangreind viðmiðunarmörk í grein 4.16. Samkvæmt orðanna hljóðan þeirrar greinar tekur ákvæðið ekki til tiltekinna skulda eins og byggt er á af hálfu stefnda, heldur heildarskulda, þar á meðal um ógreidd laun og orlof.

Samkvæmt framangreindu telst ósannað um ólögmæta og saknæma háttsemi stefnanda. Að öðru leyti eiga við um skuldir vegna launa og orlofs framangreindar forsendur um túlkun á grein 4.16. Ber því að sýkna stefnanda af kröfu stefnda um greiðslu skaðabóta.

Stefndi krefst afsláttar af kaupverði skv. 38. gr. laga nr. 50/2000. Með vísan til framangreindra forsendna, og til þess að fyrir liggur að kaupverð félagsins var ein króna, þykja ekki vera neinar forsendur til að fallast á þá kröfu.

Með vísan til alls framangreinds verður stefnda gert að greiða stefnanda 3.663.406 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá 16. febrúar 2018 til greiðsludags.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.066.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Bogi Hjálmtýsson kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Flæði ehf., greiði stefnanda, Lifa ehf., 3.663.406 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. febrúar 2018 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.066.400 krónur í málskostnað.

 

                                                                             Bogi Hjálmtýsson