• Lykilorð:
  • Kjarasamningur
  • Sönnun
  • Uppsagnarfrestur
  • Vinnulaun

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 9. mars 2018 í máli nr. E-928/2017:

Björn Már Sigfússon

(Guðmundur Birgir Ólafsson lögmaður)

gegn

Bakkafoss ehf.

(Guðbrandur Jóhannesson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 12. febrúar sl., var höfðað 19. september 2017.

Stefnandi er Björn Már Sigfússon, Dvergaborgum 5, Reykjavík.

Stefndi er Bakkafoss ehf., Dalshrauni 13, Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði 2.041.217 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2016 af 177.309 krónum til 1. nóvember 2016 og frá þeim degi af 277.318 krónum til 1. desember 2016 og frá þeim degi af 377.327 krónum til 1. janúar 2017 og frá þeim degi af 477.336 krónum til 1. febrúar 2017 og frá þeim degi af 577.354 krónum til 1. mars 2017 og frá þeim degi af 677.354 krónum til 1. apríl 2017 og frá þeim degi af 761.663 krónum til 1. maí 2017 og frá þeim degi af 1.044.672 krónum til 1. júní 2017 og frá þeim degi af 1.340.417 krónum til 1. júlí 2017 og frá þeim degi af 1.636.162 krónum til 1. ágúst 2017 og frá þeim degi af 2.041.217 krónum til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara lækkunar á dómkröfu stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar. 

I

Stefnandi starfaði hjá stefnda á tímabilinu frá september 2016 til 28. apríl 2017 við afgreiðslustörf í söluturninum Drekanum. Atvik málsins eru umdeild. Stefnandi lýsir málsatvikum á þann veg að hann hafi hafið störf hjá stefnda í september 2016 í 100% starfi sem vaktstjóri. Umsamin mánaðarlaun hafi verið 198.700 krónur. Hafi stefnandi starfað hjá stefnda til 28. apríl 2017 en þá var honum sagt upp störfum fyrirvaralaust, gert að skila lyklum og vinnuframlagi á uppsagnarfresti hafnað.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi verið ráðinn í 50% starf samkvæmt ráðningarsamningi sem afgreiðslumaður. Hafi stefnandi verið ráðinn til vaktavinnu og umsamið að hann fengi 1.920 krónur fyrir dagvinnu og ynni hann eftirvinnu fengi hann 40% álag á daglaun, en 50% álag á næturvinnu. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi hafið störf 15. september 2016 og fengið greidd laun í samræmi við umsamin kjör. Fyrir vinnuframlag í október 2016 til mars 2017 hafi stefnandi fengið greidd laun mánaðarlega í samræmi við umsamin kjör og unna tíma, það er 1.920 krónur á tímann fyrir 86,5 klukkustundir á mánuði, samtals 183.000 krónur með orlofi. Fyrir mars hafi stefnandi fengið 188.516 krónur greiddar með orlofi. Hafi stefnandi ekki gert athugasemdir við það að launin væru ekki rétt reiknuð þegar hann móttók launaseðilinn sinn. Þá hafi ekki verið gerðar athugasemdir við útgreidd laun. Í greinargerð stefnda segir að það sé alrangt að stefnandi hafi starfað í 100% starfi sem vaktstjóri og að stefndi hafi sagt stefnanda upp starfi fyrirvaralaust. Hið rétta sé að stefnandi hafi ekki mætt í vinnu í viku án nokkurra skýringa. Reynt hafi verið að ná í stefnanda símleiðis og með smáskilaboðum, en án nokkurra viðbragða.

Stefnandi leitaði aðstoðar hjá VR vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar á starfi hjá stefnda. Sendi VR bréf til stefnda 5. maí 2017. Þar segir að stefnanda hafi verið sagt upp störfum fyrirvaralaust af hálfu stefnda þann 28. apríl 2017 með SMS-skilaboðum og hann beðinn um að skila lyklum að fyrirtækinu. Vísað er til kjarasamnings VR og Samtaka atvinnulífsins þar sem fram komi að eftir sex mánaða starf hjá sama fyrirtæki skuli uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir. Þá segir að þar sem stefndi hafni frekari vinnuframlagi stefnanda áskilji stefnandi sér rétt til að krefjast launa á uppsagnarfresti ásamt launum fyrir apríl 2017. Bréfinu mun ekki hafa verið svarað af stefnda.

VR sendi stefnda innheimtubréf 19. maí 2017 með útreiknuðum launum samkvæmt fyrrnefndum kjarasamningi ásamt orlofi, orlofsuppbót og desemberuppbót, en að teknu tilliti til innborgunar á laun stefnanda. Í innheimtubréfinu segir að stefnandi hafi fengið greiddar 198.700 krónur í mánaðarlaun sem væri undir lágmarkstaxta. Nemur krafa stefnanda á hendur stefnda 2.041.217 krónum, sem er stefnufjárhæð málsins. Var stefnda gefinn 10 daga frestur til að greiða kröfuna. Lögmaður stefnanda ítrekaði kröfu hans með bréfi til stefnda 13. júní 2017.

Innheimtukröfu stefnanda var mótmælt af lögmanni stefnda með tölvupósti 20. júlí 2017. Þar segir að stefnandi eigi ekki rétt á launum á uppsagnarfresti, hann hafi hlaupist á brott úr vinnu og brotið með því freklega ráðningarsamning sinn og stolið og eða dregið sér eignir stefnda meðan hann hafi verið í starfi hjá stefnda. Einnig var því mótmælt að stefnandi hefði verið í fullu starfi hjá stefnda og að hann hefði fengið greitt undir lágmarkstaxta. Lögmaður stefnanda svaraði sjónarmiðum stefnda með tölvupósti 25. júlí 2017 og lögmaður stefnda svaraði á ný 17. ágúst 2017. Fullyrti stefnandi að hann hefði verið veikur í vikutíma, en þegar hann mætti til vinnu á ný hafi honum verið sagt upp fyrirvaralaust. 

II

Stefnandi byggir á því að honum hafi verið sagt upp fyrirvaralaust. Hvorki hafi verið gerðar athugasemdir við áskilnað um bótakröfu vegna ólögmætrar uppsagnar né innheimtubréfum svarað. Hafi stefndi haft eitthvað við mótmæli við uppsögn að athuga hefði hann átt að bregðast við og skora á stefnanda að mæta til vinnu. Það gerði hann ekki enda fyrirvaralaus uppsögn óumdeild.

Samkvæmt meginreglum vinnuréttar beri að áminna starfsmann hafi hann brotið af sér í starfi áður en komi til fyrirvaralausrar uppsagnar. Í tilviki stefnanda hafi hvorki verið til að dreifa broti í starfi né áminningu og því sé fyrirvaralaus uppsögn ólögmæt. Stefnandi eigi rétt til launa á uppsagnarfresti sem séu þrír mánuðir samkvæmt kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins. Auk krafna um laun á uppsagnarfresti gerir stefnandi kröfu um mismun launa vegna þess að laun stefnanda hafi verið undir lágmarkskjörum samkvæmt nefndum kjarasamningi. Á starfstímanum hafi stefnandi fengið greitt undir lágmarkstaxta kjarasamningsins. Samkvæmt grein 1.4 í kjarasamningnum veiti tuttugu og tveggja ára aldur rétt til næsta starfsaldursþreps fyrir ofan byrjunarlaun. Gerð sé krafa um leiðréttingu launa fyrir starfstímabilið september 2016 til maí 2017. Samkvæmt kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins sem gildi frá 1. maí 2016 eigi lágmarkslaun eftir tuttugu og tveggja ára aldur að vera 256.884 krónur á mánuði, en stefnandi hafi fengið 183.000 krónur. Gerð sé krafa um mismun launa fyrir tímabilið september 2016 til og með 1. apríl 2017. 

Þá sé gerð krafa um vangoldið orlof á laun á starfstímabilinu frá september 2016 til apríl 2017, 27.301 krónu á mánuði (256.884,- x 10,17%). Einnig sé gerð krafa um laun á uppsagnarfresti en í kjarasamningi VR og SA sem gildi frá 1. maí 2015 eigi starfsmenn rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti eftir sex mánaða starf. Samkvæmt kjarasamningi VR og SA frá 1. maí 2017 hækki laun um 4,5% og því sé gerð krafa um laun að fjárhæð 268.555 krónur (256.884 krónur x 4,5%) á mánuði á uppsagnarfresti og orlof á laun að fjárhæð 27.301 króna (268.555 krónur x 10,17%) á mánuði í uppsagnarfresti.

Loks sé gerð krafa um orlofs- og desemberuppbót sem ekki hafi verið gerðar upp við starfslok. Orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningi árið 2017 sé 46.500 krónur og miðist við 45 vikur. Stefnandi hafi samkvæmt útgefnum launaseðlum áunnið sér hlutfall af orlofsuppbót í 34 vikur og sé gerð krafa um það að fjárhæð 35.133 krónur (46.500 krónur/45 x 34). Orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningi árið 2018 sé 48.000 krónur og miðist við 14 vikur. Stefnandi hafi samkvæmt útgefnum launaseðlum áunnið sér hlutfall af orlofsuppbót í 14 vikur og sé gerð krafa um það að fjárhæð 14.933 krónur (48.000 krónur/45 x 14). Desemberuppbót samkvæmt kjarasamningi árið 2017 sé 86.000 krónur og miðast við 45 vikur. Stefnandi hafi samkvæmt útgefnum launaseðlum áunnið sér hlutfall af desemberuppbót í 31 viku og sé gerð krafa um það að fjárhæð 59.244 krónur (86.000 krónur/45 x 31).

Krafan stefnanda sundurliðist þannig:

Vangoldin laun september 2016

kr. 256.884,-

Orlof 10,17% sept. 2016

kr.   26.126,-

Innborgun á laun sept. 2016

kr. -105.700,-

Vangoldin laun október 2016

kr.  256.884,-

Orlof 10,17% okt. 2016

kr.    26.126,-

Innborgun á laun okt. 2016

kr. -183.000,-

Vangoldin laun nóvember 2016

kr.  256.884,-

Orlof 10,17% nóv. 2016

kr.    26.126,-

Innborgun á laun nóv. 2016

kr. -183.000,-

Vangoldin laun desember 2016

kr.  256.884,-

Orlof 10,17% des 2016

kr.    26.126,-

Innborgun á laun des 2016

kr. -183.000,-

Vangoldin laun janúar 2017

kr.  256.884,-

Orlof 10,17% jan. 2017

kr.    26.126,-

Innborgun á laun jan. 2017

kr. -183.000,-

Vangoldin laun febrúar 2017

kr. 256.884,-

Orlof 10,17% feb. 2017

kr.   26.126,-

Innborgun á laun feb. 2017

kr. -183.000,-

Vangoldin laun mars 2017

kr.  256.884,-

Orlof 10,17% mar 2017

kr.    26.126,-

Innborgun á laun mar 2017

kr. -198.700,-

Vangoldin laun apríl 2017

kr.  256.884,-

Orlof 10,17% apríl 2017

kr.    26.126,-

Vangoldin laun maí 2017

kr.  268.884,-

Orlof 10,17% maí 2017

kr.    27.301,-

Vangoldin laun júní 2017

kr.  268.884,-

Orlof 10,17% júní 2017

kr.    27.301,-

Vangoldin laun júlí 2017

kr.  268.884,-

Orlof 10,17% júlí 2017

kr.    27.301,-

Orlofsuppbót 2017

kr.    35.133,-

Desemberuppbót 2017

kr.    59.244,-

Orlofsuppbót 2018

kr.    14.933,-

 

 

Samtals

kr. 2.041.217,-

 

 

Samkvæmt grein 1.9 í kjarasamningi VR og SA sem gildi frá 1. maí 2015 eigi laun að greiðast fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem laun séu greidd fyrir. Að auki skal vinnuveitandi greiða áunnið orlof til launþega við lok ráðningarsambands samkvæmt 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987.

Þar sem innheimtutilraunir með bréfi 19. maí 2017 og ítrekunarbréfi 13. júní 2017 hafi reynst árangurslausar sé málshöfðun nauðsynleg. Gerðar séu ýtrustu kröfur samkvæmt lögum og kjarasamningum.

Stefnandi styður kröfu sína við lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitenda og bókanir sem teljast hluti kjarasamninga. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. Þá er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

III

Stefndi byggir dómkröfu sína á því að stefnandi hafi fengið greidd laun fyrir unnar vinnustundir og vísar í því sambandi til útgefinna launaseðla. Í stefnu sé krafist launa fyrir tímabil og vinnustundir sem stefnandi hafi ekki unnið. Þá sé krafist orlofs vegna tímabils og tíma sem stefnandi hafi ekki unnið. Búið sé að greiða stefnanda laun og orlof í samræmi við vinnuframlag hans eins og útgefnir launaseðla beri með sér. Greitt hafi verið mánaðarlega 16.894 krónur í orlof til stefnanda og því veki furðu að stefnandi krefjist greiðslu á fullu orlofi í dómkröfu sinni og sé því mótmælt. Sé þess krafist að dómkrafa stefnanda um vangoldin laun verði lækkuð um 668.372 krónur og um 209.008 krónur vegna vangoldins orlofs, eða samtals um 806.652 krónur.

Í málsgögnum sé að finna raunverulegt vinnuframlag stefnanda samkvæmt vaktabók. Gögnin staðfesti að krafa stefnanda um vangreidd laun og orlof eigi ekki við rök að styðjast. Þvert á móti hafi hann fengið greidd laun samkvæmt skráðu vinnuframlagi samkvæmt nefndri vaktabók og því sé krafist sýknu af kröfu stefnanda um vangreidd laun og orlof fyrir september 2016 til mars 2017.

Þá sé kröfu stefnanda um laun á uppsagnarfresti hafnað. Stefnandi hafi lagt niður störf án heimildar stefnda og hafi hann ekki mætt í vinnu í meira en viku og ekki gefið stefnda neinar skýringar á fjarveru sinni. Ítrekað hafi verið reynt að ná í stefnanda til að krefjast þess að hann innti af hendi vinnu í samræmi við skyldur samkvæmt ráðningarsamningi, en stefnandi hafi hvorki svarað síma né vefpósti og ekki sinnt áskorun um að koma aftur til starfa. Hafi fyrirsvarsmaður stefnda fengið upplýsingar um að stefnandi hafi verið „í miklu rugli um vikulangt tímabil“ og væri það ástæða þess að hann hefði ekki mætt til vinnu. Jafnframt hafi komið í ljós að stefnandi hafi stolið vörum af lager stefnda og selt vörurnar heiman frá sér og þannig beint viðskiptum frá Drekanum. Hafi stefnandi þannig brotið ráðningarsamning sinn með því að ganga fyrirvaralaust úr starfi án lögmætra ástæðna sem hafi leitt til verulegs tekjutaps, aukins starfsmannakostnaðar og skerðingar á viðskiptavild. Þá hafi stefnandi brotið gegn ráðningarsamningi sínum með því að stela vörum frá stefnda og viðskiptum. Hafi söluturninn Drekinn verið lokaður stóran hluta úr degi þar sem stefnandi mætti ekki til vinnu og hafi verulegt tekjutap orðið af þeim sökum. Nemi tekjutap og aukinn launakostnaður hærri kröfu en krafa stefnanda á uppsagnarfresti og því sé kröfu stefnanda hafnað, enda eigi stefndi rétt á að skuldajafna gagnkröfu sinni sem sé hærri en launakrafa stefnanda í apríl.

Þá vísar stefndi jafnframt til þess að hann eigi gagnkröfu á hendur stefnanda vegna tjóns sem ólögmætt brotthlaup hans hafi valdið, sbr. ákvæði 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928. Standi dómaframkvæmd til þess að starfsmanninum beri að greiða meðalhófsbætur til atvinnurekandans sem nemi að lágmarki helmingi af launum launamanns á uppsagnarfresti. Nemi krafan 166.144 krónum á mánuði miðað við 86,5 tíma og 50% starfshlutfall og 1.920 króna tímagjald. Gerir stefndi þá kröfu að stefnandi greiði 274.557 krónur í meðalhófsbætur vegna ólögmæts brotthlaups stefnanda sem krafist er að verði skuldajafnað við launakröfu stefnanda í apríl. Kveðst stefndi hafna kröfu stefnanda um orlofsuppbót og desemberuppbót á sama grundvelli og að framan greini. Þá sé krafist sýknu af dráttarvaxtakröfu stefnanda á grundvelli 7. greinar laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndi hafi haft lögmætar ástæður til að halda eftir greiðslum vegna ólögmæts brotthlaups stefnanda og beri því ekki að reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur sé af þeim sökum.

Stefndi krefst þess til vara að dómkrafa stefnanda verði lækkuð. Fullyrðir stefndi að krafan sé rangt sundurliðuð í stefnu og ætti að vera 1.875.265 krónur en ekki 2.041.217 krónur. Þá sé orlofsuppbót fyrir árið 2018 rangt reiknuð og að auki sé því mótmælt að stefnandi eigi rétt á orlofsuppbót fyrir 2018, enda hafi hann ekki unnið neitt á því ári. Að þessu slepptu rökstyður stefndi varakröfu sína um lækkun með sama hætti og aðalkröfuna.

Hvað varðar lagarök vísar stefndi til þess að gagnkrafa hans sé reist á 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skaðabótakrafa stefnda er byggð á undirstöðureglu 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928 sem gildi almennt í vinnurétti með lögjöfnun samkvæmt dómafordæmi Hæstaréttar. Þá er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 7. gr. Kröfu um málskostnað styður stefndi við 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

            Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi fyrirsvarsmaður stefnda, Sverrir Þór Gunnarsson, og vitnið A, fyrrverandi starfsmaður stefnda.

            Svo sem fram er komið eru atvik málsins umdeild. Ber aðilum ekki saman um starfshlutfall stefnanda hjá stefnda og ástæðu þess að stefnandi lét af stöfum hjá stefnda. Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið ráðinn í fullt starf hjá stefnda. Byggir stefnandi á því að honum hafi verið sagt upp starfi fyrirvaralaust, þess krafist að hann skilaði lyklum að vinnustaðnum og vinnuframlag hans á uppsagnarfresti afþakkað. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að stefnandi hafi verið ráðinn í 50% starf og að hann hafi brotið gegn ráðningarsamningi sínum með því að hlaupast á brott úr starfi. Einnig heldur stefndi því fram að stefnandi hafi stolið vörum frá stefnda og selt þær sjálfur frá heimili sínu til tjóns fyrir stefnda. Þá er deilt um það hvort stefnanda hafi á starfstíma hans hjá stefnda verið greidd laun sem voru undir lágmarkslaunum og einnig hvort stefnanda beri laun á uppsagnarfresti.

            Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda svo sem stefnda bar að gera eftir tveggja mánaða starf, sbr. grein 1.11.1 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins sem gildir fyrir tímabilið frá 1. maí 2015 til ársloka 2018. Meðal málsgagna eru launaseðlar fyrir tímabilið frá 1. september 2016 til og með mars 2017. Af þeim verður ekki ráðið að stefnandi hafi verið ráðinn í 50% starf hjá stefnda og heldur ekki að hann hafi verið ráðinn gegn greiðslu tímakaups í samræmi við vinnuframlag hans eins og stefndi heldur fram. Þá verður ekki annað ráðið af tilgreiningu á launaseðli stefnanda fyrir september 2016 en að hann hafi hafið störf hjá stefnda 1. september það ár, en tilgreint launatímabil er frá 1. september til og með 30. september 2016. Í greinargerð stefnda er því á hinn bóginn haldið fram að stefnandi hafi hafi störf 15. september 2016.

            Að mati dómsins hefur stefndi ekki sýnt fram á það að stefnandi hafi verið ráðinn í 50% starf hjá stefnda á því tímabili sem um ræðir, en það stóð stefnda nær að tryggja sér sönnun fyrir þeirri fullyrðingu. Hvorki aðilaskýrsla af fyrirsvarsmanni stefnda né skýrsla vitnisins A fær því breytt. Verður stefndi að bera hallann af skorti á sönnun fyrir þeirri fullyrðingu, enda var ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda. Því er við það miðað við úrlausn málsins að stefnandi hafi verið ráðinn í fullt starf hjá stefnda eins og stefnandi heldur fram.

            Af hálfu stefnanda er byggt á því að honum hafi verið sagt upp störfum fyrirvaralaust 28. apríl 2017, honum gert að skila lyklum og vinnuframlag hans á uppsagnarfresti hafnað. Stefndi hafnar því að stefnandi eigi rétt til launa á uppsagnarfresti og bendir á að stefnandi hafi hlaupist á brott úr vinnu fyrirvaralaust og brotið með því ráðningarsamning sinn freklega og að auki stolið vörum frá stefnda og selt þær.

            Af framlögðum SMS-samskiptum á milli fyrirsvarsmanns stefnda og stefnanda 28. apríl 2017 má sjá kröfu fyrirsvarsmanns stefnda um að stefnandi skili lyklum að vinnustaðnum til samstarfsmanns stefnanda. Þá segir fyrirsvarsmaður stefnda við stefnanda orðrétt: „Hef ekki áhuga á samskiptum við þig eftir allt sem þú hefur gert seinustu daga.“  Upplýst er í málinu að þegar þessi samskipti áttu sér stað hafði stefnandi ekki mætt í vinnu í viku að því er hann segir vegna veikinda. Stefndi heldur því aftur á móti fram að stefnandi hafi verið í óreglu og hafi það verið ástæðan fyrir fjarveru hans frá vinnu. Óumdeild er að stefndi fór ekki fram á það við stefnanda að hann skilaði læknisvottorði vegna ætlaðra veikinda hans. 

            Fyrrnefnd SMS-samskipti verða ekki skilin öðruvísi en svo að stefnanda hafi verið sagt tafarlaust upp störfum hjá stefnda 28. apríl 2017 og vinnuframlag hans afþakkað á uppsagnarfresti. Með þeirri ákvörðun stefnda að hafna frekara vinnuframlagi stefnanda rifti stefndi einhliða ráðningarsambandi stefnda við stefnanda. Fær það stoð í framburði fyrirsvarsmanns stefnda, Sverris Þórs Gunnarssonar, sem greindi frá því fyrir dómi að hann hefði ekki kært sig um frekara vinnuframlag stefnanda, eftir að hafa frétt af því að stefnandi hefði verið að stela frá fyrirtækinu þrisvar í sömu vikunni. Einnig kom fram í framburði hans að stefnandi hefði fengið munnlega aðvörun þar sem fram kom að hann ætti að bæta sig og taka sig á.

            Um brottrekstur úr starfi gilda almennt þau skilyrði að starfsmaður hafi vanefnt ráðningarsamning verulega, annað tveggja af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, svo sem með því að rækja störf sín með ófullnægjandi hætti, mæta ekki til starfa eða gerast brotlegur í starfi. Verður vinnuveitandi að hafa áminnt starfsmann, sýnt fram á að sakir séu til staðar og sannað þær. Samkvæmt þessu gildir það skilyrði fyrir því að unnt sé að reka starfsmann úr starfi að honum hafi áður verið veitt aðvörun, hann áminntur og honum tilkynnt með sannanlegum hætti að láti hann ekki af háttsemi sinni muni það valda brottrekstri úr starfi.

            Stefnandi kveðst hafa verið veikur í um vikutíma áður en honum var sagt upp störfum, en því hafnar stefndi sem röngu og fullyrðir að stefnandi hafi „dottið í það.“ Reynt hafi verið að hringja í stefnanda og senda honum skrifleg skilaboð, en hann hafi ekki svarað. Skriflegra gagna nýtur ekki við um það að stefndi hafi reynt að hafa upp á stefnanda þegar hann var fjarverandi. Sama á við um efni aðvörunar til stefnanda um að hann ætti að bæta ráð sitt. Hvorki verður ráðið af framburði Sverris Þórs né af framburði A fyrir dómi að stefnanda hafi með skýrum og ótvíræðum hætti verið gerð grein fyrir því að um áminningu væri að ræða vegna brota í starfi og að endurtekið brot myndi leiða til brottvikningar úr starfi án fyrirvara.

            Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að stefndi hafi ekki fært fyrir því haldbær rök að stefnanda hafi verið veitt viðhlítandi aðvörun eða áminning að viðlögðum starfsmissi vegna ætlaðra brota hans á starfsskyldum í apríl 2017. Fram hjá því verður ekki horft að stefndi gat gert stefnanda að skila læknisvottorði vildi hann draga í efa sannleiksgildi upplýsinga frá stefnanda um að hann hefði verið veikur.

            Sem fyrr segir var stefnanda vikið úr starfi 28. apríl 2017 og frekara vinnuframlag hans afþakkað. Óháð því af hvaða tilefni stefnandi lét hjá líða að mæta til vinnu í vikutíma í fyrrnefndum mánuði og miðað við niðurstöðu dómsins um ætlaða áminningu stefnda til stefnanda þykir sú ákvörðun fyrirsvarsmanns stefnda að segja stefnanda upp og hafna vinnuframlagi hans hafa verið heimildarlaus og því óskuldbindandi fyrir stefnanda, enda liggur ekkert fyrir um það í málinu að stefnandi hafi sýnt af sér vítaverða vanrækslu í starfi sem réttlætt geti fyrirvaralausa uppsögn á starfi stefnanda. Fullyrðing stefnda um að stefnandi hafi brotið af sér í starfi með því að stela vörum af lager verslunar stefnda og selja frá heimili sínu er engum gögnum studd og telst því ósönnuð.

            Sama er að segja um þá málsástæðu stefnda að svonefnd vaktabók geymi upplýsingar um viðveru stefnanda á staðnum og vinnutíma sem hann hafi sjálfur skráð. Gegn mótmælum stefnanda verður ekki byggt á því. Ætluð gagnkrafa stefnda á hendur stefnanda vegna aukins launakostnaðar vegna fjarveru stefnanda frá vinnu í apríl 2017 er engum gögnum studd og telst því ósönnuð.

            Samkvæmt því sem að framan er rakið verður niðurstaða dómsins sú að nægilega sé sannað að stefnanda hafi verið sagt upp stöfum hjá stefnda í apríl 2017 fyrirvaralaust og án þess að fylgt hafi verið ákvæðum í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins, sbr. ákvæði 12.1 um uppsagnarfrest, þar sem kveðið er á um þriggja mánaða uppsagnarfrest eftir sex mánaða starf. Er því fallist á kröfur stefnanda um laun á uppsagnarfresti mánuðina maí, júní og júlí 2017. Ætluð gagnkrafa stefnda, byggð á 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928, vegna ætlaðs brotthlaups stefnanda úr starfi hjá stefnda kemur því ekki til álita.

            Auk launa á uppsagnarfresti krefst stefnandi mismunar á þeim launum sem stefnda bar að greiða stefnanda samkvæmt kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi greitt honum lægri laun fyrir vinnu í þágu stefnda en nemur lágmarkslaunum samkvæmt greindum kjarasamningi, 183.000 krónur í stað 256.884 króna sem stefnandi kveðst eiga rétt á vegna aldurs. Stefndi byggir á hinn bóginn á því að stefnandi hafi fengið tímakaup greitt í samræmi við vinnuframlaga hans.

            Að framan er rakin sú niðurstaða dómsins að stefandi hafi verið ráðinn í fullt starf hjá stefnda við afgreiðslustörf. Stefnandi er fæddur í ágúst 1993 og var því 23 ára þegar hann var ráðinn til starfa hjá stefnda í september 2016. Samkvæmt grein 1.4 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins veitir tuttugu og tveggja ára aldur rétt til næsta starfsaldursþreps fyrir ofan byrjunarlaun við mat á starfsaldri til launa fyrir aðra en skrifstofufólk. Samkvæmt því voru lágmarksmánaðarlaun stefnanda 256.884 krónur frá 1. september 2016, en tóku hækkun samkvæmt kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins frá 1. maí 2017 og námu mánaðarlaun frá þeim tíma eftir sex mánaða starf 268.444 krónum í tilviki stefnanda, en ekki 268.884 krónum, eins og kröfugerð stefnanda miðast við. Þrátt fyrir þann mismun fjárhæða miðast heildarkrafa stefnanda um laun við 268.444 krónur í laun á mánuði fyrir þá mánuði sem um ræðir.

            Samkvæmt því sem að framan er rakið verður fallist á að stefnandi eigi rétt til launa á uppsagnarfresti í þrjá mánuði, það er mánuðina maí, júní og júlí 2017. Einnig er fallist á kröfu stefnanda um leiðréttingu á mismun á launum samkvæmt lágmarkstaxta kjarasamnings VR og Samtaka atvinnulífsins miðað við tuttugu og tveggja ára aldur fyrir tímabilið frá 1. september 2016 til loka apríl 2017 á þann hátt sem stefnandi krefst. Loks er fallist á kröfu stefnanda um orlof og orlofs- og desemberuppbót og verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 35.133 krónur í orlofsuppbót 2017, 59.244 krónur í desemberuppbót 2017 og loks 14.933 krónur í orlofsuppbót 2018.

            Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda samtals 2.041.217 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu á þann hátt sem greinir í dómsorði.

            Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 744.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

            Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Bakkafoss ehf., greiði stefnanda, Birni Má Sigfússyni, 2.041.217 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2016 af 177.309 krónum til 1. nóvember 2016 og frá þeim degi af 277.318 krónum til 1. desember 2016 og frá þeim degi af 377.327 krónum til 1. janúar 2017 og frá þeim degi af 477.336 krónum til 1. febrúar 2017 og frá þeim degi af 577.354 krónum til 1. mars 2017 og frá þeim degi af 677.354 krónum til 1. apríl 2017 og frá þeim degi af 761.663 krónum til 1. maí 2017 og frá þeim degi af 1.044.672 krónum til 1. júní 2017 og frá þeim degi af 1.340.417 krónum til 1. júlí 2017 og frá þeim degi af 1.636.162 krónum til 1. ágúst 2017 og frá þeim degi af 2.041.217 krónum til greiðsludags og 744.000 krónur í málskostnað.

 

Jón Höskuldsson