• Lykilorð:
  • Skuldamál

 

Ár 2019, fimmtudaginn 2. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, kveðinn upp í máli nr. E-950/2018:

 

Atlantic Seafood ehf.

(Ingólfur K. Magnússon lögmaður)

gegn

KEF seafood ehf.

(Karl Jónsson lögmaður)

 

svofelldur

 

d ó m u r :

Mál þetta, sem þingfest var 3. október 2018 og dómtekið 26. apríl sl., var höfðað með stefnu, birtri 20. september 2018. 

            Stefnandi er Atlantic Seafood ehf., kt. 000000-0000, Reynigrund 9, 200 Kópavogi. Stefndi er KEF seafood ehf., kt. 000000-0000, Bakkastíg 16, 260 Reykjanesbæ.

            Stefnandi gerir þá dómkröfu að stefndi greiði stefnanda skuld að fjárhæð 4.769.703 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. mars 2018 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

            Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar. Fór aðalmeðferð málsins fram þann 26. apríl sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.

Málsatvik.

Samkvæmt gögnum málsins voru stefnandi og stefndi í viðskiptasambandi á árunum 2017 og 2018 með fiskkaup á markaði. Vann stefndi og keypti fisk á fiskmarkaði fyrir stefnanda og verkaði síðan til útflutnings. Samkvæmt gögnum málsins gerði stefndi stefnanda reikninga fyrir vinnu og þjónustu sína. Í viðskiptum aðila myndaðist ofgreiðsla frá stefnanda til stefnda. Samkvæmt viðskiptayfirliti stefnanda var þann 28. febrúar 2018 ofgreitt til stefnda 4.769.704 krónur. Stefnandi sendi stefnda innheimtubréf og ítrekanir þann 4. apríl, 16. apríl., 8. maí og 18. maí 2018 sem stefndi varð ekki við. Í málinu liggur fyrir reikningur frá stefnda á hendur stefnanda frá 1. maí 2018 að fjárhæð 7.481.247 krónur vegna leiðréttingar afreikninga, íblöndunarefna og launa á uppsagnarfresti. Endalok samstarfs aðila var að sögn stefnda vegna þess að hann hafi fengið of smáan fisk frá stefnanda til að verka sem hafi verið kostnaðarsamara en að verka stóran fisk. Þá hafi stefndi fengi minni lifur úr smærri fiski en hann hafði haft væntingar um. Hafi stefndi því farið fram á hækkun á verði þjónustu sinnar við stefnanda. Hafi þetta verið um miðjan desember 2017. Samvinnu þeirra hafi þó ekki lokið fyrr en í lok febrúar 2018. Samkvæmt stefnanda var krafa stefnda um hækkun á þjónustu hans meiri en svo að endanlegur kaupandi vildi greiða það hátt verð fyrir vöruna. Því hafi hann sagt upp samningi við stefnda.

Skýrslur fyrir dómi.

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Gunnar Valur Sigurðsson, gaf skýrslur fyrir dóminum ásamt fyrirsvarsmanni stefnda, Einari Þ. Magnússyni.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að skuld þessi sé tilkomin vegna viðskipta aðila á árunum 2017 til 2018 vegna fiskkaupa á markaði. Ofgreiðsla hafi myndast frá stefnanda til stefnda en samkomulag hafi verið milli aðila um að stefndi myndi gera upp þessa kröfu og hafi verið gerður reikningur þann 21. mars 2018 fyrir ofgreiðslunni. Ekki hafi orðið af því að stefndi greiddi skuldina en stefndi hafi ekki mótmælt kröfunni. Stefnandi hafi gert ítrekaðar tilraunir til innheimtu skuldarinnar eins og framlögð skjöl beri með sér. Stefndi hafi ekki mótmælt kröfunni fyrr en í maí 2018.

            Stefnandi vísar til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en regla þessi fái m.a. stoð í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Kröfuna um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að í viðskiptum aðila hafi skuld skapast hjá stefnanda við stefnda að fjárhæð 8.000.000 króna. Stefndi kveðst hafa gefið út reikning á stefnanda að fjárhæð 6.673.425 krónur án virðisaukaskatts þann 1. maí 2018. Stefnandi hafi ekki greitt framangreindan reikning þrátt fyrir að reikningurinn sé búinn að vera í innheimtu frá 1. maí 2018. Samkvæmt þessu eigi stefndi gagnkröfu á hendur stefnanda sem sé umtalsvert hærri fjárhæð en sú krafa sem komi fram í stefnu. Gagnkrafa stefnda á hendur stefnanda nemi samtals um 8.000.000 króna og komi sú fjárhæð til skuldajafnaðar á móti fjárkröfu stefnanda samkvæmt heimild í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Séu sýknukröfur af hálfu stefnda m.a. rökstuddar með vísan til þess að stefndi eigi á móti kröfum stefnanda gagnkröfur sem séu hærri en krafa stefnanda og með skuldajöfnuninni teljist reikningur stefnanda vera greiddur. Telur stefndi útgefinn reikning stefnanda vera tilhæfulausan og gefi hann ekki rétta mynd af uppgjöri aðila.

            Stefndi byggir kröfur sínar á meginreglum kröfu- og samningaréttar og vísar til laga um meðferð einkamála, m.a. vegna málskostnaðar. 

Forsendur og niðurstaða.

Mál þetta snýst um reikning sem stefnandi gaf út þann 23. mars 2018 á hendur stefnda að fjárhæð 4.769.703 krónur svo og reikning sem stefndi gaf út þann 1. maí 2018 á hendur stefnanda að fjárhæð 7.481.247 krónur. Er reikningur stefnanda vegna ofgreiðslu á fiski og vegna markaðskaupa 2017/2018. Til stuðnings reikningnum lagði stefnandi fram viðskiptayfirlit þar sem fram koma reikningar og innborganir frá stefnanda til stefnda. Stefndi mótmælti umræddu yfirliti og kvað niðurstöðuna eiga að vera um núll því að stefndi skuldi stefnanda ekkert. Á viðskiptayfirliti sem stefnandi byggir reikning sinn á koma fram númer reikninga sem stafa frá stefnda, dagsetningar og fjárhæðir ásamt dagsetningum innborgana frá stefnanda til stefnda. Stefndi mótmælti skjali þessu og kvað það ekki rétt. Stefndi hefur hins vegar ekki sýnt fram á með neinum hætti hvað í skjalinu er rangt eða hvort vanti einhverja reikninga í það og þá hvaða. Telur dómurinn það hafa staðið stefnda nær að sýna fram á það ef greiðslur vanti inn í viðskiptayfirlitið og beri stefndi hallann af því. Verður krafa stefnanda um greiðslu á reikningi útgefnum 21. mars 2018 því tekin til greina.

            Stefndi krefst sýknu en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Byggir hann á því að stefnandi skuldi stefnda reikning að fjárhæð 7.481.247 krónur og krefst stefndi þess að sá reikningur verði skuldajafnaður á móti kröfu stefnanda. Stefnandi mótmælir kröfu stefnda um skuldajöfnun.

Í 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991segir að varnaraðila sé rétt að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar í máli án þess að gagnstefna ef skilyrði fyrir skuldajöfnuði séu fyrir hendi. Gagnkrafan skal þá höfð uppi í greinargerð en sjálfstæður dómur geti ekki gengið um hana. Hefur stefndi ofangreinda kröfu uppi í greinargerð sinni. Skilyrði skuldajöfnunar eru að kröfurnar séu samkynja eða eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings.

Á reikningi stefnda kemur fram að hann sé leiðrétting afreikninga að fjárhæð 3.307.502 krónur, íblöndunarefni TOR, 331.210 krónur, og laun í uppsagnarfresti að fjárhæð 3.034.713 krónur. Í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins kvað fyrirsvarsmaður stefnda reikninginn hafa verið gerðan eftir að stefnandi krafði stefnda um ofgreiðsluna. Kvað hann leiðréttingu afreikninga koma þannig til að stefndi taldi að hann hefði átt að fá hærra verð fyrir þjónustu sína en greitt hafði verið fyrir. Nái þessir útreikningar aftur til upphafs viðskipta aðila. Fyrirsvarsmaður stefnanda mótmælti reikningnum og kvað enga samninga hafa verið gerða um að stefndi mætti hækka afturvirkt þegar greidda reikninga. Þá kvað fyrirsvarsmaður stefnda stefnanda hafa lokið viðskiptasambandi þeirra fyrirvaralaust og stefndi því setið uppi með átta til níu starfsmenn sem hann hafi þurft að greiða laun á uppsagnartíma. Því væri á reikningnum krafa um laun að fjárhæð 3.3034.713 krónur. Mótmælti stefnandi því að honum bæri að greiða laun í uppsagnarfresti starfsmanna stefnda. Þá er virðisaukaskattur lagður á launagreiðslur á reikningnum.

Ósannað er að stefndi hafi samið um það við stefnanda að stefnanda bæri að greiða hærra verð fyrir þá þjónustu sem stefndi hafði þegar fengið greidda afturvirkt til upphafs viðskipa aðila. Þá er ósannað að stefnandi hafi farið sérstaklega fram á íblöndunarefni og óljóst er hvort það hafi þegar verið greitt með fyrri reikningum stefnda. Þá er launakrafan óútskýrð, ekkert er í gögnum málsins fyrir hvaða tímabil eða hvaða starfsmenn launakrafan er. Þá er sú krafa ekki samkynja kröfu stefnanda um endurgreiðslu né á hún rætur að rekja til sama atviks og endurkrafan snýr að, aðstöðu eða löggernings. Er sá þáttur reiknings stefnda svo vanreifaður að á kröfuna verður ekki lagður efnisdómur gegn mótmælum stefnanda. Hefur stefndi því ekki sýnt fram á að krafa hans uppfylli skilyrði skuldajöfnunar og er þeirri málsástæðu stefnda hafnað.

             Að öllu ofangreindu virtu verða dómkröfur stefnanda teknar til greina eins og segir í dómsorði. Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað eins og segir í dómsorði.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð.

Stefndi, KEF seafood ehf., greiði stefnanda, Atlantic Seafood ehf., 4.769.703 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6.  gr. laga nr. 38/2001 frá 21. mars 2018 til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 577.893 krónur í málskostnað.

             

 

Ástríður Grímsdóttir.