• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 7. maí 2019 í máli nr. S-179/2019:

 

Ákæruvaldið

(Lína Ágústsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Hróa Ingólfssyni og

Antoni Pétri Hallgrímssyni

(Sigurður Freyr Sigurðsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl sl., höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 27. febrúar sl. á hendur ákærðu, Hróa Ingólfssyni, kt. 000000-0000, Kirkjuvegi 39 í Reykjanesbæ, og Antoni Pétri Hallgrímssyni, kt. 000000-0000, Faxabraut 18 í Reykjanesbæ:

„fyrir eftirtalin brot gegn fíkniefnalögum og almennum hegningarlögum;

I.

Gegn ákærðu Hróa og Antoni, fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 4. febrúar 2018, brotist inn í frystigám fyrirtækisins Humarsölunnar ehf., að [...], með því að klippa á hengilás gámsins og tekið þaðan ófrjálsri hendi alls 434 kg. af humri, að verðmæti alls 1.731.660 krónur, en lögreglan fann 63 kg. af framangreindum stolnum humri í frysti í bílskúr að heimili ákærða Hróa.

Telst þessi háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Gegn ákærða Hróa, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, föstudaginn 17. febrúar 2018, haft í vörslum sínum 2,74 grömm af kannabis, efni er lögregla fann í hægri buxnavasa við öryggisleit á ákærða í fangaklefa á lögreglustöðinni að Hringbraut 130 í Reykjanesbæ.

Telst háttsemi þessi varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.

 

III.

Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 21.10.2018, brotist inn í Apótek Suðurnesja að [...], með því að brjóta upp festingu á glugga í kaffistofu verslunarinnar, og tekið þaðan ófrjálsri hendi lyf að verðmæti alls 317.032 krónur, en lögreglan fann eftirtalin lyf við leit á ákærða og á heimili hans:

1.            Tafil – töflur, 0,5 mg, 80. stk.

2.            Alprazolam Mylan – töflur, 0,25 mg, 300 stk.

3.            Alprazolam Mylan – töflur, 0,5 mg, 300 stk.

4.            Alprazolam Mylan – töflur, 0,5 mg, 600 stk.

5.            Alprazolam Mylan – töflur, 0,5 mg, 600 stk.

6.            Lexotan – töflur, 3 mg, 300 stk.

7.            Stesolid – töflur, 5 mg, 250 stk.

8.            Stesolid – töflur, 5 mg, 75 stk.

9.            Mogadon – töflur, 5 mg, 100 stk.

10.          Halcion – töflur, 0,25 mg, 90 stk.

11.          Stilnoct – töflur, 10 mg, 270 stk.

12.          Imovane – töflur, 7,5 mg, 120 stk.

13.          Rivotril – töflur, 2 mg, 100 stk.

14.          Rivotril – töflur, 0,5 mg, 450 stk.

15.          Concerta – forðatafl, 54 mg, 360 stk.

16.          Contalgin – forðatafl, 10 mg, 100 stk.

17.          Contalgin – forðatafl, 30 mg, 200 stk.

18.          Contalgin – töflur, 60 mg, 200 stk.

19.          Ketogan – töflur, 40 stk.

20.          Ketogan – töflur, 100 stk.

21.          Ketogan – töflur, eþ-stílar, 20 stk.

22.          Methylphenidate Sandoz – forðatöflur, 36 mg, 90 stk.

23.          Methylphenidate Sandoz – forðatöflur, 54 mg, 90 stk.

24.          Oxikodon Depot Actavis – forðatöflur, 10 mg, 28 stk.

25.          Oxycodone ratiopharm – forðatöflur, 5 mg, 28 stk.

26.          Oxycontin – töflur, 5 mg, 28 stk.

27.          Oxycontin – töflur, 20 mg, 28 stk.

28.          OxyNorm Dispersa – munndropar, 5 mg, 84 stk.

29.          OxyNorm Dispersa – munndropar, 10 mg, 56 stk.

30.          OxyNorm Dispersa – munndropar, 20 mg, 56 stk.

31.          Ritalin Uno – hylki, 10 mg, 180 stk.

32.          Ritalin Uno – hylki, 40 mg, 330 stk.

33.          Ritalin Uno – hylki, 60 mg, 120 stk.

34.          Tramol_L – forðatöflur, 200 mg, 200 stk.

35.          Flunitrazepam Mylan – töflur, 1 mg, 30 stk.

 

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV.

Gegn ákærða Hróa, fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 18. október 2018, tekið ófrjálsri hendi úr verslun ÁTVR að [...], 1. stk. flösku af Absolut Raspberry vodka, að andvirði 5.699 krónur.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er krafist að ofangreind 2,74 grömm af kannabis sem lögreglan lagði hald á verði gerð upptæk, sbr. ákærulið I., skv. heimild í 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.“

Við þingfestingu málsins leiðrétti sækjandi upplýsingar magn af humri í I. kafla ákæru, en þar á að vísa til 168 kg en ekki 434 kg, með samsvarandi áhrifum á umfjöllun í ákæruliðnum um verðmæti humarsins.

Í ákæru var jafnframt tekin upp einkaréttarkrafa ÁTVR. Við þingfestingu málsins 12. apríl sl. var ekki mætt af hálfu ÁTVR þrátt fyrir að lögmaður ÁTVR hafi verið upplýstur um málið, sbr. 1. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Telst krafan því felld niður samkvæmt 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008.

Kröfur ákærðu í málinu eru þær að þeim verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærðu hæfilegrar þóknunar sér til handa vegna verjandastarfans.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærðu hafa játað sakargiftir og var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærðu eru sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og eru brot þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði Hrói er fæddur í júlí árið [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða á hann að baki nokkurn sakaferil frá árinu 2011 vegna umferðarlagabrota og fíkniefnalagabrota. Þá hlaut hann dóm 29. maí 2018 fyrir meðal annars brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing ákærða Hróa verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem brot í I. og II. kafla ákæru voru framin áður en ákærði hlaut áðurnefndan dóm 29. maí 2018, en þar af leiðandi verður ákærða dæmdur hegningarauki vegna þeirra, sbr. 78. gr. sömu laga. Brot ákærða samkvæmt I. kafla ákæru var framið með ákærða Antoni, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar þykir rétt að líta til skýlausrar játningar ákærða Hróa auk þess sem fyrir liggur vottorð aðstoðarvarðstjóra um góða hegðun ákærða, en hann sætir nú fangelsisvist. Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða Hróa hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði, sem ekki þykir unnt að binda skilorði.

Ákærði Anton er fæddur í maí árið [...]. Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans nú. Við ákvörðun refsingar horfir 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til þyngingar refsingu, en aftur á móti þykir einnig rétt að líta til skýlausrar játningar ákærða. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þá verða fíkniefni ákærða Hróa gerð upptæk eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Loks verður ákærðu gert að greiða málsvarnarþóknun verjanda síns sem ákveðin er með virðisaukaskatti í dómsorði.

Arnaldur Hjartarson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Hrói Ingólfsson, sæti fangelsi í fimm mánuði.

Ákærði, Anton Pétur Hallgrímsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Hrói sæti upptöku á 2,74 g af kannabis.

Ákærðu greiði sameiginlega þóknun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Freys Sigurðssonar lögmanns, 316.200 krónur, en auk þess greiði ákærði Hrói 25.080 krónur vegna útlagðs kostnaðar.

 

                                                                        Arnaldur Hjartarson