• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Upptaka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 21. september 2018 í máli nr. S-354/2018:

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Kristjáni Inga Kristjánssyni

(Ómar Örn Bjarnþórsson lögmaður)

I

Mál þetta, sem dómtekið var 20. september 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með svohljóðandi ákæru 9. júlí 2018 á hendur Kristjáni Inga Kristjánssyni, kt. 000000-0000, Lyngbrekku 1, Kópavogi,

„fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa sunnudaginn 7. júní 2015, í leiguhúsnæði að Vogagerði 18, Vogum haft í vörslum sínum 36 stk kannabisplöntur í hjónaherbergi hússins og hafa um skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur. Auk þess að hafa í vörslum sínum í bílnum sínum 3,96 g af kannabisefnum n.t.t í hanskahólfinu.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2., sbr. 4., sbr. 4.gr a, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 10/1997 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er jafnframt krafist að gerðar verði upptækar framangreindar 36 stk af kannabisplöntum og 3,96 g af kannabisefnum samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerð nr. 233/2001. Þá er einnig krafist upptöku á eftirfarandi búnaði, tveir loftblásarar, loftsíu, sex gróðurhúsalampar, sex spennar, tveir tímarofar og þrjár viftur, sbr. 7. mgr. 5. gr. sömu laga.“

 

Ákærði kom fyrir dóminn, játaði skýlaust brot sitt og samþykkti upptökukröfu ákæruvaldsins. Var því farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og verjandi höfðu tjáð sig stuttlega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ákærði krafðist þess að honum yrði ekki gerð refsing og að þóknun verjanda hans yrði greidd úr ríkissjóði.

II

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur hann alls fjórum sinnum á árunum 2013 til 2014 gengist undir lögreglustjórasátt vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni og ber að líta til þess við ákvörðun viðurlaga. Á hinn bóginn horfir það ákærða til málsbóta að hann játaði skýlaust sök og var samvinnufús við rannsókn málsins. Jafnframt ber að taka tillit til þess að verulegar tafir urðu á rannsókn málsins og útgáfu ákæru, en rannsókn málsins hófst 7. júní 2015. Ber ákærði enga ábyrgð á þessum óútskýrða og óhóflega drætti. Í ljósi ofanritaðs þykir refsing hans því hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga, sem bundin skal skilorði eins og nánar greinir í dómsorði. Með vísan til lagaákvæða í ákæru verða jafnframt gerðar upptækar þær kannabisplöntur og kannabisefni sem lögregla gerði upptækt við húsleit hjá ákærða, sem og þau tæki og búnaður sem þar eru upp talin. Þá verður ákærði samkvæmt  1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 dæmdur til greiðslu þóknunar skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar lögmanns, sem ákveðst 150.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Kristján Ingi Kristjánsson, sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Upptækar skulu gerðar 36 kannabisplöntur, 3,96 g af kannabisefnum, tveir loftblásarar, loftsía, sex gróðurhúsalampar, sex spennar, tveir tímarofar og þrjár viftur.

Ákærði greiði 150.000 krónur í þóknun til skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar lögmanns.

 

Ingimundur Einarsson