• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Líkamstjón
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 26. október 2018 í máli nr. S-452/2018:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Garðari Steinþórssyni

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 23. október 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum á hendur Garðari Steinþórssyni, kt. 000000-0000, [...], Reykjanesbæ, með svohljóðandi ákæru 1. október 2018; 

fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfararnótt sunnudagsins 30. október 2016, slegið A, kt. 000000-0000, í höfuð, þar sem þeir voru staddir fyrir utan skemmtistaðinn H30, Hafnargötu 30, Reykjanesbæ, með þeim afleiðingum að A hlaut 1 cm skurð aftarlega vinstra megin á höfuðleðri.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög  nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

A, kt. 000000-0000, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 500.000,- ásamt vöxtum skv. 8. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2016 til þess dags er liðinn verður mánuður frá því að krafan er kynnt ákærða en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. IV. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. laganna allt til greiðsludags.“

II

Ákærði kom fyrir dóminn, játaði skýlaust sök og lýsti því yfir að hann samþykkti bótakröfu brotaþola, en kvaðst þó lítið sem ekkert muna eftir atvikum sökum ölvunar. Krafðist hann vægustu refsingar sem lög framast leyfa. Fær játning ákærða stoð í gögnum málsins og er ekki ástæða til að draga í efa að hún sé sannleikanum samkvæm. Samkvæmt því er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og er þar rétt heimfærð til refsiákvæðis. Með vísan til 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður dómur lagður á málið án frekari sönnunarfærslu.

Ákærði er fæddur í [...]. Sakaferill hans samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar hans nú. Við ákvörðun refsingar verður til þess horft að atlaga ákærða beindist að höfði brotaþola, þótt brotaþoli hlyti ekki mikið sár af. Til málsbóta horfir hins vegar að ákærði játaði skýlaust brot sitt, þótt hann segðist lítið sem ekkert muna eftir atvikum umrætt sinn sökum ölvunar. Þá féllst hann á bótakröfu brotaþola, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Í skýrslutöku hjá lögreglu 18. janúar 2017 er jafnframt haft eftir honum að hann vilji ljúka máli þessu sem fyrst og lýsti sig reiðubúinn til sáttamiðlunar ef þess væri kostur. Í ljósi þessa þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga, sem bundin skal skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.

Eins og áður segir hefur ákærði samþykkt áðurnefnda bótakröfu brotaþola og verður hann því dæmdur til greiðslu hennar, auk vaxta, eins og nánar greinir í dómsorði. Í ákæru er ekki krafist þóknunar til lögmanns kröfuhafa. Hins vegar er sú krafa höfð uppi í greinargerð með bótakröfunni og verður að telja það nægilegt, sbr. 3. mgr. 176. gr. og 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008. Ákveðst sú þóknun hæfileg 120.000 krónur. Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði einnig dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar lögreglu, 28.000 króna, en annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Garðar Steinþórsson, sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 500.000 krónur, auk vaxta samkvæmt samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2016 til 19. október 2018, en frá þeim degi dráttarvexti samkvæmt IV. kafla sömu laga, sbr. 9. gr. laganna, til greiðsludags, auk málskostnaðar að fjárhæð 120.000 krónur.

Ákærði greiði 28.000 krónur í sakarkostnað. 

 

Ingimundur Einarsson