• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Riftunarmál þrotabúa

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 16. janúar 2019, í máli nr. E-819/2018:

Þb. Hópferðir Ellerts ehf.

(Sverrir Sigurjónsson hdl.)

gegn

Sigurjóni Þór Óskarssyni

(Börkur Ingi Jónsson hdl.)

 

Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu þann 25. júní 2018. Stefnandi er Þrotabú Hópferða Ellerts ehf., kt. 000000-0000, Smáratorgi 3, 201 Kópavogi. Stefndi er Sigurjón Þór Óskarsson, kt., 000000-0000, Bogabraut 961, 262 Reykjanesbæ.

 

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.310.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 200.000 krónum frá 17. maí 2017 til greiðsludags, af 585.000 krónum frá 22. júní 2017 til greiðsludags og af 525.000 krónum frá 30. júní 2017 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. laga nr. 38/2001, og málskostnaðar úr hendi stefnda, þ.m.t. virðisaukaskatts, að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram ef til aðalmeðferðar kemur.

Þann 28. september 2018 var kveðinn upp í málinu úrskurður um þá kröfu stefnda að stefnanda yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu, og var stefnanda samkvæmt þeim úrskurði gert að leggja fram 500.000 krónur. Að þeirri kröfu frágenginni krefst stefndi þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað ásamt virðisaukaskatti að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða framlögðum málskostnaðarreikningi.

Að undangengnum munnlegum málflutningi þann 9. janúar sl., þar sem stefndi er sóknaraðili en stefnandi varnaraðili, var tekin til úrskurðar krafa sóknaraðila um að málinu verði vísað frá dómi. Sóknaraðili gerir kröfu um málskostnað í þessu þætti málsins að mati dómsins. Varnaraðili gerir þær kröfur í þessum þætti málsins að frávísunarkröfu sóknaraðila verði hafnað og málið tekið til efnismeðferðar. Ekki kom fram málskostnaðarkrafa af hálfu varnaraðila.

I

Málsatvik

Bú varnaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta þann 12. október 2017 með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness. Fram kemur í stefnu að sóknaraðili hafi verið einn af eigendum og fyrirsvarsmönnum hins gjaldþrota félags. Virðist ljóst af stefnu og þeim gögnum sem henni fylgdu að málið snýst um þrjár millifærslur út af reikningi, sem áttu sér í maí og júní 2017 til stefnda, samtals að fjárhæð 1.310.000 krónur. Virðist ágreiningur að einhverju leyti fjalla um það hvort stefndi hafi lagt af mörkum vinnuframlag á móti þeim greiðslum.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að málatilbúnaður varnaraðila sé verulega vanreifaður, og uppfylli ekki skilyrði d., e., f. og h. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé framlagningu gagna ábótavant og ekki í samræmi við 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991.

Sóknaraðili bendir á að samkvæmt dómkröfum sé málið sett í búning einfalds innheimtumáls, enda sé þess krafist að sóknaraðili greiði varnaraðila skuld. Ekki liggi fyrir gögn um meinta skuld annað en yfirlit ótilgreinds bankareiknings sem sýni millifærslur. Í umfjöllun um málavexti og málsástæður sé hins vegar krafist riftana á ráðstöfunum þrotamanns skv. 131. og 133. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Þeirra riftunarkrafna sé í engu getið í dómkröfum í stefnu. Óljóst sé um lagagrundvöll málsins, og sóknaraðila gert ógerlegt að verjast, enda alls óljóst hvort um sé að ræða endurgreiðslukröfu eða skaðabótakröfu, þ.e. hvort krafan sé gerð á grundvelli fjármunaréttar eða skaðabótaréttar. Geti tilvísuð ákvæði gjaldþrotaskiptalaga um riftun ekki verið grundvöllur fjárkröfu sem um geti í dómkröfum. Þá sé ekkert vikið að því á hvern hátt varnaraðili telji önnur skilyrði nefndra ákvæða gjaldþrotalaga uppfyllt, svo sem um gjöf, nákominn, gjaldfærni eða frestdag, og engin gögn liggi fyrir um tengsl sóknaraðila við hið gjaldþrota félag.

Sóknaraðili vísar til þess að því fari fjarri að varnaraðili greini svo glöggt sem verða megi frá dómkröfum, málsástæðum og atvikum sem þurfti til að greina í samhengi málsástæðna. Ekki sé mögulegt að taka dómkröfur upp í dómsorð án þess að fyrst komi til riftun samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum sem ekki sé gerð krafa um. Um málskostnað vísar sóknaraðili til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um kröfu um greiðslu virðisaukaskatts til laga nr. 50/1988.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um frávísun verði hafnað, og málið verði tekið til efnismeðferðar.

Varnaraðili telur ekkert vera í málinu sem torveldi það að sóknaraðili geti gripið til varna, og sé málatilbúnaður hans skýra, sbr. áskilnað 80. gr. einkamálalaga nr. 91/1991, þannig að ekki fari milli mála í gögnum málsins á hverju sé byggt. Sé ljóst af greinargerð sóknaraðila að málatilbúnaðurinn hafi ekkert vafist fyrir honum. Um sé að ræða hefðbundna stefnu sem skuli vera stuttorð og skýr. Einnig verði að horfa til þess að gagnaöflun hafi ekki verið lýst lokið, og hafi varnaraðili möguleika á því að skýra málatilbúnað sinn með frekari gagnaframlagningu undir rekstri málsins, og hafi slíkur áskilnaður verið gerður í greinargerð.

Varnaraðili telur að kröfur um riftun þurfi ekki að koma fram í kröfugerð málsins, nægjanlegt sé að þær komi fram í umfjöllun um málsástæður.

IV

Niðurstaða

Þótt gögn málsins séu af skornum skammti þá má telja uppfyllt ákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991, sbr. g. lið 1.mgr. 80. gr. laga sömu laga, um að helstu gögn liggi fyrir, auk þess sem fyrir liggur skrá um skjöl sem varnaraðili leggur fram og hann byggir málatilbúnað sinn á.

Varnaraðili gerir áskilnað í stefnu um rétt til að leiða aðila og vitni fyrir dóm. Veldur það ekki frávísun þótt ekki liggi fyrir við upphaf málsins hverja varnaraðili hyggst leiða fyrir dóminn, sbr. h. lið 1.mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Í dómkröfum stefnu er krafist greiðslu á skuld að fjárhæð 1.310.000 krónur. Í lýsingu atvika og málsástæðna kemur fram að krafist sé riftunar á þremur greiðslum samtals að fjárhæð 1.310.000 krónur. Er samhengi málsástæðna að því leytinu skýrt um atvik máls að fjárhæð dómkrafna liggur fyrir, og meint skuld virðist tengjast meintum riftanlegum gerningum með millifærslum af bankareikningi til sóknaraðila.         Önnur atvik máls, svo sem tilgreining á þeim bankareikningi eru hins vegar óljós.

Varnaraðili vísar máli sínu til stuðnings til tveggja ákvæða laga nr. 21/1991, um  gjaldþrotaskipti, 131. gr. og  133. gr. Ekki er ljóst á hvoru lagaákvæðinu er aðallega byggt, þ.e. hvort krafist sé riftunar á gjöf eða endurgjaldi fyrir vinnu. Ekki er getið um á hvaða málsgreinum ákvæðanna er byggt eða umfjöllun um hvernig skilyrði ákvæðanna fyrir riftun eru uppfyllt. Nefnd ákvæði gjaldþrotaskiptalaga, 131. og 133. gr. fjalla eingöngu um riftun, og með engum hætti verður á þeim byggt um fjárkröfu málsins. Í stefnu er ekki með neinum hætti reynt að gera grein fyrir því á hvaða málsástæðum, lagagrunni eða réttarreglum meint skuld eða fjárkrafa mögulega byggist á, svo sem hvort krafan byggir á 142. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt framansögðu skortir mjög á skýrleika um málsástæður sem varnaraðili byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna og dómkrafna sé ljós. Þá telst málatilbúnaður varnaraðila svo vanreifaður um lagaskilyrði fjárkröfu að efnisdómur verði ekki á hann lagður. Verður þegar af nefndum ástæðum fallist á aðalkröfu sóknaraðila, og málinu vísað frá dómi með vísan til d., e. og f. liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með vísan til niðurstöðu málsins, og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem hæfilegur þykir 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

     Máli þessu er vísað frá dómi.

            Varnaraðili, Þrb. Hópferða Ellerts ehf., greiði sóknaraðila, Sigurjóni Þór Óskarssyni, 250.000 krónur í málskostnað.

 

Bogi Hjálmtýsson