• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 21. mars 2018 í máli nr. S-31/2018:

 

Ákæruvaldið

(Einar E. Laxness aðstoðarsaksóknari)

gegn

Illuga Pétri Ágústssyni

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 9. mars 2018, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru, útgefinni 16. janúar 2018, á hendur Illuga Pétri Ágústssyni, kt. 000000-0000, [...] Garðabæ:

,,1. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 19. september 2016 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og  óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 30 ng/ml og tetrahýdrókannabínól í blóði 0,5 ng/ml ) vestur Skeifuna í átt að Grensásvegi, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn. 

Telst brot þetta varða við sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

2.  Fyrir fikniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 1. október 2017 við veitingahúsið Gaukinn í  Tryggvagötu haft í vörslum sínum 0,71 g af kókaíni, sem ákærði framvísaði lögreglu.  

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006 og einnig er krafist að 0,71 g af kókaíni verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“

 

Við þingfestingu málsins 9. mars 2018 kom ákærði fyrir dóm og játaði sök. Í ljósi játningar ákærða var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framkomnum gögnum. Brot ákærða teljast því sönnuð og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur árið 1991 og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2014. Ákærði gekkst undir sektargerð lögreglustjóra 30. október 2014 þess efnis að hann greiddi 140.000 krónur í sekt og sætti sviptingu ökuréttar í 12 mánuði vegna brots gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Ákærði gekkst undir sektargerð lögreglustjóra 20. janúar 2016 þess efnis að ákærði samþykkti að greiða 114.000 krónur í sekt vegna brots gegn 2. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Hinn 1. júní 2016 gekkst ákærði undir sektargerð lögreglustjóra þess efnis að hann greiddi 200.000 krónur í sekt og sætti sviptingu ökuréttar í 24 mánuði fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga.

Að framangreindum sakaferli og brotum ákærða virtum þykir refsing hans samkvæmt dómvenju réttilega ákveðin 30 daga fangelsi.

Með vísan til framangreinds ber, í samræmi við kröfugerð ákæruvalds og með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvaldsins, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæru verða gerð upptæk þau 0,71 g af kókaíni sem ákærði var með í vörslum sínum 1. október 2017.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti sækjanda, samtals 134.355 krónur.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Illugi Pétur Ágústsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði sæti upptöku á 0,71 g af kókaíni.

Ákærði greiði 134.355 krónur í sakarkostnað.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir