• Lykilorð:
  • Fjármál hjóna
  • Verksamningur

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 3. janúar 2019 í máli nr. E-164/2018:

Fagraf ehf.

(Jóna Margrét Harðardóttir lögmaður)

gegn

Söru Lind Þrúðardóttur

(Anna Björg Guðjónsdóttir lögmaður)

 

Mál þetta var þingfest 5. september 2018 og tekið til dóms 13. desember 2018. Stefnandi er Fagraf ehf, kt. […], Funahöfða 3, Reykjavík, en stefnda er Sara Lind Þrúðardóttir, kt. […], […], […].

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 816.365 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. nóvember 2017 til greiðsludags, allt að frádregnum eftirfarandi innborgunum: 120.000 krónur 29. júní 2017, 30.000 krónur 22. janúar 2018, 30.000 krónur 2. febrúar 2018 og 25.000 krónur 6. mars 2018 sem dragist frá skuldinni miðað við stöðu hennar á hverjum innborgunardegi. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins og að tekið verið tillit til áfallins innheimtukostaðar.

            Stefnda krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

Stefnandi segir kröfu sína byggjast á einum reikningi að fjárhæð 816.365 krónur, útgefnum 20. nóvember 2017 með gjalddaga sama dag. Skuldin sé til komin vegna kaupa stefndu á þjónustu stefnanda samkvæmt framlögðum reikningi en stefnandi sé rafverktaki. Verk það, sem stefnandi hafi unnið fyrir stefndu, hafi verið vegna flutninga á ljósum úr húsi sem stefnda hafi verið að selja ásamt því að setja umrædd ljós aftur upp í annarri fasteign, auk annarrar vinnu svo sem að tengja sjónvarp, breyta tenglum o.fl. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga en regla þessi fái m.a. stoð í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Kröfu sína um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. og V. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafa um að tekið verði tillit til áfallins innheimtukostnaðar styðst við 7. og 12. gr. laga nr. 95/2008. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991.

II

Stefnda lýsir málavöxtum svo að því sé ranglega haldið fram í stefnu að stefnda hafi keypt þjónustu af stefnanda samkvæmt framlögðum reikningi í tengslum við flutning og uppsetningu ljósa og að umræddur reikningur hafi ekki fengist greiddur. Þessi málatilbúnaður stefnanda standist ekki skoðun, enda hafi stefnda aldrei keypt umrædda þjónustu af stefnanda eða átt nokkra milligöngu um þá þjónustu sem stefnandi veitti og vísað sé til í framlögðum reikningi. Sá reikningur sem stefnandi vísi til máli sínu til stuðnings sé dagsettur 20. nóvember 2017 og beri með sér að vera gefinn út á hendur stefndu. Reikningur vegna sömu þjónustu hafi fyrst verið gefinn út þann 11. mars 2016 og þá á hendur A, […], […], eiginmanni stefndu. Efnisliðir þess reiknings séu þeir sömu og nú komi fram á framlögðum reikningi og fjárhæð reiknings sú sama. Stefnandi hafi unnið umrætt verk fyrir A snemma árs 2016 og gefið út reikning vegna þeirrar þjónustu. Reikningurinn hafi ekki fengist greiddur að fullu og hafi stefnandi sent innheimtuviðvörun til A þann 29. mars 2016. Rúmlega 20 mánuðum síðar, þegar ljóst hafi verið að illa gengi að fá fulla greiðslu reiknings frá réttum greiðanda, hafi stefnandi tekið þá ákvörðun að gefa út sama reikning en nú með nýjum greiðanda og krefja stefndu um greiðslu.

Þótt A sé eiginmaður stefndu heimili það ekki stefnanda að sækja kröfu þessa á hendur stefndu, enda hafi hjón fullt forræði yfir sínum eignum og skuldum, sbr. 4. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. og 67. og 68. grein sömu laga, sem kveði á um að maki sé ekki ábyrgur fyrir samningsgerð samningsaðila nema sérstaklega sé heimilað í lögum eða samningi hjóna. Ekkert í málatilbúnaði stefnanda leiði að því líkum að þjónusta stefnanda hafi verið unnin fyrir stefndu eða samþykkt af henni, né heldur að stefnda hafi samþykkt að taka yfir skuldbindingar eiginmanns síns. Þá sé ekkert í málinu sem leiði til þeirrar niðurstöðu að ábyrgð stefndu geti byggst á 69. grein hjúskaparlaga. Sérstaklega sé vakin á því athygli að stefnandi byggi kröfur sínar ekki á ákvæðum hjúskaparlaga nr. 31/1993, heldur einungis á ákvæðum laga um lausafjárkaup. Verða málsástæður sem stefnandi kann að halda fram um ábyrgð stefndu á grundvelli hjúskaparlaga ekki grundvöllur dóms í málinu, sbr. 111. grein laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Eins og gögn málsins beri með sér hafi umrædd þjónusta verið unnin að beiðni eiginmanns stefndu. Þegar innheimtuaðgerðir stefnanda á hendur A skiluðu ekki árangri hafi stefnandi útbúið kreditreikning á hendur A og gefið út nýjan reikning vegna sömu þjónustu á hendur stefndu í þessu máli. Stefnandi hafi ekki nokkra heimild til slíkra flutninga á kröfu um greiðslu vegna þjónustukaupa. Háttsemi stefnanda hvað þetta varðar standist varla þær kröfur sem lög um bókhald nr. 145/1994 leggi á bókhaldsskylda aðila líkt og stefnanda. Stefnandi hafi ekki fært fyrir því sönnur að stefndu beri að greiða þá kröfu sem hér sé deilt um. Með vísan til framangreinds verði að telja að mál þetta sé höfðað gegn röngum aðila. Beri af þeim sökum að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og dæma stefndu málskostnað að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda meðal annars til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sem og hjúskaparlaga nr. 31/1993.

III

Fyrir liggur í málinu að verk stefanda var fólgið í því að taka niður ljós í húsi sem stefnda og eiginmaður hennar, A, voru að flytja úr og setja þau upp í fasteign sem þau voru að kaupa, auk annarrar vinnu svo sem að tengja sjónvarp o.fl. Í kjölfarið gerði stefnandi A reikning vegna verksins sem er dagsettur 11. mars 2016. Ekki er deilt um að A pantaði verkið, greiddi inn á það og var í samningaviðræðum við stefnanda um greiðslur af skuldinni. Pétur Elvar Birgisson, framkvæmdastjóri stefnanda, sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði nokkrum sinnum unnið áður fyrir A og þá hafi verkbeiðni komið frá honum og hann greitt fyrir verkið. Þegar ljóst var orðið að innheimta skuldarinnar næði ekki fram að ganga á hendur A kvaðst Pétur Elvar hafa haft samband við stefndu og tilkynnt henni að reikningurinn yrði sennilega færður yfir á hana þar sem hún væri ein eigandi hinnar nýju fasteignar. Var svo gert og reikningurinn endurútgefinn 20. nóvember 2017 að sömu fjárhæð og áður en nú stílaður á stefndu.

Stefnda byggir kröfu sína um sýknu á því að hún hafi ekki gert samning við stefnanda um verkið. Eina aðkoma hennar að verkinu hafi verið að benda starfsmönnum stefnanda á hvar skyldi setja ljósin upp.

Samkvæmt framansögðu verður talið að eiginmaður stefndu, A, hafi gert bindandi samning við stefnanda um framangreint verk. Krefst stefnandi nú efnda úr hendi stefndu á skuldbindingum sem eiginmaður hennar hafði gengist undir með samningi við stefnanda. Samkvæmt 67. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 ber hvort hjóna um sig ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á því hvíla. Getur annað hjóna ekki skuldbundið hitt nema það sé sérstaklega heimilað í lögum eða samningi hjóna, sbr. 68. gr. laganna. Ekki verður fallist á með stefnanda að stefnda hafi með einverjum hætti skuldbundið sig með samningi til að ábyrgjast greiðslu á umræddum skuldbindingum eiginmanns síns. Ábyrgð hennar verður ekki heldur leidd af því að hún er ein þinglesinn eigandi fasteignarinnar að […], […].

Samkvæmt framansögðu verður stefnda sýknuð af kröfum stefnanda í málinu með vísan til 2. mgr. 16. gr. lag nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi samkvæmt 1. mgr. 130. gr. einkamálalaga dæmdur til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Stefnda, Sara Lind Þrúðardóttir, er sýkn af kröfum stefnanda, Fagrafs ehf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefndu 400.000 krónur í málskostnað.

 

                                                Gunnar Aðalsteinsson