• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Miskabætur

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 17. maí 2019 í máli nr. S-128/2019:

 

Ákæruvaldið

(Kjartan Jón Bjarnason saksóknarfulltrúi)

gegn

Hilmari Þórðarsyni

(Þormóður Skorri Steingrímsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 30. apríl sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 28. febrúar sl. á hendur ákærða, Hilmari Þórðarsyni, kt. 000000-0000, [...]:

„fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt 11. september 2016, í anddyri skemmtistaðarins Nasa við Thorvaldsensstræti 2, Austurvelli, Reykjavík, ráðist á B með því að skella járnstólpa, sem er notaður til þess að afmarka svæði fyrir röð utan við skemmtistaðinn, í hann en neðri hluti járnstólpans lenti á brjóstkassa hans og efri hluti járnstólpans í andliti hans, með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð miðlægt við vinstri augabrún auk rifbrots.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í ákæru er einnig tekin upp einkaréttarkrafa B, kt. 000000-0000, sem krefst þess að ákærði verið dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. september 2016 og þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt kærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs réttargæslumanns.

Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá mótmælir hann því ekki að hafa valdið brotaþola tjóni en telur umkrafða bótafjárhæð úr hófi og fer fram á lækkun hennar.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hefur játað sakargiftir. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga auk þess sem réttargæslumanni hafði verið gefinn kostur á að reifa sjónarmið um bótakröfu brotaþola.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum ekki áður verið gerð refsing. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1. og 3. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga sem báðir horfa til þyngingar á refsingu ákærða. Aftur á móti ber að virða honum til málsbóta skýlausa játningu hans á sakargiftum í málinu. Þá verður að líta til þess langa tíma sem leið frá því að rannsókn lögreglu hófst og þar til ákæra var gefin út, en um það er ekki við ákærða að sakast. Refsing ákærða þykir að brotum hans virtum hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði mótmælir því ekki að hafa valdið brotaþola tjóni en telur fjárhæð bótakröfu hans of háa. Með broti því sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 400.000 krónur auk vaxta sem í dómsorði greinir. Ákærða var birt bótakrafan við þingfestingu málsins 11. apríl sl. og miðast upphaf dráttarvaxta því við það tímamark þegar 30 dagar voru liðnir frá þeim degi.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, þ.m.t. þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin er með virðisaukaskatti í dómsorði.

Arnaldur Hjartarson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Hilmar Þórðarson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Ákærði greiði B 400.000 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. september 2016 til 11. maí 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Tinnu Bjarkar Gunnarsdóttur lögmanns, 231.880 krónur. Þá greiði ákærði 43.900 krónur í annan sakarkostnað.

 

Arnaldur Hjartarson