• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 20. desember 2018 í máli nr. S-39/2018:

 

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jóhanni Árna Snorrasyni

(Magnús Davíð Norðdahl lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 25. október, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 17. janúar 2018, á hendur Jóhanni Árna Snorrasyni, kt. 000000-0000, [...], fyrir „líkamsárás, með því að hafa, aðfararnótt sunnudagsins 1. ágúst 2016, fyrir utan skemmtistaðinn C, slegið B, kt. 000000-0000, að minnsta kosti tvisvar í andlitið, en seinna höggið sló hann B er B var haldið af dyraverði og gat því ekki komið neinum vörnum við. Urðu afleiðingar háttsemi ákærða þær að B hlaut sár á húð (skurð á enni), nefblæðingu og nefbrot.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfi. Hann krefst þess að málsvarnarlaun verjanda síns verði greidd úr ríkissjóði.

 

Málavextir

Samkvæmt lögregluskýrslu kom brotaþoli á lögreglustöð hinn 15. ágúst 2016 og kærði líkamsárás er hann hefði orðið fyrir. Er haft eftir brotaþola í skýrslunni að atvikið hafi orðið „á reyksvæði framan við skemmtistaðinn C og það eina sem hann muni er að hafa verið að rífast við einhvern dyravörð og sagt einhverja „mömmubrandara“. Þá reiðist þessi maður, Jóhann Árni [Snorrason, ákærði í máli þessu], og kýlir sig í andlitið með þeim afleiðingum að hann hafi fengið skurð á enni ofan við vinstri augabrún. [Brotaþoli] kvaðst hafa tekið hann hálstaki og [dyraverðir] þá tekið sig tökum og haldið sér. Þá hafi [ákærði] kýlt sig aftur í andlitið þannig að hann hafi nefbrotnað.“ Er haft eftir brotaþola í skýrslunni að hann muni lítið eftir þessu en hafi frásögn sína „að mestu eftir dyravörðum á staðnum.“ Hann hafi farið burtu af staðnum og hitt vinkonu sína, H, sem hafi ekið sér á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

 

Þeir I, D og G, sem allir störfuðu sem dyraverðir á skemmtistaðnum umrætt kvöld, gáfu skýrslu hjá lögreglu 17. október 2016. Rétt þykir að rekja hér meginatriði þess sem þeir báru þá um málavexti.

Í samantekt lögreglu um skýrslu  I segir meðal annars: „I sagðist hafa verið í vinnu sem dyravörður á C þetta kvöld. Hann hafi verið fyrir utan C ásamt D og Pétri, þeir voru einnig í vinnu sem dyraverðir. I sagði þá hafa séð B og Jóhann á reykingasvæðinu, þeir hafi verið að rífast. I heyrði ekki hvað þeim fór á milli. I sagði að B hafi tekið Jóhann kverkataki og Jóhann gert slíkt hið sama við  B.  I sagði að B hafi gert sig líklegan til að kýla Jóhann sem hafi verið fyrri til og slegið B nokkrum höggum í andlitið með krepptum hnefa hægri handar. B féll við þetta á hliðina en hann var ofurölvi og stóð varla í lappirnar. I sagði að þeir hafi skilið B og Jóhann í sundur D hafi tekið Jóhann og hann og G hafi tekið B. I sá ekki áverka á B eftir höggin. I sagðist hafa sleppt takinu á B en G hafi enn verið með tak á honum og var að setja hann niður af tröppunum þegar Jóhann kom aftur og kýldi B einu höggi með krepptum hnefa hægri handar. I taldi að Jóhann hefði nefbrotið B með högginu. I sagði að B hefði verið bjargarlaus er Jóhann kýldi hann þar sem G hélt honum ennþá. I sagði að það hafi blætt mikið úr nefi B eftir höggið og nefið hafi verið skakkt. Eftir þetta gekk Svenni [...].“

 

Í samantekt lögreglu um skýrslu D segir meðal annars: „A sagði að B og Jóhann hafi verið inni í portinu á reykingasvæðinu og voru að þræta. D vissi ekki um hvað. D taldi að þetta hafi verið um hálf fjögur um nóttina. D sagði að B hafi tekið Jóhann kverkataki og Jóhann gert það sama við  B.  B hafi þá gert sig líklegan til að slá Jóhann með því að sveifla hendinni í áttina að honum. D sagði að B hafi ekki náð höggi á Jóhann. D sagði að Jóhann hafi þá slegið B 2-3 þungum höggum með krepptum hnefa hægri handar. D sagði að höggin hafi virst nokkuð þung og lentu þau á höfði eða andliti  B. D var ekki viss hvar höggin lentu nákvæmlega. D man ekki eftir að hafa séð áverka á B eftir höggin. D sagði að hann og I hafi tekið Jóhann tökum og G hafi tekið um  B.  D sagðist svo hafa sleppt takinu á Jóhanni þar sem hann virtist vera orðinn rólegur. En G hafi enn haldið utan um  B.  Jóhann rauk þá á B og kýldi hann einu höggi í andlitið. B gat enga vörn veitt þar sem G hélt enn utan um hendur hans og skrokk. B féll niður við höggið. Aðspurður sagði D að hann hafi ekki séð nákvæmlega hvar höggið lenti. D sá ekki áverka á B eftir þetta þar sem B sneri sér aldrei að þeim eftir höggið heldur gekk beint í burtu frá honum niður [...]. D frétti síðar að B hafi nefbrotnað við höggið. D sagði að B hafi verið í mjög slæmu drykkjuástandi því hafi verið erfitt að átta sig á því hvort hann vankast við höggin. D sagði að engir áverkar hafi verið á Jóhanni þar sem B náði aldrei að kýla hann. D sagði að B hafi verið dauðadrukkinn. D sagði að hann hafi tvisvar verið búinn að hafa afskipti af B þetta kvöld þar sem hann var með leiðindi við aðra á skemmtistaðnum. Hann hafi verið að snapa sér slagsmál.“

 

Í samantekt lögreglu um skýrslu G segir meðal annars: „G sagði að þessi aðili hafi verið [með] einhver leiðindi inni á C þetta kvöld. Þegar líða tók á kvöldið, á milli 03:00 til 03:30, þá veittist þessi aðili að Jóa með krepptan hnefa og rífandi kjaft. Jói brást við þessu með því að ýta í aðilann og sagði honum að fara frá. G sagði að dyraverðirnir hafi hent þessum aðila út þar sem hann var með leiðindi og hann hafi verið of drukkinn. Rétt fyrir lokun staðarins fór G út að reykja. [...] Með G úti voru dyraverðirnir D og [I]. Jóhann Árni var einnig þarna. G sagði að þessi aðili hafi byrjað að böggast eitthvað aftur [í] Jóa. Þegar Jói sagði honum að drulla sér í burtu tók aðilinn um hálsinn á honum og G heyrði þegar aðilinn hótaði að drepa Jóa. Svo [byrjaði] aðilinn að slá í áttina að Jóa. Jói varði sig og sló B tveimur höggum með hægri hendi. Þegar G og D sáu það hlupu þeir til. G tók aðilann og D tók Jóa. G sagði að D hafi sleppt Jóa strax þar sem D taldi hann vera orðinn rólegan. G sá ekki hvar höggin lentu en sagðist hafa séð blóð á B eftir höggin. G sleppti B ekki strax þar sem hann var ekki orðinn rólegur. G hélt utan um B og fór með hann að tröppunum þar ætlaði G að sleppa  B. G fann fyrir því að aðilinn sveiflaði löppunum og ætlaði greinilega að sparka í Jóa. G sagði að B [hefði] sparkað í löppina á Jóa sem brást við með að slá B einu höggi sem hafi lent í hægri kinn  B. G sá ekki í andlit B eftir höggið þar sem B sneri baki í G. G sleppti B sem labbaði í burtu niður [..]. G sagði að Jói hafi farið ásamt E kærustu sinni heim. E var vitni að því sem gerðist. G sagði að Svenni hafi verið orðinn vel fullur. Hann hafi ráfað um.“

 

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 19. október 2016. Í samantekt lögreglu um skýrsluna er meðal annars haft eftir ákærða að brotaþoli hafi tekið hann hálstaki en ákærði hafi þá slegið hann einu höggi í andlit til að losa sig. Dyraverðir hafi tekið þá í sundur. Þegar dyraverðir hafi haldið brotaþola hafi hann spriklað um og sparkað í ákærða sem hafi slegið til hans með handarbakinu. Viti ákærði ekki hvort höggið hafi lent á brotaþola eða dyraverðinum sem hélt honum. Segir í samantekinni að ákærða hafi verið kynnt að brotaþoli hefði mögulega nefbrotnað við högg. Er haft eftir honum að hann viti ekki hvernig brotaþoli hafi nefbrotnað en að sér kæmi ekki á óvart ef einhverjir hefðu lamið brotaþola eftir að hann hefði farið af skemmtistaðnum, miðað við hegðun hans um kvöldið.

 

Í málinu liggur vottorð, dags. 19. ágúst 2016, undirritað af F stud. med. Segir þar að brotaþoli hafi komið á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja kl. 4:50 að morgni 1. ágúst. Hann hafi verið „hálf rænulaus sökum ölvunar og ómögulegt að fá upp úr honum hvað gerðist. Honum fannst hann ekki þurfa að vera á sjúkrahúsi og vildi helst bara drífa sig heim. Að sögn vinkvenna hans hafi þær fundið hann á [...] að reyna að komast inn í eitthvað hús þar sem hann á ekki heima, þær hafi einnig séð hann klukkutíma áður og þá ekki verið svona ölvaður. Hann var allur blóðugur í andliti og á höndum, auk þess sem föt hans voru mjög blóðug. Við fyrstu sýn var hann með bólgið og skakkt nef og skurð á enninu. Hann ætlaði ekki að leyfa mér að skoða sig og var mjög órólegur og á hreyfingu. Eftir að ég ræði við hann leyfir hann mér að þrífa andlitið og skola blóðið burt. Hann var með B.a. 1.5cm skurð fyrir ofan vinstri augabrún. Hefði viljað sauma skurðinn en sökum ókyrrðar [brotaþola] límdi ég sárið saman og setti umbúðir. Hann var ekki á því að leyfa mér að skoða nefið neitt nánar, ég fékk þó aðeins að hreinsa blóð úr nösum og skoða upp í það. Ekki var að sjá neitt sem lokaði öndunarveginum nema blóð sem var enn að [seytla]. Kok var hreint og ekki að sjá að blóð hefði verið að leka þangað. Hann var greinilega með klínísk einkenni nefbrots, nefið var stokkbólgið og vísaði til hægri. Að skoðun lokinni fór hann heim að sofa úr sér.“ Þá kemur fram í vottorðinu að brotaþoli hafi leitað á bráðamóttöku að nýju 3. ágúst og hitt lækni sem hafi fengið fyrir hann tíma á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala „til að láta rétta úr nefinu“.

 

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði sagðist hafa farið á skemmtistaðinn ásamt E konu sinni og þar hafa séð brotaþola í einhverjum útistöðum við annan mann og hefðu þeir verið skildir að. Þegar ákærði hefði verið að ganga tröppurnar hefði hann mætt brotaþola sem hefði þá byrjað „með eitthvað vesen þarna við“ ákærða og hefði gripið „um handriðið sitthvoru megin við [ákærða], heldur sér bara þar, er ekkert að færa sig.“ Ákærði hefði beðið brotaþola um að færa sig og hefði brotaþoli sleppt annarri hönd af handriðinu og staðið þegjandi með krepptan hnefann. Þetta hefði staðið „heillengi“ en ekki hefði orðið meira úr þessu þar sem dyraverðir hefðu staðið þarna líka. Svo hefði brotaþoli gengið út. Ákærði hefði farið og fengið sér bjór en um tíu mínútum síðar hefði hann farið út að reykja og þar hefði brotaþoli verið úti í horni að kasta af sér vatni. Dyravörður hefði verið að „skamma“ brotaþola fyrir þá háttsemi og ákærði hefði komið að og spurt brotaþola hvort ekki væri tímabært að halda heim. Brotaþoli hefði þá tekið ákærða hálstaki og sagt að hann ætlaði að drepa hann. Brotaþoli hefði slegið ákærða sem hefði ýtt í hann og slegið „aðeins til baka til að losna úr hálstaki“. Dyraverðir hefðu svo komið og skilið þá að, en þá hefði brotaþoli verið „alveg brjálaður maður, spriklandi og sparkaði í mig þannig að ég slæ að honum bara með handarbakinu í áttina að honum, en ég hitti hann ekki“. Ákærði bætti við að hann hefði „aldrei [slegið] hann í nefið eða neitt, ég kýldi hann á kjálkann og þegar [mér er þrýst] upp við girðingu þá er ég ekki að fara ná sveiflu til að gera einhvern skaða sko, þannig að þetta voru voða saklaus högg eða saklaust högg.“ Þegar brotaþoli hefði gengið burt „þá datt hann niður tröppurnar og svo datt hann þarna á leiðinni aftur niður götuna.“

Ákærði sagðist aldrei hafa séð brotaþola fyrir þetta kvöld.

Ákærði sagðist muna atvikið mjög vel og ekki hafa verið drukkinn. Hann hefði verið búinn að drekka tvo bjóra, en brotaþoli hefði verið mjög æstur, drukkinn og sjálfsagt „dópaður líka, ég veit það ekki“.

Nánar spurður sagðist ákærði hafa ýtt á bringu brotaþola.

Ákærði sagði að dyraverðirnir G og D hefðu tekið brotaþola en I hefði tekið sig og fylgt sér „frá“. Mögulega hefði D eitthvað ýtt sér frá. Eftir þetta hefði ákærði fengið spark í sig og hann þá sveiflað „hendinni að honum bara svona aftur á bak“. Þegar þetta hefði verið hefðu dyraverðirnir tveir verið að draga brotaþola í burtu en hann að streitast á móti.“

Ákærði sagðist enga áverka og ekkert blóð hafa séð á brotaþola eftir atvikið. Þeir áverkar á brotaþola, sem taldir væru upp í ákæru, væru ekki af sínum völdum.

Framburður dyravarðarins I hjá lögreglu var borinn undir ákærða. Hann sagði frásögn I ranga. Framburður dyravarðarins D hjá lögreglu um átökin var borinn undir ákærða, sem sagði hann rangan.

Ákærði sagðist kannast við dyraverðina eins og gerðist í litlum bæ. Dyraverðirnir og brotaþolarnir væru einnig tengdir á einhvern hátt.

 

Vitnið B, brotaþoli, sagðist hafa, fyrir utan skemmtistaðinn, sagt brandara sem hefði fallið í grýttan jarðveg hjá einhverjum viðstöddum, ákærða eða einhverjum vinum hans. Eftir það hefðu þeir ákærði lent í „einhverjum stympingum“ og hefði ákærði þar kýlt sig einu sinni og svo aftur þegar dyraverðir hefðu haldið sér. Hefði brotaþoli þá nefbrotnað. Meira myndi hann ekki af atvikum málsins. Nánar spurður sagði brotaþoli að sig rámaði í síðara höggið og hefði sér þá verið haldið. Einnig hefðu dyraverðir sagt sér að þannig hefði það verið.

Brotaþoli var spurður hvort hann myndi sjálfur eftir því sem hann hefði borið um eða hvort hann byggði á frásögn annarra. „Mér finnst ég muna þetta eftir eigin sjón“, svaraði brotaþoli.

Brotaþoli kvaðst hafa verið „í glasi“, nánar spurður „temmilega“ og „ágætlega“.

Brotaþoli sagðist aldrei hafa séð ákærða fyrir þetta kvöld.

Brotaþoli sagðist hafa nefbrotnað illa og hlotið lítinn skurð fyrir ofan vinstra auga.

Brotaþoli sagðist ekki muna til þess að hafa dottið eftir stympingarnar, en þó hefði hann örugglega dottið því hann hefði fengið sár á vinstri síðu eða læri. Nefbrotið og skurðurinn hefðu þó mjög ólíklega komið af því. Hann sagðist ekki hafa lent í neinum öðrum átökum þetta kvöld.

Brotaþoli sagðist ekki muna eftir að hafa tekið ákærða kverkataki. Þó mætti vel vera að svo hefði verið „í einhverjum átökum með okkur“.

Brotaþoli sagðist ekki muna eftir að hafa sparkað í ákærða.

Brotaþoli sagði ólíklegt að hann hefði verið að sækjast eftir átökum á skemmtistaðnum. Hann slægist aldrei við menn.

 

Vitnið D sagðist muna mjög lítið eftir atvikum málsins. Vitnið hefði verið að vinna sem dyravörður og „einhver ágreiningur“ hefði orðið „þarna úti“. Vitnið hefði gefið skýrslu hjá lögreglu og sagðist gera ráð fyrir að þá hefði það munað betur eftir atvikunum.

Vitnið kvaðst þekkja bæði ákærða og brotaþola en hvorugan náið. Þeir brotaþoli væru aldir upp í sama byggðarlagi en þeir ákærði tengdir sama vinahópi. Vitnið hefði rætt málið við þá báða, fljótlega eftir að það hefði komið upp.

Vitnið sagðist muna að það hefði verið búið „að eiga við Svenna fyrr um kvöldið“, en brotaþoli hefði verið ofurölvi. Brotaþoli hefði verið búinn að áreita fólk og nánast sækast eftir slagsmálum. Hefði vitnið ætlað að vísa brotaþola af staðnum en vinir brotaþola hefðu tekið ábyrgð á honum. Þá sagðist vitnið muna eftir brotaþola „eitthvað að kássast í Jóa fyrr um kvöldið“ og svo aftur úti, þar á meðal „eitthvað að ýta í hann“. Vitnið sagðist hafa unnið lengi á staðnum en aldrei hafa séð brotaþola árásargjarnan áður. Vitnið sagðist muna til þess að þegar dyraverðir hefðu verið „að setja Svenna niður fyrir tröppurnar að þá reyndi hann að sparka í Jóa“, en vitnið sagðist ekki vita hvort hann hefði hitt. Ákærði hefði þá slegið eitthvað til brotaþola, en vitnið sagðist ekki vita meira um það. Þá hefði ákærði slegið eitthvað til brotaþola í upphafi átakanna. Ákærði hefði þannig slegið tvívegis til brotaþola.

Vitnið sagðist hafa tekið ákærða frá og hafa verið einn við það. Vitnið sagðist ekki muna eftir neinu sérstöku um ástand hans.

Vitnið sagðist ekki muna eftir áverkum á brotaþola.

Vitnið sagði að brotaþoli hefði dottið, þegar hann hefði verið kominn „bara aðeins neðar í götunni“, eftir atvikið. Vitnið sagðist ekki muna hvernig hann hefði lent.

Vitninu var sýnd skýrsla sín hjá lögreglu og kannaðist það við hana. Þarna hefði vitnið verið „með ferskt minnið“.

Vitninu var sýnd mynd af brotaþola, sem tekin var á sjúkrahúsi um nóttina. Vitnið sagðist ekki muna til þess að brotaþoli hefði verið þannig á sig kominn þegar hann hefði farið frá skemmtistaðnum. Ólíklegt væri að vitnið hefði ekki „gert eitthvað í því ef hann hefði litið svona út“. Verið gæti hins vegar að annar dyravörður hefði séð slíka áverka en vitnið ekki, ef sá dyravörður hefði haft annað sjónarhorn.

 

E, kona ákærða, kom fyrir dóm en skoraðist undan skýrslugjöf.

 

Vitnið G sagði brotaþola hafa verið búinn að vera með læti inni á staðnum allt kvöldið og reyna að æsa menn til slagsmála. Vitnið hefði fundið hann úti á reykingasvæði þar sem brotaþoli hefði verið að kasta af sér vatni úti í horni. Vitnið hefði reynt að stöðva hann en brotaþoli þá byrjað að vera með læti við vitnið og hótað að lemja það. Því næst hefði brotaþoli byrjað að hóta ákærða og tekið hann hálstaki og slegið í átt að honum. Dyraverðir hefðu hlaupið til þeirra. Vitnið hefði gripið brotaþola og haldið en á meðan hefði brotaþoli sparkað til ákærða. Við það hefði ákærði slegið „eitthvað aftur fyrir sig“ en hitt vitnið í öxlina.

Vitnið sagðist ekki hafa séð ákærða gera annað en „reyna að slá hann frá sér, þarna þegar [brotaþoli] heldur honum [í] hálstaki“. Sérstaklega spurt sagðist vitnið ekki muna eftir að hafa séð ákærða kýla brotaþola.

Vitnið sagðist hafa séð andlit brotaþola eftir að öllum aðgerðum ákærða var lokið. Ekkert hefði verið athugavert við það. Ákærði hefði hvorki valdið nefbroti né skurði í andliti brotaþola.

Vitnið sagði að þegar átökunum hefði verið lokið og brotaþoli verið á leið burt hefði hann dottið ofan tröppurnar og lent á andlitinu. Þegar hann hefði „loksins [náð] að standa upp aftur og er byrjaður að labba aftur niður [...] þá dettur hann aftur, einhvers staðar þarna við hliðina á [...].“ Vitnið var spurt um ástand trappnanna. Vitnið sagði þær „sópaðar hverja einustu helgi, það er ekkert brot í þeim þannig að eina leiðin til að detta niður þessar tröppur það er þegar þú ert ofurölvaður.“

Vitnið sagðist hafa verið orðið þreytt á látunum í brotaþola og hefði það verið skýring þess að það hefði ekki hugað að honum, eftir að hann datt.

Vitnið var spurt hvort það þekkti ákærða, það sagðist vita hver hann er og þekkja hann „smá“. Vitnið kvaðst ekki þekkja brotaþola. Vitnið sagðist hvorki hafa rætt þetta mál við ákærða né brotaþola.

Vitnið kvaðst muna eftir að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu. Þar hefði það sagt satt og rétt frá. Vitnið hefði munað betur eftir atvikum þá, enda þá verið mun styttra frá þeim. Borin var undir vitnið það sem eftir því er haft í samantekt lögreglu um skýrslutökuna, um að ákærði hefði slegið brotaþola tvö högg með hægri hendi og að vitnið hefði séð blóð á brotaþola eftir höggin. Vitnið sagðist hvorki muna eftir þessu né hvort það hefði sagt þetta hjá lögreglu. Þetta gæti hins vegar verið rétt. Þá var borin undir vitnið sú frásögn úr samantektinni að ákærði hefði slegið brotaþola eitt högg í hægri kinn, eftir að brotaþoli hefði sparkað til ákærða. Vitnið sagðist ekki muna eftir að höggið hefði farið í kinn brotaþola, höggið hefði farið í öxl vitnisins. Vitnið var spurt hvor frásögnin væri rétt, sú sem það hefði gefið í lögregluskýrslu og svo það sem það myndi fyrir dómi, og svaraði: „Ef að þetta er það sem ég sagði þá, þá hlýtur það að vera rétt, en ég man eftir að ég fékk högg í öxlina“. Mögulega hefði verið um sama högg að ræða.

Vitnið var spurt hvers vegna það hefði ekki sagt í lögregluskýrslu að brotaþoli hefði dottið, svaraði að það hefði verið „líklegast af því að ég var ekki spurður og þá mundi ég ekki eftir því.“ Vitnið sagðist hafa fengið höfuðáverka  á yngri árum og eftir það væri minni sitt ekki sérstaklega gott.

 

Vitnið I sagðist muna eftir að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu og hafa þá munað eftir málinu mun betur en nú. Vitnið hefði sagt satt og rétt frá hjá lögreglu.

Vitnið sagði að umrætt kvöld hefði verið venjulegt í sínum huga. Alltaf yrðu slagsmál. Atvikið hefði orðið úti á reykingasvæðinu. Spurt um högg sagðist vitnið aðeins hafa séð slíkt frá ákærða. Ákærði hefði kýlt brotaþola eitt högg með krepptum hnefa í andlitið. Brotaþoli hefði þá verið uppistandandi. Eftir hefði brotaþoli verið með blóðnasir. Eftir þetta hefðu ákærði og brotaþoli farið hvor í sína átt.

Vitnið sagði brotaþola hafa verið mjög drukkinn umrætt kvöld og hefðu dyraverðir verið búnir að biðja hann að fara út. Eftir atvikið hefðu þeir beðið bæði ákærða og brotaþola um að fara af staðnum.

Vitnið sagðist ekki muna eftir að hafa séð brotaþola detta.

Vitninu var sýnd mynd af brotaþola, tekin á sjúkrahúsi umrædda nótt. Vitnið sagði að brotaþoli hefði ekki litið út eins og myndin sýndi, þegar hann hefði yfirgefið skemmtistaðinn um nóttina. Nefndi vitnið sérstaklega áverka við augu og skurð, sem brotaþoli hefði ekki verið með. Þá hefði nef brotaþola verið eðlilegt, fyrir utan blóðnasirnar, þegar brotaþoli hefði farið af staðnum.

Vitnið sagðist kannast við brotaþola en þeir ákærði ættu sameiginlega vini en væru ekki félagar sjálfir. Það kannaðist þannig við þá báða en ekkert meira en það.

Vitnið sagði að brotaþoli hefði hringt í sig fáum dögum eftir atvikið og spurt sig um það, en brotaþoli hefði þá ekki munað neitt. Vitnið hefði sagt brotaþola frá því sem það hefði séð.

Vitninu var kynntur framburður þess hjá lögreglu. Vitnið sagði að hann rifjaði ekkert sérstakt upp fyrir sér en það, sem vitnið hefði sagt lögreglu, hlyti „að standast“. 

 

Vitnið H sagðist hafa verið á ferð á [...] og hafa þá séð brotaþola þar. Væri um fimm mínútna gangur frá skemmtistaðnum og á þann stað þar sem það hefði séð brotaþola. Vitnið hefði farið til hans og þá séð að hann var „allur í blóði“.  Brotaþoli hefði ekki viljað fara á sjúkrahús en hefði beðið vitnið um að aka sér heim. Vitnið hefði aftekið það og hefði farið með brotaþola á sjúkrahús.

Vitnið sagðist ekki muna hvort brotaþoli hefði gefið skýringu á ástandi sínu, en nánar spurt sagðist vitnið minna að hann hefði sagt að hann hefði verið laminn en ekki vita hvar eða hver það hefði gert. Brotaþoli hefði verið drukkinn eða vankaður.

Vitnið sagðist ekki hafa séð brotaþola detta.

Vitnið sagðist þekkja brotaþola lauslega.

Vitnið sagði að með sér hefði verið önnur kona, [...], og hefði hún eitthvað þurrkað brotaþola í andliti með grisju. Vitnið sagðist ekki muna hvenær það hefði verið. Vitnið sagðist ekki muna hvort brotaþoli hefði verið ataður hreinu blóði eða verið með óhreina áverka.

 

Vitnið F kvaðst hafa verið á vakt á bráðamóttöku í Keflavík þegar brotaþoli hefði komið þangað. Hann hafi verið greinilega nefbrotinn og með skurð á enni, mjög drukkinn og ófús til samvinnu.

Vitnið sagði ekki þurfa mikið afl til að valda nefbroti sem því sem brotaþoli hefði hlotið. Slíkt gæti komið af höggi en einnig af því að detta. Ekki væri hins vegar algengt að nef vísaði í aðra hvora áttina, til hægri eða vinstri, eftir að menn dyttu. Slíkt gerðist varla nema menn lentu skakkt á andlitinu. Slíkur áverki væri mun algengari við hnefahögg eða annað högg beint á andlit. Áverki eins og sá sem brotaþoli hefði verið með gæti þó komið við að detta. Slíkt væri „alls ekki algengt“ en þó hefði vitnið séð slíkt. Ef áverkinn hefði komið við að brotaþoli dytti hefði vitnið þó gert ráð fyrir fleiri áverkum á vinstri hluta andlitsins, svo sem „á kinn og kinnbeini og niður á höku jafnvel og alla vinstri kinnina“.

Vitnið sagði að í áverkum brotaþola hefðu ekki verið óhreinindi, aðeins blóð. Oftast sæist sandur, möl eða drulla frá götunni í sári ef menn dyttu úti á götu. Svo hefði ekki verið þarna, eftir því sem vitnið myndi.

 

Niðurstaða

Atvik máls þessa urðu 1. ágúst 2016 en ákæra var gefin út í janúar á þessu ári. Þegar aðalmeðferð fór fram voru liðin rúm tvö ár frá atvikum og verður að skoða framburð vitna í því ljósi. Þeir þrír sem störfuðu sem dyraverðir á skemmtistaðnum umrædda nótt gáfu hins vegar skýrslu hjá lögreglu í október 2016, rúmum tveimur mánuðum eftir atvikið. Allir sögðu þeir fyrir dómi að þeir hefðu munað betur eftir málinu hjá lögreglu en fyrir dómi. Er engin ástæða til að draga það í efa. Hjá lögreglu lýstu þeir allir að átök hefðu orðið með ákærða og brotaþola. Allir lýstu að brotaþoli hefði tekið ákærða hálstaki sem hefði þá slegið brotaþola í andlitið. Ákærði og brotaþoli hefðu síðan verið skildir í sundur. Allir lýstu því hjá lögreglu að eftir að þeir hefðu verið komnir í sundur, en dyravörður enn haldið um brotaþola, hefði ákærði slegið brotaþola í andlitið.

Fyrir dómi sagði vitnið I að eina höggið sem hann hefði séð hefði ákærði greitt brotaþola með krepptum hnefa í andlitið. Fyrir dómi sagði vitnið D að ákærði hefði tvívegis slegið til brotaþola, fyrst í upphafi átakanna og svo undir lokin þegar brotaþoli hefði reynt að sparka til ákærða. Vitnið G sagði hins vegar fyrir dómi að ákærði hefði ekki slegið brotaþola. Hann hefði reynt það en höggið komið í öxl vitnisins.

Ákærði og brotaþoli gáfu báðir skýrslu fyrir dómi. Ákærði sagðist hafa slegið til brotaþola en eingöngu til þess að losna úr hálstaki. Eftir að dyraverðir hefðu skilið þá að hefði brotaþoli sparkað í ákærða sem hefði þá slegið að honum, með handarbakinu, en ekki hitt. Brotaþoli sagði ákærða hafa kýlt sig einu sinni og svo aftur þegar dyraverðir hefðu haldið sér. Meira myndi brotaþoli ekki af atburðunum. Telja verður ljóst af framburðum dyravarðanna allra og ekki síður af vottorði og framburði F, sem annaðist brotaþola á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þá um nóttina, að brotaþoli hafi verið verulega ölvaður. Í vottorði F segir meðal annars að hann hafi verið „hálf rænulaus sökum ölvunar og ómögulegt að fá upp úr honum hvað gerðist.“ Samkvæmt framburði vitnisins I fyrir dómi hafði brotaþoli samband við hann fáum dögum eftir atvikið til að spyrjast fyrir um hvað komið hefði fyrir, en brotaþoli hefði ekkert munað eftir því. Framburður brotaþola fyrir dómi verður að skoðast í þessu ljósi.

Dyraverðirnir I, D og G gáfu skýrslu hjá lögreglu eins og rakið hefur verið og sögðu allir fyrir dómi að þá hefðu þeir munað atvikin betur. Skýrslur þeirra eru í veigamiklum atriðum samhljóða eins og rakið hefur verið. Þegar á allt er horft verður að telja leitt í ljós með þeim að brotaþoli hafi tekið ákærða hálstaki, ákærði hafi þá slegið til brotaþola, þeir hafi verið skildir að og í framhaldi af því, þegar dyravörður hafi enn haldið brotaþola, hafi ákærði slegið hann í andlitið. Samkvæmt því sem leitt er í ljós varð ákærði þannig fyrir því að æstur og mjög ölvaður maður tók hann hálstaki. Ætla verður mönnum eitthvert svigrúm til að bregðast við því í samræmi við aðstæður hverju sinni. Að mati dómsins verður að líta svo á, miðað við það sem upplýst er í málinu, að ákærði hafi þar ekki gengið lengra en nauðsynlegt var til þess að verjast eða afstýra þeirri ólögmætu árás sem hann þannig varð fyrir. Með hliðsjón af 12. gr. almennra hegningarlaga þykja ekki efni til að sakfella hann í málinu fyrir að hafa slegið til brotaþola þegar brotaþoli tók hann hálstaki. Öðru máli gegnir um þá stöðu sem uppi var þegar þeir höfðu verið skildir að. Geta neyðarvarnarsjónarmið ekki réttlætt það högg sem leitt hefur verið í ljós að ákærði veitti brotaþola þá í andlit.

Fyrir liggur að brotaþoli kom á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja um nóttina og var þannig þá komið fyrir honum sem rakið er í vottorði F. Ljóst er af skýrslu F fyrir dómi að henni fannst töluvert líklegra að nefáverki brotaþola kæmi til af höggi en af því brotaþoli hefði dottið. Þá hefði sár brotaþola verið hreinna en búast mætti við hjá þeim sem detta á götu. Hjá lögreglu sagði vitnið I að eftir högg frá ákærða hefði nef brotaþola verið skakkt og úr því blætt mikið. D sagði hjá lögreglu að hann hefði ekki séð áverka á brotaþola þar sem brotaþoli hefði ekki snúið sér að vitninu eftir höggið. G sagði hjá lögreglu að hann hefði séð blóð á varnaraðila eftir höggin. G sagði fyrir dómi að hann hefði séð andlit brotaþola eftir átökin og þá hefði ekkert verið athugavert við það, ákærði hefði hvorki valdið nefbroti né skurði. Fyrir dómi sögðu ákærði og G að brotaþoli hefði á leið af vettvangi dottið ofan tröppur sem þarna væru. D sagði fyrir dómi að brotaþoli hefði dottið á leið sinni af skemmtistaðnum. Ákærði gaf við rannsókn málsins skýrslu hjá lögreglu og var þá kynnt að brotaþoli hefði mögulega nefbrotnað við högg. Er haft eftir honum í samantekt að hann viti ekki hvernig hann hafi nefbrotnað en að honum kæmi ekki á óvart ef einhverjir hefðu lamið brotaþola eftir að hann hefði farið af skemmtistaðnum, miðað við hegðun hans um kvöldið.

Fyrir dómi sagði brotaþoli að hann hefði greinilega dottið um nóttina því hann hefði fengið áverka á síðu eða læri.

Fyrir dómi var vitnunum D og I sýnd mynd af brotaþola, tekin á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja um nóttina. Báðir tölu brotaþola þá kominn með meiri áverka en þegar hann yfirgaf skemmtistaðinn.

Eftir átökin gekk brotaþoli af skemmtistaðnum og segir næst af honum þegar vitnið H hitti hann á [...]. Skömmu síðar var hann kominn á bráðamóttöku þar sem vitnið F lýsti honum sem hálf rænulausum af ölvun. Verður ekki fullyrt í málinu að hann hafi ekki dottið, og af því hlotið áverka, frá þeim tíma er hann yfirgaf skemmtistaðinn og þar til vitnið H hitti hann ekki löngu síðar. Þegar á allt framanritað er horft þykir ekki sannað svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa að brotaþoli hafi hlotið nefbrot eða aðra þá áverka sem taldir eru upp í ákæru af völdum ákærða umrædda nótt. Það högg sem leitt er í ljós í málinu að ákærði veitti brotaþola eftir að þeir höfðu verið skildir að, eftir hálstak brotaþola, verður í málinu ekki heimfært undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga heldur 1. mgr. 217. gr. laganna, en brotið rúmast innan verknaðarlýsingar ákæru og vörn ákærða hefur ekki verið áfátt að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki sakaferil. Við ákvörðun refsingar verður horft til þess, til aðdraganda árásarinnar og þess tíma sem liðinn er frá atvikum málsins. Verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í einn mánuð en fresta skal fullnustu hennar og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð. Með hliðsjón af ákæru og málsúrslitum verður ákveðið að ákærði og ríkissjóður greiði að jöfnu sakarkostnað málsins, 28.000 krónur samkvæmt upplýsingum lögreglustjóra og 737.800 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Magnúsar Davíðs Norðdahl lögmanns. Virðisaukaskattur er innifalinn. Gætt var 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Af hálfu lögreglustjóra fór Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari með málið. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Ákærði, Jóhann Árni Snorrason, sæti fangelsi í einn mánuð. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Sakarkostnað málsins, 765.800 krónur, þar með talin 737.800 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Magnúsar Davíðs Norðdahl lögmanns, greiði ákærði að hálfu og ríkissjóður að hálfu.

 

Þorsteinn Davíðsson