• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Svipting ökuréttar
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 27. júní 2018 í máli nr. S-168/2016:

Ákæruvaldið

(Sigurður Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Ingvi Hrafn Hálfdánssyni

(Snorri Sturluson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. maí síðastliðinn, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru, útgefinni 26. apríl 2016, á hendur ákærða, Ingva Hrafni Hálfdánarsyni, kt. [...], [...], Hafnarfirði, fyrir [ ... ] Mál 007-2015-54162.

Mál númer S-41/2018 var sameinað þessu máli í þinghaldi 14. febrúar 2018 með heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Það er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 9. janúar 2018, á hendur ákærða, Ingva Hrafni, „fyrir eftirgreind hegningar-, umferðar- og fíkniefnalagabrot á árinu 2016:

I.

1. Líkamsárás og [ ... ] í Kópavogi með því að hafa laugardaginn 11. júní [ ... ] inn á heimili A, kt. [...], veist að honum með ofbeldi og kýlt í höfuðið með þeim afleiðingum að A hlaut opið sár á eyra. Mál 007-2016-33428

II.

Umferðalagabrot, með því að hafa:

2. Fimmtudaginn 21. apríl í Reykjavík ekið bifreiðinni [...] óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist kókaín 65 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 5,0 ng/ml) um Norðurfell uns lögregla stöðvaði aksturinn. Mál 007-2016-22180

3. Fimmtudaginn 19. maí í Kópavogi ekið bifhjólinu [...] óhæfur um að stjórna því örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist kókaín 175 ng/ml, amfetamín 430 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 0,5 ng/ml) vestur Nýbýlaveg þar sem hann missti stjórn á bifhjólinu með þeim afleiðingum að hann ók utan í vegrið til móts við Álfabrekku og kastaðist af hjólinu. Mál 007-2016-28771

4. Þriðjudaginn 19. júlí ekið bifreiðinni [...] óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 1,1 ng/ml) um Höfðabakka uns lögregla stöðvaði aksturinn. Mál 004-2016-42105

III.

Fíkniefnabrot með því að hafa:

5. Fimmtudaginn 19. maí í Kópavogi haft í vörslum sínum 2,36 g af amfetamíni, 3,53 g af kókaíni og 1,40 g af maríhúana sem lögregla fann við leit í fatnaði hans í kjölfar þess að ákærði var fluttur á sjúkrahús í kjölfar umferðaróhapps, sbr. ákærulið nr. 3 í II. kafla. Mál 007-2016-28771

6. Laugardaginn 13. ágúst í Reykjavík haft í vörslum sínum 18,99 g af amfetamíni, 3,30 g af maríhúana og 0,45 g af ecstasy sem lögregla fann við leit á heimili hans að [...] og lagði hald á. 007-2016-47219

7. Miðvikudaginn 21. september í Reykjavík haft í vörslum sínum 6,77 g af amfetamíni sem lögregla fann í bifreiðinni [...] og lagði hald á. Mál 007-2016-55486

Telst brot í I. kafla varða við [ ... ] og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot í II. kafla við  1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og brot í III. kafla við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar, til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 23/2001.“

Einkaréttarkrafa:

Vegna ákæruliðar númer 1 í I. kafla ákæru gerir Sigurður Freyr Sigurðsson lögmaður þá kröfu fyrir hönd A, kt. [...], að ákærða verði gert að greiða kröfuhafa 1.500.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 11. júní 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Kröfur ákærða:

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Ákærði samþykkir bótaskyldu og upptökukröfu ákæruvaldsins. Þá krefst verjandi ákærða þóknunar sér til handa.

A

Í þinghaldi í málinu 11. maí 2018 afturkallaði ákæruvaldið ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu útgefna 26. apríl 2016. Í sama þinghaldi áréttaði ákærði þá afstöðu sína til sakargifta samkvæmt fyrrnefndri ákæru, útgefinni 9. janúar 2018, en ákærði hafði áður játað sakargiftir án undanbragða, að því fráteknu að hann kannaðist ekki við að hafa ruðst heimildarlaust inn í hús í Kópavogi sem um getur í 1. lið í I. kafla ákærunnar, en játar háttsemi sem þar er lýst að öðru leyti. Af hálfu ákæruvaldsins var því lýst yfir að fallið væri frá sakargiftum að því er varðar húsbrot og væri ákærða ekki gefið slíkt brot að sök. Ákærði viðurkenndi bótaskyldu í málinu, en fól verjanda sínum að fjalla um kröfufjárhæðina.

Í ljósi skýlausrar játningar ákærða ákvað dómari að farið yrði með mál hans samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og verjandi ákærða höfðu tjáð sig stuttlega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Einnig að því er varðar einkaréttarkröfu kröfuhafa.

B

Samkvæmt því sem fram er komið hefur ákærði játað sök. Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins, dagsettu 9. janúar 2018, var ákærði þann 27. maí 2008 dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og gert að sæta 30 daga fangelsi sem var skilorðsbundið til tveggja ára. Þá var ákærða með dómi 6. júní 2011 gert að greiða sekt fyrir brot gegn 32. gr., 1. og 2. mgr. 45. gr. a í umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og vopnalögum nr. 16/1998. Var ákærði sviptur ökurétti í tvö ár frá 28. júní 2011. Ákærði er nú sakfelldur fyrir líkamsárás, umferðarlagabrot í þrjú skipti, það er akstur bifreiðar og bifhjóls óhæfur til að stjórna þeim örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, og vörslur fíkniefna í þrjú skipti. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði var með fyrrnefndum dómi frá 6. júní 2011 sviptur ökurétti í tvö ár frá 28. júní 2011 að telja. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er ákærði sviptur ökurétti í þrjú ár frá birtingu dóms þessa að telja. 

            Í málinu krefst A miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. júní 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði hefur samþykkt bótaskyldu í málinu, en gerir athugasemd við fjárhæð kröfunnar sem hann telur allt of háa. Með því broti sem ákærði er fundinn sekur um, sbr. ákærulið I.1, hefur hann á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fellt á sig miskabótaábyrgð. Við ákvörðun bóta er litið til upplýsinga um afleiðingar brotsins. Verður ákærði dæmdur til að greiða kröfuhafa, A, 150.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. júní 2016 til 14. mars 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Bótakrafan var birt ákærða 14. febrúar 2018.

Fallist er á kröfu ákæruvalds um upptöku fíkniefna eins og greinir í dómsorði. 

            Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað málsins. Ákærði greiði hluta af sakarkostnaði samkvæmt yfirliti ákæruvalds um sakarkostnað dagsettu 9. janúar 2018, eða samtals 587.949 krónur. Verður ákærða hvorki gert að greiða kostnað Nova ehf. né andvirði reiknings lögmanns sem gætti hagsmuna annars sakbornings en ákærða við rannsókn á málinu númer [...]. Ákærði greiði þóknun verjanda síns svo sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Loks greiði ákærði 150.000 krónur í málskostnað kröfuhafa.

            Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

             Ákærði, Ingvi Hrafn Hálfdánarson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði skal sviptur ökurétti í þrjú ár frá birtingu dóms þessa að telja. 

            Ákærði greiði A, kt. [...], 150.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. júní 2016 til 14. mars 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað.

            Ákærði sæti upptöku á fíkniefnum, 4,70 g af maríhúana, 28,12 g af amfetamíni, 3,53 g af kókaíni og 0,45 g af ecstasy.  

            Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar lögmanns, 620.000 krónur og 587.949 krónur í annan sakarkostnað. 

 

Jón Höskuldsson