• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Vörslur
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 6. mars 2018 í máli nr. S-491/2017:

 

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Theodóri Hertervig Línusyni

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 6. febrúar 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru, útgefinni 18. desember 2017, á hendur Theodóri Hertervig Línusyni, kt. 000000-0000, [...]:

,,fyrir eftirtalin brot framin sunnudaginn 26. mars 2017:

I.

Umferðarlagabrot með því að hafa, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (10 ng/ml tetrahýdrókannabínól í blóði) og því ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega, norður Njarðarbraut uns hann stöðvaði við Reykjavíkurtorg, Reykjanesbæ.

       Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, og 3. gr. laga nr. 24/2007, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

II.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa haft í vörslum sínum 0,55 g af maríhúana sem hann geymdi í jakkavasa og hann framvísaði við lögreglu við afskipti sbr. ákærulið I.

Telst þessi háttsemi varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar, sbr. 1. mgr. 101. gr. og 102. gr.  umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997 og lög nr. 69/2007. Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk ofangreind fíkniefni, 0,55 g af maríhúana, skv. heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

Þann 6. febrúar 2018 var mál nr. S-70/2018 var sameinað máli þessu þessu, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málið höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru, útgefinni 6. febrúar 2018:

,,fyrir umferðarbrot með því að hafa, föstudaginn 1. desember 2017, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (90 mg/ml amfetamín í blóði og 8,2 mg/ml tetrahúdrókannabínól í blóði) og því ekki verið fær um að stjórn bifreiðinni örugglega, Austurgötu, Sandgerði.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, og 3. gr. laga nr. 24/2007, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar, sbr. 1. mgr. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997 og lög nr. 69/2007.“

 

Við þingfestingu 6. febrúar 2018 kom ákærði fyrir dóm og játaði sök. Í ljósi játningar ákærða var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framkomnum gögnum. Brot ákærða teljast því sönnuð og eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur árið 1986 og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2007. Við úrlausn þessa máls hefur áhrif að með dómi Héraðsdóms Vesturlands 21. apríl 2009 var ákærða gert að greiða 140.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar í eitt ár frá 26. júní 2009 fyrir brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga. Hinn 17. mars 2014 gekkst ákærði undir sektargerð lögreglustjóra þess efnis að hann greiddi 200.000 króna sekt og sætti sviptingu ökuréttar í tvö ár frá 17. mars 2014 vegna brota gegn 45. gr. a. umferðarlaga.

Samkvæmt framansögðu hefur ákærði því tvisvar áður brotið gegn ákvæði 45. gr. a. umferðarlaga. Samkvæmt því og að brotum ákærða virtum þykir refsing hans samkvæmt dómvenju réttilega ákveðin fangelsi í 45 daga.

Með vísan til framangreinds ber, í samræmi við kröfugerð ákæruvalds og með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvalds, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæru verða gerð upptæk þau 0,55 grömm af maríhúana sem ákærði var með í vörslum sínum 26. mars 2017.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins, samkvæmt framlögðum gögnum, samtals 285.146 krónur.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Theodór Hertervig Línuson, sæti fangelsi í 45 daga.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

            Ákærði sæti upptöku á 0,55 g af maríhúana.

Ákærði greiði 285.146 krónur í sakarkostnað.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir