• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 17. september 2018 í máli nr. S-212/2018:

 

 Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Agnari Þór Jósefssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var tekið til dóms 20. ágúst 2018, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 30. apríl 2018 á hendur Agnari Þór Jósefssyni, kt. 000000-0000, [...]:

,,fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík með því að hafa, föstudaginn 25. ágúst 2017, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdróhannabínól 20 ng/ml) yfir gatnamót Skeiðavogs og Miklubrautar uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar á bifreiðastæði við Metro, Fákafeni.

Telst háttsemi þessi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a  og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

 

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur árið 1984 og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2001. Við ákvörðun refsingar í máli þessu hefur eftirfarandi áhrif: Ákærði var með dómi Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2007 dæmdur í 45 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt fyrir ölvunarakstur. Ákærði var dæmdur í þrjátíu daga fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð með dómi Héraðsdóms Reykjaness 2. apríl 2008 vegna aksturs sviptur ökurétti. Í framangreindum dómum segir að ákærði hafi fram til þess tíma samþykkt greiðslu sekta og að sæta sviptingum ökuréttar fyrir að aka undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Ákærði var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjanes 12. febrúar 2014 fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Með þeim brotum rauf ákærði reynslulausn sem honum hafði verið veitt 16. nóvember 2012, á 35 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt áðurnefndum dómum frá 9. október 2007 og 2. apríl 2008. Reynslulausnin var dæmd upp og ákærða ákveðin refsing í einu lagi vegna eftirstöðvanna og þeirra brota sem hann var sakfelldur fyrir með dómnum frá 12. febrúar 2014. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 24. júní 2014 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans var áréttuð fyrir akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ákærði var dæmdur í fimm mánaða fangelsi og ævilöng svipting hans áréttuð með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2014, en í málinu var ákærði sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti í fjögur skipti, þar af í þremur tilvikum jafnframt undir áhrifum ávana- og fíkniefna, auk þess sem ákærði var í málinu sakfelldur fyrir vörslur fíkniefna. Um var að ræða hegningarauka við áðurnefndan dóm frá 24. júní 2014, en staka sviptingarbrotið framdi ákærði þó eftir að sá dómur gekk. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2016 var ákærði dæmdur í sjö mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting áréttuð vegna aksturs sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna, auk þess sem ákærði var með sama dómi sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 7. desember 2016 var ákærði dæmdur í sjö mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting áréttuð, vegna aksturs sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en brotin sem hann var sakfelldur fyrir í málinu voru framin 2. ágúst 2016. Þá var ákærði dæmdur í tíu mánaða fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 2. nóvember 2017 fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti í tvö skipti, en fyrra brotið framdi ákærði áður en áðurnefndur dómur frá 7. desember 2016 gekk og var honum því gerður hegningarauki að því leyti.

Brot þau sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu voru framin 25. ágúst 2017, eða áður en fyrrnefndur dómur frá 2. nóvember 2017 gekk og er honum því gerður hegningarauki eftir því sem við á, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Að framangreindu virtu, þar á meðal sakaferli ákærða, sbr. 5. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða réttilega ákveðin samkvæmt dómvenju fangelsi í níu mánuði.

Með vísan til 3. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð.

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar, sem samkvæmt framlögðu yfirliti ákæruvalds og fylgigögnum þess, nemur samtals 76.971 krónu. Þá greiði ákærði þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 105.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Agnar Þór Jósefsson, sæti fangelsi í níu mánuði.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði 182.371 krónu í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 105.400 krónur.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir