• Lykilorð:
  • Sýkna að svo stöddu

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 28. júní 2018 í máli nr. E-987/2017:

Geir Viðar Garðarsson

(Skúli Sveinsson lögmaður)

gegn

Akralind ehf.

(Arnar Þór Stefánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 3. maí sl., er höfðað 4. október 2017.

Stefnandi er Geir Viðar Garðarsson, Vesturbraut 4, Hafnarfirði.

Stefndi er Akralind ehf., Miðhrauni 13, Garðabæ.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði 1.928.696 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2017 til greiðsludags, að frádreginni innborgun, 1.054.000 krónur 18. febrúar 2017.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru aðallega krafa um sýknu, en til vara er gerð krafa um sýknu að svo stöddu. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

I

Stefnandi er stálsmiður að atvinnu og sinnir meðal annars málmsmíði. Rekur stefnandi starfsemi undir nafninu Vélsmiðja GVG. Stefndi er eigandi fasteignarinnar að Urðarhvarfi 4 í Kópavogi.   

Í október 2016 leitaði Magnús Kristinsson byggingastjóri Urðarhvarfs 4, þá starfsmaður stefnda, til stefnanda og óskaði eftir því að hann tæki að sér smíði og uppsetningu handriðs á svalir herbergja og rimlagrinda fyrir bílageymslu við fasteignina. Í þremur ódagsettum verkbeiðnum til Vélsmiðju GVG kemur nánar tiltekið fram að verkið felist í uppsetningu á svalahandriðum, að setja upp festingar fyrir gler, brjóta fyrir römmum í hurðaropi í bílageymslu, setja festingar fyrir gler á handrið, breyta fjórum handriðum vegna brunastiga og brjóta fyrir römmum í bílskýli.

Aðila málsins greinir á um það hvort stefnandi hafi lokið því verki sem um var samið að hann inni. Stefnandi fullyrðir að hann hafi lokið við verkið. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að verkið hafi ekki verið fullunnið við úttekt á því. Vantaði hafi eina handriðseiningu og nokkrar hafi ekki passað. Þá hafi rimlagrindur fyrir bílskýli verið smíðaðar of stórar af stefnanda. Hafi stefnandi brotið úr hurðarstoðum þannig að hægt væri að þrýsta grindum á sinn stað. Grindurnar hafi hins vegar þanist út og svignað við hlýnun í veðri. Hafi stefndi gert athugasemdir við það og hafi stefnandi samþykkt að taka rimlagrindurnar niður og lagfæra þær. Fékk stefndi smið til að loka bílskýlinu á meðan stefnandi hafi lagfært grindurnar og hafi það verið gert á kostnað stefnda. Eftir uppsetningu grindanna var verkið tekið út á ný. Við þá úttekt kom í ljós að stefnandi hafi skorið grindur í sundur og málað í sárin með zink-málningu.

Þann 1. febrúar 2017 gaf stefnandi út reikning fyrir það verk sem hann vann fyrir stefnda að fjárhæð 1.928.696 krónur. Þann 18. febrúar sama ár greiddi stefndi stefnanda innborgun að fjárhæð 1.054.000 krónur og lét þess getið að eftirstöðvar kröfunnar yrðu greiddar við verklok.

Stefnandi sendi stefnda viðvörun um innheimtuaðgerðir 29. maí 2017 og innheimtubréf 12. júní sama ár. Í tölvupósti Guðmundar Bragasonar, fyrirsvarsmanns stefnda, til lögmanns stefnda 29. maí 2017 er fullyrt að verkinu sé ekki lokið og að eftirstöðvar kröfunnar verði greiddar þegar verkinu verði lokið. Í svari til Guðmundar Bragasonar segir að stefnandi telji verkinu lokið, en einnig var spurt um það hvaða verki eigi eftir að ljúka.

Í tölvupósti stefnda til lögmanns stefnanda 10. október 2017 kemur fram tillaga um að stefnandi og byggingarstjóri Urðarhvarfs 4 taki í sameiningu saman lista yfir ólokna verkþætti. Tekið er fram að eftirstöðvar reikningsins verði greiddar þegar verkinu væri lokið. Þann 13. október 2017 sendi Steinþór Ólafsson, eigandi stefnda, lögmanni stefnanda upplýsingar um ólokna fimm verkþætti, sem Magnús Kristinsson byggingarstjóri tilgreindi, og laga þyrfti áður en lokagreiðslan yrði greidd. Samþykkti stefnandi sama dag að vinna þá verkþætti utan þess að múra í sár á veggjum þar sem höggvið hefur verið úr til að koma grindum í. Þá ítrekaði stefnandi eftirstöðvar kröfunnar og krafðist auk þess dráttarvaxta og lögmannskostnaðar, samtals að fjárhæð 1.446.066 krónur.

II

Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi verið beðinn um að vinna tiltekin verk fyrir stefnda við byggingu hússins að Urðarhvarfi 4 í Kópavogi samkvæmt verkbeiðnum sem lágu til grundvallar þeirri vinnu sem stefnandi vann. Krafa stefnanda sé byggð á reikningi útgefnum 1. febrúar 2017 að fjárhæð 1.928.696 krónur. Greiddar hafi verið 1.054.000 krónur inn á skuldina 18. febrúar 2017.

Stefndi hafi neitað að greiða eftirstöðvar kröfunnar og hafi borið því við að samið hafi verið um það að stefnandi innti af hendi meiri vinnu en þegar hafi verið gert. Samningur aðila um þá vinnu sem hafi verið unnin hafi verið munnlegur og til grundvallar hafi legið verkbeiðnir. Vísar stefnandi til þess að stefndi hafi sönnunarbyrði fyrir því að samið hafi verið um að stefnandi innti af hendi umfangsmeiri vinnu en þá sem þegar hafi verið innt af hendi.

Stefnandi kveðst byggja á því að byggingarstjóri stefnda, Magnús Kristjánsson, hafi haft umboð til að semja við stefnanda um þau verk sem hafi verið unnin og samþykkja þá reikninga sem hafi verið gefnir út vegna þeirrar vinnu. Vísað sé til til umboðs byggingarstjóra til að semja fyrir hönd verkkaupa, sbr. grein 4.7.1 byggingareglugerðar nr. 112/2012. Hafi byggingarstjórinn haft fullt umboð stefnda til að semja um verkið við stefnanda og samþykkja þann reikning sem hafi verið gefin út og gerð sé krafa um greiðslu á.

Stefnandi byggir kröfu sína á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og samninga. Vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en reglan fái stoð í 45., 47. og 51. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Um gjalddaga kröfunnar er vísað til 49. gr. sömu laga. Kröfu um dráttarvextir byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Nefndur reikningur hafi verið gefinn út 1. febrúar 2017 og sé krafist dráttarvaxta frá 1. mars sama ár, eða einum mánuði frá útgáfu reikningsins. Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Stefndi kveðst byggja kröfur sínar í málinu á því að umrætt verk hafi ekki verið fullunnið af hálfu stefnanda og því eigi stefnandi ekki réttmæta kröfu á hendur stefnda um greiðslu eftirstöðva vegna verksins. Það sé forsenda þess í gagnkvæmum samningum að hvor aðili um sig öðlist rétt til gagngjaldsins að aðilinn inni jafnframt sína greiðslu af hendi, sbr. þær grunnreglur sem fram komi í 10. og 49. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og gildi almennt í kröfurétti. Þá sé einnig svo samkvæmt grunnreglu 42. gr. nefndra laga að sá sem kveðst eiga kröfu á hendur viðsemjanda sínum vegna vanefnda viðsemjandans geti haldi eftir kaupverði sem nægi til að tryggja kröfu hans, sbr. og 43. gr. er varði vanefndir að hluta.

Af hálfu stefnda hafi frá upphafi staðið til að greiða fyrir verkið þegar því hafi verið að fullu lokið. Það staðfesti tölvupóstssamskipti stefnda og lögmanns stefnanda. Gögn málsins sýni enn fremur að stefnandi hafi sjálfur viðurkennt að hafa ekki lokið við verkið að fullu, sbr. tölvupósta í október 2017. Með því að samþykkja að vinna þá nánar tilgreindu verkþætti sem hafi verið settir fram af byggingarstjóra verksins hafi stefnandi staðfest að hann hafi ekki unnið verkið að fullu. Þegar af þeirri ástæðu geti hann ekki átt kröfu á hendur stefnda um greiðslu eftirstöðva reikningsins sem gefin hafi verið út vegna verksins. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda og dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað.

Hvað lagarök varðar er vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar um réttar efndir og um gagnkvæmt skuldarasamband. Þá er enn fremur vísað til þeirra grunnreglna sem fram koma í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup og gilda einnig á ólögfestum grundvelli, einkum til 10., 42., 43. og 49. gr. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr.

IV

Stefnandi og Guðmundur Bragason, fyrirsvarsmaður stefnda, gáfu aðilaskýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og vitnin Steinþór Ólafsson og Magnús Kristjánsson.

Samkvæmt gögnum málsins og framburði aðila og vitna fyrir dómi er upplýst að stefnandi og stefndi komust að samkomulagi um að stefnandi inni tiltekin verk fyrir stefnda við húsið að Urðarhvarfi 4 í Kópavogi. Ágreiningur er með aðilum um það hvort stefnandi hafi lokið við verkið að fullu og öllu eða ekki. Samkvæmt því sem tilgreint er í þremur ódagsettum verkbeiðnum til Vélsmiðju GVG fólst verkið í uppsetningu á svalahandriðum, að setja upp festingar fyrir gler, að brjóta fyrir römmum í hurðaropi í bílageymslu, setja festingar fyrir gler á handrið, breyta fjórum handriðum vegna brunastiga og brjóta fyrir römmum í bílageymslu. Að mati dómsins er nægilega upplýst í málinu, meðal annars með aðilaskýrslu stefnanda, að hann hafi sjálfur tekið að sér að vinna hið umdeilda verk í þágu stefnda, en ekki Vélsmiðja GVG sem síðar varð til. Breytir þá engu þótt verkbeiðnir sem stefnandi fyllti út sjálfur hafi verið stílaðar á Vélsmiðju GVG en ekki stefnanda sjálfan. Í framburði Guðmundar Bragasonar fyrir dómi kom fram að hann hefði aldrei séð nefndar verkbeiðnir, en stefnandi mun hafa fyllt þær út sjálfur til afnota fyrir sig og starfsmenn sína.  

Málatilbúnaður stefnanda er reistur á því að stefnandi hafi lokið við verkið, en því hafnar stefndi. Meðal málsgagna eru upplýsingar um þau verkefni sem stefnandi þurfti að mati stefnda að ljúka til að stefndi greiddi kröfu stefnanda að fullu. Voru upplýsingarnar teknar saman af byggingarstjóra Urðarhvarfs 4, Magnúsi Kristjánssyni, og sendar lögmanni stefnanda 13. október 2017. Í svari lögmanns stefnanda sama dag kemur fram að stefnandi sætti sig við að vinna þá verkþætti sem farið var fram á utan þess að múra í sár á veggjum þar sem höggvið hafði verið í fyrir grindum. Jafnframt ítrekaði stefnandi kröfu sína á hendur stefnda sem hann sagði nema 1.446.066 krónur að meðtöldum dráttarvöxtum og lögfræðikostnaði.

Fyrir dómi staðfesti Magnús Kristjánsson að hann hefði tekið saman upplýsingar um þá verkþætti sem stefnandi átti eftir að ljúka þegar stefndi var krafinn um greiðslu fyrir verkið. Um er að ræða fimm verkþætti sem er skipt á milli „kaldrar geymslu“ og „svalahandriða.“ Hvað geymsluna varðar segir að smíða þurfi nýja grind í stað þeirrar sem sé of stór og búið er að skera utan af; stilla saman tvær grindur sem séu í gati á „köldu geymslu“; stilla þarf saman grindur í „hurðargati“ og koma fyrir útihurðaskrá; múra þarf í sár á veggjum þar sem höggvið hefur verið út til að koma grindum í. Um svalahandrið segir að loka þurfi öllum sárum þar sem skorið hafi verið í handrið og galvanhúðun sé ekki til staðar. Einnig segir að loka þurfi „sárum“ með varanlegum hætti, galvaniserað, þannig að ekki komi fram ryð út frá opnum sárum.

Í framburði Magnúsar Kristjánssonar fyrir dómi kom fram stefndi hefði í upphafi samþykkt tilboð frá stefnanda í smíði svalahandriða og lokanir fyrir hurðargöt á bílageymslu. Ágætlega hefði gengið að vinna verkið til að byrja með en ágreiningur hefði komið upp um vinnubrögð stefnanda og samskipti aðila farið í hnút. Vitnið sagði að grindur fyrir hurðargöt í bílageymslu hefðu verið smíðaðar of stórar. Farið hefði verið fram á að stefnandi lagaði þá ágalla sem voru á grindunum. Þá lýsti vitnið fleiri ágöllum á verki stefnanda og staðfesti þær upplýsingar um ólokin verk sem sendar voru lögmanni stefnanda. Þá kom fram hjá vitninu að stefnandi, sem vitnið var í samskiptum við vegna deilunnar, hefði um tíma verið tilbúinn til að vinna þau verk sem var ólokið, gegn því að fá meira greitt, en svo hafi allt hlaupið í baklás.

Samkvæmt tölvupóstum á milli Steinþórs Ólafssonar, eiganda stefnda, og lögmanns stefnanda og framburði Magnúsar Kristjánssonar fyrir dómi þykir mega álykta sem svo að stefnandi hafi ekki lokið við það verk sem hann skuldbatt sig til að vinna fyrir stefnda við húsið Urðarhvarf 4. Fyrir liggur að stefndi hélt eftir hluta af þeirri fjárhæð sem hann var krafinn um með fyrrnefndum reikningi 1. febrúar 2017 á þeirri forsendu að verk stefnanda hefði ekki verið fullunnið. Vísar stefndi til þess að það sé forsenda í gagnkvæmum samningum að hvor aðili um sig öðlist rétt til gagngjaldsins að gagnaðili inni jafnframt sína greiðslu af hendir. Vísar stefndi í þessu sambandi meðal annars til grunnreglna í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

Í 42. gr. nefndra laga um lausafjárkaup segir að eigi kaupandi kröfu á seljanda vegna vanefnda seljanda er kaupanda heimilt að halda eftir þeim hluta kaupversins sem nægir til þess að tryggja kröfu hans. Er einnig til þess að líta að samkvæmt 49. gr. sömu laga skal kaupandi greiða kaupverðið þegar seljandinn krefst þess, en þó ekki fyrr en hluturinn er afhentur kaupanda eða stendur honum til ráðstöfunar í samræmi við samninginn og lögin. Óumdeilt er að stefndi greiddi stefnanda hluta af kröfu hans samkvæmt reikningi sem stefnandi gaf út 1. febrúar 2017. Fram er komið að stefndi greiddi inn á kröfuna nokkrum dögum síðar 1.054.000 krónur, en hélt eftir 874.696 krónum og kvaðst myndi greiða eftirstöðvarnar þegar verkinu væri lokið. Einnig er óumdeilt að stefnandi vann tiltekið verk fyrir stefnda þótt deilt sé um það hvort stefnandi hafi lokið við verkið.

Af gögnum málsins um samskipti aðila, eftir að ágreiningur kom upp um framkvæmd verksins, og framburði aðila og vitna fyrir dóminum má ráða að stefnandi hafi fallist á það að hafa ekki lokið verkinu að fullu og öllu og verið um tíma tilbúinn til þess að ljúka fjórum verkþáttum af fimm gegn því að fá eftirstöðvar kröfunnar greiddar. Samkvæmt því hefur stefnandi ekki að mati dómsins sýnt fram á að hann hafi lokið við það verk sem hann tók að sér fyrir stefnda og verður því ekki hjá því komist að álykta sem svo að stefnandi eigi ekki rétt á öllu því gagngjaldi úr hendi stefnda sem hann krefst án þess að stefnandi sjálfur inni sína skyldu af hendi, það er áður en verkinu hefur verið lokið að fullu. Samkvæmt þessu er fallist á það með stefnda að honum hafi verið heimilt að grípa til þeirra úrræða að halda eftir greiðslu til að tryggja hagsmuni sína, en við úrlausn málsins er við það miðað að greiðsluskylda stefnda sé háð því að stefnandi inni sína greiðslu af hendi. Ber því að sýkna stefnda að svo stöddu af dómkröfu stefnanda samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þá kröfu hafi stefndi upp til vara við munnlegan flutning málsins. Var honum það heimilt, enda gengur krafan skemur en aðalkrafa hans um sýknu.

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu málsins og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Akralind ehf., skal vera sýkn að svo stöddu af kröfum stefnanda, Geirs Viðars Garðarssonar.

Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.

 

Jón Höskuldsson