• Lykilorð:
  • Kröfuréttur
  • Námssamningur
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, þriðjudaginn 18. september 2018, í máli nr. E-149/2018:

Menntamiðstöðin ehf.

(Anna Svava Þórðardóttir hdl.)

gegn

Alexander Gautasyni

(Atli Már Ingólfsson hdl.)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 30. ágúst 2018, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness með stefnu birtri 30. janúar 2018. Stefnandi er Menntamiðstöðin ehf., kt. 000000-0000, Bíldshöfða 18, 112 Reykjavík. Stefndi er Alexander Gautason, kt. 000000-0000, Grófarsmára 15, 201 Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 440.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af stefnufjárhæðinni frá 2. október 2017 til greiðsludags, að teknu tilliti til innborgunar þann 29. september 2017, 50.000 króna sem dragist frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. laga nr. 38/2001 er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar að mati dómsins að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins að teknu tilliti til framlagðs málskostnaðarreiknings.

I

Málsatvik

Stefnandi starfrækir Ferðamálaskóla Íslands. Stefndi ræddi við skólastjóra og fyrirsvarsmann stefnanda 29. september 2017 og undirritaði þá umsókn um skólavist í leiðsögunámi auk þess að greiða 50.000 króna staðfestingargjald. Stefndi mætti í tíma þann 2. og 3. október 2017 auk þess að skrá sig á nemendaskrá. Stefndi tilkynnti fyrirsvarsmanni stefnanda í tölvupósti þann 5. október 2017 að hann hefði ákveðið að hætta náminu með þeim orðum að honum fyndust kennsluhættir mjög gamaldags og námið ekki uppfylla nútímakröfur og að efnið væri úrelt. Óskaði hann þá jafnframt eftir því að fá hluta af staðfestingargjaldinu greitt til baka. Í svarpósti degi síðar svaraði fyrirsvarsmaður stefnanda að honum þætti þetta miður, að dæma námið út frá mætingu tvö kvöld. Í lok þess tölvupósts kom fram: „Þú ert búinn að skrá þig í námið og bendi ég þér á að hér liggur ógreiddur reikningur að upphæð 440.000 krónur að frádregnu staðfestingargjaldi sem þú hefur innágreitt kr.50.000.“ Nefndur reikningur sem dagsettur er 2. október 2017 er umþrætt krafa þessa máls.

Í tölvupósti, dags. 6. október 2017, kom fram hjá stefnda að hann væri hættur náminu og klárlega hafi verið um prufutíma hjá honum að ræða. Krafðist stefndi endurgreiðslu á 25.000 krónum eða helmings af staðfestingargjaldi.

Þann 10. október 2017 sendir Gjaldheimtan, f.h. stefnanda, út viðvörun um innheimtuaðgerðir. Með tölvupósti, dags. 5. nóvember 2017, ítrekar stefndi óánægju sína, enda hafi komið fram í samtali hans við skólastjóra að hann hafi verið að prufa og sjá til hvernig honum myndi líka námið. Í þeim tölvupósti upplýsir stefndi að hann hafi fengið upplýsingar um að námið kostaði 440.000 krónur yfir veturinn.

Í málinu liggur fyrir framangreindur reikningur og innheimtuviðvörun, umsókn um skólavist, ásamt framangreindum tölvupóstsamskiptum.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar málsins skýrslur fyrir dómi.

 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki greitt eftirstöðvar af námskeiðsgjaldi skv. útgefnum reikningi, dags. 2. október 2017, að teknu tilliti til innborgunar þann 29. september 2017, 50.000 króna.

Stefnandi vísar til meginreglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, en reglan fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 50. gr. laga nr. 50/2000, og lögum nr. 42/2000. Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Kröfuna um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafan um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda. Um varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi krefst sýknu, byggt á því að samningur hafi aldrei komist á um skólavist stefnda. Hafi stefndi óskað sérstaklega eftir því við stefnanda að sitja prufutíma og komist hafi á munnlegur samningur um það. Af hálfu stefnanda hafi ekkert verið talið því til fyrirstöðu, enda námskeiðið að hefjast næsta virka dag, en stefndi hafi þó þurft að greiða 50.000 króna staðfestingargjald. Þá hafi stefndi þurft að undirrita umsókn um skólavist sem fyrirsvarsmaður stefnanda hafi lagt fyrir hann. Hafi sú umsókn ekki borið með sér með neinum hætti að stefndi hafi verið að skuldbinda sig til þess að sækja og greiða allt námið. Þá hafi nefnd umsókn ekki verið undirrituð af hálfu fyrirsvarsmanns stefnanda, og ekkert gefi það til kynna að stefnandi hafi samþykkt umsókn stefnda um skólavist.

Stefndi telur ljóst að samið hafi verið um prufutíma til þess að sjá hvort námið hentaði og heillaði stefnda. Stefndi hafi einungis í örfáa daga hugleitt umrætt nám, en þar sem það hafi verið að hefjast á sama tíma hafi hann viljað kynna sér það áður en hann tæki ákvörðun. Stefndi telur að sýkna beri í málinu á grundvelli þess að samningur hafi aldrei tekist um greiðslu námskeiðsgjalds, og beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að samningur um skólavist hafi komist á.

Stefndi byggir einnig á því að skjal það, sem stefnandi leggi fram sem grundvöll samningssambands hans og stefnda, sé alls ekki nægilega skýrt til að teljast skuldbindandi um greiðslu skólagjalda, einkum vegna framangreindra aðstæðna. Nefnt skjal beri heitið „Umsókn“ og sé að flestu leyti óskýrt. Eyðublaðið sé samið einhliða af stefnanda og sé honum til mikils „vansa“ að ætla að byggja þýðingarmikla ákvörðun um skuldbindandi námsvist, og um greiðslu skólagjalds, á svo ófullkomnu skjali. Þá eigi eftirfarandi forsendur við um skjalið:

  • Heiti skjalsins sé villandi. Skjalið heiti „Umsókn um skólavist“ en ekkert í skjalinu beri það með sér að um gagnkvæman samning sé að ræða og stefnandi hafi samþykkt þá umsókn.
  • Í efni skjalsins sé fátt annað en upplýsingar um nafn og heimili umsækjanda og reitur um tegund námsvistar. Allt efnislegt innihald skjalsins sé eftirfarandi: „Staðfestingargjald er óendurkræft hljóti umsækjandi skólavist“, og í öðru lagi: „Eftirstöðvar skólagjaldsins óska ég eftir að ganga frá á eftirfarandi hátt.“
  • Ekki sé tilgreint hver sé heildarupphæð skólagjalda. Grundvallaratriði sé að fram komi verð þeirrar þjónustu sem verið sé að selja, og ekkert hafi komið fram um það í viðræðum aðila hvert skólagjald hafi verið fyrir fullt nám.
  • Einungis verði ráðið af skjalinu að staðfestingargjald sé óendurkræft en önnur gjöld því sennilega afturkræf komi upp atvik sem valdi því að nemandi þurfi að hverfa frá námi.
  • Í skjalinu sé boðið upp á valmöguleika um greiðslumáta eftirstöðva. Þar sem um prufutíma var að ræða sé ekki hakað við neinn greiðslumáta.
  • Hvergi sé gert ráð fyrir undirritun fyrirsvarsmanns stefnanda. Grundvallarregla til þess að skjalið verði skuldbindandi sé að báðir samningsaðilar þurfi að rita undir.
  • Stefnanda hefði borið að taka fram með skýrum hætti að með undirritun á umsóknareyðublað fælist skuldbindandi yfirlýsing um greiðslu fullra skólagjalda.
  • Með vísan til tveggja framlagðra dóma Héraðsdóms Reykjavíkur, hafi stefnanda verið fullkunnugt um það hversu óljós og óskýr umsóknareyðublöð hans séu. Hafi stefnandi í engu bætt úr óskýrleika þess í þau 10 ár sem liðin séu frá því að fyrri dómur héraðsdóms féll. Verði að virða stefnanda það til sakar.

Stefndi bendir á að eðli umsóknargjalds eins og staðfestingargjalds sé að takmarka tjón þess sem við greiðslu taki, ef umsækjandi hætti við eða mæti ekki til leiks. Að breyta eðli gjaldsins einhliða og láta líta svo út sem um bindandi samning sé að ræða sé með öllu ósanngjarnt og til marks um afar óeðlilega viðskiptahætti. Byggt sé á því að stefnandi verði að bera hallann af því að byggja á eins óskýru samningsformi og raun beri vitni.

Stefndi telur það mikilvægt að almenningur sé vel varinn fyrir fyrirtækjum sem reyni allt til þess að féfletta menn. Ábyrgð dómstóla sé mikil sem beri að standa vörð að þessu leyti. Stefnandi sé fyrirtæki sem reki leiðsögunám, útbúi skjal og fái áhugasama til að skrifa undir. Verði að gera ríkar kröfur til viðkomandi fyrirtækis um að vanda til skjalagerðar svo að ekki fari milli mála hvaða skuldbindingar fólk sé að undirgangast. Skjalið beri það alls ekki með sér að viðkomandi nemandi sé að skuldbinda sig til þess að greiða nærri hálfa milljón króna fyrir skólavistina, annað en hugsanlega greiðslu staðfestingargjalds. Beri stefnandi alla ábyrgð á óskýrleika eða ónákvæmni eyðublaðsins samkvæmt skýringarreglum samningaréttar.

Stefndi hafi látið stefnanda vita án tafar að hann myndi ekki hefja námið. Hafi þá aðeins verið liðnir fjórir virkir dagar frá því að hann hitti forsvarsmann stefnanda í fyrsta sinn. Hafi mæting stefnda svarað til eins kennslukvölds. Stefnandi hafi á þessum tíma verið búinn að ákveða leiðsögunám og þátttaka stefnda ekki haft nein kostnaðarútgjöld í för með sér. Þá hafi stefnanda verið í lófa lagið að takmarka tjón sitt með því að taka inn nemendur eftir að stefndi hætti við, enda námskeiðið þá varla hafið og aðeins eitt kvöld yfirstaðið. Vísar stefndi um þetta til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-184/2013, en þar komi fram að stefnandi haldi biðlista um nemendur sem æskja náms. Beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni, en hafi ekki fært fram nein rök eða málsástæður fyrir því.

Stefndi byggir á því að verði ekki fallist á framangreindar málsástæður og komist verði að því að „samningur“ um námsvist hafi komist á, eigi við ákvæði 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 um að víkja beri samningi um skólavist til hliðar með hliðsjón af atvikum við samningsgerðina og með vísan til atvika sem síðar komu til. Sé í þessu sambandi vísað til þess að það sé bersýnilega ósanngjarnt af stefnanda að krefja stefnda um fulla greiðslu skólagjalda fyrir nám sem hann hafi ekki sótt og hafi tilkynnt stefnanda þegar í stað um að hann hygðist ekki sækja. Stefnandi geti með hliðsjón af atvikum máls ekki hafa orðið fyrir neinu tjóni eða aukakostnaði af umsókn stefnda um nám.

Stefndi telur enn fremur að 33. gr. samningalaga nr. 7/1936 eigi við í málinu, þar sem stefnanda hafi verið fullkunnugt um að stefndi hugðist kynna sér námið áður en hann tæki ákvörðun um skólavist. Því verði að teljast óheiðarlegt að bera samninginn fyrir sig vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar löggerningurinn  kom til vitundar fyrirsvarsmanns stefnanda. Séu málsatvik að þessu leyti í máli þessu með allt öðrum hætti en í þeim tveimur héraðsdómum sem stefnandi hafi lagt fram.

Um lagarök er vísað til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og meginreglna skaðabótaréttar. Krafan um málskostnað úr hendi stefnanda styðst við 130. gr., og XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

IV

Forsendur og niðurstaða

Í málinu liggur fyrir umsókn um skólavist, dagsett föstudaginn 29. september 2017, sem undirrituð er af stefnda auk þess sem stefndi greiddi þá 50.000 króna staðfestingargjald. Fyrirsvarsmaður stefnanda upplýsti fyrir dómi að stefnda hefði á sama tíma verið tjáð munnlega að hann kæmist að í náminu sem ætti að hefjast þá strax eftir helgina eða mánudaginn 2. október 2017. Óumdeilt er að stefndi mætti í samræmi við það og skráði sig á nemendaskrá skólans þann 2. október 2017, og sat námið í tvo daga. Er það mat dómsins að með framangreindu hafi komist á bindandi samningur um skólavist þótt undirritun stefnanda komi ekki fram á umsókn.

Stefndi byggir á því að munnlegur samningur hafi komist á milli hans og fyrirsvarsmanns stefnanda, um að hann mætti kynna sér námið áður en endanlegur samningur væri kominn á. Stefndi ber sönnunarbyrðina fyrir því. Í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir dómi kom fram að ekki hafi verið rætt um prufutíma og að slíkt væri ekki í boði. Stefndi bar í skýrslu sinni fyrir dómi að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi sagt það sjálfsagt að hann fengi að sækja prufutíma en hefði þó viljað að hann skrifaði undir umsókn um skólavist. Sú staðreynd að stefndi undirritar umsókn um skólavist styður ekki fullyrðingu hans um prufutíma áður en samningur um skólavist skyldi komast á, og ekki er að sjá að fyrirvari hafi verið að þessu leyti á umsókninni. Stefndi gat ekki í skýrslu sinni fyrir dómi svarað því hve marga prufutíma hefði verið rætt um í þessu sambandi, en í máli hans fyrir dómi er á því byggt að samið hafi verið um einn prufutíma. Þá verður af gögnum málsins, sérstaklega þeim tölvupóstsamskiptum sem áttu sér stað eftir að stefndi tilkynnir að hann sé hættur námi, ekki ráðið að samningur um prufutíma hafi legið fyrir, þótt ekki sé útilokað að það hafi verið skilningur stefnda að hann ætti rétt á slíku. Með vísan til þessa liggur ekki fyrir sönnun þess að samið hafi verið um prufutíma áður en endanlegur samningur um skólavist kæmist á eða að stefnanda hafi verið fullkunnugt um þær forsendur stefnda. Eiga því jafnframt ekki við ákvæði 33. gr. samningalaga nr. 7/1936 um að samningur aðila um skólavist sé ógildur á þeim forsendum að óheiðarlegt sé að bera hann fyrir sig.

Byggt er á því að skjalið „Umsókn um skólavist“ sé ekki nægilega skýrt til að teljast skuldbindandi, sérstaklega um skyldu til greiðslu umkrafinna skólagjalda, og hafi stefndi aldrei verið upplýstur um fjárhæð skólagjaldanna. Staðreynt er í málinu að nokkur dómsmál hafa verið rekin fyrir héraðsdómstólum tengd innritun í skóla stefnanda. Ætti sú staðreynd að vera nægileg hvatning fyrir stefnandi til að íhuga hvort ekki megi bæta form umsóknar. Hins vegar hefur í þessu máli verið komist að þeirri niðurstöðu að kominn sé á bindandi samningur, og þá kemur fram í tölvupósti, sem stefndi sendir stefnanda þann 5. nóvember 2017, að þann 29. september 2017, eða á sama tíma og hann undirritaði umsókn sína, hafi fyrirsvarsmaður stefnanda tekið fram að veturinn allur kostaði 440.000 krónur. Stefndi kvaðst fyrir dómi ekki hafa skýringu á þessu en faðir hans hefði hjálpað honum að skrifa póstinn og þá gæti hann hafa misminnt. Að mati dómsins er ekki hægt að horfa framhjá efni skjalsins sem stafar frá stefnda sjálfum, á þann hátt að honum hafi verið kunnugt um hvert var skólagjald fyrir fullt nám, og skiptir þá ekki máli hvort fjárhæð skólagjalda sé nefnd í umsókn um skólavist eða ekki eða sú staðreynd að ekki sé hakað við í umsókn hvernig gjaldið verði greitt.

Af hálfu stefnda er einnig á því byggt að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni, og að stefnanda hefði verið í lófa lagið að takmarka tjón sitt með því að taka inn nýja nemendur. Í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir dómi kom fram að skólinn væri eingöngu rekinn með greiddum skólagjöldum nemenda. Hafi umrætt námskeið verið fullsetið en hann muni ekki hvort það hafi verið biðlisti. Hins vegar væri staðan sú að eftir að nám væri hafið þá byrjaði enginn í námi. Ekki liggur annað fyrir en að stefnandi hafi mátt gera ráð fyrir því að stefndi lyki námi, og greiddi full skólagjöld. Tjón stefnanda svarar þannig til kröfu hans, enda hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu stefnda að stefnanda hafi verið unnt að takmarka tjón sitt eins og málum er hér háttað.

Að lokum er á því byggt af hálfu stefnda að víkja beri samningi um skólavist og þar með skyldu til greiðslu skólagjalda til hliðar með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, með hliðsjón af atvikum við samningsgerðina, og með vísan til atvika sem síðar komu til. Ekkert liggur fyrir um að efni samnings sé ósanngjarnt svo sem m.t.t. fjárhæðar skólagjalda. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að stefndi hafi sjálfviljugur ákveðið að skrá sig í umrætt nám. Ósannað er að stefnda hafi verið lofað að mæta í prufutíma áður en endanlegur samningur væri kominn á. Ekki liggur annað fyrir en að stefndi hafi verið upplýstur um fjárhæð skólagjalda þegar hann undirritaði umsókn um skólavist. Þá liggur ekki annað fyrir en að stefnandi hafi uppfyllt sinn hluta samningsins og stefndi hafi sjálfur tekið ákvörðun um að hætta náminu á eigin forsendum. Með vísan til þessa er ekki hægt að fallast á að víkja beri til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta samningi aðila eða fjárhæð hans.  

Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda eftirstöðvar skólagjalda vegna leiðsögunáms, samtals að fjárhæð 390.000 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði, en óþarft er að kveða á um greiðslu vaxtavaxta.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 372.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Bogi Hjálmtýsson kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Alexander Gautason, greiði stefnanda, Menntamiðstöðinni ehf., 390.000 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 2. október 2017 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 372.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                             Bogi Hjálmtýsson