• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 28. mars 2018 í máli nr. S-428/2017:

 

Ákæruvaldið

(Katrín Ólöf Einarsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Aroni Bjarna Stefánssyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 2. mars 2018, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 21. nóvember 2017, á hendur Aroni Bjarna Stefánssyni, kt. 000000-0000, [...], Hafnarfirði:

,,fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfararnótt mánudagsins 6. mars 2017, ekið bifreiðinni  [...] sviptur ökuréttindum og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði mældist 110 ng/ml) eftir Nýbýlavegi í Kópavogi, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

Við fyrirtöku málsins 2. mars 2018 kom ákærði fyrir dóm og játaði sök. Í ljósi játningar ákærða var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framkomnum gögnum. Brot ákærða teljast því sönnuð og eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur árið 1989 og á sakarferil sem nær aftur til ársins 2012. Við úrlausn þessa máls hefur áhrif að samkvæmt framlögðu sakavottorði gekkst ákærði tvívegis undir sektargerð lögreglustjóra 4. júní 2012 vegna brota gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Með annarri sektargerðinni samþykkti ákærði að greiða 70.000 krónur í sekt og sæta sviptingu ökuréttar í 4 mánuði frá 4. júní 2012. Með hinni sektargerðinni samþykkti ákærði að greiða 70.000 krónur í sekt og sæta sviptingu ökuréttar í 2 mánuði frá 4. október 2012. Þá gekkst ákærði undir sektargerð lögreglustjóra 9. desember 2016 vegna brots gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga og 1. mgr. 73. gr. umferðarlaga þess efnis að ákærði samþykkti að greiða 105.000 krónur í sekt og sæta sviptingu ökuréttar í 24 mánuði. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2017 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, auk þess sem ákærði var sviptur ökurétti ævilangt.

Brot það sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir var framið fyrir uppkvaðningu ofangreinds dóms frá 3. október 2017. Refsingu ákærða nú ber því að ákvarða samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Samkvæmt framansögðu og að brotum ákærða virtum þykir refsing hans samkvæmt dómvenju réttilega ákveðin fangelsi í 15 daga.

Með vísan til framangreinds og í samræmi við kröfugerð ákæruvalds og með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, er ævilöng svipting ökuréttar ákærða áréttuð.

            Við fyrirtöku málsins 2. mars 2018 óskaði ákæruvaldið bókað að fallið væri frá kröfu um að ákærða verði gert að greiða kostnað samkvæmt yfirliti sækjanda þar sem gögn um kostnað vegna blóðtökuvottorðs og matsgerðar rannsóknarstofu HÍ lægju ekki fyrir. Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærða hins vegar gert að greiða þóknun skipaðs verjanda, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 105.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Aron Bjarni Stefánsson, sæti fangelsi í 15 daga.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

            Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 105.400 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

                                                            Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir