• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Fangelsi

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 13. apríl 2018 í máli nr. S-20/2018:

 

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Ahmed Jizani

(Daníel Reynisson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 6. apríl sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum 8. janúar 2018 á hendur ákærða Ahmed Jizani, fæddum [...], ríkisborgara frá Írak:

,,fyrir misnotkun skjala, með því að hafa, föstudaginn 29. desember 2017, í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, er hann var á leið til Toronto, Kanada, með flugi FI603, framvísað við landamæravörð í landamæraeftirliti, í blekkingarskyni, sænsku vegabréfi, á nafni [...], fd. [...], númer 86972907 með gildistímanum 10.12.2013 til 10.12.2018.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“ 

Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að honum verði ekki gerð refsing. Til vara gerir ákærði þá kröfu að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að refsing verði bundin skilorði. Þá krefst ákærði þess að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg þóknun verjanda vegna starfa á rannsóknarstigi og fyrir dómi, auk ferðakostnaðar.

            Við þingfestingu málsins 6. apríl 2018 játaði ákærði brot sitt án undandráttar. Játning ákærða fær stoð í gögnum málsins. Samkvæmt því þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða. Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Fyrir liggur að tollayfirvöld höfðu afskipti af ákærða við vegabréfaskoðun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 29. desember 2017 er ákærði kom hingað til lands með flugi frá Noregi. Við frekari rannsókn kom í ljós að ákærði hafði framvísað vegabréfi annars manns. Samkvæmt því sem eftir ákærða er haft í lögregluskýrslu hafi ákærði ferðast frá heimalandi sínu, Írak, til Tyrklands, svo til Grikklands, Makedóníu, Serbíu, Eistlands, Þýskalands, Danmerkur, Svíþjóðar og svo til Finnlands. Ákærði hafi sótt um hæli í Finnlandi árið 2015 og verið synjað 2016. Ákærði hafi áfrýjað synjuninni en fengið aftur synjun fyrir 4-5 mánuðum síðan. Ákærði hafi í kjölfarið orðið sér úti um vegabréf og ákveðið að ferðast. Ákærði hafi ferðast frá Finnlandi til Noregs og svo frá Noregi til Íslands. Upplýst er um að fyrirhugaður áfangastaður ákærða var Toronto í Kanada. Að framangreindu virtu og að öðru leyti með vísan til gagna málsins liggur ekkert fyrir um að aðstæður ákærða séu með þeim hætti að fallið geti að skilgreiningu 1. mgr. 32. gr. laga nr. 80/2016, eða ákvæðum alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sem íslenska ríkið gerðist aðili að 30. nóvember 1955, sbr. auglýsingu nr. 74/1955, þannig að leitt geti af þeirri eða öðrum ástæðum til refsileysis. Hefur ákærði því unnið sér til refsingar.

Sakavottorð ákærða liggur ekki frammi í málinu. Engra gagna nýtur við um að ákærði hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Verður við ákvörðun refsingar tekið mið af þeirri staðreynd, sem og skýlausri játningu ákærða. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af dómaframkvæmd þykir refsing ákærða réttilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

            Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Eingöngu er um að ræða þóknun skipaðs verjanda ákærða á rannsóknarstigi og fyrir dómi, Daníels Reynissonar lögmanns, er hæfilega þykir ákveðin 126.480 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagðan ferðakostnað verjanda 10.366 krónur.

            Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Ahmed Jizani, fæddur [...], sæti fangelsi í 30 daga.

            Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi og fyrir dómi, Daníels Reynissonar lögmanns, 126.480 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og ferðakostnað verjandans, 10.366 krónur.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir