• Lykilorð:
  • Aðild
  • Fyrning
  • Skuldamál
  • Tómlæti
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, föstudaginn 29. júní 2018, í máli nr. E-21/2018:

Lögskil ehf.

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

gegn

Nýborg ehf.

(Ólafur Hvanndal Ólafsson hdl.)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 13. júní 2018, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness með stefnu birtri 20. desember 2017.

Stefnandi er Lögskil ehf., kt. 000000-0000, Suðurlandsbraut 48, Reykjavík. Stefndi er Nýborg ehf., kt. 000000-0000, Súlunesi 19, Garðabæ.

Í endanlegum dómkröfum stefnanda er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.931.165 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá 15. janúar 2018 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi hæfilegs málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að teknu tilliti til framlagðs  málskostnaðarreiknings.

I

Málsatvik

Viðskipti aðila hófust á árinu 2003 en lauk um 10 árum síðar. Á því tímabili hafði stefnandi með höndum lögfræðiinnheimtu fyrir stefnda, og almenna lögfræðiþjónustu.

Í desember 2017 gaf stefnandi út tvo reikninga, samtals að fjárhæð 7.959.709 krónur vegna ógreiddrar lögfræðiþjónustu. Á reikningi útgefnum 4. desember að fjárhæð 7.652.387 krónur kemur fram að um sé að ræða lögfræðiþjónustu við ýmis verkefni skv. verkskýrslum og verkefnalista og akstur. Um sé að ræða heildarvinnu 542 klst. að frádregnum 221,10 vinnustundum sem þegar hafi verið reikningsfærðar skv. fyrri reikningum, og viðmið tímagjalds sé skv. gjaldskrá á árinu 2011. Með framlagðri bókun var höfuðstóll nefnds reiknings lækkaður um 1.028.544 krónur, og er fjárhæð hans eftir lækkun 6.623.843 krónur. Á seinni reikningnum, útgefnum 13. desember 2017 að fjárhæð 307.322 krónur, kemur fram að um sé að ræða lögfræðiþjónustu við ýmis verkefni skv. verkskýrslu júlí 2013 - 23. mars 2014. Nemur samanlögð fjárhæð nefndra tveggja reikninga stefnufjárhæð málsins.

Stefnandi leggur fram til stuðnings kröfu sinni, auk framangreindra tveggja reikninga, ódagsetta verkskýrslu með upptalningu á ýmsum verkefnum. Í niðurlagi þess skjals kemur fram: „Samtals tímafjöldi frá 2003 til 01.06.2013 er samtals; 542 klst. Þegar útgefnir reikningar fyrir 111,5 klst.“ Þá leggur stefnandi fram vinnuskýrslu yfir vinnu lögmanna stefnanda, frá 4. september 2003 til og með 21. mars 2014, og viðskiptayfirlit frá 4. apríl 2006 til 13. desember 2017, auk tölvupósts.  

Stefndi telur sig ekki skulda stefnanda neitt og snýr ágreiningur málsins að því hvort sannað sé að stefnandi eigi framangreinda kröfu, og eftir atvikum hvort krafan sé fallin niður fyrir fyrningu eða tómlæti.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur, þeir Hilmar Magnússon fyrir stefnanda og Sigurður Antonsson fyrir stefnda, og þá gaf vitnaskýrslu Hjalti Sigurðsson, starfsmaður stefnda.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi notið umbeðinnar lögfræðiþjónustu um langt árabil, eða frá 4. september 2003 og fram á árið 2015, vegna fjölmargra verkefna sem tengjast viðamiklum rekstri og eignum stefnda. Hafi stefndi jafnan óskað eftir lögfræðiþjónustunni af hálfu stefnanda í hverju verkefni fyrir sig, ýmist með tölvupósti til stefnanda, á fundum eða í símtölum og stefnandi haldið á sama tíma verkskýrslu um flest þau þjónustuverkefni, sem hafi verið unnin í tímavinnu. Um innheimtumál hafi verið haldið utan um í sérstöku innheimtukerfi lögmanna, svonefndu IL+ kerfi,  en þau hafi verið gerð upp sérstaklega.

Hvað varði þjónustuverkefnin þá hafi verkskýrsla og gögn verið kynnt stefnda ítrekað og fundir haldnir með fyrirsvarsmönnum stefnda um vinnuframlagið skv. verkskýrslunni, svo og stöðu innheimtumála. Hafi þá m.a. verið rætt um hvernig gengið yrði frá uppgjöri, án þess þó að lokareikningar hafi verið gefnir út. Á nefndum fundum hafi hvorki komið fram af hálfu stefnda að ágreiningur væri um vinnuframlagið, þ.e. fjölda vinnustunda og akstursferða, né hvernig að verkefnunum hefði verið staðið, en stefndi hafi hins vegar ekki viljað una því að reikningur yrði gerður samkvæmt tímagjaldi gildandi gjaldskrár, heldur að miðað yrði við lægra tímagjald í eldri gjaldskrá.

Stefnandi kveður dómkröfur málsins byggjast á tveimur reikningum stefnanda til stefnda, a) nr. 3516, að fjárhæð 6.623.843 krónur, útgefnum 4. desember 2017 fyrir eftirstöðvum útseldrar þjónustu og aksturskostnaði auk virðisaukaskatts, fram til júní 2013 og b) nr. 3519, að fjárhæð 307.322 krónur, útgefnum 13. desember 2017, en samanlögð fjárhæð reikninganna sé 6.931.165 krónur, sem sé endanleg stefnufjárhæð. Hafi fyrri reikningurinn verið kynntur stefnda við útgáfu með tölvupósti og báðir reikningarnir síðan kynntir fyrirsvarsmanni og lögmanni stefnda, Ólafi Hvanndal Ólafssyni hdl., með tölvupósti 13. desember 2017. 

Stefnandi kveður að við reikningsgerð þá sem dómkröfur þessa máls byggist á, sé umfram skyldu orðið við tilmælum stefnda og byggt á tímagjaldi skv. gjaldskrá, útgefinni 1. janúar 2011, sem hafi gilt til ársloka 2011, en í þeirri gjaldskrá sé kveðið á um tímagjaldið 19.200 krónur auk VSK og feli það í sér verulegan afslátt, eða 7.300 krónur pr. klst. án VSK miðað við núgildandi gjaldskrá stefnanda. Nemi mismunurinn 2.435.280 krónum auk VSK. Sé fjárhæð umstefndra reikninga því mjög sanngjörn gagnvart stefnda. Samtals hafi skv. verkskýrslu, sem nái allt fram til 21. mars 2014, farið 554,70 vinnustundir í þjónustu við stefnda, 29 bílferðir auk útlagðs kostnaðar. Bent er á að í reikningi nr. 3519 sé ranglega sagt að verktímabilið hafi náð til 23. mars 2014 í stað 21. mars 2014 og leiðréttist það hér með. Af skráðum heildarfjölda vinnustunda frá september 2003 til júlí 2013 hafi áður verið reikningsfærðar á tímabilinu samtals 111,5 klst., í átta áfangareikningum, auk tveggja síðari reikninga, 19,76 klst. með reikningi nr. 2801, útg. 9. desember 2013 og 89,84 klst. með reikningi nr. 2859, útg. 20. mars 2014. Samtals hefðu því áður verið reikningsfærðar með 10 reikningum 221,10 klst. (111,50 + 19,76,5 + 89,84 = 221,10), af heildarfjölda vinnustunda, pr. júní 2013, sem þá voru 542,0 klst., sbr. samandregið yfirlit um viðfangsefni í verkskýrslu, sem gert hafði verið á þeim tíma og kynnt stefnda. Með kreditreikningi nr. 2860 að fjárhæð 6.401 króna, útgefnum 20. mars 2013, hafi verið færðar til baka 0,27 klst. af reikningi nr. 2859 útg. sama dag til jöfnunar, en við útgáfu þeirra tveggja reikninga, sem mynda stefnukröfuna, hafi þess ekki verið gætt að hafa þá hærri sem þessum 0,27 klst. nemur. Áskilji stefnandi sér að krefjast síðar greiðslu þessa mismunar um leið og stefnda verður gerður reikningur fyrir þjónustu í febrúar 2015 og eftir atvikum fyrir frekari óskráðri þjónustu eftir að skráningum í verkskýrslu sleppir eftir 21. mars 2014.

Þann 4. desember sl. hafi stefnandi síðan gefið út umstefndan reikning nr. 3516 á hendur stefnda fyrir þeim 320,9 klst., sem þá hafi staðið eftir af fyrrnefndum 542,0 klst., skv. nefndu verkefnayfirliti pr. júní 2013 (542,0 – 221,10 = 320,9) samtals með akstri og VSK 7.652.387 krónur. Þann 13. desember s. l. hafi stefnandi loks gefið út umstefndan reikning á stefnda nr. 3519 fyrir þeim 12,7 klst. auk aksturs, sem farið höfðu í þjónustu við stefnda frá júlí 2013 til loka verkskýrslunnar 21. mars 2014.  Fjárhæð þess reiknings sé 307.322 krónur. Samtals nemi þessir tveir síðastnefndu reikningar stefnufjárhæðinni, 7.959.709 krónum.

Stefnandi kveður að innheimtuverkefni fyrir stefnda hafi hins vegar verið reikningsfærð sérstaklega eftir lok þeirra og gengið frá uppgjörum, sem ýmist voru greidd inn á bankareikning stefnda eða hafi gengið upp í veitta þjónustu í tímavinnu skv. verkskýrslu, en stefndi hafi greitt stefnanda einnig alloft og sérstaklega inn á veitta þjónustu í tímavinnu. Slíkar innborganir hafi verið um 14 talsins frá upphafi viðskiptanna, þar af sú síðasta 27. desember 2013, að fjárhæð 250.000 krónur. Þannig hafi stefndi t.d. greitt á árunum 2011-2013 samtals 2.903.000 krónur beint inn á þjónustu stefnanda skv. verkskýrslu með ellefu greiðslum, þar af á árinu 2013, 1.077.500 krónur í fimm greiðslum og hafi síðasta greiðslan, 250.000 krónur verið innt af hendi þann 27. desember 2013 eins og áður greini. Áfangareikningar hafi verið gefnir út eins og að framan sé rakið, en ávallt verið ljóst að óreikningsfært þjónustuframlag stefnanda hafi á hverjum tíma numið mun hærri fjárhæð en nam innistæðu á viðskiptareikningi stefnda. Hafi stefnda margoft verið gerð grein fyrir því. 

Stefnandi kveður stefnda ávallt hafi óskað eftir þjónustu stefnanda í hverju verkefni, og verið fullkunnugt um viðskiptaskilmála og gjaldskrá stefnanda vegna uppgjöra innheimtumála, innborgana hans og áfangareikninga sem hann hafi móttekið athugasemdalaust. Þá njóti við gagna um umfangsmikil samskipti málsaðila í tölvupósti, þar sem stefnandi hafi kynnt stefnda stöðu mála, sent uppgjörsupplýsingar, reikninga, leiðrétt ýmsan misskilning stefnda og knúið jafnframt á um greiðslu verkkostnaðar. Bæði fyrir og eftir útgáfu umstefndra reikninga hafi stefnandi ítrekað leitast við að ná samkomulagi við stefnda um uppgjör þess kostnaðar sem eftir standi. Viðleitni stefnanda til að ná samkomulagi við stefnda utan réttar hefur reynst árangurslaus. Sé stefnanda því nauðsyn að fara með kröfu þessa fyrir dóm.

Stefnandi styður kröfugerð sína við almennar reglur kröfu- og samningaréttar, m.a. um efndir skuldbindinga, og að greiða beri fyrir umbeðna þjónustu. Vísað er til 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um málskostnaðarkröfu stefnanda.

 

 

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi krefst sýknu af dómkröfu stefnanda á grundvelli eftirfarandi málsástæðna: Stefndi byggir fyrst á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem verkskýrslur að baki umstefndum reikningum beri það með sér að meint vinna stefnanda hafi í mörgum tilvikum verið í þágu annarra aðila en stefnda. Þannig komi fram í verkskýrslum að vinnan hafi verið fyrir Smárahótel ehf., Innak ehf. og Anton ehf., kt. 000000-0000. Stefndi telur að aldrei sé hægt að dæma hann til greiðslu fyrir vinnu fyrir aðra lögaðila og því sé einboðið að sýkna hann af kröfum stefnanda á grundvelli aðildarskorts.

Stefndi byggir á því að engin greiðsluskylda sé til staðar, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á greiðsluskyldu stefnda á hinum umstefndu reikningum. Stefndi hafi átt uppsafnaða fjármuni á fjárvörslureikningi hjá stefnanda, allt þar til 20. mars 2014 þegar stefnandi hafi tekið þá fjármuni út, án heimildar frá stefnda, og ráðstafað þeim til greiðslu fyrir vinnu. Engin heimild sé fyrir ráðstöfunum af þessum toga í gjaldskrá stefnanda eða í viðskiptaskilmálum á reikningum. Af viðskiptamannayfirliti stefnda hjá stefnanda megi sjá að stefnandi hafi sjálfur litið svo á að hvorugur aðili ætti kröfu á hinn eftir framangreinda ráðstöfun. Samkvæmt viðskiptamannayfirlitinu hafi stefndi verið skuldlaus við stefnanda á tímabilinu frá 20. mars 2014 til 4. desember 2017 eða allt þar til stefnandi hafi hafið að bakfæra tilteknar nótur, leiðrétta reikninga og gefa út nýja reikninga í þeim tilgangi að reyna að innheimta fjármuni fyrir meinta vinnu sem skv. gögnum stefnanda sjálfs hafi verið unnin á tímabilinu frá september 2003 til mars 2014.

Stefndi byggir á því að greiðsluskylda sé ekki til staðar fyrir umstefndum reikningum máls þessa. Fyrir það fyrsta sé óljóst fyrir hvaða vinnu sé verið að innheimta og ómögulegt að átta sig á því út frá framlögðum reikningum. Þá leggi stefnandi fram verkskýrslu sem eigi að sýna meinta vinnu í þágu stefnda. Í verkskýrslunni komi fram að stefnandi eigi að hafa unnið samtals 554,7 klst. í þágu stefnda á tímabilinu frá 4. september 2003 til 21. mars 2014. Í öðrum af framlögðum reikningum segi þó að heildarvinna í þágu stefnda hafi verið örlítið minni eða 542 klst. og virðist reikningurinn taka til þeirrar vinnu að frádreginni 221,1 klst. vinnu. Engin tilraun sé gerð til þess í fyrrgreindum reikningum að skýra hvaða vinnu reikningarnir taki til eða hvaða vinna komi til frádráttar og sé stefnda og virðulegum dómi eftirlátið að finna út úr því. Stefna málsins og önnur málsskjöl veiti ekki frekari vísbendingar um þetta en í stefnu segi að framangreindur tímafrádráttur sé til kominn vegna þess að stefnandi hafi reikningsfært átta áfangareikninga auk tveggja síðari reikninga. Þrátt fyrir framangreint geri stefnandi þó enga tilraun í stefnu til þess að skýra hvaða vinna hafi verið reikningsfærð með þessum átta áfangareikningum og tveimur síðari reikningum og þá séu þeir heldur ekki lagðir fram í máli þessu. Leiði framangreind vanreifun og óskýrleiki ekki til frávísunar ex officio, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, telji stefndi einboðið að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda, enda sé óljóst fyrir hvaða vinnu er verið að rukka með hinum umstefndu reikningum.

Í annan stað telur stefndi að ekki sé til staðar greiðsluskylda þar sem reikningarnir séu of háir og byggist á tímum sem séu ekki rétt skráðir. Af verkskýrslum megi t.d. sjá að skráður sé mikill fjöldi tíma vegna innheimtu jafnvel þótt málatilbúnaður stefnanda sjálfs gangi út á að slík verkefni hafi verið gerð upp með öðrum hætti. Stefndi telji einnig að of margir tímar séu skráðir á einstök verk en þannig séu dæmi um að sami lögmaðurinn sé að vinna við gerð sama bréfsins í 20 klukkustundir á einum og sama deginum, sbr. framlagt dómskjal.

Stefndi byggir á því að kröfur stefnanda séu fyrndar. Eins og áður segi þá grundvallist dómkröfur stefnanda á tveimur reikningum sem gefnir hafi verið út í desember 2017, og séu vegna vinnu sem að sögn stefnanda hafi verið unnin í þágu stefnda á árunum 2003–2014. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda reiknist fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Þetta þýði að fyrningarfrestur krafna miðist við það tímamark þegar kröfuhafi átti þess fyrst kost að setja fram kröfu um efndir. Sé um hlutlæga reglu að ræða. Ef kröfuhafi hafi öðlast rétt til efnda byrji fyrningarfresturinn að líða. Verði að telja að þegar útseld þjónusta sé veitt eða fjármunir lagðir út þá verði krafa vegna þess strax gjaldkræf. Krafa vegna umbeðinnar vinnu eða útlagðs kostnaðar verði því gjaldkræf um leið og vinnan hafi verið innt af hendi eða fjármunir lagðir út. Sú ákvörðun stefnanda að gefa ekki út reikninga vegna unninnar vinnu jafnóðum hafi alfarið verið á ábyrgð stefnanda og geti stefnandi ekki undir nokkrum kringumstæðum skapað sér aukinn rétt eða lengri fyrningarfrest með því að hinkra með að gefa út reikninga í mörg ár. Líkt og verkskýrsla beri með sér þá sé krafa stefnanda á hendur stefnda tilkomin vegna vinnu sem hann telji sig hafa unnið í þágu stefnda á tímabilinu frá 4. september 2003 til og með 21. mars 2014.  Hvað skráningu stefnanda á 1,5 tíma vinnu á árinu 2014 varði, þá sé augljóst að stefndi getur aldrei borið skyldu til þess að greiða fyrir þá vinnu þar sem hún hafi annars vegar verið í þágu annars lögaðila, og hins vegar vegna innheimtumála en skv. stefnanda sjálfum hafi slík vinna verið gerð upp með öðrum hætti líkt og að framan greinir.

Stefndi telur að af frátalinni framangreindri tímaskráningu á árinu 2014 sé ljóst að öll krafa stefnanda sé tilkomin vegna vinnu sem hafi verið unnin fyrir 16. desember 2013 eða útlagðs kostnaðar sem stofnað hafi verið til fyrir framangreint tímamark. Stefndi byggir á því að fyrningarfrestur krafna stefnanda á hendur honum reiknist frá tímabilinu þegar stofnað hafi verið til kostnaðar eða vinna unnin, þ.e. frá 4. september 2003 til 16. desember 2013. Þar sem kröfur stefnanda fyrnast á fjórum árum, hvort sem er á grundvelli gildandi fyrningarlaga nr. 150/2007 eða eldri fyrningarlaga nr. 14/1905, sé ljóst að allar kröfur stefnanda á hendur stefnda hafi verið fyrndar þegar stefna var birt í málinu þann 20. desember 2017, enda hafi þá verið liðin meira en fjögur ár frá því að meint vinna var unnin. Af framangreindum sökum beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. 

Þessu til viðbótar byggir stefndi á því að stefnan hafi alls ekki verið birt honum á þessum degi heldur hafi hún ekki borist honum fyrr en 31. des. 2017, en fjölskylda fyrirsvarsmanns stefnda hafi verið erlendis yfir þau jól. Á birtingarvottorði komi fram að stefnan hafi verið birt fyrir einhverjum aðila þann 20. des. 2017 sem hafi hist þar fyrir. Stefndi kannast ekki við þann aðila og byggir á því að þarna hafi ekki verið um lögmæta birtingu að ræða.

Stefndi telur jafnframt að fyrningu hafi aldrei verið slitið. Í viðskiptamannayfirliti stefnda hjá stefnanda komi fram að stefndi hafi greitt stefnanda 250.000 krónur þann 27. desember 2013. Stefndi bendir á að engin kvittun sé lögð fram til stuðnings þessari greiðslu og verði því að telja hana ósannaða. Einhliða skjal úr tölvukerfi stefnanda geti aldrei talist sönnun fyrir þessari meintu innborgun, enda sé líklegra að um hafi verið að ræða innborgun frá þriðja aðila vegna innheimtu stefnanda í þágu stefnda. Samkvæmt málflutningsyfirlýsingu stefnanda sé slíkt máli þessu óviðkomandi, enda hafi innheimtuverkefni verið gerð upp sérstaklega og því óháð þeim verkefnum sem stefnandi kalli þjónustuverkefni og hinir umstefndu reikningar stafa frá. Hafi umrædd innborgun borist frá stefnda þá sé því mótmælt að innborgunin hafi slitið fyrningu í skilningi IV. kafla laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, enda geti innborgunin aldrei hafa farið inn á hina umstefndu reikninga þessa máls þar sem þeir höfðu þá ekki verið gefnir út. Líklegra sé að þessi meinta innborgun hafi farið til greiðslu á eldri reikningum sem séu máli þessu óviðkomandi.

Stefndi byggi einnig á því að krafa stefnanda sé fallin niður sökum tómlætis. Tómlæti stefnanda varðandi tilkynningar um kröfuna og stöðu hennar sé með hreinum ólíkindum. Þannig hafi stefnandi aldrei nokkurn tíma gert tilraun til þess að krefja stefnda um greiðslu fyrir þá vinnu sem hinir umstefndu reikningar virðast eiga að taka til. Það hafi ekki verið fyrr en við útgáfu reikninga þann 4. og 13. desember 2017 sem stefnandi hafi fyrst gert reka að því að innheimta meintar kröfur hjá stefnda sem að hans sögn séu vegna vinnu frá árunum 2003–2014. Stefndi telur að með því að hinkra í tæp fjögur til rúmlega þrettán ár með að innheimta greiðslu fyrir þjónustu hafi stefnandi sýnt af sér svo mikið tómlæti að einboðið sé að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Þó svo að stefndi geri ekki eiginlega frávísunarkröfu í máli þessu þá velti hann því upp hvort virðulegum dómi sé rétt að vísa máli þessu frá dómi ex officio sbr. 1. mgr. 100 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Grundvallist það á því að mál þetta sé verulega vanreifað og af þeim sökum sé erfitt fyrir stefnda að verjast kröfum stefnanda eins og áður hafi verið vikið að.

Stefndi telur að af öllu framangreindu virtu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda þar sem engin greiðsluskylda sé til staðar og allar kröfur stefnanda á hendur stefnda annaðhvort fyrndar eða fallnar niður sökum tómlætis.

Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu af öllum kröfum stefnanda krefst stefndi þess að krafa stefnanda verði lækkuð verulega. Vísast í framangreinda umfjöllun og málsástæður því til stuðnings.

Um lagarök er vísað til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, einkum 2., 3, 14. og 24. gr. laganna. Vísað er til brottfallinna laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Þá er vísað til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og meginreglna kauparéttar, til meginreglna kröfuréttar um tómlæti og réttaráhrif þess, til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. laganna. Stefndi gerir kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda með vísan til 129. – 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamál.

IV

Forsendur og niðurstöður

Ágreiningur aðila snýr að því hvort stefndi skuldi stefnanda fyrir ógreidda lögfræðiþjónustu. Viðskipti aðila stóðu frá árinu 2003 en aðilar eru ekki á einu máli um það hvenær lok urðu, hvort það hafi verið í desember 2013 eða í mars 2014. Upplýst var í málflutningi af stefnanda að elsta ógreidda lögfræðiþjónustan muni vera frá nóvember – desember 2007 en ekki liggja fyrir gögn um innborganir stefnda eða hvernig þeim var ráðstafað eða hvort þær innborganir hafi verið færðar inn á elstu skuld í hvert sinn. Stefnandi gaf út tvo reikninga í desember 2017 fyrir ógreiddri lögfræðiþjónustu á framangreindu tímabili sem miðar við gjaldskrá stefnanda árið 2011.

IV.1

Byggt er á aðildarskorti þar sem vinna stefnanda hafi í einhverjum tilfellum verið í þágu annarra en stefnda. Í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi kom fram að upphaflega hafi það eingöngu verið stefndi sem hafi leitað eftir þjónustu stefnanda, en síðar hafi hann óskað eftir þjónustu stefnanda fyrir fleiri félög honum tengd. Ekki verður séð að stefndi hafi við sama tækifæri óskað eftir því að nýr viðskiptamaður yrði stofnaður hjá stefnanda eða að hann hafi gert athugasemdir við tilhögun að því uppgjöri sem fram fór. Mátti stefnandi þannig treysta því að stefndi væri í öllum tilfellum samningsaðili hans, og er því ekki fallist á sýknukröfu vegna aðildarskorts.

 

IV.2

Byggt er á því að greiðsluskylda stefnda sé ekki sönnuð, og að honum hafi ekki borið að greiða stefnanda sérstaklega fyrir lögfræðiþjónustu þar sem stefnandi hafi haft umtalsverðar tekjur frá honum í formi lögfræðiinnheimtu, og hann því talið að hann gæti leitað til stefnanda með önnur lögfræðileg málefni, án þess að sérstakur reikningur yrði gerður vegna þess.

Ekki liggur fyrir skriflegur samningur milli aðila um tilhögun lögfræðiþjónustu en upplýst er að stefnandi hafði með höndum lögfræðiinnheimtu fyrir stefnda og hafi sú innheimta verið færð á sérstakan viðskiptamannareikning. Sá reikningur eða gögn honum tengd liggja ekki fyrir í málinu. Fyrir liggur hins vegar viðskiptayfirlit þar sem fram kemur fjárvarsla stefnanda fyrir stefnda og inn á þann viðskiptamannareikning voru umstefndir reikningar þessa máls færðir, og á þann reikning eru einnig færðar innborganir frá stefnda, í fyrsta sinn þann 14. nóvember 2006 að því er séð verður. Fram kom í máli fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi að hann hafi fengið í hendur áfangareikninga frá stefnanda fyrir veitta lögfræðiþjónustu, án athugasemda til fjölda ára um greiðsluskyldu af hans hálfu. Liggur því ekki annað fyrir en að stefndi hafi á einhverjum tímapunkti fallist á greiðsluskyldu fyrir veitta lögfræðiþjónustu, þótt það hafi hugsanlega ekki verið í upphafi viðskipta þeirra.

 

IV.3

Byggt er á því að kröfur málsins séu fyrndar, þar sem öll vinna stefnanda hafi átt sér stað fyrir 16. desember 2013, og fyrnist hver vinnuliður samkvæmt vinnuskýrslu á fjórum árum frá því að verki var lokið eða þegar stefnandi gat fyrst átt rétt til efnda.

Ekki er hægt að sjá af framlögðum gögnum hvenær einstökum verkefnum lauk. Ekki er að sjá að stefndi hafi gert athugasemdir við tilhögun á uppgjöri með því að gefnir voru út nefndir áfangareikningar, fyrr en í tölvupósti til stefnanda þann 19. ágúst 2013, þegar stefnandi boðaði að gefa út reikninga vegna lögfræðiþjónustu miðað við tímabilið 2003 til 1. júní 2013. Verður við það að miða að um viðvarandi þjónustu hafi verið að ræða, og því miðist upphaf fyrningar við lok þjónustunnar þegar síðasta lögfræðiþjónusta stefnanda fyrir stefnda fór fram.

Stefndi mótmælir því í greinargerð að stefnandi hafi unnið 1,5 klst. í lögfræðiþjónustu fyrir hann á árinu 2014, og að sú vinna sem komi fram á vinnuskýrslu stefnanda hafi verið í þágu annars lögaðila tengd lögfræðiinnheimtu. Í gögnum málsins er að finna tölvupóst, dags. 14. mars 2014, frá hjalti@hotelsmari.is þar sem spurt er hvernig staðan sé á skuld hjá tilgreindum þriðja aðila. Stefnandi skráir þann dag á vinnuskýrslu samskipti við bókara nefnds félags og þann 20. mars 2014 er skráð: „athugun stöðu allra innh.mála.“ Degi síðar er skráð að bókaranum hafi verið send umbeðin fylgigögn og er samtals tímafjöldi vegna þessa sagður 1,5 klst. Að mati dómsins þykir ljóst að um er að ræða verkefni tengt lögfræðiinnheimtu sem samkvæmt upplýsingum stefnanda er reikningsfært á annan viðskiptamannareikning. Ekki er ágreiningur um að stefnandi hafi þar á undan unnið að lögfræðiþjónustu fyrir stefnda þann 16. desember 2013, sem þannig markar upphaf fyrningartíma á umþrættum kröfum.

Stefnandi byggir á því að þrátt fyrir að verklok teljist frá 16. desember 2013 hafi stefndi í þrjú skipti frá þeim tíma og til ársins 2015 greitt ótilgreint inn á kröfuna, sem hafi rofið fyrningu hennar. Í fyrsta lagi hafi stefndi þann 27. desember 2013 greitt ótilgreint 250.000 krónur inn á fjárvörslureikning stefnanda. Af framlögðu viðskiptayfirliti má ætla að  greiðslunni hafi ekki fylgt nein skýring. Í gögnum málsins er að finna tölvupóst stefnanda, dags. 13. febrúar 2018 til viðskiptabanka, þar sem óskað er eftir upplýsingum um það hvort skýring hafi fylgt greiðslunni. Í svari bankans kemur fram að stefndi sé greiðandinn og fylgt hafi skýringin: „Logskil Ils greitt 650 þús.“ Dómari óskaði eftir nánari skýringu og eftir atvikum gögnum um þetta atriði sem komu ekki fram. Að mati dómsins hefur stefnandi ekki fært sönnur á það að greiðslan hafi verið greidd stefnanda ótilgreint fyrir lögfræðiþjónustu. Í öðru lagi hafi inneign stefnda á fjárvörslureikningi, sem hafi verið ráðstafað ótilgreint upp í lögfræðiþjónustu þann 20. mars 2014, rofið fyrningu. Eins og getið var þá mótmælti stefndi þann 19. ágúst 2013 því hvernig staðið yrði að boðuðu uppgjöri, og með hvaða hætti stefnandi boðaði að reikningsfæra þessa inneign stefnda á móti ógreiddri lögfræðiþjónustu. Í tölvupósti, dags. 20. mars 2014 er stefnandi enn að boða sömu reikningsfærslu og stefndi mótmælir enn í tölvupósti sama dag útreikningi og aðferðarfræði stefnanda. Enn eru tölvupóstsamskipti milli aðila degi síðar, án þess að séð verði að stefnda hafi þá verið tilkynnt um að inneign hans hefði verið skuldfærð deginum áður. Ekki er hægt að fallast á að framangreind ráðstöfun stefnanda feli í sér viðurkenningu stefnda á umþrættri kröfu sem hafi rofið fyrningu hennar. Í þriðja lagi er á því byggt að reikningur sem stefnandi gaf út á hendur stefnda í framhaldi af skuldfærslu á inneign stefnda þann 31. desember 2015, að fjárhæð 483.871 króna, hafi rofið fyrningu. Ljóst þykir að sá reikningur tengist ekki umþrættri lögfræðiþjónustu, enda er reikningurinn skráður á annað viðskiptamannanúmer, og í engu getið á viðskiptamannayfirliti því sem fylgdi gögnum málsins og á er byggt í málinu um ógreidda lögfræðiþjónustu.

Með vísan til alls framangreinds liðu meira en fjögur ár frá því að stefnandi gat fyrst átt rétt til efnda þann 16. desember 2013, en fyrning var ekki rofin fyrr en með höfðun málsins 20. desember 2017. Er því á það fallist með stefnda að krafa málsins sé fallin niður fyrir fyrningu, skv. 1. mgr. 2. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, og því beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.

Á það er fallist með stefnda að tómlæti stefnanda um útgáfu reikninga sé verulegt. Stefndi er bókhaldsskyldur aðili og má af gögnum málsins ráða að upp úr viðskiptum hafi slitnað vegna tilhögunar um útgáfu reikninga. Stefndi segir í tölvupósti til stefnanda þann 21. ágúst 2013 að hann hafi beðið skrifstofuna að senda stefnanda greiðslu, en hafi fengið þau fyrirmæli að reikningar yrðu að liggja að baki. Reikningur fyrir þeirri vinnu sem þá var rætt um, og deilt er nú um, var síðan ekki gefinn út fyrr en í desember 2017.

IV.4

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 993.860 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Bogi Hjálmtýsson kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Nýborg ehf., er sýkn af kröfu stefnanda, Lögskila ehf.

Stefnandi greiði stefnda 993.860 krónur í málskostnað.

 

                                                                             Bogi Hjálmtýsson