• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 9. febrúar 2018 í máli nr. S-478/2017:

Ákæruvaldið

(Sigurður Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Núma Fjalari Ingólfssyni

(Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

I

Mál þetta, sem þingfest var 31. janúar 2018 og dómtekið sama dag, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 12. desember 2017 á hendur Núma Fjalari Ingólfssyni, kt. 000000-0000, Súlunesi 12, Garðabæ, en dvalarstað að Asparfelli 10, Reykjavík, svohljóðandi;

„fyrir líkamsárás í Reykjavík á árinu 2017 með því að hafa fimmtudaginn 9. febrúar veist með ofbeldi að A, kt. 000000-0000, og slegið hann einu höggi í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut kjálkabrot á tveimur stöðum í neðri kjálka.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Vegna málsins gerir Hólmgeir Elías Flosason, hdl. f.h. A, kt. 000000-0000, hér eftir nefndur brotaþoli, þá kröfu að ákærða verði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. febrúar 2017, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því bótakrafa þessi er birt  og fram til greiðsludags. Þá gerir brotaþoli kröfu um að ákærða verði gert að greiða brotaþola skaðabætur sem nema útlögðum sjúkra- og lækniskostnaði, samtals að fjárhæð 28.952, sbr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Einnig gerir brotaþoli kröfu um að ákærða verði gert að greiða lögmannskostnað brotaþola við að koma kröfunni á framfæri og fylgja henni eftir fyrir dómi, eftir síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða eftir mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.“

II

Við þingfestingu málsins játaði ákærði skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa. Því var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að draga í efa að sé sannleikanum samkvæm, er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum og verður refsing hans ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, sem bundin verður skilorði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði mótmælir miskabótakröfu brotaþola og krefst þess að henni verði hafnað. Telur hann kröfuna órökstudda og fjárhæð hennar í engu samræmi við afleiðingar af broti ákærða. Vísar hann sérstaklega í því efni til framlagðs áverkavottorðs þess munn- og kjálkaskurðlæknis, sem annaðist brotaþola eftir árás ákærða.

Í tilvitnuðu áverkavottorði segir m.a. eftirfarandi: „Annars vegar var um að ræða kjálkabrot sem gekk upp í tannbogann hægra megin á framtannasvæði og niður í gegnum kjálkann að neðanverðu og var þetta brot talsvert hliðrað. Einnig var um að ræða brot undir kjálkalið vinstra megin, nokkuð neðarlega. Það brot var einnig talsvert hliðrað. Bit var gengið úr skorðum þannig að gera þurfti að brotunum. A var tekinn til aðgerðar þann 11. febrúar og var gerð hefðbundin aðgerð á brotunum þar sem þau voru spengd með títanplötum og skrúfum. Aðgerðin gekk vel og A útskrifaðist degi síðar af legudeild.“

Í lok vottorðsins segir læknirinn að honum sé ekki kunnugt um nein varanleg mein sem af þessu gæti hafa hlotist.

Með vísan til ofanritaðs þykir sannað að ákærði hafi valdið brotaþola þeim áverkum sem í ákæru greinir. Eru miskabætur hans hæfilega ákveðnar 600.000 krónur og ber krafan vexti eins og í dómsorði greinir. Ákærði verður einnig dæmdur til að greiða brotaþola útlagðan sjúkrakostnað, samtals 28.952 krónur, svo og málskostnað að fjárhæð 228.780 krónur.

Ákærði verður loks dæmdur til að greiða sakarkostnað, sem samkvæmt framlögðu yfirliti nemur 26.340 krónum, svo og þóknun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin er 210.800 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Númi Fjalar Ingólfsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. 

Ákærði greiði A 628.952 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 600.000 krónum frá 9. febrúar 2017 til 15. febrúar 2018, en frá þeim degi dráttarvexti af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags, auk málskostnaðar að fjárhæð 228.780 krónur.

Ákærði greiði 237.140 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Ómars R. Valdimarssonar lögmanns, 210.800 krónur.     

 

Ingimundur Einarsson