• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 21. mars 2018 í máli nr. S-30/2018:

 

Ákæruvaldið

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Hafsteini Viðari Halldórssyni

 

Mál þetta, sem var dómtekið 9. mars 2018, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru, útgefinni 16. janúar 2018, á hendur ákærða Hafsteini Viðari Halldórssyni, kt. 000000-0000, [...] Hafnarfirði:

I.

,,Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, föstudaginn 2. júní 2017, haft í vörslum sínum samtals 0,1 g af kókaíni og 5,58 g af kannabisefnum sem fundust við leit lögreglu í bifreiðinni [...] sem ákærði sat í við Selvogsgötu 26, Hafnarfirði.

Telst þetta varða við 4., sbr. 1. mgr. 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

II.

          Fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 4. ágúst 2017, ekið bifreiðinni [...], vestur Bústaðarveg og þaðan suður Kringlumýrarbraut undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (Tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 6,4 ng/ml og kókaín í blóði mældist 225 ng/ml) og því verið óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega í umrætt sinn. Við leit á ákærða fundust jafnframt samtals 2,24 g af kannabisefnum sem ákærði faldi innan klæða.

          Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 4., sbr. 1. mgr. 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

          Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og að gerð verði upptæk framangreind 0,1 g af kókaíni og 7,82 g af kannabisefnum, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974.

          Þess er einnig krafist að ákærði verður dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.“

          Við þingfestingu málsins 9. mars 2018 kom ákærði fyrir dóm og játaði sök. Í ljósi játningar ákærða var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framkomnum gögnum. Brot ákærða teljast því sönnuð. Umferðarlagabrot ákærða eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Þá varða fíkniefnalagabrot ákærða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974.

Ákærði er fæddur árið 1991 og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2013. Við úrlausn þessa máls hefur áhrif að ákærði gekkst undir sektargerð lögreglustjóra 18. september 2013 þess efnis að ákærði greiddi 150.000 krónur í sekt fyrir brot gegn 2. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Hinn 14. október 2013 var tvívegis gerð sektargerð við ákærða. Með annarri sektargerðinni samþykkti ákærði að greiða 140.000 krónur í sekt og sæta sviptingu ökuréttar í 12 mánuði frá 14. október 2013 vegna brots gegn 45. gr. a. umferðarlaga. Með hinni sektargerðinni samþykkti ákærði að greiða 40.000 krónur í sekt fyrir brot gegn 2. sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Með sektargerð lögreglustjóra 27. nóvember 2013 samþykkti ákærði að greiða 34.000 krónur í sekt fyrir brot gegn 2. sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Með viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 23. október 2014 samþykkti ákærði að greiða 500.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og 2. sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

Að framangreindum sakaferli og brotum ákærða virtum þykir refsing ákærða samkvæmt dómvenju réttilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

Með vísan til framangreinds ber, í samræmi við kröfugerð ákæruvalds og með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvalds, gagna málsins og 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 verða gerð upptæk þau 0,1 g af kókaíni og 7,82 g af kannabisefnum sem ákærði var með í vörslum sínum 2. júní 2017 og 4. ágúst 2017.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti sækjanda, samtals 153.269 krónur.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Hafsteinn Viðar Halldórsson, sæti fangelsi í 30 daga.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

            Ákærði sæti upptöku á 0,1 g af kókaíni og 7,82 g af kannabisefnum.

Ákærði greiði 153.269 krónur í sakarkostnað.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir