• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skjalafals

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 28. desember 2018 í máli nr. S-619/2018:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Mirjan Metohu

og

Elfrida Metohu

(Halldóra Aðalsteinsdóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 13. desember 2018, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurnesjum 22. nóvember 2018 á hendur ákærðu, Mirjan Metohu, fæddum […], og Elfrida Metohu, fæddri […], albönskum ríkisborgurum;

fyrir skjalafals, með því að hafa, miðvikudaginn 3. október 2018, framvísað við landamæraeftirlit í flugstöð Leifs Eiríkssonar, í blekkingarskyni, er þau voru á leið til Dublin á Írlandi, með flugi nr. WW852, ásamt börnum sínum tveimur, grunnfölsuðum kennivottorðum, nr. […], á nafni […], fd. […], útgefnu þann 13.02.2014 í 10 til 15 ár og nr. […], á nafni […], fd. […], útgefnu þann 07.05.2014 í 10 til 15 ár, og tveimur breytifölsuðum grískum vegabréfum, nr. […], á nafni […], fd. […], með gildistíma frá 12.03.2018 til 11.03.2021 og nr. […], á nafni […], fd. […], með gildistíma frá 11.07.2018 til 10.07.2021.

Telst þessi háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Af hálfu ákærðu er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærðu kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Forsendur og niðurstaða:

Við þingfestingu máls þessa játuðu ákærðu brot sitt án undandráttar. Játning ákærðu fær stoð í gögnum málsins. Samkvæmt því þykir sannað að ákærðu hafi gerst sek um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Sakavottorð ákærðu, sem eru albanskir ríkisborgarar, liggja ekki frammi í málinu. Engra gagna nýtur um að þau hafi áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Verður við ákvörðun refsingar tekið mið af þeirri staðreynd, sem og skýlausri játningu ákærðu. Svo sem málið liggur fyrir þykja ekki vera efni til þess að víkja frá fastmótaðri dómvenju í málum sem þessu. Refsing hvors ákærðu um sig þykir því réttilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærðu óskipt, sbr. 2. málslið 1. mgr. 236. gr. sömu laga, til greiðslu þóknunar skipaðs verjanda ákærðu, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns, er hæfilega þykir ákveðin svo sem í dómsorði greinir, og ferðakostnaðar verjanda, 10.080 krónur.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

            Ákærði Mirjan Metohu, fæddur […], sæti fangelsi í 30 daga.

            Ákærða Elfrida Metohu, fædd […], sæti fangelsi í 30 daga.

            Ákærðu greiði óskipt þóknun skipaðs verjanda síns, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns, 168.640 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og útlagðan ferðakostnað verjanda, 10.080 krónur.

 

Kristinn Halldórsson