• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 5. september 2018 í máli nr. S-138/2018:

 

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Stefáni R. Kristjánssyni

 

            Mál þetta, sem var dómtekið 22. ágúst 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 19. mars 2018, á hendur Stefáni R. Kristjánssyni, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík:

,,fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa fimmtudaginn [17.] desember 2015, haft í vörslum sínum [...] 136 stk kannabisplöntur sem voru í svefnherbergjum og forstofu og hafa um skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur, í húsi sínu að [...].

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2., sbr. 4., sbr. 4. gr. a., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 10/1997 og lög nr. 68/2001 og reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 490/2001, reglugerð nr. 248/2002 og reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er jafnframt krafist að gerðar verði upptækar framangreindar 136 stk af kannabisplöntum [...] samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerð nr. 233/2001. Þá er einnig krafist upptöku á eftirfarandi búnaði, fimm tímarofum, hitamæli, þremur loftsíum, tólf ljósaperum, tveimur lömpum, tveimur viftum, tveimur rakatækum og tveimur loftdælum sbr. 7. mgr. 5. gr. sömu laga.“

 

Við fyrirtöku málsins 22. ágúst 2018 kom ákærði fyrir dóm og játaði sök. Í ljósi játningar ákærða var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framkomnum gögnum. Brot ákærða telst því sannað og er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur árið 1962. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærða einu sinni áður verið gerð refsing, en ákærði hlaut dóm vegna umferðarlagabrots 15. mars 2005. Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu.

Samkvæmt framlögðum gögnum var húsleit að [...] heimiluð með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 17. desember 2015. Húsleitin fór fram samdægurs en við leitina lagði lögregla meðal annars hald á 136 kannabisplöntur og búnað þann sem krafist er upptöku á í ákæru. Við skýrslutöku lögreglu sama dag gekkst ákærði við því að eiga það sem haldlagt var á heimilli hans og afsalaði sér öllum búnaði til eyðingar. Ákæra var gefin út 19. mars 2018, eða rúmum tveimur árum eftir að ætlað verður að brotið hafi verið fullrannsakað, en matsgerð rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði er dagsett 11. janúar 2016.

Með vísan til framangreinds sem og greiðrar játningar ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði. Eftir atvikum og með vísan til þess dráttar sem varð á málsmeðferðinni skal fresta fullnustu refsingarinnar, og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57.  gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvaldsins, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæru verða gerðar upptækar 136 kannabisplöntur, fimm tímarofar, hitamælir, þrjár loftsíur, tólf ljósaperur, tveir lampar, tvær viftur, tvö rakatæki, og tvær loftdælur.

Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærða gert að greiða sakarkostnað málsins sem samkvæmt framlögðu yfirliti sækjanda og með stoð í öðrum gögnum málsins nemur samtals 313.108 krónum.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Stefán R. Kristjánsson, sæti fangelsi í sjö mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði sæti upptöku á 136 kannabisplöntum, fimm tímarofum, hitamæli, þremur loftsíum, tólf ljósaperum, tveimur lömpum, tveimur viftum, tveimur rakatækjum, og tveimur loftdælum.

            Ákærði greiði 313.108 krónur í sakarkostnað.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir