• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 1. nóvember 2018 í máli nr. S-349/2018:

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn

Linas Gustas

(Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður)

Osvaldas Trakelis

(Trausti Ágúst Hermannsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 17. september 2018, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 5. júlí 2018 á hendur ákærðu, Linas Gustas, kt. […], […], […], og Osvaldas Trakelis, fæddum […], með dvalarstað að […], […];

fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 22. mars 2018 í félagi staðið að innflutningi á 696,96 g af kókaíni, sem hafði 78% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Ákærðu fluttu fíkniefnin til landsins sem farþegar með flugi FI-501 frá Amsterdam í Hollandi til Keflavíkurflugvallar. Við leit tollvarða fannst í fórum ákærða Linas pakkning innanklæða í nærbuxum sem reyndist innihalda 348,59 g af kókaíni og í fórum ákærða Osvaldas fannst pakkning innanklæða í nærbuxum sem reyndist innihalda 348,37 g af kókaíni.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að framangreind fíkniefni, 696,96 g af kókaíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Kröfur ákærðu:

Ákærðu krefjast í málinu vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald sem þeir hafa sætt vegna málsins verði dregið frá refsingunni að fullri dagatölu. Þá krefjast ákærðu þess að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. hæfileg þóknun verjendum til handa.

I

Fimmtudaginn 22. mars 2018 voru ákærðu stöðvaðir í Leifsstöð eftir komu til landsins með flugi FI-501 frá Amsterdam í Hollandi, ásamt unnustu ákærða Osvaldas, A. Við leit í farangri þeirra þriggja fannst ekkert saknæmt. Við líkamsleit fundu tollverðir hins vegar pakkningar í nærbuxum beggja ákærðu, vafðar með svörtu límbandi. Pakkningarnar voru tvær og reyndust þær innihalda kókaín.

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að ákærði Osvaldas hafi í samræðum við lögreglu viðurkennt að kókaín væri í pakkningu þeirri sem hann var með innan klæða. Hversu mikið magn væri í pakkningunni sagðist ákærði ekki vita. Efnið kvað hann vera í sinni eigu. Ákærði Linas sagðist hafa fundið pakkningu þá sem hann var með í fórum sínum inni á klósetti í Amsterdam. Kvaðst hann ekki vita hvert innihald hennar væri.

Samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu voru 348,59 grömm af kókaíni í þeirri pakkningu sem ákærði Linas hafði innan klæða. Í pakkningu þeirri sem fannst á ákærða Osvaldas reyndust vera 348,37 grömm af kókaíni. Var kókaínið í báðum pakkningunum 78% að styrkleika, sbr. matsgerðir Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettar 11. apríl 2018.

Rannsókn lögreglu lauk snemma í maí 2018. Héraðssaksóknari höfðaði síðan mál þetta með útgáfu ákæru 5. júlí sl.

II

A

Ákærði Linas Gustas kvaðst hafa farið utan með vini sínum, meðákærða Osvaldas Trakelis, og unnustu hans, A, í mars sl. Fyrst hefðu þau ferðast til Litháen en þaðan hefðu þau farið til Spánar. Tilefni ferðarinnar hefði verið fyrirhuguð gifting meðákærða og unnustu hans. Í ferðinni hefði ákærði ætlað að hitta eiginkonu sína, sem hann sagði vera búsetta í Litháen. Ákærði neitaði því aðspurður að tilgangurinn með ferðalaginu hefði verið sá að smygla fíkniefnum til Íslands. Það hefði aldrei komið til tals á milli þeirra meðákærða. Osvaldas sagðist ákærði hafa kynnst á Íslandi í nóvember 2017, hvar ákærði hefði verið búsettur síðan 9. ágúst 2017.

Ákærði sagði hafa legið fyrir í upphafi ferðar þeirra héðan að leiðin myndi liggja til Barcelona á Spáni eftir dvöl í Litháen. Í Barcelona hefðu þau dvalist í fríi í tvo daga. Ákærði sagði greiðslur fyrir ferðir þeirra allra hafa verið færðar á sitt greiðslukort. Þann kostnað hefðu meðákærði og A enn ekki endurgreitt ákærða.

Í Barcelona sagði ákærði þau hafa notið leiðsagnar leiðsögumanns, B að nafni, sem þau hefðu komist í samband við á internetinu. Sá maður væri rússneskumælandi, líkt og ákærði. Ákærði Osvaldas talaði aftur á móti lítið í því tungumáli og A ekkert. Ákærði kvað B hafa sótt þau á flugvöllinn í Barcelona og vísað þeim veginn á gististað þeirra í borginni. B hefði jafnframt haft milligöngu um greiðslu fyrir gistinguna. B hefði greitt leigusalanum og ákærði síðan endurgreitt honum þann kostnað.

Frá Barcelona hefðu þau flogið til Amsterdam og þaðan til Íslands. Á snyrtingu á flugvellinum í Amsterdam hefði ákærði fyrir tilviljun rekist á pakka sem búið var að festa neðan í vegghangandi klósett. Pakkinn hefði verið vafinn með svörtu límbandi og festur við nærbuxur. Ákærði hefði tekið þá ákvörðun að taka pakkann með sér og hann hefði því farið í nærbuxurnar sem pakkinn var í utan yfir sínar eigin nærbuxur. Ákærði tók fram í því sambandi að hann hefði verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn. Hann hefði aldrei látið sér detta í hug að gera þetta allsgáður. Ákærði hefði ekki vitað hvað í pakkanum var en ætlað að kanna innihald pakkans þegar hann kæmi til Íslands. Þegar ákærði hefði síðan verið stöðvaður við komuna hingað til lands hefði hann farið að gruna að eitthvað ólöglegt væri í pakkanum. Kvaðst ákærði ekkert hafa um það vitað að meðákærði væri með sambærilegan pakka í fórum sínum.

Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa verið með síma meðferðis við komuna til landsins. Sími ákærða hefði eyðilagst er hann dvaldi í Barcelona.

B

Ákærði Osvaldas Trakelis kvaðst hafa farið utan með vini sínum, meðákærða Linas Gustas, og unnustu sinni, A, í mars sl. Um hefði verið að ræða orlofsferð og tilefnið verið væntanlegt brúkaup hans og A. Þau hefðu þá verið búin að vera par í rúman mánuð. Meðákærða hefði ákærði kynnst í nóvember 2017. Tilhögun ferðalagsins hefði verið ákveðin af þeim öllum þremur í sameiningu.

Ákærði sagði þau fyrst hafa ferðast til Litháen. Þar hefðu þau heimsótt fjölskyldur sínar og A kynnt ákærða fyrir foreldrum sínum. Þaðan hefðu þau farið til Barcelona á Spáni. Þar hefði ákærði beðið A um að giftast sér. Endanlega ákvörðun um að fara til Barcelona sagði ákærði hafa verið tekna eftir að út til Litháen var komið. Áður en lagt var af stað í ferðina hefði sá möguleiki hins vegar verið búinn að koma til tals að fara þangað. Ákærði kvað meðákærða hafa séð um að panta og greiða flugmiða fyrir þau. Framburð sinn fyrir lögreglu þess efnis að meðákærði hefði ekki greitt þennan kostnað skýrði ákærði aðspurður með því að hann hefði verið undir álagi við skýrslutökuna og þá hefði hann ekki verið í jafnvægi vegna vanvirðandi framkomu lögreglu í garð unnustu hans. Sjálfur kvaðst ákærði hafa haft reiðufé meðferðis í ferðalagið.

Ákærði sagði þau hafa skoðað sig um í Barcelona undir leiðsögn manns að nafni B. Þann mann kvaðst ákærði aldrei hafa hitt áður. Hann hefði tekið á móti þeim á hótelinu er þau komu þangað og kynnt sig. Ákærði kvaðst ekki hafa greitt fyrir gistinguna í Barcelona en á honum var að skilja að það hefði meðákærði gert. Ákærði tók fram að hann talaði ekki rússnesku. Það sagði hann A heldur ekki gera.

Ákærði kvaðst hafa fengið kókaín afhent á meðan hann stoppaði í Amsterdam á leiðinni til Íslands frá Barcelona. Efnið hefði ákærði pantað áður en hann lagði af stað í ferðina frá Íslandi. Ákærði hefði mælt sér mót við seljandann á klósetti í borginni í tölvupóstsamskiptum. Kókaínið hefði ákærði ætlað til eigin neyslu, en hann hefði á þessum tíma neytt 3-6 gramma af því efni á dag. Ákærði sagðist hafa fengið upplýsingar um að verð efnisins væri 100.000 krónur. Hann hefði hins vegar ekki haft vitneskju um hversu mikið magn af efninu væri að ræða. Greiðsluna hefði ákærði innt af hendi um leið og hann móttók fíkninefnin. Meðákærða sagði ákærði ekkert hafa vitað um þessi fíkniefnaviðskipti hans. Það hefði A heldur ekki gert. Þar sem ákærði hefði haft það á tilfinningunni að til þess gæti komið að hann yrði stöðvaður af tollvörðum við komuna til landsins hefði hann verið búinn að segja A að ef svo færi skyldi hún láta eins og hún kannaðist ekki við hann. Kvaðst ákærði aðspurður ekkert hafa vitað um að meðákærði væri einnig með fíkniefni í fórum sínum við komuna hingað til lands.

Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa verið með virkan síma meðferðis við komuna til landsins. Annar síminn hans hefði verið án símkorts en hinn hefði A eyðilagt í Barcelona. Ákærði kannaðist við að hafa átt í samskiptum við móður sína með síma A. Önnur samskipti kvaðst ákærði ekki hafa átt með þeim síma. Framburð A um annað hjá lögreglu sagði ákærði á misskilningi byggðan. Tók ákærði fram í þessu samhengi að hann hefði séð meðákærða með síma A þegar þau voru að fara frá Barcelona.

III

A kvað kynni hafa tekist með þeim ákærða Osvaldas í febrúar 2018. Mánuði síðar hefðu þau ferðast til Litháen í þeim tilgangi að hitta foreldra sína. Með þeim í för hefði verið ákærði Linas. Eftir að hafa dvalist í Litháen hefðu þau öll farið til Barcelona á Spáni þar sem þau hefðu verið saman í fríi í stuttan tíma. Þar hefði Osvaldas beðið vitnisins. Var á vitninu að skilja að áður en þau lögðu af stað frá Íslandi hefði ferðatilhögunin legið fyrir í grófum dráttum. Það hefði því legið fyrir strax í upphafi ferðalagsins að þau myndu fara til Barcelona. Vitnið sagði ákærðu hafa greitt kostnaðinn við ferðalagið að því undanskildu að vitnið hefði sjálft greitt fyrir flugið frá Íslandi til Litháen.

Í Barcelona hefðu þau hitt mann á flugvellinum sem ákærðu hefðu verið búnir að mæla sér mót við. Aðspurt taldi vitnið að maðurinn, sem vitnið sagðist ekkert hafa þekkt, héti B. Manninn sagði vitnið hafa mælt á rússneska tungu. Það tungumál kvaðst vitnið ekki tala og jafnframt hafa mjög takmarkaðan skilning á. Hið sama væri að segja um ákærða Osvaldas. Ákærði Linas talaði aftur á móti rússnesku. Vitnið sagði B hafa sýnt þeim borgina.

Vitnið sagði ákærðu hafa verið með síma í fórum sínum þegar þau dvöldu í Barcelona. Síma ákærða Osvaldas kvaðst vitnið hafa eyðilagt í kjölfar rifrildis þeirra á milli. Þá hefði ákærði Linas greint vitninu frá því að sími hans hefði dottið í gólfið og eyðilagst er þau dvöldu í Barcelona.

Vitnið kvaðst enga hugmynd hafa um það haft að ákærðu væru með fíkniefni á sér þegar þeir komu hingað til lands. Það hefði því komið vitninu í opna skjöldu er för þeirra var stöðvuð og þeir handteknir.

Fram kom hjá vitninu að skilaboð og símtöl hefðu borist í síma þess í aðdraganda heimferðarinnar sem því hefðu ekki verið ætluð. Kvað vitnið ákærða Linas hafa haft síma þess til afnota á þessum tíma. Áréttaði vitnið í þessu sambandi að það talaði ekki rússnesku. Símanúmer undir nafninu C kvaðst vitnið ekki hafa vistað í símann sinn. Það hefði ákærði Linas gert. Þá sagði vitnið símtal skömmu eftir lendingu hér á landi hafa komið frá konu sem vitnið þekkti ekki. Konan hefði verið að spyrja um á hvaða hliði þau væru. Ákærði Osvaldas hefði sagt vitninu að hann myndi útskýra símtalið fyrir því síðar.

D lögreglumaður sagði fylgst hafa verið með ákærðu og A við komuna hingað til lands vegna gruns um að þau tengdust innbrotum sem framin höfðu verið hér á landi. Fyrir hefði legið að þau fór út saman og einnig til baka. Af þeim sökum hefði vakið athygli lögreglu að fyrst eftir komuna hingað til lands hefðu þau látið eins og þau þekktust ekki og þá hefðu þau í fyrstu eftir að för þeirra var stöðvuð ekki viljað kannast hvert við annað.

Vitnið kvaðst hafa séð þær pakkningar sem ákærðu voru með innan klæða þegar þeir voru handteknir. Pakkningarnar sagði vitnið hafa verið nákvæmlega eins að gerð og lögun. Þær hefðu verið vafðar með svörtu límbandi og mótaðar þannig að koma mætti þeim fyrir undir pungi.

E, aðalvarðstjóri við embætti Tollstjóra, bar fyrir dómi að ákærði Linas hefði gefið þá skýringu í viðræðum við tollverði að hann væri kominn hingað til lands til þess að fara í afmæli vinar síns. Vitnið kvaðst hafa fengið það á tilfinninguna að ákærðu og A hefðu fyrst eftir að þau komu úr fluginu reynt að láta líta út fyrir það að þau ferðuðust ekki saman. Síðar hefðu þau hins vegar upplýst að svo væri og að A og annar maðurinn væru par.

Við leit á ákærða Linas sagði vitnið hafa fundist pakkning sem vafin hefði verið með svörtu límbandi. Pakkningin hefði verið formuð þannig að auðvelt væri að hafa hana í nærbuxunum. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna betur en að ákærði Linas hefði einungis verið í einum nærbuxum og að pakkningin hefði verið laus í þeim.

Vitnið sagði ákærða Osvaldas hafa verið með nákvæmlega eins pakkningu í sínum nærbuxum. Pakkningarnar hefðu að öllu leyti verið eins að lögun og umbúnaði. Vitnið upplýsti að það hefði starfað í rúm 30 ár við fíkniefnaleit og að það hefði aldrei áður séð pakkningar sem útbúnar hefðu verið með þessum hætti. Þær hefðu verið nánast eins og skúlptúr.

F tollsérfræðingur kvaðst hafa komið að líkamsleit á báðum ákærðu. Þegar komið hefði verið að því að leita í nærbuxum ákærða Osvaldas hefði hann tekið pakkningu úr þeim og afhent tollvörðum. Ákærði hefði upplýst að í pakkningunni væri kókaín en hann hins vegar ekki getað sagt nákvæmlega til um magnið.

Við líkamsleit á ákærða Linas hefði ákærði, fljótlega eftir að leitin hófst, tekið pakkningu úr nærbuxum sínum. Ákærði hefði aðspurður ekki upplýst hvað væri í pakkningunni.

Vitnið sagði pakkningarnar tvær sem ákærðu voru með innan klæða hafa verið eiginlega alveg eins. Þær hefðu verið vafðar með límbandi og mótaðar þannig að þær pössuðu vel í nærbuxurnar. Vitnið kvaðst á 28 ára starfstíma sínum hjá tollgæslunni ekki hafa séð pakkningar líkar þessum áður.

G, starfsmaður í tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, kvaðst hafa fengið hinar haldlögðu pakkningar til rannsóknar. Pakkningarnar hefðu verið vafðar svörtu límbandi. Þar fyrir innan hefði verið þunnt plast. Efnið hefði verið vigtað og prófað. Aðspurt kvað vitnið pakkningarnar hafa verið sambærilegar, „... eiginlega bara eins.“ Sagðist vitnið á 14 ára starfsferli sínum ekki áður hafa séð pakkningar sambærilegar að lögun.

IV

Fyrir liggur að ákærðu voru með sams konar pakkningar í nærbuxum sínum við komuna hingað til lands frá Amsterdam í Hollandi fimmtudaginn 22. mars 2018. Í þeirri pakkningu sem ákærði Linas hafði innan klæða voru 348,59 grömm af kókaíni. Í pakkningunni sem ákærði Osvaldas var með voru 348,37 grömm. Kókaínið var í báðum tilvikum 78% að styrkleika, allt sbr. efnaskýrslur tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og matsgerðir Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettar 11. apríl 2018.

Svo sem áður er rakið hefur ákærði Osvaldas játað að hafa á þeim tíma sem í ákæru greinir flutt hingað til lands frá Amsterdam kókaín í pakkningu sem hann hafði komið fyrir í nærbuxum sínum. Ákærði hefur borið að hann hafi ekki vitað hversu mikið magn kókaíns væri í pakkningunni. Með því að flytja til landsins pakkningu sem hann vissi að innihélt kókaín án þess að ganga úr skugga um hversu mikið magn kókaínsins væri sýndi ákærði af sér algert skeytingarleysi gagnvart magni efnisins. Þegar að þessu gættu verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa flutt þau 348,37 grömm af kókaíni hingað til lands sem hann var með innan klæða er hann var stöðvaður í flugstöð Leifs Eiríkssonar umræddan dag.

Ákærði Linas neitar sök. Eins og áður var rakið liggur fyrir að hann var við komuna hingað til lands 22. mars sl. með pakkningu falda innan klæða sem innihélt 348,59 grömm af kókaíni sem var 78% að styrkleika. Hvernig það atvikaðist að ákærði komst yfir pakkninguna bar hann fyrir dómi að hann hefði fyrir tilviljun rekist á pakkninguna þar sem búið hefði verið að festa hana neðan á vegghangandi klósett á flugvelli í Amsterdam. Pakkninguna sagði ákærði hafa verið festa við nærbuxur. Hann hefði ákveðið að taka pakkninguna með sér og hefði hann því klætt sig í nærbuxurnar sem pakkningin var í utan yfir sínar eigin nærbuxur. Ákærði hefur haldið því fram að hann hafi ekki þekkt innihald pakkningarinnar. Hann hafi ætlað að kanna innihaldið þegar hann kæmi til Íslands.

Skýringar ákærða Linas á því hvernig það atvikaðist að hann fékk áðurnefnda pakkningu í hendur eru afar fjarstæðukenndar. Hefur ekkert haldbært komið fram við rannsókn málsins sem styður frásögn ákærða af þeim atvikum. Þvert á móti liggur fyrir með framburði vitna, sbr. kafla III hér að framan, framlögðum ljósmyndum, efnaskýrslum tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og matsgerðum Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði að pakkningin var að lögun og gerð sambærileg þeirri pakkningu sem meðákærði flutti til landsins. Pakkningarnar innihéldu jafnframt nánast sama magn af kókaíni. Þá var styrkur kókaíns í pakkningunum nákvæmlega sá sami, eða 78% samkvæmt áðursögðu. Með vísan til alls þessa þykir dómnum mega slá því föstu að pakkningarnar hafi verið útbúnar af sama eða sömu aðilum. Að öllu þessu gættu þykir framburður ákærða vera svo ótrúverðugur að ekki verði á honum byggt að neinu leyti við úrlausn málsins. Að því sögðu og þar sem staðreynd er að ákærði flutti til landsins 22. mars sl. 348,59 grömm af kókaíni innan klæða verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi.

Stendur þá eitt eftir hvort ákærðu hafi í félagi staðið að innflutningi á öllu því kókaíni sem þeir fluttu til landsins samkvæmt framansögðu en því hafa ákærðu neitað. Samverknaður hefur verið skilgreindur svo að tveir menn eða fleiri hafi samvinnu eða samtök um framkvæmd refsiverðs verknaðar og standi nokkurn veginn jafnt að vígi um ákvarðanir og framkvæmd. Samkvæmt framansögðu voru mjög mikil líkindi með pakkningum þeim sem ákærðu fluttu til landsins að gerð og innihaldi. Þá var lögun pakkninganna óvenjuleg samkvæmt vætti þeirra lögreglumanna og starfsmanna tollsins sem afskipti höfðu af ákærðu og hafði enginn þeirra áður séð pakkningar þeim líkar. Með vísan til alls þessa þykir dómnum mega slá því föstu að pakkningarnar hafi verið útbúnar af sama eða sömu aðilum. Þá þykir dómnum ákærðu ekki hafa gefið fullnægjandi og trúverðugar skýringar á samskiptum sínum við þann aðila í Barcelona sem þeir og vitnið A báru um að ákærðu hefðu þar mælt sér mót við og heldur ekki þeim skilaboðum og samskiptum sem samkvæmt framlögðum rannsóknar­gögnum fóru fram í gegnum síma A í aðdraganda heimferðarinnar og eftir lendingu ákærðu á Keflavíkurflugvelli. Þegar við bætist að fyrir liggur að ákærðu ákváðu tilhögun ferðar sinnar í sameiningu og að þeir ferðuðust saman frá Íslandi til Litháen, þaðan til Barcelona á Spáni og að lokum þaðan til Íslands aftur, með stuttri viðkomu í Amsterdam í Hollandi, þykir framburður ákærðu um að þeir hafi ekki vitað af pakkningum hvors annars vera ótrúverðugur. Að því gættu og með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir dómnum ákæruvaldinu hafa tekist að færa á það sönnur, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að ákærðu hafi í félagi staðið að innflutningi á samtals 696,96 grömmum af kókaíni, svo sem þeim er gefið að sök í ákæru. Þegar að gættu magni hins haldlagða kókaíns og styrkleika þess þykir mega slá því föstu að efnið hafi verið ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Ákærðu verða því sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

V

Í málinu nýtur engra gagna um að ákærðu hafi áður gerst sekir um refsiverða háttsemi. Að gættu magni og styrk þeirra fíkniefna sem ákærðu fluttu í félagi til landsins og að atvikum máls að öðru leyti virtum þykir refsing ákærðu, hvors um sig, réttilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingu ákærðu kemur gæsluvarðhald sem þeir hafa sætt vegna málsins, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til frádráttar refsingu ákærða Linas kemur því gæsluvarðhald sem hann sætti frá 23.-28. mars 2018 og gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 2. október sl. til dagsins í dag. Til frádráttar refsingu ákærða Osvaldas kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 23.-28. mars 2018.

VI

Með vísan til kröfugerðar ákæruvalds, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæru verða gerð upptæk þau 696,96 grömm af kókaíni sem ákærðu voru með í fórum sínum við komuna til landsins 22. mars sl.

Eftir úrslitum málsins verður ákærðu gert að greiða sakarkostnað málsins, sbr. 1. mgr. 235. gr. og 1. og 2. mgr. 236. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærðu greiði því óskipt sakarkostnað samkvæmt framlögðu sakarkostnaðaryfirliti, dagsettu 3. júlí 2018, samtals 383.668 krónur. Þá greiði ákærði Linas þóknun skipaðs verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns. Ákærði Osvaldas greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Trausta Ágústs Hermannssonar lögmanns, og einnig þóknun verjanda síns á fyrri stigum málsins, Ómars Arnar Bjarnþórssonar lögmanns. Þóknun verjenda ákærðu þykir hæfilega ákveðin með hliðsjón af tímaskýrslum þeirra og að virtu umfangi málsins með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Linas Gustas, sæti fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 23.-28. mars 2018 og gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 2. október sl. til dagsins í dag að fullri dagatölu.

Ákærði, Osvaldas Trakelis, sæti fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 23.-28. mars 2018 að fullri dagatölu.

Ákærði Linas Gustas greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 1.475.600 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Ákærði Osvaldas Trakelis greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Trausta Ágústs Hermannssonar lögmanns, 569.160 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Ákærði Osvaldas greiði jafnframt þóknun verjanda síns á fyrri stigum málsins, Ómars Arnar Bjarnþórssonar lögmanns, 927.520 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum. Þá greiði ákærðu óskipt 383.668 krónur í annan sakarkostnað.

Ákærðu sæti upptöku 696,96 grömmum af kókaíni.

 

Kristinn Halldórsson