• Lykilorð:
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 26. október 2018 í máli nr. E-94/2018:

Skrauthús ehf.

(Þórir Örn Árnason lögmaður)

gegn

Sigurði Garðari Steinþórssyni

(Jóhannes Albert Kristbjörnsson lögmaður)

 

Mál þetta var þingfest 24. janúar 2018 og tekið til dóms 4. október sl. Stefnandi er Skrauthús ehf., Breiðvangi 16, Hafnarfirði, en stefndi er Sigurður Garðar Steinþórsson, […], […].

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verið dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 616.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. maí 2017 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

                                                                        I

            Krafa stefnanda er byggð á einum reikningi að fjárhæð 1.116.000 krónur, útgefnum 1. maí 2017 með gjalddaga 10. maí 2017. Stefnandi segir að stefnufjárhæð nemi ekki samtölu reikningsfjárhæðar, heldur sé miðað við bankakröfu á gjalddaga 10. maí 2017. Bankakrafan hafi numið reikningsfjárhæð að frádreginni innborgun að fjárhæð 500.000 krónur og því sé stefnt fyrir ógreiddum eftirstöðvum reiknings. Skuld stefnanda sé til komin vegna vinnu við […] í […] þar sem stefnandi hafi tekið að sér málun og undirbúningsvinnu. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Stefnandi kveðst hafa gert ítrekaðar tilraunir til innheimtu skuldarinnar hjá stefnda, eins og framlögð skjöl beri með sér, en send hafi verið innheimtuviðvörun og þrjú milliinnheimtubréf. Því sé þess krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna innheimtu skuldarinnar sem stofnaðist til áður en hún var send í löginnheimtu, sbr. 12. gr. innheimtulaga nr. 95/2008.

Vísað er til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en regla þessi fái m.a. stoð í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um að tekið verði tillit til áfallins innheimtukostnaðar er studd við 7. og 12. gr. laga nr. 95/2008.

II

Stefndi segir málavexti þá að framkvæmdastjóri stefnanda, Magnús Pálsson, hafi samið við stefnda munnlega um að stefnandi myndi mála og lagfæra tiltekna hluti innandyra á heimili stefnda að […] í […]. Uppsett verð fyrir verkið hafi verið 500.000 krónur. Ekki hafi verið gerður skriflegur samningur þrátt fyrir ósk stefnda um slíkt. Stefndi kveður að sér hafi fundist verkið ganga hægt en hann hafi ekki verið í aðstöðu til að fylgjast náið með daglegum verkum starfsmanna stefnanda. Aldrei hafi stefnda verið tilkynnt um aukinn kostnað við verkið eða þess óskað að samið yrði um aukagreiðslur vegna þess. Aldrei hafi verið tilkynnt um að einhverjir verkþættir hefðu reynst umfangsmeiri eða tafsamari en stefnandi hefði áætlað í upphafi.

            Af hálfu stefna er því haldið fram í greinargerð hans að hann hafi greitt stefnanda 500.000 krónur í reiðufé sem fullnaðargreiðslu fyrir verkið. Stefnandi hafi ekki gefið út kvittun fyrir móttöku greiðslunnar né gefið út reikning vegna verksins. Það hafi því komið stefnda mjög á óvart þegar honum barst reikningur að upphæð 1.116.000 krónur u.þ.b. ári eftir verklok og síðan greiðsluáskoranir um greiðslu 616.000 króna.

            Stefndi telur að viðskipti aðila falli undir lög um þjónustukaup, sbr. lög nr. 42/2000, sbr. 2. tl. 1. mgr. 1. gr. laganna. Aðstaða stefnda falli að 3. mgr. 1. gr. Stefndi telur einnig að 3. gr. eigi við um viðskipta aðila.

            Stefndi mótmælir því að samningur hafi komist á milli hans og stefnanda eins og haldið sé fram í gögnum málsins. Um sé að ræða handskrifað blað, einhliða útbúið af stefnanda eða einhverjum á hans vegum. Staðfesting á samþykki stefnda sé ekki fyrir hendi. Ósannað sé með öllu að efni munnlegs samnings aðila hafi verið með þeim hætti sem lesa megi úr skjalinu. Sönnunarbyrði um efni munnlegs samnings hvíli á þeim sem haldi slíku fram.

            Stefndi mótmælir því að sama skapi að útgefinn reikningur stefnanda sé sönnun fyrir innihaldi munnlegs samnings milli hans og stefnanda. Um sé að ræða einhliða útgefinn reikning úr bókhaldskerfi stefnanda, dags. 1. maí 2017, næstum því ári eftir að verki lauk og löngu eftir að fullnaðargreiðsla var innt af hendi. Staðfesting á samþykki stefnda sé ekki fyrir hendi. Ósannað sé með öllu að efni munnlegs samnings aðila hafi verið með þeim hætti sem lesa megi úr skjalinu. Sönnunarbyrði um efni munnlegs samnings hvíli á þeim sem haldi slíku fram.

Stefndi mótmælir því ennfremur að framlögð gögn af hálfu stefnanda séu sönnun fyrir vinnu stefnanda við verkið. Um sé að ræða einhliða skráningar í einhvers konar minnisbók eða dagbók og skráð af starfsmanni stefnanda. Hvergi sé að finna samþykki stefnda fyrir vinnustundum né lýsingu á verki. Ósannað sé með öllu að efni munnlegs samnings aðila hafi verið með þeim hætti sem lesa megi úr skjalinu.

Verði fallist á að samningur um annað og meira en 500.000 krónur hafi komist á milli stefnanda og stefnda telur stefndi að nauðsynlegt sé fyrir stefnanda að dómkveðja matsmann til að meta andvirði verksins í samræmi við 28. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000. Að öðrum kosti sé ósannað að unnið verk réttlæti þá kröfu sem stefnandi haldi fram. Kjósi stefnandi að dómkveðja ekki matsmann sé eðlilegt og rétt að hann beri hallann af sönnunarbyrði um sanngjarnt endurgjald fyrir verkið.

            Haldi stefnandi því fram að hann hafi tekið að sér viðbótarverk umfram munnlegan samning um 500.000 króna heildargreiðslu, heldur stefndi því fram að slíkt sé ósannað og auk þess hafi stefnandi ekki upplýst stefnda um slíkt, andstætt lagaskyldu, sbr. 8. gr. laganna. Verði stefnandi að bera hallann af því, bæði sönnun fyrir tilvist viðbótarverks og að hafa ekki uppfyllt lagaskyldu.

            Stefndi telur að atvik í máli þessu megi jafnframt heimfæra til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. a hvíli á atvinnurekanda að sanna að samið hafi verið sérstaklega um samning og að hann falli ekki undir 1. mgr. sama ákvæðis sem kveði á um að ákvæði 36. gr. a-d gildi um samningsskilmála sem ekki hafi verið samið um sérstaklega, enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda. Þessi staða sé uppi í máli þessu, stefndi sé neytandi og stefnandi atvinnurekandi í skilning ákvæðisins.

            Í 2. ml. 1. mgr. 36. gr. b segi að komi upp vafi um merkingu samnings, sem nefndur sé í 1. mgr. 36. gr. a, skuli túlka samninginn neytandanum í hag. Í máli þessu sé sannarlega vafi um efnisinnihald samnings aðila og hvíli því á stefnanda að sanna þau efnisatriði sem ágreiningur sé um. Þá sönnunarbyrði hafi hann alls ekki axlað.

            Stefndi byggir sýknukröfur sínar á meginreglum neytendaréttar, lögum um þjónustukaup nr. 40/2000 og lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Krafa um málskostnað úr hendi gagnaðila er byggð á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1998.

III

            Fyrirsvarsmaður stefnanda, Magnús Sigurðsson, sem er málarameistari, sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann og stefndi þekktust en þeir væru báðir félagar í Kiwanisklúbbi og hafi stefndi beðið hann um að mála heima hjá sér að […] í […]. Í ljós hafi komið að verkið var umfangsmikið og fólst m.a. í því að mála allt húsið að utan ásamt þaki, slípa upp og bera á sólpall, mála inni tvö herbergi, gang og loft, mála glugga í sólstofu, gera við súlu í stofu og mála o.fl. Töluverð undirbúningsvinna hafi fylgt verkinu, t. d. að setja trefjar í ryðguð göt á þaki og eitt herbergi hafi verið mjög illa farið vegna vatnstjóns. Þá hafi flísar í sturtu og stofu verið lagfærðar. Hann hafi ásamt starfsmanni sínum unnið verkið í apríl og maí 2016. Enginn samningur hafi verið gerður um verkið og ekki samið um verð. Aðeins hafi verið samið um það eitt að reikningur yrði ekki gefinn út. Stefndi hafi greitt honum 250.000 krónur við upphaf verks og aðrar 250.000 krónur við verklok eða samtals 500.000 krónur. Hann hafi þá upplýst stefnda um að hann og starfsmaður hans hefðu unnið alls 368 tíma við verkið og tímagjald hans væri 4000 krónur sem gerðu alls 900.000 krónur. Inni í þessum tímafjölda vær gert ráð fyrir ferðum til og frá vinnustað, tvær klukkustundir fyrir hvorn starfsmann á degi hverjum. Hafi hann boðið stefnda að greiða eftirstöðvar með mánaðarlegum greiðslum, 100.000 krónur á mánuði. Stefndi hafi þegið það en ekki staðið við greiðslur. Magnús sagði að útgáfa reiknings hefði dregist vegna þess að hann hafi verið að impra á því annað slagið við stefnda að hann greiddi skuldina en á árangurs.

            Stefndi sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi búið í húsinu meðan á verki stóð en verið erlendis á þeim tíma í um hálfa mánuð. Auk þess hafi hann verið frá vegna vinnu. Hann hafi þó fylgst nokkuð með verkinu og framvindu þess. Hann hafi verið óánægður með hversu hægt gekk og með mætingu starfsmanna stefnanda á verkstað. Þrisvar eða fjórum sinnum hafi hann beðið Magnús um að hætta með verkið en það hafi ekki orðið úr. Hann sagði einbýlishúsið vera um 180 fm fyrir utan bílskúr. Stefndi gerði ekki athugasemdir við lýsingu fyrirsvarsmanns stefnanda á umfangi verksins. Hann kvaðst hafa greitt stefnanda samtals 850.000 krónur fyrir verkið. Spurður um af hverju væri byggt á því í greinargerð hans að hann hefði greitt stefnanda 500.000 krónur svarði hann því til að hann hefði fyrir mistök upplýst lögmann sinn um að fjárhæðin væri 500.000 krónur sem væri ekki rétt.

IV

Samkvæmt framansögðu tók stefnandi að sér verk, aðallega málningarvinnu, fyrir stefnda en fyrirsvarsmaður stefnanda er málarameistari. Fyrir liggur að stefndi greiddi allt efni og er reikningur stefnanda einvörðungu vegna vinnu tveggja starfsmanna stefnanda, alls 368 tímar, 4000 krónur fyrir hverja klukkustund. Tímagjaldi hefur ekki verið mótmælt. Ekki er deilt um umfang verksins eða gæði þess. Hins vegar deila aðilar um hvort komist hafi á munnlegur samningur um endurgjald fyrir verkið. 

Stefndi heldur því fram að samið hafi verið um 850.000 krónur fyrir þjónustu stefnanda og að hann hafi greitt stefnanda þá fjárhæð. Því er mótmælt af hálfu stefnanda sem segir að við upphaf verks hafi  ekki verið samið um hvað það skyldi kosta. Þá heldur stefnandi því fram að  stefndi hafi aðeins greitt 500.000 krónur fyrir verkið. Stefndi hefur sönnunarbyrðina fyrir framangreindri staðhæfingu sinni um að það verð, er hann tilgreinir, hafi verið fastmælum bundið. Gegn mótmælum stefnanda telst sú staðhæfing hans ósönnuð. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup skal neytandi greiða það verð sem telja má sanngjarnt, hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu, með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er. Þessi lagaregla byggist á meginreglu sem birtist einnig í 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og 1. mgr. 37. gr. laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Samkvæmt dómaframkvæmd hvílir sönnunarbyrðin fyrir því að umkrafið verð sé ósanngjarnt á þeim sem heldur slíku fram. Stefnda hefur ekki tekist sú sönnun, hvorki með mati né með öðrum hætti. Þá hefur ekki verið sýnt fram á það með hvaða hætti ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning aðila fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Vaxtakröfu stefnanda er ekki mótmælt.

Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina að öllu leyti og eftir þeirri niðurstöðu verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur. Ekki hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

Gunnar Aðalsteinsson dómstjóri dæmir mál þetta.

Dómsorð

Stefndi, Sigurður Garðar Steinþórsson, greiði stefnanda, Skrauthúsi ehf., 616.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. maí 2017 til greiðsludags og 400.000 krónur í málskostnað.

 

Gunnar Aðalsteinsson