• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 6. september 2018 í máli nr. S-403/2018:

Ákæruvaldið

(Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Sverri Ágústssyni

(Jóhannes Albert Kristbjörnsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 31. ágúst 2018, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara 30. ágúst 2018 á hendur ákærða, Sverri Ágústssyni, kt. [...], [...], [...];

„fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 13. ágúst 2018, staðið að innflutningi á samtals 2.150,45 g af kókaíni, sem hafði 86 % styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin flutti ákærði til Íslands, sem farþegi með flugi frá Barcelona á Spáni, með viðkomu í Frankfurt, Þýskalandi, til Keflavíkurflugvallar, falin í fölskum botni í ferðatösku sinni.

Telst brot þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og 32/2001.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Krafist er upptöku á 2.150,45 g af kókaíni, með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhald sem hann sætti frá 14. til 31. ágúst 2018 verði dregin frá þeirri refsingu sem ákveðin verði að fullri dagatölu. Þá krefst ákærði þess að allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg þóknun til handa skipuðum verjanda.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið tekið til dóms við þingfestingu þess 31. ágúst sl. án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Forsendur og niðurstaða:

Ákærði játaði brot sitt samkvæmt ákæru héraðssaksóknara við þingfestingu málsins 31. ágúst sl. Játning ákærða samrýmist framlögðum gögnum. Brot hans telst því sannað og er það réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði er í málinu sakfelldur fyrir að hafa flutt hingað til lands mikið magn af sterku kókaíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Ákærða til málsbóta horfir játning hans og þá á hann engan sakaferil að baki samkvæmt framlögðu vottorði sakaskrár ríkisins. Ákærði var enn fremur samvinnuþýður við rannsókn málsins. Þá þykir verða að leggja til grundvallar að ákærði hafi einungis komið að flutningi efnanna hingað til lands. Hann hafi hvorki komið að skipulagningu né fjármögnun innflutningsins. Samkvæmt öllu þessu og að gættum styrkleika þeirra efna sem hér um ræðir þykir refsing ákærða, í ljósi dómaframkvæmdar, hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og níu mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 14. til 31. ágúst 2018 að fullri dagatölu, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvalds, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæru verða gerð upptæk þau 2.150,45 grömm af kókaíni sem ákærði var með í vörslum sínum við komuna til landsins 13. ágúst sl.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar lögmanns. Þóknunin þykir eftir umfangi málsins og með hliðsjón af tímaskýrslu verjanda hæfilega ákveðin, vegna vinnu hans á rannsóknarstigi og eftir höfðun málsins hér fyrir dómi, svo sem í dómsorði greinir, en gögn málsins bera ekki með sér annan sakarkostnað.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Sverrir Ágústsson, sæti fangelsi í tvö ár og níu mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 14. til 31. ágúst 2018 að fullri dagatölu.

Ákærði sæti upptöku á 2.150,45 grömmum af kókaíni.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar lögmanns, 421.600 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

Kristinn Halldórsson