• Lykilorð:
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 5. mars 2019 í máli nr. S-487/2018:

 

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Daniel Goracy

 

Mál þetta, sem var tekið til dóms 5. febrúar 2019, höfðaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum með ákæru 1. október 2018, á hendur Daniel Goracy, kt. 000000-0000,  ; ,,fyrir eftirtalin umferðar- og hegningarlagabrot:[...]

I.

Fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, laugardaginn 23. júní 2018, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökuréttindum og undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (2,7 ng/ml tetrahýdrókannabínól í blóði) og því ekki verið fær um að stjórna bifreiðinni örugglega, vestur Þjóðbraut við Reykjaneshöll, Reykjanesbæ.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 50/1987, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

II.

Fyrir skjalafals, með því að hafa, við afskipti lögreglunnar sbr. ákærulið I. framvísað við lögreglu í blekkingarskyni, fölsuðu pólsku ökuskírteini nr. 02135/04/4613, ánafnað Daniel Goracy.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar, sbr. 1. mgr. 101. gr. og 102. gr.  umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/1997 og lög nr. 69/2007.“

 

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins 5. febrúar 2019 og boðaði ekki forföll en í fyrirkalli sem var ásamt ákæru löglega birt 22. janúar 2019 var tekið fram að yrði ekki sótt þing af hans hálfu mætti hann búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið þau brot sem hann væri ákærður fyrir og að dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til ofanritaðs og gagna málsins að öðru leyti telur dómurinn þannig sannað að ákærði hafi framið þau brot sem ákært er út af og eru brot hans réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði er fæddur [...] og hefur samkvæmt framlögðu sakavottorði einu sinni áður sætt refsingu. Ákærði gekkst undir sektargerð lögreglustjóra 9. október 2017 vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fíkniefnalagabrots þess efnis að ákærði samþykkti greiðslu sektar að fjárhæð 209.000 krónur og að sæta sviptingu ökuréttar í tólf mánuði.

Samkvæmt framangreindu og að brotum ákærða virtum þykir refsing ákærða hæfi­lega ákveðin fangelsi í 30 daga, en þá refsingu þykir mega binda skilorði á þann veg sem í dómsorði greinir.

Með vísan til 4. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, skal ákærði nú jafnframt greiða 380.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Með vísan til framangreinds ber í samræmi við kröfugerð ákæruvalds og með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að svipta ákærða ökurétti í tvö ár frá birtingu dóms þess að telja.

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins sem, samkvæmt framlögðu yfirliti um slíkan kostnað og með stoð í öðrum gögnum málsins, nemur samtals 91.776 krónum.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Daniel Goracy, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði jafnframt 380.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá birtingu þessa dóms að telja.

            Ákærði greiði 91.776 krónur í sakarkostnað.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir