• Lykilorð:
  • Fasteignakaup
  • Opinber skipti
  • Óvígð sambúð
  • Sambúðarfólk - Útlagning eignar
  • Slit á fjárfélagi sambúðarfólks

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjaness, þriðjudaginn 13. mars   2018, í máli nr. Q-1/2018:

 

Hallvarður Jóhannes Guðmundsson

(Magnús Davíð Norðdahl hdl.)

gegn

Hildi Mekkín Draupnisdóttur

(Úlfar Guðmundsson hdl.)

 

Mál þetta barst dómnum 10. janúar 2018 með bréfi skiptastjóra, Magnúsar Óskarssonar hrl., dagsettu 9. sama mánaðar. Málið var þingfest 26. janúar sl. og tekið til úrskurðar 27. febrúar sl. Málskot þetta byggist á 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Sóknaraðili er Hallvarður Jóhannes Guðmundsson, kt. 000000-0000, Tjarnargötu 22, Reykjanesbæ. Varnaraðili er Hildur Mekkín Draupnisdóttir, kt. 000000-0000, Kirkjubraut 25, Reykjanesbæ.

Dómkröfur sóknaraðila eru að viðurkenndur verði eignarréttur hans að 50% hluta í fasteigninni Kirkjubraut 25 í Reykjanesbæ, fastanúmer 209-3806, auk málskostnaðar.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að öllum kröfum sóknaraðila í málinu verði hafnað og að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að 100% eignarhluta í fasteigninni. Þá krefst hún málskostnaðar.

Málavextir.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 2. október 2017 var bú aðila tekið til opinberra skipta.

            Samkvæmt gögnum málsins og framburði aðila kynntust þau á árinu 2013. Varnaraðili bjó þá að Ásbrú í Reykjanesbæ en sóknaraðili í húsnæði hjá móður sinni í Reykjanesbæ. Fljótlega eftir nokkur kynni var ákveðið að fara í fasteignakaup. Varnaraðili átti hluta í íbúð sem hún hafði fengið í arf eftir föður sinn en sóknaraðili var eignalaus.

            Í gögnum málsins liggur fyrir óundirritað kauptilboð í Kirkjuveg 43, Keflavík, dagsett 30. janúar 2014, og eru báðir aðilar tilboðsgjafar. Átti kaupverðið að vera 13.500.000 krónur.  Ekki varð af þeim kaupum.

            Þann 14. mars 2013 seldi varnaraðili ásamt systur sinni íbúð að Hringbraut 61 í Keflavík og var söluverð eignarinnar 13.000.000 króna. Átti varnaraðili 50% í þeirri eign. Ekki liggur fyrir hversu mikið var áhvílandi af skuldum á þeirri eign en samkvæmt kaupsamningnum mun það ekki hafa verið mikið.

            Þann 28. mars 2014 undirritaði varnaraðili kaupsamning vegna kaupa á Kirkjubraut 25 í Njarðvík. Var kaupverðið 23.500.000 krónur og greiddar með peningum við undirritun kaupsamnings 7.000.000 króna. Að auki var íbúðalán tekið á eignina sem hluti að greiðslu kaupverðsins, að fjárhæð 16.500.000 krónur. Var afsal gefið út fyrir eigninni 4. apríl 2014. Var eignin afhent kaupanda 28. mars 2014. Varnaraðili kvaðst hafa notað eignarhluta sinn í Hringbraut 61 ásamt 2.000.000 króna láni frá móður sinni til að borga útborgun í Kirkjubraut 25.

            Varnaraðili rekur hársnyrtistofu á eigin kennitölu en sóknaraðili starfar sem smiður hjá Íslenskum aðalverktökum hf.

            Samkvæmt ljósmyndum sem sóknaraðili lagði fram og sýna ástand eignarinnar við afhendingu þurfti að fara í ýmsar lagfæringar, málningu o.fl. sem og var gert.

            Varnaraðili er með dreng, fæddan 2010, á sínu framfæri og sóknaraðili á dóttur, fædda 2006, sem var í umgengni aðra hverja viku hjá föður sínum.

            Samkvæmt skattframtölum þá var varnaraðili með í heildargreiðslur, að teknu tilliti til tekjuskatts á árinu 2014, 2.170.036 krónur. Á árinu 2015 voru heildartekjur varnaraðila 1.949.252 krónur og á árinu 2016 2.164.799 krónur að teknu tilliti til tekjuskatts. Varnaraðili var með lausaskuldir í árslok 2014 upp á 118.692 krónur og 16.579.673 krónur í fasteignalán. Afborganir og vextir af íbúðaláninu voru samkvæmt skattframtali 822.850 krónur. Þá átti hún á innlánsreikningum og bankabókum samtals 535.709 krónur í árslok 2014. Í árslok 2015 var varnaraðili með samtals 1.321.770 krónur í skammtímaskuldir og 16.752.130 krónur í fasteignalán. Voru afborganir og vextir af íbúðaláninu samtals 650.331 króna á árinu. Þá átti hún samtals 652.611 krónur á innlánsreikningum. Á árinu 2016 var varnaraðili með samtals skammtímaskuldir upp á 997.043 krónur og 16.619.648 krónur vegna íbúðaláns. Voru afborganir og vextir af íbúðaláninu 716.008 krónur á árinu. Þá var inneign varnaraðila á innlánsreikningum 1.119.091 króna.

            Samkvæmt skattframtölum sóknaraðila var hann með í árstekjur á árinu 2014 3.384.889 krónur að teknu tilliti til tekjuskatts. Á árinu 2015 voru árstekjur 3.983.677 krónur og á árinu 2016, 5.749.038 krónur. Þá var sóknaraðili með skammtímaskuldir í árslok 2014 upp á 5.852.110 krónur og inneign á innlánsreikningum 42.411 krónur. Í árslok 2015 voru skammtímaskuldir sóknaraðila 5.593.699 krónur og inneign á innlánsreikningum 183.737 krónur. Í árslok 2016 voru skammtímaskuldir sóknaraðila 5.432.261 króna og inneign á innlánsreikningum 133.799 krónur.         

            Í gögnum málsins liggja fyrir reikningsyfirlit yfir bankareikning sóknaraðila sem sýna inn- og útgreiðslur frá 31. mars 2014 til 29. ágúst 2017. Er reikningurinn í 906.435 króna skuld í lok tímabils. Þá er yfirlit yfir kreditkortafærslur sóknaraðila í gögnum málsins frá 1. apríl 2014 til júlí 2017. Millifærslur samtals að fjárhæð 850.000 krónur af reikningi sóknaraðila inn á reikning Fanneyjar Friðriksdóttur liggur fyrir í gögnum málsins. Er ekki ágreiningur um að það hafi verið persónulegt lán sóknaraðila frá móður varnaraðila og máli þessu óviðkomandi. Að auki liggja fyrir millifærslur af bankareikningi sóknaraðila inn á bankareikning varnaraðila á árinu 2014, samtals 722.500 krónur, á árinu 2015, 308.400 krónur, á árinu 2016, samtals 259.900 krónur, og á árinu 2017, 127.500 krónur, en varnaraðili kvaðst hafa endurgreitt sóknaraðila 77.500 krónur í ágúst 2017 þar sem þau hafi þá slitið samvistir. Samtals lagði sóknaraðili inn á bankareikning varnaraðila á sambúðartímanum 1.340.800 krónur.

            Yfirlit yfir bankareikninga sóknaraðila liggja fyrir frá 31. desember 2013 til 30. ágúst 2017.

            Aðilar hófu sambúð á sama tíma og fasteignin að Kirkjubraut 24 var afhent eða í lok mars 2014 samkvæmt skýrslu þeirra fyrir dómi en slitu samvistir um miðjan ágúst 2017. Sættir um eignaskipti náðust ekki og krafðist sóknaraðili þess að bú þeirra yrði tekið til opinberra skipta. Gekk úrskurður um að opinber skipti færu fram til fjárslita á eignum þeirra þann 2. október 2017 og var Magnús Óskarsson hrl. skipaður skiptastjóri í búinu.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir kröfu sína um að viðurkennt verði að hann sé eigandi að 50% fasteignarinnar að Kirkjubraut 25 í Reykjanesbæ á því að loforð skuli halda og hafi það verið sameiginlegur skilningur aðila að fasteignin yrði sameiginleg eign þeirra beggja. Byggir hann á því að hann hafi millifært fé á bankareikninga varnaraðila að fjárhæð 1.568.300 krónur á sambúðartímanum auk þess sem hann hafi staðið straum af stórum hluta á sameiginlegum kostnaði þeirra á sambúðartímanum. Vísar sóknaraðili til úttekta á kreditkortareikningi hans og bankareiknings því til staðfestu. Að auki hafi sóknaraðili haft miklum mun meiri tekjur en varnaraðili. Sóknaraðili hafi staðið fyrir miklum endurbótum og viðhaldi á fasteigninni allt frá því að hún var keypt. Lagði sóknaraðili fram ljósmyndir því til staðfestu. Þá hafi boð á Facebook vegna innflutningsteitis verið orðað þannig: „Eins og þið sennilega vitið þá vorum við að kaupa okkur hús ...“ Auk þess hafi varnaraðili skrifað í afmæliskort til sóknaraðila: „Hlakka til komandi ára og að verða gömul með þér í nýja húsinu okkar.“ Hafi orðið „okkar“ verið undirstrikað í kortinu. Auk þessa sé haft eftir varnaraðila í álitsgerð sálfræðings frá 14. september 2015 að varnaraðili hafi sagt að þau hafi keypt sér hús en það sé á nafni varnaraðila vegna kröfu Innheimtustofnunar sveitarfélaga á hendur sóknaraðila. Sé tekið fram á þremur stöðum í skýrslunni að húsið sé þeirra sameiginlega eign. Af þessu sé ljóst að fasteignin hafi ætíð verið í sameign þeirra beggja þó svo að þinglýst eignarheimild segi annað.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

Varnaraðili byggir á því að hún hafi aldrei haft í hyggju að kaupa fasteign með sóknaraðila eftir stutt samband þeirra en þau hafi kynnst sumarið 2013. Hún hafi átt hluta af fasteign áður sem hún hafi notað til útborgunar á kaupverði húsins. Þá hafi hún farið ein í greiðslumat og staðið ein að afborgunum af láninu. Kvað hún fjölskyldu sína hafa lagt þeim lið við að mála og endurgera innviði hússins en sóknaraðili hafi einnig lagt til vinnu. Sóknaraðili hafi lagt henni til fé vegna reksturs á heimilinu en þau hafi verið fjögur í heimili aðra hverja viku er dóttir sóknaraðila hafi dvalið hjá þeim. Sóknaraðili hafi verið eignalaus og í miklum skuldum svo það hafi aldrei komið til að hún færi að fjárfesta í fasteign þar sem hann væri helmings eigandi. Sóknaraðili hafi aldrei greitt fasteignagjöld eða önnur gjöld viðkomandi fasteigninni, eingöngu lagt inn fé á hana til reksturs heimilisins. Varnaraðili hafi því lagt fram öll þau fjárframlög til kaupa á eigninni og talið hana ein fram á skattaskýrslum. Mótmælir varnaraðili því að ástæða þess að hún hafi verið ein skráð sem eigandi á fasteigninni hafi verið hræðsla við innheimtuaðgerðir Innheimtustofnunar sveitarfélaga á hendur sóknaraðila. Þá neitar varnaraðili því að hún hafi gert kauptilboð ásamt sóknaraðila í fasteignina Kirkjuveg 43 en það kauptilboð sem sóknaraðili leggi fram sé óundirritað og stafi ekki frá varnaraðila. Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa frá ársbyrjun 2013 til 11. ágúst 2017 í heildina millifært á bankareikning hennar samtals 1.372.800 krónur en það taki líka til tímabils sem þau voru ekki í sambúð. Hafi sóknaraðili millifært yfir á hana sem framlag til sameiginlegs heimilishalds þeirra svo og hafi varnaraðili krafið sóknaraðila um endurgreiðslu vegna utanlandsferðar hans sem varnaraðili hafi lagt út fyrir.

            Varnaraðili kvaðst gefa upp reiknað endurgjald hjá skattyfirvöldum þar sem hún reki fyrirtæki í eigin nafni og endurspegli laun hennar á skattframtali ekki raunverulegar ráðstöfunartekjur né taki tillit til úttekta eiganda, sbr. lið 6383 á skattaskýrslum varnaraðila  sem var fyrir árið 2016 1.887.076 krónur, fyrir árið 2015 1.803.438 krónur og fyrir árið 2014 1.964.622 krónur auk uppgefins reiknaðs endurgjalds og annarra tekna.

Varðandi tekjur sóknaraðila þá endurspegli heildartekjur hans að frádregnum tekjuskatti og útsvari ekki réttar ráðstöfunartekjur hans sökum afdráttar og skuldar við Innheimtustofnun sveitarfélaga. Þá mótmælir varnaraðili því að sóknaraðili hafi staðið fyrir miklum endurbótum og viðhaldi á fasteigninni. Þeirri útlistun sem sóknaraðili hafi sett fram í þeim efnum sé hafnað sem rangri, ósannri og þýðingarlausri. Þá mótmælir varnaraðili því að boð í innflutningspartý á Facebook sé ígildi þess að sóknaraðili hafi eignast 50% í fasteigninni enda sá texti saminn einhliða af sóknaraðila. Þá hafi áritun á afmæliskort ekkert gildi í máli þessu. Varnaraðili byggir aðallega á því að sóknaraðili hafi ekki lagt til fé til kaupa á fasteigninni, varnaraðili hafi staðið ein að rekstrarkostnaði og afborgunum af lánum, þau hafi ekki verið skráð í sambúð og sambúð þeirra hafi staðið stutt yfir. Þá hafi ekki stofnast fjárhagsleg samstaða á milli þeirra.

Forsendur og niðurstaða.

Óumdeilt er í máli þessu að varnaraðili lagði til kaupverð fasteignarinnar að Kirkjubraut 25 í Reykjanesbæ þegar kaupin voru gerð í mars 2014. Ekki er ágreiningur um að varnaraðili lagði fram útborgunargreiðslu auk þess sem hún fór ein í greiðslumat hjá Íbúðalánasjóði og tók lán að fjárhæð 16.500.000 krónur. Þá er óumdeilt að miklar endurbætur voru gerðar á fasteigninni og greinir aðila á um hver hafi gert hvað og frá hvorum aðilanum aðstoðin hafi stafað. Segja þau bæði að vinir og ættingjar þeirra beggja hafi komið til að hjálpa með ýmis handtök. Af ljósmyndum má sjá að húsið hafi verið málað hátt og lágt að utan sem innan. Ný borðplata var sett á eldhúsbekk en ekki verður séð af ljósmyndum hvort meira hafi verið gert innandyra. Af reikningsyfirliti sóknaraðila má sjá að hann hafi tekið út vörur í Múrbúðinni og Bykó á tímabilinu apríl 2014 til júlí 2017, samtals um 800.000 krónur eða að meðaltali um 20.000 krónur á mánuði á sambúðartímanum. Sóknaraðili hefur ekki lagt fram neina reikninga né reynt að sýna fram á að þessar úttektir séu vegna endurbóta á fasteigninni og verður heldur ekki sú ályktun dregin þar sem sóknaraðili starfar sem húsasmiður og úttektirnar geta tengst öðrum verkum máli þessu óviðkomandi.

            Þá eru millifærslur, sem sóknaraðili byggir á að hafi skapað hjá honum eignarhlutdeild í fasteigninni, samtals að fjárhæð 1.340.800 krónur frá 3. febrúar 2014 til 10. mars 2017 eða að jafnaði rúmlega 33.000 krónur á mánuði varla meiri en sem nemur framfærslukostnaði hans sjálfs. 

            Samkvæmt útreikningi frá Íbúðalánasjóði er mánaðarleg greiðslubyrði af láni áhvílandi á fasteigninni um 76.000 krónur sem varnaraðili hefur staðið straum af. Þá hafa orkureikningar verið greiddir af varnaraðila.

            Gegn mótmælum varnaraðila verður ekki tekið undir þá málsástæðu sóknaraðila að 50% hlutdeild hans í fasteigninni hafi skapast með skilaboðum sem hann sendi sjálfur til vina um boð á heimili aðila. Þá er ekki tekið undir þá málsástæðu að afmæliskort sem varnaraðili sendi sóknaraðila geti verið grundvöllur að eignarhlutdeild hans. Að auki verður ekki byggt á því að í þeim ummælum sem koma fram í matsskýrslu vegna forsjárdeilu sóknaraðila og barnsmóður hans hafi falist skuldbindingargildi að fjármunarétti fyrir varnaraðila.

            Þá er til úrlausnar hvort vinnuframlag og fjárframlög sóknaraðila hafi skapað eignarhlutdeild í fasteigninni.

            Aðilar bjuggu saman í fasteigninni frá byrjun apríl 2014 þar til í ágúst 2017 eða rúmlega þrjú ár. Aðilar voru ekki skráð í sambúð og eignuðustu ekki barn saman. Þau bjuggu sér hins vegar sameiginlegt heimili með vinnu og fjárframlögum. Varnaraðili var með eitt barn á sínu framfæri og sóknaraðili með eitt barn í umgengni aðra hverja viku samkvæmt framburði varnaraðila. Verður að því virtu að telja að framlag varnaraðila hafi þurft að vera ívið meira til heimilisrekstursins en sóknaraðila, sé jafnræðis gætt.

Eins og mál þetta liggur fyrir eru gögn um framlög hvors aðila um sig og um það hvernig meta eigi framlög ættingja og vina, sem veittu þeim aðstoð við endurbætur fasteignarinnar, ekki fullnægjandi grundvöllur til að unnt sé að ákveða í þessu máli önnur eignarhlutföll en greinir í kaupsamningi og afsali.

Af virtum þeim framlögum sem sóknaraðili lagði sannanlega inn á bankareikning varnaraðila telur dómurinn að honum hafi ekki tekist að sanna að slíkur munur hafi verið á framlögum þeirra að fallast megi á kröfu hans um að hann sé eigandi að 50% eignarhluta fasteignarinnar að Kirkjubraut 25, Reykjanesbæ, fastanúmer 209-3806.

            Að öllu framantöldu virtu er kröfu sóknaraðila um að viðurkenndur verði eignarréttur hans að 50% eignarhluta í fasteigninni hafnað.

            Að þessum niðurstöðum fengnum ber sóknaraðila að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilegur 500.000 krónur.

 

Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

 

Úrskurðarorð.

Kröfu sóknaraðila, um að viðurkenndur verði 50% eignarréttur hans í fasteigninni Kirkjubraut 25, í Reykjanesbæ, fastanúmer 209-3806, er hafnað.

            Sóknaraðili greiði varnaraðila 500.000 krónur í málskostnað.

                                                                       

                                                                                    Ástríður Grímsdóttir.

Rétt endurrit staðfestir

Héraðsdómur Reykjaness 13.3. 2018.