• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Skipstjóri
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 2. nóvember 2018 í máli nr. S-341/2017:

Ákæruvaldið

(Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Baldvin Reyr Gunnarssyni

(Bjarni Hólmar Einarsson hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 7. september, er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, á hendur Baldvin Reyr Gunnarssyni, kt. 000000-0000, [...].

Fyrri ákæra er gefin út 26. september 2017 og er „fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 28. nóvember 2016, ekið bifreiðinni [...], óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 760 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 3,0 ng/ml) eftir Reykjanesbraut uns lögreglan stöðvaði bifreiðina við Hvassahraun í Hafnarfirði[.] Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. l. nr. 66/2006 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er einnig krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 4. gr.  laga nr. 57/1997  og 18. gr. laga nr. 66/2006. Krafist er upptöku á 102,18 g af amfetamíni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

Síðari ákæra er gefin út 17. október 2017 og er fyrir „eftirgreind brot á siglingalögum, lögum um lögskráningu sjómanna og umferðarlögum:

I.

Brot á siglingalögum með því að hafa:

1.  Miðvikudaginn 24. ágúst 2016 sem skipstjóri á vélbátnum [...] verið við stjórn bátsins undir stjórn [sic] ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 485 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 3,8 ng/ml) en lögregla handtók hann eftir komu hans til hafnar á Norðurfirði fimmtudaginn 25. ágúst 2016. Telst þetta varða við 2. mgr., sbr. 3. mgr. 238. gr. siglingalaga nr. 34/1985, sbr. 1. gr. laga nr. 101/2006.

II.

Brot gegn lögum um lögskráningu sjómanna með því að hafa:

2. Miðvikudaginn 24. ágúst 2016 vanrækt að lögskrá 2 skipverja á vélbátinn [...] [...] áður en hann lagði úr höfn. Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 4. gr., sbr. 9. gr. laga um lögskráningu sjómanna nr. 35/2010.

III.

Brot gegn umferðarlögum með því að hafa:

3. Miðvikudaginn 9. nóvember 2016 í Hafnarfirði ekið bifreiðinni [...] án þess að hafa ökuskírteini meðferðis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 625 ng/ml, metamfetamín 30 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 9,5 ng/ml og auk þeirra fannst kókaín í þvagi) um Dalshraun uns lögregla stöðvaði aksturinn og fyrir að hafa á sama tíma haft í vörslum sínum 9,78 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit og lagði hald á.

4. Laugardaginn 4. apríl 2017 í Reykjavík ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 765 ng/ml, MDMA 370 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 8,1 ng/ml og auk þeirra fannst kókaín og metýlfenídat í þvagi) um bifreiðastæðið við Laugardalslaug uns lögregla stöðvaði aksturinn[.]

5. Föstudaginn 14. apríl 2017 í Kópavogi ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 695 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 19 ng/ml og auk þeirra fannst kókaín í þvagi) um Hamraborg að Kópavogsbraut uns lögregla stöðvaði aksturinn.

Teljast brot í 3., 4. og 5. lið [varða] við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, alls sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007 og auk þess varða brot í 3. og 4. lið við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 232/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar til sviptingar skipstjórnarréttinda skv. 238. gr. a siglingalaga nr. 34/1985, sbr. 2. gr. laga nr. 101/2006 svo og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 23/2001.“ Málin voru sameinuð.

Ákærði neitar sök samkvæmt I. og II. ákærulið síðari ákæru en játar að öðru leyti sök. Hann krefst vægustu refsingar sem lög leyfi. Í upphafi voru ákærða einnig gefnar að sök vörzlur nánar greinds magns amfetamíns, MDMA og maríhúana en undir rekstri málsins féll ákæruvaldið frá þeim ákæruatriðum.

 

Málavextir

Ekki þykir ástæða til að rekja málavexti þeirra ákæruliða þar sem ákærði játar sök.

Í málinu liggur kæra Landhelgisgæzlunnar til lögreglu. Segir þar að miðvikudaginn 24. ágúst 2016 hafi flugvél gæzlunnar verið kölluð út vegna fiskibáts, [...], sem verið hefði að veiðum norðaustur af Vestfjörðum, án gilds haffæriskírteinis. Um kl. 12:22 hafi verið komið að bátnum 39 sjómílur norðaustur af Hornbjargsvita, ferðlausum og að veiðum. Hafi verið haft talstöðvarsamband við bátinn og skipstjóri spurður um haffæri sem skipstjóri hefði sagt vera í lagi. Hafi skipstjóri þá verið upplýstur um að haffæriskírteini hefði runnið út 2. ágúst. Enginn hafi verið lögskráður á bátinn en um borð verið tveir menn, skipstjórinn ákærði og C. Eftir viðræður við skipstjóra og eftir að Landhelgisgæzlan hafi fengið staðfestingu á haffærileysi bátsins frá skoðunarmanni samgöngustofu hafi skipstjóra verið gert að hífa veiðarfæri úr sjó og halda þegar í stað til hafnar. Hafi skipstjóri samþykkt það og sagt sig ætla til hafnar í Norðurfirði á Ströndum. Rúmum sólarhring síðar hafi báturinn ekki enn verið kominn til hafnar í Norðurfirði og hafi þyrla gæzlunnar þá verið kölluð út til að fara til móts við bátinn og taka yfir stjórn hans ef þörf krefði. Hafi þá, að sögn skipstjóra, verið vandræði með stýrisbúnað bátsins og örðugt að komast til hafnar. Segir í skýrslunni að þá vakni „spurningar hjá LHG er varða haffæri bátsins, en haffæriskírteini var gefið út þegar báturinn var enn í hafi, stýrislaus.“

Í málinu liggur skýrsla um þyrluflug, 25. ágúst 2016. Segir þar að farið hafi verið í útkall kl. 15:59, norður á Strandir „til þess að vísa handfærabátnum [...], til hafnar vegna haffærileysis, vöntunar á lögskráningu og að hafa ekki farið eftir fyrirmælum Landhelgisgæslunnar um að halda til hafnar af sömu ástæðum.“ Fyrirhugað hafi verið að taka lögregluþjón með frá Norðurfirði „þar sem skipstjórinn á [...] var með nýlega sögu um fíkniefnalagabrot.“ Fljótlega eftir flugtak hafi stjórnstöð upplýst að báturinn væri lagður á stað til Norðurfjarðar og mætti reikna með honum við bryggju laust fyrir kl. 17:00. Hafi flugmenn ákveðið að halda áfram för. Klukkan 16:55 hafi stjórnstöð upplýst að báturinn væri kominn til hafnar á Norðurfirði. „En þar sem lögregluþjónn væri aðeins einn á vettvangi var óskað eftir því að stýrimenn [yrðu] honum innan handar við öflun upplýsinga.“ Klukkan 17:02 hafi verið lent á Norðurfirði og hafi stýrimenn haldið niður á bryggju. „Þegar komið var að, var búið að binda bátinn og voru skipverjar að undirbúa löndun. Lögregluþjónn frá Hólmavík beið á bryggjunni eftir stýrimönnum LHG. Skipstjórinn [ákærði] ásamt háseta, [C], tjáðu stýrimönnum að þeir væru búnir að vera [að] glíma við bilun á stýrisbúnaði bátsins frá því í gær. Að sögn skipstjóra héldu þeir strax af stað í land eftir að TF-SIF hafði vísað þeim til hafnar. Bilunin kom fljótlega upp. Skipstjórinn sagði að hann hafi upplýst Landhelgisgæsluna um þessa bilun. [Ákærði] sýndi stýrimönnum ofan í vélarrýmið á bátnum. Greinilegt var að búið var að vinna mikið í stýrisbúnaði bátsins. Meðal annars var skaft af goggi notað sem varahlutur. [...] Aðspurður sagðist [ákærði] vera lögskráður skipstjóri en skipsfélagi hans væri ekki skráður, en það var vegna þess að Samgöngustofa var ekki búin að setja haffærið inn á bátinn. En á þessari stundu var búið að gefa út nýtt haffæri. Eftir samtal stýrimanna á vettvangi við stjórnstöð LHG kom í ljós að enginn hafði verið lögskráður á [...] síðan 2. ágúst 2016. Lögregluþjónn hafði strax á orði við skipstjóra að honum fyndist hann vera ör og hugsanlega ekki hæfur til að stjórna bátnum. Skipstjórinn var beðinn að gefa þvagsýni í glas sem mælir fíkniefni. Í fyrstu var hann alveg til í það en snerist svo hugur. Uppúr því hófust fjölmörg símtöl skipstjóra við lögfræðing sinn og urðu úr því allskyns útskýringar og útúrsnúningar. Út frá því viðurkenndi hann að þvagsýni kæmi ekki vel út fyrir hann. Þá neitaði hann að hann væri skipstjórinn á [...] en hann væri einungis eigandi bátsins og farþegi í þessari ferð. Og að C hafi verið skipstjórinn. Við skoðun á vef Samgöngustofu kom í ljós að C er ekki með nein réttindi til skipstjórnar. [Ákærði] kvaðst ekki hafa vitað það og það væru hans mistök að hafa ekki kannað það. Þar sem ekki var vissa á þessari stundu hver væri skipstjórinn á [...] var ákveðið að fá C til þess einnig að gefa þvagsýni. Við það tækifæri var hann spurður um hvort hann væri skipstjórinn, hann neitaði því og sagði að [ákærði] væri skipstjórinn.“ Undir skýrsluna eru rituð nöfn yfirstýrimannanna E og F.

Í gögnum málsins er ljósmynd af afladagbók bátsins. Sýnir hún færslur í ágúst 2016, þar á meðal 24. ágúst. Er nafn ákærða ritað undir sem skipstjóra.

Fyrir liggur upptaka af samtali starfsmanns Landhelgisgæzlunnar við ákærða um talstöð 24. ágúst 2016. Í samtalinu vekur starfsmaður gæzlunnar athygli ákærða á að haffæriskírteini bátsins hafi runnið út 2. ágúst og segir fyrirmæli sín vera að láta ákærða „hífa og beint í land með þig núna“. Ákærði svarar á þá leið að þetta hafi átt „að vera komið í lag“ og hann þurfi að hringja í skoðunarmann. Í framhaldi af þessu vekur starfsmaður gæzlunnar athygli á að á bátinn hafi verið skráðar tvær landanir frá því haffærið hafi runnið út. Segir starfsmaður gæzlunnar svo meðal annars: „Þú hefðir átt að geta gert þér grein fyrir að þú þarft að fá þetta skírteini um borð til þín. Það þýðir ekkert að vera bara að kenna einhverjum manni í landi um þetta. Þú verður að laga þetta. Hérna, nafnið þitt, er það Baldvin?“ Ákærði játar því og spyr á hvað starfsmaður gæzlunnar hafi verið að benda. Starfsmaðurinn svarar: „Ja, ég er bara að benda þér á það að þú ert með allavega tvær skráðar landanir síðan að haffærið rann út hjá þér, þannig að það þýðir ekkert að vera að benda á einhverja menn í landi um það að þú sért ekki með haffærið um borð. Þú verður að vera með þetta klárt. Það ert þú sem ert skipstjóri, er það ekki?“ Því svarar ákærði: „Jú jú ég er skipstjóri, það er mikið rétt vinur. Málið er eitt, að hérna, að engu að síður þá er búið að skoða bátinn. Þetta haffæriskírteini sem þú ert með er bara gamalt þannig að þessar landanir eru ekkert inn á, inn á því.“ Nokkuru síðar í samtali þeirra segist starfsmaður gæzlunnar hafa heyrt að ákærði væri ekki einn um borð og spyr hver sé með honum og vekur athygli á að sá sé ótryggður „á meðan haffærið er ekki í lagi“. Ákærði segir að maðurinn heiti C. Starfsmaður gæzlunnar spyr þá: „Er hann ekki örugglega lögskráður um borð hjá þér líka?“ Því svarar ákærði: „Jú, örugglega. Við þurfum að tékka á þessu öllu.“

 

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði kvaðst vera eigandi bátsins og gera hann út. Hefði hann verið í útgerðinni frá árinu 2004. Ákærði sagði að í umræddri ferð hefði C stýrt bátnum allan tímann. Þegar lögregluþjónn hefði séð bátinn koma að landi hefði verið „dautt á bátnum og hann er að renna þarna upp að þannig að hann er búinn að drepa á bátnum og ég er klár á spottanum afturá bátnum“ eins og sjá mætti á upptöku.

Ákærði var spurður hvernig hefði staðið á því að C hefði stýrt bátnum alla ferðina og svaraði: „Ég var ekki skipstjóri í þessari ferð. Hann var búinn að ákveða að vera skipstjóri, hann var bara að prufa að fara með mér, prufa sem skipstjóri og þegar þeir eru að tala við mig í Landhelgisgæzlunni og eru að tala um skipstjórann þá eru þeir að mínu mati væntanlega að tala um þessa tvo túra á undan sem að þeir eru að tala um við mig á talstöðinni og eru að spyrja mig um hvort að ég sé skipstjóri. Ég náttúrlega er útgerðarmaðurinn á [bátnum], það er ég sem ber hagnaðinn [...] og þegar ég segi ég að þá er ég ekki að tala um mig sem skipstjóri ég er að tala sem útgerðarmaður.“

Ákærði var spurður um samtal sitt við lögregluþjón á bryggju þar sem lögregluþjónninn hefur orð á því að ákærði sé „með háseta“ og ákærði svarar á þá leið að hann verði það í framtíðinni en hann hafi verið að prufa. Ákærði sagði að þetta hefði verið í rabbi þeirra um daginn og veginn en ákærði hefði ekki talið sig vera í yfirheyrslu. „Ég vissi ekki að ég væri eitthvað skyldugur til að segja satt og rétt frá eitthvað meira en ég vildi“, bætti ákærði við.

Ákærði var spurður hvers vegna ekki kæmi fram hjá honum í samskiptum við Landhelgisgæzluna og ekki í viðræðum hans við lögregluþjón í landi, eftir að honum hafði verið gerð grein fyrir að hann þyrfti að láta þvagprufu í té og að hann hafði rætt við lögmann símleiðis, að hann hefði ekki verið skipstjóri á bátnum. Ákærði sagði „að áður fyrr, á undan þessu öllu, þá vildi maður bara ussa þá í burtu, [...] eins og þegar hann spurði mig hvort að ég væri skipstjórinn þá segi ég já já og svo ætla ég bara að halda áfram en það var bara gripið fram í fyrir mér“. Ákærði hefði ekki áttað sig „á því að þetta ferli væri í gangi“ fyrr en hann hefði tekið eftir þyrlu koma að.

Ákærði var spurður um afladagbók bátsins og hver væri þar skráður skipstjóri. Sagði hann hvern og einn dag vera tekinn og merktan „og þú setur stafina þína sem skipstjóri fyrir aftan“. Spurður um áritun í dagbókinni umrætt sinn sagði ákærði afladagbókina „meira snúast um afla [...] og að vera með þær tölur réttar [...], ég hef fyllt út afladagbók fyrir vin minn, ég veit að kannski lögum samkvæmt er það ekki rétt sko, en ég hef alveg fyll út afladagbók fyrir annan mann, þannig að hún var ekki í mínum huga sem einhver sönnunarbyrði af því að þetta er bara trúnaðarmál milli mín og fiskistofu, að það væri eitthvað sönnunarbyrði í þessu máli, þannig að ég fyllti það út.“

Ákærði var spurður um talstöðvarsamtal sitt við Landhelgisgæzluna og hvers vegna hann hefði sagzt vera skipstjóri en ekki tilgreint C sem skipstjóra. Ákærði svaraði: „Sko þegar að þú áttar þig á því að það er allt komið einhvern veginn í hund og kött þarna, það vantar haffærisskírteini á bátinn hjá þér, sem að þú telur ekki vera af þinni ástæðu og þá [...] fór ég bara í það að reyna bara að losa þá burtu, [...] ég vissi að ég var, að það var bara gott að fá þá í burtu, það hefur oftast nær hægt að svara þessu bara með einhverjum tveim þrem spurningum og þeir eru farnir og ég hélt bara að ég væri að fara í svoleiðis ferli sko.“ Ákærði hefði verið „útgerðarmaður og skipstjóri í túrunum á undan“ og hefði það ruglað sig af því „að það er alltaf verið að tala um túrana á undan“. Ákærði hefði „engan veginn“ áttað sig á að verið væri að tala um yfirstandandi veiðiferð. Þegar samskiptin við Landhelgisgæzluna hefðu byrjað hefði C beðið sig um að tala við gæzluna enda vissi hann meira sem útgerðarmaður bátsins. Ákærði hefði allt samtalið haldið að það snerist um síðustu tvær veiðiferðir á undan.  

Ákærði sagðist hafa þekkt C í um fimm ár. Þeir hefðu meðal annars verið saman á makrílveiðum. Einnig hefði hann farið einhverjar ferðir með ákærða á þeim báti sem mál þetta varðar, en þær hefðu verið örfáar. Hann hefði verið með svonefnt „pungapróf“. Væri C „góður sjómaður“.

Ákærði sagðist sjálfur ekki hafa verið með full réttindi umrætt sinn en vantað hefði upp á slysavarnarskólann hjá sér og hann hefði þá ekki verið „búinn að fá undanþágu“. Það hefði verið ástæða þess að C hefði verið skipstjóri. Einnig hefði það verið vegna þess að ákærði hefði verið „búinn að fá [sér] bjór um kvöldið“ á undan „og fannst [hann] ekki í ástandi til að fara.“ Hann hefði því, sem útgerðarmaður bátsins, ráðið C skipstjóra.

Ákærði sagðist ekki hafa verið undir áhrifum fíkniefna eða lyfja hinn 24. ágúst. Hann hefði neytt fíkniefna, skömmu áður en þeir hefðu komið í land, eftir að hafa verið í samfelldum viðgerðum.

 

Vitnið C kvaðst hafa verið skipstjóri í umræddri ferð og hefði það verið „frumraun [sín] sem slíkur“. Hefði hann aldrei verið skipstjóri áður og aldrei síðan. Vitnið sagðist hafa stýrt bátnum alla umrædda veiðiferð frá því lagt hafi verið úr höfn og þar til lagt hefði verið að landi aftur, eftir því sem hægt hefði en mjög erfitt hefði verið að stjórna bátnum vegna bilunar. Þegar rennt hefði verið að bryggju hefði enginn stýrt bátnum. Stýrið hefði þá verið nokkurn veginn óvirkt, en báturinn hefði verið settur „nokkurn veginn á stefnuna“.

Ákærði hefði sem háseti verið til aðstoðar um borð. Vitnið sagðist ekki vita til þess að ákærði hefði haldið um stýri bátsins.

Vitnið sagðist hafa talið sig vera með full réttindi til að stjórna bátnum á þessum tíma. Eftir á að hyggja hefði sér væntanlega borið að lögskrá á bátinn. Hefði verið handvömm sín að gera það ekki.

Vitnið var spurt hvers vegna hann hefði ekki talað við Landhelgisgæzluna þegar hún hefði verið í sambandi við bátinn um talsstöð, og svaraði því til að betur hefði hentað að ákærði yrði fyrir svörum enda þekkti hann betur til.

 

Vitnið D lögregluþjónn staðfesti skýrslu sína og upptöku á líkamsmyndavél sem hann hefði borið. Vitnið sagðist hafa verið sendur á staðinn Landhelgisgæzlunni til aðstoðar en ekki vegna fíkniefnasögu ákærða. „Hitt kom svo náttúrulega bara í kjölfarið þegar ég uppgötvaði í raun og veru hver maðurinn var. En við ræddum um upptökuna þarna um borð í bátnum þannig að það hefði sjálfsagt mátt tilkynna honum þar fyrr og með betri hætti að upptakan væri í gangi en honum var það strax ljóst þar sem hann hafði nú frumkvæði að því að minnast á myndavélina við mig og hvað þetta væri flott að vera með svona bodycam myndavélar.“ Aðspurður sagði vitnið að vandaðra hefði verið að tilkynna ákærða formlega um upptökuna og réttarstöðu sína.

 

Niðurstaða

Þau ákæruatriði þar sem ákærði játar sök fá næga stoð í gögnum málsins og ekki þykir ástæða til að draga játningu ákærða í efa. Ákærði telst sannur að sök samkvæmt þessu og hefur unnið sér til refsingar en háttsemi hans er rétt færð til refsiheimilda í ákæru. Fallast ber á kröfu um upptöku haldlagðra efna samkvæmt þessu.

Í málinu er einkum deilt um hvort ákærði eða vitnið C hafi verið skipstjóri í umræddri veiðiferð. Ákærði og vitnið C báru báðir fyrir dómi að hinn síðarnefndi hefði farið með skipstjórnina.

Samkvæmt 6. gr. þág. reglugerðar nr. 557/2007 um afladagbækur skyldi skipstjóri með undirritun sinni staðfesta færslur á hverri síðu í afladagbók. Eins og rakið er ritar ákærði undir afladagbók bátsins sem skipstjóri. Rakin hafa verið talsstöðvarsamskipti ákærða og Landhelgisgæzlunnar. Kemur ákærði þar fram sem skipstjóri. Í hluta samtalsins er meðal annars rætt um tvær fyrri landanir en á þeim tíma samtalsins leggur starfsmaður gæzlunnar einnig áherzlu á að haffæriskírteini eigi að vera um borð og spyr í beinu framhaldi hvort ákærði sé ekki skipstjórinn. Játar ákærði því. Síðar í samtalinu spyr starfsmaðurinn hver sé einnig um borð hjá ákærða og hvort sá maður sé lögskráður „hjá þér líka“. Því játar ákærði. Nefnir ákærði aldrei í samtalinu að í raun væri hann háseti í þessari ferð en annar maður skipstjórinn. Ákærða hlaut að vera ljóst að starfsmaður Landhelgisgæzlunnar taldi sig tala við skipstjóra bátsins.

Ákærði var eigandi bátsins og hafði gert hann út í um tólf ár þegar þetta var. Vitnið C hafði fyrir þessa ferð aldrei verið skipstjóri og hefur ekki verið síðan. Vitnið var ekki sérstaklega trúverðugt fyrir dómi. Liggur ekki fyrir í málinu að nokkur hafi hreyft því að ákærði væri ekki skipstjóri fyrr en ákærða var, eftir komu í land og viðræður við lögregluþjón, orðið ljóst að honum yrði gert að skila prufum vegna rannsóknar á mögulegri fíkniefnaneyzlu. Þegar á allt framanritað er horft verður að telja sannað í málinu að ákærði hafi í raun verið skipstjóri í umræddri ferð.

Prufur voru teknar eftir komu ákærða í land 25. ágúst. Verður af þeim ráðið að ákærði hafi þá verið undir áhrifum fíkniefna. Í ákæru er honum gefið að sök að hafa stýrt bátnum undir slíkum áhrifum 24. ágúst. Í ákæru er hins vegar ekki getið um hann hafi verið undir áhrifunum 25. ágúst. Að mati dómsins er ekki sannað, eins og málið liggur fyrir dómnum, að ákærði hafi verið undir áhrifunum 24. ágúst, en matsgerð þykir ekki taka af tvímæli um það. Verður að sýkna ákærða af því ákæruatriði að hafa stýrt bátnum undir áhrifum fíkniefna 24. ágúst 2016. Á hinn bóginn hefur hann sem skipstjóri vanrækt lögskráningarskyldu eins og honum er gefið að sök og er sök hans sönnuð og hefur hann unnið sér til refsingar en háttsemi hans er rétt færð til refsiheimildar í ákæru. Með vísan til framanritaðs verður hafnað kröfu um að ákærði verði sviptur skipstjórnarréttindum.

Af sakaferli ákærða er hér að nefna að í maí 2015 voru honum ákveðin viðurlög, 140.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og var hann jafnframt sviptur ökurétti í tólf mánuði frá 13. maí 2013 að telja. Í október 2013 var gerð við hann sátt sem fól í sér greiðslu 140.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og var ákærði jafnframt sviptur ökurétti í sex mánuði frá 13. maí 2014 að telja. Hinn 10. júlí 2014 var gerð sátt við ákærða sem fól í sér greiðslu 60.000 króna sektar fyrir akstur sviptur ökurétti. Hinn 6. febrúar 2015 var á ný gerð sátt við ákærða og fól hún í sér 100.000 króna sekt fyrir akstur sviptur ökurétti. Loks er þess að geta hér að hinn 8. marz 2017 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár fyrir fíkniefnalagabrot og brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga. Var ákærði jafnframt sviptur ökurétti í fimm ár frá birtingu dómsins að telja og samkvæmt sakavottorði telst hann sviptur ökurétti í fimm ár frá 18. apríl 2017 að telja. Brot ákærða samkvæmt fyrri ákæru og II. og III. ákærulið síðari ákæru  framdi ákærði fyrir uppsögu síðastgreinds dóms. Verður refsing ákærða samkvæmt þessu ákveðin sem hegningarauki. Dómurinn sem kveðinn var upp hinn 8. marz 2017 mun samkvæmt framanrituðu hafa verið birtur ákærða 18. apríl 2017 og var hann þá búinn að fremja öll þau brot sem hann er sakfelldur fyrir í málinu. 

Refsing ákærða verður ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Skilorðsdómur ákærða frá marz 2017 verður tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi. Verður ákærða gert að sæta fangelsi í fimm mánuði og greiða 150.000 króna sekt í ríkissjóð. Fullnustu þriggja mánaða af fangelsisrefsingunni skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð. Greiði ákærði ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins sæti hann tólf daga fangelsi. Ákærði verður sviptur ökurétti ævilangt. Málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Hólmars Einarssonar lögmanns, 1.143.590 krónur með virðisaukaskatti, greiði ákærði að þriðjungi en ríkissjóður að öðru leyti. Annan sakarkostnað, sem samkvæmt yfirlitum lögreglustjóra nemur 729.941 krónu, greiði ákærði. Gætt var 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu ákæruvaldsins fór Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari með málið. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Ákærði, Baldvin Reyr Gunnarsson, sæti fangelsi í fimm mánuði og greiði 150.000 króna sekt í ríkissjóð. Fullnustu þriggja mánaða af fangelsisrefsingunni skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Greiði ákærði ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins sæti hann tólf daga fangelsi.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt. Kröfu um sviptingu skipstjórnarréttinda er hafnað.

Upptæk eru gerð 9,78 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna Hólmars Einarssonar lögmanns, 1.143.590 krónur, greiði ákærði að þriðjungi en ríkissjóður að öðru leyti. Ákærði greiði 729.941 krónu annan sakarkostnað.

 

Þorsteinn Davíðsson