• Lykilorð:
  • Lögbann
  • Skaðabætur
  • Önnur mál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, fimmtudaginn 5. júlí 2018, í máli nr. E-1233/2017:

Annata ehf.

(Guðrún Bergsteinsdóttir hdl.)

gegn

Brynjari Þór Bjarnasyni

(Ólafur Eiríksson hrl.)

 

Mál þetta var höfðað með birtingu réttarstefnu þann 1. desember 2017, og dómtekið þann 14. júní 2018. Stefnandi er Annata ehf., kt. 000000-0000, Hagasmára 3, 201 Kópavogi. Stefndi er Brynjar Þór Bjarnason, kt. 000000-0000, Þórðarsveigi 30, 113 Reykjavík. 

Stefnandi krefst þess, „að staðfest verði með dómi lögbannsgerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. 73/2017 sem fór fram þann 24. nóvember 2017, við því að stefndi, fyrir hönd M7 ehf. eða annars félags í tengslum við stefnda, noti gögn og/eða upplýsingar í eigu stefnanda, hvort sem er í rafrænu eða skriflegu formi, án tillits til þess hvort um sé að ræða innanhúsgögn stefnanda eða gögn tengd einstökum viðskiptamönnum stefnanda, og að stefnda verði gert að greiða sér 26.005.423 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2017 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.“ Til vara krefst stefnandi þess að staðfest verði með dómi sama lögbannsgerð og getur um í aðalkröfu, og að viðurkennd verði bótaskylda stefnda gagnvart stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað auk álags á málskostnað, að teknu tilliti til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

 

I

Málavextir

Stefndi var starfsmaður stefnanda en sagði upp störfum sumarið 2017. Fólst starf stefnda í því að vera tengiliður við ákveðna viðskiptavini stefnanda um ráðgjöf og þjónustu er varðar Microsoft Dynamics hugbúnaðarlausnir, auk forritunar. Um svipað leyti og stefndi sagði upp störfum sögðu sex aðrir starfsmenn stefnanda einnig upp störfum. Af gögnum málsins er ljóst að sömu aðilar höfðu þá hafið undirbúning að stofnun félagsins M7 ehf., þar sem flestir starfa í dag, og sé tilgangur þess félags að veita þjónustu á sviði Microsoft Dynamics.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að nefndir sjö einstaklingar hafi tekið og nýtt með ólögmætum hætti gögn og/eða upplýsingar í eigu stefnanda. Lagði stefnandi fram lögbannsbeiðnir til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þann 14. nóvember 2017 gegn stefnda og samhljóða beiðnir gegn hinum sex fyrrverandi starfsmönnum. Í þeirri beiðni var krafist lögbanns við nánar tilgreindum athöfnum stefnda í fjórum stafliðum.

Sýslumaður tók kröfuna fyrir þann 23. nóvember 2017. Var málinu frestað en tekið fyrir að nýju degi síðar þegar sýslumaður tók ákvörðun um kröfurnar. Var ákvörðun hans sú að synja lögbannsgerð um stafliði a), c) og d) en hann féllst á að leggja á lögbann við staflið b) sem mál þetta fjallar um.

Stefnandi taldi það ekki lengur hafa raunhæfa þýðingu að fá úrlausn um stafliði c) og d). Í staflið a) var þess krafist að stefnda væri óheimilt að hafa samband við 17 nánar tilgreinda viðskiptavini stefnanda, eða starfsmenn þeirra, í þeim tilgangi að veita þeim þjónustu á sviði Microsoft Dynamics, hvort heldur er gegn gjaldi eða ekki, sem sjálfboðaliði, launþegi eða sjálfstæður verktaki, í nafni M7 ehf., eða annars félags, í 12 mánuði frá starfslokum við sóknaraðila. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 28. mars sl. var ákvörðun sýslumanns um synjun þess hluta kröfunnar staðfest.

Um staflið b) getur nánar um í kröfugerð málsins, og stendur krafa þessa máls og ágreiningur aðila um það hvort lögbannsgerð sú sem sýslumaður féllst á, um notkun á gögnum og/eða upplýsingum í eigu stefnanda, verði staðfest en jafnframt um  skaðabótakröfur stefnanda.

Stefndi krafðist fyrst frávísunar málsins, skv. heimild í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði. Með úrskurði dómsins þann 8. mars sl. var þeirri kröfu stefnda hafnað. Í forsendum þess úrskurðar kom hins vegar fram um kröfugerð stefnanda að hún væri í andstöðu við meginreglu 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990, þar sem ekki væri af hans hálfu krafist dóms um þau réttindi sem lögbanninu væri ætlað að vernda. Sá annmarki gæti þó ekki einn og sér valdið því að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, en stefnandi yrði þó að sæta því að dómur honum í vil myndi ekki fela í sér heimild til aðfarar eftir 75. gr. laga um aðför nr. 90/1989, sem leyst gæti af hólmi bráðabirgðavernd réttinda hans með lögbanni.

Í málinu liggur fyrir endurrit gerðabókar sýslumanns ásamt fylgiskjölum þeim sem lágu fyrir við afgreiðslu lögbannsbeiðninnar. Þá hefur stefnandi lagt fram frekari gögn um stofnun og stjórn M7 ehf., ráðningartímabil stefnda hjá stefnanda, skjáskot er eiga að sanna tilfærslur gagna frá stefnanda, og gögn um útreikning á tjóni stefnanda.

Fyrir dóminn kom, og gaf aðilaskýrslu fyrir hönd stefnanda, fyrirsvarsmaður stefnanda, Björn Gunnar Karlsson stjórnarformaður.

 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveður stefnda og meðstefndu hafa sagt upp störfum hjá stefnanda undir því yfirskini að þau vildu breyta til og kanna önnur tækifæri á vinnumarkaðinum en hafi óskað eftir því að vinna uppsagnarfrestinn og stefnandi heimilað það í góðri trú um hollustu starfsmanna sinna. Þá hafi sömu aðilar enn fremur óskað eftir því að fá að halda tölvum sínum eftir starfslok gegn gjaldi en því hafi verið hafnað af hálfu stefnanda. Síðar hafi vaknað sá grunur hjá stefnanda að stefndi og meðstefndu kynnu að hafa gerst sek um alvarlegt brot í starfi og hann því tekið tölvur Sverris, Úlfars, Davíðs og Eyjólfs og ákveðið að gera frumskoðun á þeim þar sem þær tölvur höfðu þá ekki enn verið „straujaðar“, þ.e. hreinsaðar. Við þá skoðun hafi vaknað rökstuddur grunur um að stefndu hefðu í langan tíma unnið að stofnun félagsins M7 ehf., sem væri í samkeppnisrekstri við stefnanda, áður en þau hefðu sagt upp störfum. Stefnandi hafi fundið sterkar vísbendingar um að stefndi og meðstefndu hafi tekið með sér gögn á rafrænu formi, bæði að því er varði viðskiptavini stefnanda og innanhúsgögn stefnanda. Rökstuddur grunur væri um stuld stefndu á mikilvægum gögnum sem bundin væru trúnaði gagnvart viðskiptavinum stefnanda. Það að þeim trúnaðargögnum væri  komið í hendur þriðja aðila væri eitt og sér skaðlegt stefnanda. Að auki sé um innanhúsgögn að ræða sem séu grunnstoðir í rekstri stefnanda og því sé um verulega mikilvæg gögn að ræða. 

Stefnandi upplýsir að hvorki stefndi né meðstefndu hafi verið bundnir ákvæðum um samkeppnishömlur, en undir lok júnímánaðar 2017 hafi verið unnið að því að ganga frá uppfærðum og ítarlegum ráðningarsamningi með ítarlegri ákvæðum varðandi hugverkaréttindi stefnanda, samkeppnishömlur og trúnað við starfsfólk stefnanda. Stefnandi telji stefnda því hafa vitað að stefnandi teldi samkeppnishömlur vera hluti af ráðningarsamningi hans og hafi stefndi því verið í vondri trú. Stefndi hafi aldrei neitað því efnislega að samkeppnisákvæði gilti í samskiptum þeirra, en hafi tafið og komið sér hjá undirritun nýs samnings þess efnis. Munnlegir og skriflegir samningar séu hins vegar jafngildir í íslenskum rétti og telji stefnandi að drögin að nýjum ráðningarsamningi sem liggi fyrir staðfesti það og enn fremur að stefndi hafi ekki verið í góðri trú samhliða starfi sínu hjá stefnanda.

Stefnandi upplýsir að við framangreinda könnun á tölvum þeirra Sverris, Úlfars, Davíðs og Eyjólfs hafi þá komið í ljós samantekin ráð stefnda og meðstefndu um að stofna félag í samkeppnisrekstri auk stuldar á gögnum í eigu stefnanda. Bæði sé um að ræða innanhúsgögn stefnanda og gögn er varði einstaka viðskiptavini stefnanda. Gögnin hafi verið tekin án heimildar og auk þess verið reynt að nálgast vinnugögn stefnanda eftir að stefndi hætti störfum í gegnum „One Drive“. Enn fremur hafi komið í ljós við skoðun gagnanna samskipti meðstefndu við sjálfa sig inni á einkapósthólfi ásamt vísbendingum um afritatöku tölvupósts og annarra skjala yfir á ytra gagnadrif. Þá hafi jafnframt komið í ljós skjöl sem sýni einbeittan og skýran ásetning um undirbúning að stofnun félagsins M7 ehf., hvernig það skyldi gert gagnvart stefnanda og hvaða viðskiptavini stefndi hafi ætlað að taka með sér og/eða hafa áhrif á til að ná þeim í viðskipti við sig í nafni félags á hans vegum. Telur stefnandi gögnin staðfesta að þetta hafi verið gert á meðan stefndi var starfsmaður stefnanda, bæði fyrir uppsögn sem og í uppsagnarfresti sem hann og meðstefndu hafi öll óskað eftir að vinna. Þá sé jafnframt hægt að benda á að félagið M7 ehf. hafi verið stofnað á meðan ráðningarsamband við hluta stefndu, sbr. grein 2.5 í starfslokasamningi, var enn í gangi, og því ljóst að gagna var aflað gagngert í því skyni að nota við rekstur nýs félags í samkeppni við stefnanda. Stefnandi kveðst einnig hafa upplýsingar um fundi stefnda og meðstefndu við viðskiptamenn félagsins á vinnutíma vegna væntanlegra viðskipta þeirra við nýtt félag á meðan þau hafi enn verið starfandi fyrir stefnanda og staðið þannig að slíkum fundum á kostnað stefnanda.

Stefnandi telur stefnda og meðstefndu hafa brotið alvarlega og af ásetningi gegn trúnaðar- og þagnarskyldu gagnvart stefnanda og misnotað sér traust stefnanda og þannig sýnt af sér óheiðarleika og svik við stefnanda. Hafi stefndu gerst sek um alvarlegt brot í starfi sem hafi valdið stefnanda miklu fjárhagstjóni og því sé honum nauðsynlegt að fá fram staðfestingu á því lögbanni sem sýslumaður hafi lagt við nýtingu gagna í eigu stefnanda af hálfu stefndu og meðstefndu og að fá tjónið bætt með greiðslu skaðabóta.

Stefnandi styður kröfu sína um lögbann við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Öllum skilyrðum ákvæðisins hafi verið fullnægt og því beri að staðfesta lögbann við því að stefndi, fyrir hönd M7 ehf. eða annars félags í tengslum við stefnda, noti gögn og/eða upplýsingar í eigu stefnanda, hvort sem er í rafrænu eða skriflegu formi, án tillits til þess hvort um sé að ræða innanhúsgögn stefnanda eða gögn tengd einstökum viðskiptamönnum stefnanda. Nefnt ákvæði heimili lögbann við athöfn sem sé byrjuð eða yfirvofandi ef athöfnin brjóti sannanlega gegn lögvörðum rétti þess sem krefst lögbanns og réttindi hans fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Til þess að lögbann sé staðfest sé nægilegt að stefnandi hafi gert háttsemina sennilega.

Stefnandi segist hafa verið í góðri trú og treyst því að stefndi færi leynt með þau gögn sem honum hafi verið veittur aðgangur að og verið trúað fyrir í starfi sínu fyrir stefnanda. Aðgangur stefnda að gögnunum hafi verið honum nauðsynlegur til að sinna starfi sínu fyrir stefnanda og því hafi trúnaðarskyldan verið mjög mikilvæg. Auk þess hafi stefnandi mátt treysta því að stefndi virti skyldu sína með því að sýna honum hollustu á meðan á starfi hans stóð í nafni stefnanda. Þannig hafi hvílt á stefnda sú skylda að virða samkeppnisvernd stefnanda, þannig að honum bæri að haga störfum sínum á þann hátt að ekki ógnaði samkeppnisstöðu stefnanda. Stefndi hafi hins vegar misnotað stöðu sína og upplýsingar sem hann hafi komist að í stöðu sinni sem starfsmaður stefnanda í þeim tilgangi að stofna til samkeppnisrekstrar á grundvelli trúnaðarupplýsinga og gagna í eigu stefnanda. Þannig feli háttsemi stefnda í sér augljóst brot á lögvörðum rétti stefnanda og með ákvörðun stefnda um að stofna til samkeppnisrekstrar hafi verið brostnar forsendur fyrir áframhaldandi samstarfi milli stefnanda og stefnda.

Stefnandi vísar til 16. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu en í þeirri grein komi fram að þeim sem hafi fengið vitneskju um atvinnuleyndarmál og/eða trúnaðargögn með réttmætum hætti sé óheimilt að nýta sér þau án samþykkis. Hafi stefndi gegnt trúnaðarstarfi hjá stefnanda þar sem starf hans hafi verið þjónusta við tiltekna viðskiptavini í tengslum við innleiðingu og þjónustu á Microsoft Dynamics. Stefndi hafi verið beinn tengiliður við tiltekna viðskiptavini og hafi þannig búið yfir mikilvægum trúnaðarupplýsingum í starfi sínu gagnvart þeim viðskiptavinum sem hann þjónaði. Meðal annars hafi stefndi búið yfir upplýsingum um verð fyrir þjónustu stefnanda sem gögn málsins staðfesti að stefndi sé að nýta sér til að ná til sín viðskiptavinum stefnanda. Því sé lögbanninu beint að stefnda þannig að honum verði alfarið óheimilt að nýta umrædd gögn.

Stefnandi telur stefnda hafa áætlanir um að ná til sín helstu viðskiptavinum stefnanda á íslenskum markaði en það megi glögglega ráða af gögnum málsins að stefndi hafi unnið að því í lengri tíma að sölsa undir sig viðskiptasambönd. Fari svo að stefndi fái að nýta sér þau gögn sem hann hafi tekið ófrjálsri hendi séu 79% af tekjum stefnanda á innlendum markaði í hættu. Hagsmunir stefnanda séu því verulegir.

Tjón stefnanda er skýrt annars vegar sem launagreiðslur til stefnda á ráðningartímabilinu sem hafi verið ranglega greiddar til stefnda eftir að hann hafði ákveðið að hefja samkeppnisrekstur og hins vegar það tjón sem brot stefnda hafi leitt af sér eftir að ráðningartímabili lauk varðandi einstök viðskiptasambönd stefnanda.

Stefnandi sundurliðar skaðabótakröfu sína með eftirfarandi hætti:

Launagreiðslur til stefnda auk tryggingargjalds og lífeyrissj.      kr.    8.005.423

Missir framlegðar                                                                         kr.  18.000.000

Samtals                                                                                        kr. 26.005.423

 

Stefnandi styður skaðabótakröfu sína við almennu sakarregluna. Kveðið hafi verið á um trúnaðarskyldu stefnda í ráðningasamningi hans við stefnanda auk þess sem almenn trúnaðarskylda við vinnuveitanda sé ein af meginreglum vinnuréttar. Með háttsemi sinni hafi stefndi brotið gróflega gegn samningsbundinni trúnaðarskyldu sinni gagnvart stefnanda og viðskiptavinum stefnanda. Stefndi hafi jafnframt brotið gegn umræddri trúnaðarskyldu með því að vera í vinnu fyrir stefnanda á sama tíma og hann hafi verið að skipuleggja hvernig hægt væri að klekkja á stefnanda sem vinnuveitanda, og taka með sér helstu viðskiptasambönd hans og þar með tekjur. Ásetningur stefnda hafi verið einbeittur og samráð hans við aðra starfsmenn stefnanda, sem sambærilegum málum sé beint að, sé grafalvarlegt. Stefndi og umræddir aðilar hafi kallað þessa háttsemi sína leynimakk og haldið leynilega fundi þar sem ákveðið hafi verið í sameiningu hvenær hvert og eitt þeirra hafi ætlað að segja upp störfum. Þessa háttsemi telur stefnandi vera saknæma og ólögmæta og krefst þess að stefndi bæti sér það fjártjón er hann hafi orðið fyrir vegna þeirrar háttsemi.

Stefnandi telur að brot stefnda á trúnaðarskyldu við vinnuveitanda og samkeppnisvernd hefði leytt til brottrekstrar úr starfi án fyrirvara. Stefndi hafi þannig misnotað sér traust og réttmætar væntingar á meðan hann var enn í starfi fyrir stefnanda.

Stefnandi metur fjártjón sitt til sömu fjárhæðar og laun til stefnda hafi verið á tímabilinu frá 1. júní til starfsloka að viðbættu tryggingargjaldi og lífeyrissjóðsframlagi. Stefndi hafi tekið við launum frá stefnanda á þessu tímabili, sannanlega í vondri trú, enda hið svonefnda leynimakk þá löngu hafið. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að bæta sér umrætt fjártjón sem sé bein orsök háttseminnar. Stefndi hafi gert sér grein fyrir eða hafi mátt gera sér grein fyrir því að umrædd háttsemi ylli stefnanda tjóni. Stefndi hafi vitað eða mátt vita að með umræðum um nýjan ráðningarsamning, þar sem samkeppnisákvæði hafi verið ítarlegt, teldi stefnandi slíkt ákvæði vera í gildi. Með því að skipuleggja stofnun félags í beinni samkeppni við stefnanda á sama tíma og stefndi var í vinnu fyrir stefnanda hafi verið um brot á skyldum stefnda gagnvart vinnuveitanda sínum að ræða. Fjártjón stefnanda sé þannig sennileg afleiðing þessarar háttsemi.

Stefnandi kveður fjártjón sitt einnig falið í missi framlegðar. Stefndi hafi, bæði á meðan hann var starfsmaður stefnanda og eftir starfslok, unnið markvisst að því að fá viðskiptavini stefnanda til hins nýja félags, M7 ehf. Stefndi hafi brotið trúnaðarskyldu gagnvart stefnanda og unnið að þessari fyrirætlan sinni á grundvelli trúnaðargagna í eigu stefnanda og á grundvelli starfs og stöðu sinnar hjá stefnanda. Tjónið felist í því að stefndi hafi fært sér í nyt stöðu sína hjá stefnanda til að færa traust viðskiptavina yfir til sín sjálfs í stað stefnanda og þannig brotið gegn skyldu sinni til hollustu við stefnanda sem vinnuveitanda sinn og hegðunin beinlínis verið til þess gerð að skaða stefnanda. Sökum þeirrar saknæmu háttsemi stefnda hafi stefnandi orðið fyrir miklu höggi, fjárhagstjóni gagnvart stórum hópi viðskiptavina sinna, auk álitshnekkis, enda trúnaðargögn félagsins og viðskiptavina komin í hendur þriðja aðila án heimildar. Ásetningur stefnda til þess að valda stefnanda tjóni megi hverjum vera ljós þegar horft sé til þess að stefndi hafði frá því í júní 2017 unnið að því að sölsa undir sig viðskiptavini stefnanda. Stefnandi kveðst því krefjast þess að stefnda verði gert að bæta stefnanda fjártón vegna missis framlegðar sem hann hafi orðið fyrir vegna háttsemi stefnda.

Stefnandi telur lögbann við því að stefndi nýti þau gögn sem hann hafi tekið ófrjálsri hendi frá stefnanda tryggja lögvarðan rétt sinn að takmörkuðu leyti þar sem stefnandi geti ekki haft eftirlit með því hvort gögnin séu nýtt. Það megi vera ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir umfangsmiklu fjártjóni vegna háttsemi stefnda og sé því nauðsyn að stefndi verði dæmdur bótaskyldur að því leyti gagnvart stefnanda.

Stefnandi telur ljóst að þeir sjö aðilar sem samskonar málum sé beint að hafi staðið í sameiningu að leynimakkinu. Grandleysi og góðmennska stefnanda hafi valdið því að nefndir sjö aðilar hafi komist upp með að vinna gegn stefnanda á meðan á ráðningartíma þeirra stóð. Þannig hafi tölvur tveggja fyrrgreindra verið hreinsaðar áður en upp komst um háttsemi þeirra og því sé erfitt að sýna fram á stuld þeirra á trúnaðargögnum. Engu að síður megi vera ljóst af gögnum málsins að öll sjö hafi gerst brotleg á sama hátt gagnvart stefnanda og þeim sé skylt að bæta stefnanda tjón hans. Stefnandi kveður það liggja fyrir að allir sjö fyrrgreindir aðilar séu í öllum skjölum og áætlunum frá því júní 2017. Hákon og Elín hafi tekið á sig að standa að stofnun félagsins M7 ehf., sem hafði verið í undirbúningi sl. mánuði. Rökstuddur grunur sé fyrir því að Úlfar og Eyjólfur hafi tekið með sér gögn sem þeir hafi ekki haft neinar heimildir fyrir að taka, enda um eignir stefnanda að ræða. Stefnandi telur að sýnt hafi verið fram á að Sverrir hafi reynt að nálgast vinnugögn eftir að hann hætti störfum fyrir stefnanda og þá liggi fyrir að Davíð hafi vistað niður gögn á tölvu sinni sem tengist stofnun samkeppnisrekstrarins.

Stefnandi kveður að þó að engin gögn hafi fundist á tölvu Brynjars sé nafn hans skráð frá upphafi í öllum gögnum sem nefndir aðilar hafi gert með sér og því sé rökstuddur grunur um að hann hafi tekið þátt í leynimakkinu allan tímann. Hlutdeild hvers og eins skipti að mati stefnanda ekki máli, þar sem sýnt þyki að stefndi og meðstefndu hafi sameiginlega staðið að stofnun félags í samkeppnisrekstri sem hafi verið undirbúið með löngum fyrirvara á kostnað stefnanda, og væntanlega sé engin tilviljun að stefndi og meðstefndu séu sjö og nafn félagsins sé M7.

Stefnandi telur að fjárhæð skaðabótakröfunnar vegna missis framlegðar sé varlega áætluð tjónsfjárhæð. Ekki sé um heildarfjárhæð tjónsins að ræða, heldur hafi stefnandi stillt henni í hóf þar sem kröfunni sé beint að einstaklingi. Stefnandi kveðst gera kröfu um greiðslu úr hendi stefnda pro rata, í ljósi þess að ábyrgð stefnda og annarra meðstefndu verði ekki aðgreind. Að mati stefnanda sé fjárkrafan hófleg og sömu fjárhæð sé beint að nefndum sjö aðilum, enda stefndi verið hluti af einni liðsheild sem hafði það samráð og markmið að skipuleggja stofnun samkeppnisrekstrar. Hafi stefndi nýtt sér stöðu sína hjá stefnanda til þess að byggja upp þann rekstur með því að ávinna sér traust og frekari þekkingu á viðskiptavinum, meðal annars með töku gagna frá stefnanda, á kostnað stefnanda sem hafi haft beinar afleiðingar á viðskiptasambönd stefnanda.

Stefnandi byggir varakröfu sína á því að verði ekki fallist á fjárhæð skaðabótakröfu stefnanda í aðalkröfu verði viðurkennd bótaskylda stefnda gagnvart stefnanda vegna þess fjártjóns sem hann hafi orðið fyrir. Kveðst stefnandi í því efni vísa til sömu málsástæðna og röksemda fyrir skaðabótakröfu í aðalkröfu. Fyrir liggi að stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagstjóni sem beri að viðurkenna að stefndi beri ábyrgð á með meðstefndu.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., einkanlega 36. gr. laga nr. 31/1990. Stefnandi vísar til almennra reglna vinnuréttar og reglunnar um skuldbindingargildi samninga, þ.m.t. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Auk þess til almennra reglna skaðabótaréttar, þá einkum almennu sakareglunnar. Vegna vaxtakröfu vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnaðarkröfu vísast til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum XXI. kafla þeirra.

 

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi kveðst mótmæla þeirri málavaxtalýsingu sem fram komi í stefnu í heild sinni en þá sérstaklega eftirtöldum staðhæfingum sem finna megi í málsatvikalýsingu stefnanda.

Stefndi kveðst ekki á nokkurn hátt hafa nýtt sér trúnaðargögn og/eða upplýsingar í eigu stefnanda eftir að ráðningarsambandi stefnda og stefnanda lauk. Þá hafi stefndi ekki nýtt slík gögn og upplýsingar við undirbúning stofnunar M7 ehf. Staðhæfingum um slíkt er alfarið mótmælt og sé áréttað að sönnunarbyrði um það sé alfarið á hendi stefnanda. Þá hafi stefndi ekki rætt við viðskiptavini stefnanda um fyrirætlanir sínar um að hætta störfum hjá stefnanda og hefja störf á öðrum vettvangi á meðan stefndi var í ráðningarsambandi við stefnanda. Stefndi hafi gert allt það sem til var ætlast af honum í störfum sínum fyrir stefnanda þar til samningssambandi hafi lokið, hafi komið verkefnum yfir á aðra starfsmenn sóknaraðila líkt og óskað hafi verið eftir og aflað stefnanda tekna með vinnu fyrir viðskiptavini hans allan þann tíma.

Stefndi kveðst aldrei hafa skrifað undir samning við stefnanda um samkeppnishömlur. Stefnda hafi því verið frjálst að semja ekki um slíkar hömlur frekar en hann kaus sjálfur. Því sé mótmælt þeim fullyrðingum stefnanda að stefndi hafi tafið undirritun nýs ráðningarsamnings, og að hann hafi mátt vita að stefnandi teldi samkeppnishömlur vera hluta af ráðningarsamningi. Þá sé því mótmælt að slíkur samningur hafi komist á munnlega eða að stefndi hafi verið í vondri trú. Í íslenskum vinnurétti geti vinnuveitandi ekki einhliða breytt ráðningarkjörum starfsmanna sinna.

Stefndi áréttar að engum mögulegum viðskiptavinum M7 ehf. hafi verið tilkynnt um að stefndi hygðist taka þar upp störf fyrr en eftir að ráðningarsambandi hans við stefnanda var alfarið lokið og að stefndi hafi ekki á nokkurn hátt tekið þátt í störfum M7 ehf. fyrr en eftir að ráðningarsambandi hans var lokið.

Auk þess hafði stefndi tilkynnt stefnanda það að hann gæti hugsað sér að hefja störf hjá M7 ehf. eftir að starfi hans fyrir stefnanda lyki. Þó hafi hann verið látinn vinna lungann af sínum uppsagnarfresti, allt þar til hann hafi undirgengist starfslokasamning þann 9. nóvember 2017. Það hafi ekki verið fyrr en eftir það sem stefndi hafi hafið störf fyrir M7 ehf. Þá sé rétt að tiltaka í þessu samhengi að stefnandi hafi ekki, þrátt fyrir að hafa vitað af fyrirætlunum stefnda þegar starfslokasamningur var gerður, efnt greiðslur til stefnda samkvæmt þeim sama samningi. Stefndi áréttar einnig að jafnvel þó svo að málavextir hefðu verið með þeim hætti sem lýst sé í stefnu, þá breyti það engu þar sem hvorki sé grundvöllur fyrir lögbannskröfu stefnanda né skaðabótakröfu hans.

Um sýknukröfu sína bendir stefndi á að skv. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. séu skilyrði þess að lögbanni verði komið fram einkum fjögur: 1. Athöfn þarf að vera byrjuð eða yfirvofandi, 2. sýna þarf fram á eða gera sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda, 3. rökstyðja þarf að réttindi gerðarbeiðanda muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum ef beðið yrði eftir dómi um réttindin, 4. staðan þurfi að vera þannig að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur tryggi ekki hagsmuni stefnanda nægilega og þá komi til viðbótar það skilyrði hvort stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfnin fari fram og á hagsmunum gerðarbeiðanda af því að fyrirbyggja hana. Stefndi byggir á því að ekkert skilyrða lögbanns sé uppfyllt.

Varðandi það skilyrði að athöfn þurfi að vera byrjuð eða yfirvofandi, þá sé í stefnu byggt á því að stefndi hafi misnotað stöðu sína og stolið upplýsingum og gögnum í starfi sínu hjá stefnanda í þeim tilgangi að stofna til samkeppnisrekstrar. Um þessa fullyrðingu hafi stefnandi hvorki fært fram sönnunargögn né tilgreint hvaða gögn eða upplýsingar hann eigi við. Forsenda þess að hægt sé að meta hvort athöfn sé byrjuð eða yfirvofandi sé að sýnt sé fram á í hverju athöfnin felist. Þar sem stefnandi hafi ekki tilgreint eða sannað hvaða gögnum eða upplýsingum stefndi á að hafa stolið liggi ekkert fyrir um hvaða athöfn stefnandi telji byrjaða eða yfirvofandi. Þá bendir stefndi á að athöfnin megi ekki vera um garð gengin. Ljóst sé að stefnandi byggi á því að stefndi hafi stolið ótilgreindum gögnum eða upplýsingum í því skyni að stofna félagið M7 ehf. og ná til þess viðskiptavinum stefnanda. Telji dómurinn að stefndi hafi haft yfir að ráða tilgreindum gögnum og/eða upplýsingum þá væri notkun þeirra yfirstaðin, enda þó nokkur tími síðan rekstur M7 ehf. hófst. Hafi stefndi ætlað sér að nýta sér slík gögn væri hann að öllum líkindum búinn að því.

Um það skilyrði að sýnt sé fram á eða gert sennilegt að athöfn brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti sé fullyrt í stefnu að brot á lögvörðum rétti stefnanda felist í því að stefndi hafi misnotað aðstöðu sína, trúnaðarupplýsingar og gögn í eigu stefnanda sem hann hafi komst að í stöðu sinni sem starfsmaður stefnanda í þeim tilgangi að stofna til samkeppnisrekstrar. Einnig sé tekið fram að með ákvörðun stefnda um að stofna til samkeppnisrekstrar hafi forsendur fyrir áframhaldandi samstarfi milli stefnanda og stefnda brostið. Í vinnurétti gildi sú meginregla að engar takmarkanir séu við því að starfsmaður fyrirtækis setji á stofn annað fyrirtæki í samskonar rekstri eða hefji störf hjá samkeppnisaðila eftir að ráðningarsambandi hans við fyrri atvinnurekanda ljúki. Slíkar almennar takmarkanir færu enda í bága við atvinnufrelsisákvæði 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Kjósi atvinnurekendur að setja hömlur við því að starfsmenn þeirra hefji samkeppnisrekstur eða hefji störf hjá samkeppnisaðila hafi þeir þann kost að semja við starfsmenn sína um samkeppnishömlur og ítarlegar trúnaðarskyldur eftir að samningssambandi lýkur að öðru leyti. Á slíkar hömlur hafi ítrekað reynt í dómaframkvæmd en þær þurfa að vera til staðar í skriflegum samningi og vera orðaðar á skýran hátt svo að á slíku verði byggt gagnvart fyrrverandi starfsmönnum.

Stefndi telur að stefnandi blandi sjónarmiðum um að stefndi sé í samkeppnisrekstri við stefnanda saman við málsástæður fyrir broti á lögvörðum hagsmunum og í því felist misskilningur stefnanda. Ljóst sé að stefnandi geti ekki haft lögvarða hagsmuni af því að stefndi stofni ekki fyrirtæki í sams konar rekstri og stefnandi, nema skriflegt ákvæði um samkeppnishömlur liggi fyrir. Stefnandi haldi því fram að stefndi hafi verið bundinn af slíku ákvæði þótt óumdeilt sé að stefndi skrifaði hvorki undir samning sem innihélt slíkt ákvæði né samþykkti það með öðrum hætti. Rökstuðningur stefnanda sé því tilraun til þess að fá dómstóla til að koma á samningsbundnu réttarástandi sem stefndi samþykkti aldrei. Jafnvel þótt til staðar hefðu verið aðstæður sem hefðu getað réttlætt riftun ráðningarsamnings meðan á starfstíma stefnda stóð, sem stefndi mótmælir þó, þá hafi það ekki þau áhrif að stefnandi eigi lögvarðan rétt sem hann getur varið með lögbanni því sem krafa sé gerð um í þessu máli að staðfest verði.

Í úrskurði sýslumanns 24. nóvember 2017 um lögbann komist sýslumaður að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sannað að stefndi hafi með ólögmætum hætti tekið gögn frá stefnanda. Hins vegar telji sýslumaður stefnanda hafa gert það nægilega sennilegt að stefndi hafi enn aðgang að gögnum sem tilheyri stefnanda og að hætta sé á að stefndi muni nýta sér aðgang að gögnum sem tilheyra stefnanda í samkeppni við hann. Sýslumaður taldi stefnanda því hafa átt lögvarða hagsmuni af því að stefndi notaði ekki þau gögn og féllst því á lögbannsbeiðni stefnanda þótt ekki væri tilgreint til hvaða gagna hún næði. Ljóst sé að margir mánuðir séu síðan sýslumaður lagði lögbann á stefnda og hafi stefnandi því haft nægan tíma til að fyrirbyggja að stefndi nýti sér ætlaðan aðgang að gögnum sem tilheyra stefnanda. Af þeim sökum beri að hafna kröfu stefnanda um staðfestingu lögbanns.

Stefndi bendir á að stefnandi vísi til 16. gr. c í lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og bendi á að samkvæmt ákvæðinu sé þeim sem hafi fengið vitneskju um atvinnuleyndarmál og/eða trúnaðargögn með réttmætum hætti óheimilt að nýta sér þau án samþykkis. Af stefnu megi ráða að þær upplýsingar sem stefnandi telji að teljist til „atvinnuleyndarmála“ í skilningi ofangreinds ákvæðis séu upplýsingar um verð á þjónustu stefnanda. Stefnandi tilgreini engin önnur gögn sem hann telji stefnda búa yfir og falli undir ákvæðið. Stefndi árétti að hann hafi hvorki fengið atvinnuleyndarmál né trúnaðarupplýsingar sem varðar séu af fyrrnefndu ákvæði í starfi sínu hjá stefnanda sem hann hafi notfært sér síðan. Sönnunarbyrðin um annað hvíli alfarið á stefnanda sem hafi aðeins vísað almennt til ótilgreindra gagna. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi yfir að ráða upplýsingum um verð á þjónustu stefnanda þá vilji stefndi árétta að upplýsingar um verð stefnanda geti ekki einar og sér flokkast sem „atvinnuleyndarmál“. Starf stefnda hjá stefnanda hafi falist í beinum samskiptum við viðskiptavini og því ekkert óeðlilegt að hann búi yfir upplýsingum um verð fyrir þá þjónustu sem stefndi veitti. Raunar mætti ganga svo langt að telja slíkar upplýsingar hluta af verkþekkingu stefnda sem ekkert sé óeðlilegt við að stefndi styðjist við þegar hann verðleggi þjónustu í sínum eigin rekstri. Lögbann geti aldrei verið lagt við hagnýtingu slíkrar þekkingar.

Stefndi mótmælir því sem haldlausu og væntanlega byggðu á misskilningi að 79% innlendra tekna stefnanda geti verið í hættu kjósi 7 aðilar að stofna fyrirtæki saman, líkt og stefnandi haldi fram í stefnu. Þótt svo væri hefði það engin áhrif í máli þessu, enda sé stefnda frjálst að ráða sig til starfa hvar sem er og vinna fyrir hvern sem er þar sem hann hefur ekki samið um annað. Með vísan til alls þessa telji stefndi einsýnt að stefnandi hafi ekki sýnt fram á eða gert sennilegt að hafin sé eða yfir vofi athöfn stefnda sem brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti stefnanda.

Stefndi bendir á að verði ekki fallist á framangreint, þá komi fram í 1. tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef talið verði að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega. Í stefnu viðurkenni stefnandi að lögbann tryggi hagsmuni hans aðeins að takmörkuðu leyti þar sem ekki sé hægt að hafa eftirlit með því hvort gögn, sem stefnandi taki reyndar ekki fram hver séu, verði nýtt. Af þeim sökum sé nauðsynlegt að stefndi verði dæmdur bótaskyldur. Samkvæmt þessu sé ljóst að stefnandi líti svo á að hagsmunir sínir verði aðeins tryggðir með greiðslu skaðabóta, og felist í því viðurkenning stefnanda að umkrafið lögbann sé gagnslaust, og að hagsmunum hans sé betur borgið á grundvelli reglna um skaðabætur. Beri því að synja kröfu um lögbann.

Stefndi bendir á 2. tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/199 um að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef stórfelldur munur er á hagsmunum aðila. Í því sambandi komi fram að stefnandi viðurkenni að lögbann tryggi hagsmuni hans aðeins að takmörkuðu leyti, sbr. framangreint í stefnu hans. Í því felist að hagsmunir hans af því að fá lögbann staðfest séu afar takmarkaðir. Stefnandi sé stórfyrirtæki sem hagnist árlega um hundruð milljóna króna á meðan stefndi sé einstaklingur sem kjósi að starfa ekki lengur hjá stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að krafan nái fram að ganga séu því hverfandi bornir saman við hagsmuni stefnda af því að þurfa ekki að hlíta því að sæta áfram lögbanni við notkun gagna sem ekki sé tilgreint hver séu.

Stefndi telur jafnframt að horfa beri til annarra atriða sem eigi að leiða til þess að kröfu stefnanda um lögbann verði hafnað. Í kæru stefnanda á þeim liðum lögbanns sem sýslumaður hafi hafnað, og nú hafi verið staðfest af héraðsdómi, komi fram að stefnanda sé ókleift að sjá með vissu hvaða gögn voru tekin. Þannig viðurkenni stefnandi að vita ekki hvort gögn sem hann hafi haldið fram að hafi verið tekin hafi verið bundin trúnaði eða ekki. Af stefnu þessa máls megi ráða að stefnandi sé engu nær í þessum efnum. Þá sé krafa stefnanda of víðtæk til að á hana verði fallist, enda yrði með dómi um kröfuna með öllu óljóst hvaða gögn eða upplýsingar það séu sem stefnda yrði óheimilt að nota. Sé í engu tilgreint til hvaða gagna nánar sé vísað eða að stefndi hafi yfir höfuð í sínum fórum einhver gögn sem þannig geti afmarkað lögbann. Til hliðsjónar vísi stefndi til fordæmis Hæstaréttar frá 1. desember 2005 í máli nr. 254/2005 en þar hafi sambærileg vanreifun og óskýrleiki haft í för með sér frávísun kröfu um staðfestingu lögbanns.

Stefndi krefst sýknu af skaðabótakröfu þeirri sem stefnandi styðji við sakarregluna. Samkvæmt sakarreglunni þurfi tjón að vera fyrir hendi, sem valdið hafi verið með saknæmum og ólögmætum hætti, og tjónið þurfi að standa í sennilegu orsakasamhengi við háttsemi tjónvalds. Stefndi telur engin skilyrði sakarreglunnar uppfyllt í máli þessu. Sönnunarbyrði um umfang og fjárhæð tjónsins hvíli alfarið á stefnanda þessa máls.

Stefndi bendir á að því sé haldið fram að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna launagreiðslna til stefnda á ráðningatímabili. Þá fullyrði stefnandi jafnframt að hann hafi orðið fyrir tjóni eftir að ráðningartímabilinu hafi lokið og vísi til þess með almennum hætti hvernig hann meti fjártjón sitt og að það sé falið í „missi framlegðar“ og að fjárhæð bótakröfunnar í aðalkröfu sé „varlega áætluð tjónsfjárhæð“. Þetta rökstyðji stefnandi ekki neitt frekar og geri enga tilraun til þess að sýna fram á það með neinum útreikningum eða gögnum að hann hafi raunverulega orðið fyrir tjóni. Af þessu leiði að stefnandi hafi ekki axlað sönnunarbyrði um tjón sitt að nokkru leyti. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að hann hafi orðið fyrir tjóni og hafi því ekki lagt tilhlýðilegan grunn að málatilbúnaði sínum að þessu leyti. Einhliða fullyrðingar um meint fjárhagstjón dugi ekki. Því telji stefndi að kröfur stefnanda um bætur eða viðurkenningu á bótaskyldu byggist á röngum fullyrðingum um málsatvik og getgátum. Að auki fái stefndi ekki séð hvernig það fái staðist að það hafi valdið stefnanda tjóni að greiða stefnda laun í uppsagnarfresti. Stefndi hafi unnið uppsagnarfrestinn og aflað stefnanda tekna á því tímabili, sem hafi verið mun hærri en þau laun sem stefndi fékk greidd. Það sé því með engu rökstutt að það hafi orðið stefnanda til tjóns að greiða þau laun.

Stefndi telur jafnframt að ályktun stefnanda um missi framlegðar eftir að starfsmenn hafi lokið störfum hjá stefnanda séu sömuleiðis aðeins byggðar á getgátum eða ályktunum stefnanda sjálfs. Stefnandi starfi á samkeppnismarkaði og eigi ekki einkarétt á viðskiptasambandi við viðskiptamenn sína. Þó svo að viðskiptamenn stefnanda kjósi að leita til annarra þjónustuaðila þá geti það ekki talist vera tjón í skilningi skaðabótaréttar. Stefndi telji því einsýnt að stefnandi hafi ekki sýnt fram á umfang eða fjárhæð þess tjóns sem hann haldi fram að hann hafi orðið fyrir og sé fyrsta skilyrði bótaábyrgðar því ekki fullnægt.

Um það skilyrði skaðabóta að tjóni þurfi að hafa vera valdið með saknæmum og ólögmætum hætti bendir stefndi á að í stefnu sé því haldið fram að ábyrgð stefnda og annarra þeirra er málum sé beint gegn verði ekki aðgreind, auk þess sem því sé haldið fram að hlutdeild hvers og eins skipti ekki máli. Þessi málsástæða stefnanda sé gölluð í grundvallaratriðum. Einstaklingur geti ekki orðið skaðabótaskyldur fyrir verknað nema hann hafi sýnt af sér sök. Þegar málsgrundvöllur byggist á því að verknaður stefnda eða meint sök hans skipti ekki máli heldur beri að líta til athafna annarra þá sé málatilbúnaður með þeim hætti að ekki geti talist hafa verið sýnt fram á sök. Hvað þá að „rökstuddur grunur“ um „meinta sök“ annarra geti orðið grundvöllur að sök stefnda. Stefndi hafi ekki verið bundinn af ákvæðum í ráðningarsamningi sem hömluðu samkeppni. Það geti því ekki verið grundvöllur skaðabótaskyldu að stefndi hafi hafið störf hjá öðrum atvinnurekanda eftir að störfum hans lauk fyrir stefnanda, hvort sem sá atvinnurekandi sé í samkeppni við stefnanda eða ekki. Stefnandi hafi samkvæmt því sem að framan hafi verið rakið hvorki sýnt fram á að háttsemi stefnda hafi verið ólögmæt né saknæm. Öðru skilyrði sakarreglunnar sé því ekki fullnægt og beri af þeim sökum að sýkna stefnda af skaðabótakröfu stefnanda, og jafnframt af kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu.

Um það skilyrði skaðabóta að tjón þurfi að vera sennileg afleiðing af háttsemi þess sem tjóninu valdi, bendir stefndi á að stefnandi haldi því fram að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna greiddra launa til stefnda þegar stefndi hafi verið að skipuleggja samkeppnisrekstur og því sé tjón stefnanda sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Eins og komið hafi fram fáist ekki séð hvernig greiðsla launa til stefnda hafi valdið stefnanda tjóni. Ekki sé þörf á að endurtaka röksemdir tengdar þessu, enda hafa þær þegar verið reifaðar skv. framangreindu, þ.e. að tekjur sem stefndi aflaði stefnanda hafi verið hærri en þau laun sem stefnandi greiddi. Þá haldi stefnandi því fram að fjártjón hans felist í „missi framlegðar“ sem megi rekja til háttsemi stefnda. Stefndi telji hæpið að álykta nokkuð um orsakatengsl milli meintrar háttsemi hans og afkomu stefnanda. Þar muni fjölmargar breytur skipta máli og útilokað að greina á milli þeirra með neinum þeim hætti þannig að nálgast megi með neinni vissu hvort og þá hvaða tjóni stefndi á að hafa valdið á afkomunni. Þetta endurspeglist best í því að fjárhæð þeirrar kröfu sem stillt sé upp af hálfu stefnanda vegna „missis framlegðar“ virðist ekki byggjast á neinum staðreyndum eða gögnum, heldur aðeins ályktun stefnanda sjálfs um að um sé að ræða „varlega áætlaða tjónsfjárhæð“. Samkvæmt framangreindu hafi stefnandi ekki með nokkrum hætti sýnt fram á orsakatengsl á milli ætlaðrar háttsemi stefnda og afkomu, og þar með ætlaðs tjóns, stefnanda. Beri af þeim sökum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, bæði um tilgreindar bætur og viðurkenningu á skaðabótaskyldu.

Um varakröfu stefnanda sérstaklega bendir stefndi á að samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar þurfi sá sem krefjist viðurkenningar á skaðabótaskyldu á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, með því að gera grein fyrir því í hverju tjón hans sé fólgið og hver tengsl þess séu við atvik málsins. Á þetta skorti, sbr. framangreint.

Um vaxtakröfu stefnanda bendir stefndi á að í kröfu stefnanda sé krafist vaxta frá 1. júní 2017, á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Það sé þó með öllu óljóst af stefnu að á þeim degi hafi „hið bótaskylda atvik átt sér stað“. Þar sem allan rökstuðning fyrir því skorti beri í öllu falli að sýkna stefnda af vaxtakröfunni.

Um málskostnaðarkröfu sína leggur stefndi áherslu á að honum verði bættur málskostnaður að fullu og krefst hann álags á málskostnað á grundvelli 1.-3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi telji að stefnandi hafi höfðað mál þetta að þarflausu, enda sýni málatilbúnaðurinn svo ekki verði um villst að stefnandi hafi engan lögvarinn rétt til þess að krefjast lögbanns í samræmi við kröfur sínar eða skaðabóta úr hendi stefnda. Sjö einstaklingum sé samt sem áður stefnt fyrir dóm í tvígang, bæði með stefnu og kæru, sem geri það að verkum að þeir þurfi að taka til varna með öllum þeim kostnaði sem því fylgir. Stefndi telur að málatilbúnaðurinn sé til þess eins gerður að koma í veg fyrir að hann og aðrir sex einstaklingar geti mögulega farið í samkeppni við þann risa á markaðnum sem stefnandi sé. Þegar stefnandi nýti sér fjárhagslega yfirburði sína til þess að draga sjö einstaklinga að tilhæfulausu fyrir dóm, vitandi að staðhæfingar hans og kröfur séu rangar og haldlausar, til að kæfa mögulega samkeppni þá beri dómstólum, að mati stefnda, að líta það alvarlegum augum. Telji stefndi í raun að framsetningu dómkrafna stefnanda og málshöfðanir hans á grundvelli slíkra dómkrafna verði að virða honum til sakar á þann máta að honum geti ekki dulist að hann eigi engar slíkar kröfur á hendur stefnda. Dómstólar verða, að mati stefnda, að standa vörð um atvinnufrelsi einstaklinga en það verði aðeins gert með því að bæta einstaklingum málskostnað í málum sem þessum að fullu.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., einkum 1. mgr. 24. gr. laganna, og til meginreglna skaðabótaréttar, einkum þó sakarreglunnar. Krafa um málskostnað styðst við 129. gr., sbr. 130. gr. og 131. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

IV

Forsendur og niðurstaða

Eftir að lögbannsgerð er lokið hjá sýslumanni verður dómsmál til staðfestingar á bráðabirgðagerðinni höfðað eftir ákvæðum VI. kafla laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990. Í því máli skal að meginstefnu dæmt um tvö álitaefni, annars vegar hvort skilyrði lögbanns hafi verið fyrir hendi og réttilega að gerðinni staðið, og hins vegar um viðurkenningu á því hvort gerðarþoli átti þann lögvarða og efnislega rétt sem lagt var lögbann við að yrði raskað.

Í úrskurði um frávísunarkröfu málsins var það niðurstaða dómsins að kröfugerð stefnanda væri í andstöðu við meginreglu 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 með því að stefnandi krafðist ekki viðurkenningardóms um þau réttindi sem lögbanninu er ætlað að vernda. Kemur því ekki til úrslausnar hvort viðurkennt verði um rétt stefnanda, og þar sem ekki eru uppi málsástæður um það hvernig að gerðinni var staðið er eingöngu til úrlausnar nú hvort efnisleg skilyrði teljast fyrir hendi um staðfestingu lögbanns en auk þess gerir stefnandi kröfur um skaðabætur úr hendi stefnda.

 

IV.1

Krafa um staðfestingu lögbanns

Skilyrði lögbanns koma fram í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Samkvæmt ákvæðinu þarf stefnandi að sanna eða gera sennilegt að athöfn brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að stefndi hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi stefnanda muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.

Stefnandi krefst staðfestingar á því að stefnda sé óheimilt fyrir hönd M7 ehf. eða annars félags að nota gögn og/eða upplýsingar í eigu stefnanda. Stefnandi telur rökstuddan grun um stuld á mikilvægum gögnum sem bundin séu trúnaði, og falli undir atvinnuleyndarmál, sbr. 2. mgr. 16. gr. c í lögum nr. 57/2005. Stefndi kveðst engin gögn eða upplýsingar hafa tekið frá stefnanda sem honum sé óheimilt að nota. Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir framangreindu.

Í stefnu segir að stefnandi telji sterkar vísbendingar um að stefndi og sex aðrir einstaklingar sem hafi stofnað saman félagið M7 ehf. hafi tekið með sér gögn frá stefnanda í rafrænu formi, bæði að því er varði viðskiptavini stefnanda og innanhúsgögn og vísbendingar séu um afritatöku tölvupósts og annarra skjala. Þá kom fram í málflutningi að augljóst væri að ekki væri um persónuleg gögn stefnda að ræða.

Stefnandi byggir á því að skjáskot úr tölvum fjögurra fyrrnefndra sjö aðila, þegar þeir voru enn starfsmenn stefnanda sanni að tekin hafi verið gögn í eigu stefnanda. Í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir dómi kom fram að rekstrarbókhald, staða verkefna og upplýsingar um viðskiptavini hafi verið opið öllum starfsmönnum. Þegar hann var spurður hvaða vinnugögn hafi verið tekin kom fram að þetta gætu hafa verið þjónustubeiðnir, verkefni sem þurfti að vinna og verkefni sem hugsanlega hafi verið unnin, og þetta gætu verið „zipskrár“. Í kæru stefnanda um þann lið lögbannskröfunnar sem var hafnað af sýslumanni kom fram að stefnanda væri ókleift að sjá með vissu nákvæmlega hvaða gögn voru tekin og/eða að fylgjast með hvort stefndi hafi eytt þeim og/eða sé að hagnýta sér þau á einhvern hátt. Upplýsti fyrirsvarsmaður stefnanda fyrir dómi að hann hefði ekki aðgang að tölvupósti stefnda, og hefði því ekki viðkomandi gögn undir höndum.

Gegn neitun stefnda liggur engin sönnun fyrir því hvaða gögn og/eða upplýsingar í eigu stefnanda stefndi hafi í fórum sínum sem hann hagnýti sér og engin sönnun liggur fyrir um að fyrrgreind skjáskot séu úr tölvum nefndra aðila, svo sem með skoðunar- eða matsgerð. Eðli málsins samkvæmt liggur því ekki fyrir hvort meint gögn eða upplýsingar séu bundin trúnaði eða að þau teljist atvinnuleyndarmál.

Að mati dómsins hefur stefnandi ekki axlað þá sönnunarbyrði að sanna athöfn eða ástand sem raskar rétti hans með ólögmætum hætti. Þrátt fyrir leynd nefndra sjö aðila um stofnun samkeppnisrekstrar verður ekki út frá því fullyrt eða talið sennilegt að um stuld sömu aðila á gögnum eða upplýsingum í eigu stefnanda hafi verið að ræða. Lögbann verður ekki lagt við notkun gagna og/eða upplýsinga sem ekki er vitað hver eru og ómögulegt væri að halda uppi slíku lögbanni, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 31/1990. Stefnandi hefur því ekki sannað eða gert sennilegt það skilyrði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 að hann eigi lögvarðan rétt til þess að staðfest verði lögbann það sem lagt var á af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu nr. 73/2017, og fór fram þann 24. nóvember 2017, og ber því að sýkna stefnda af þeirri kröfu.

Eftir framangreindu koma ekki til skoðunar önnur skilyrði 1. mgr. 24. gr. um að stefndi hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi stefnanda muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Þá koma jafnframt ekki til skoðunar málsástæður sem byggjast á skilyrðum 1. og 2. töluliðar 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um að skaðabætur tryggi hagsmuni nægilega eða að stórfelldur munur sé á hagsmunum aðila, enda grundvallast nefnd ákvæði á því að staðreynt sé um lögvarða hagsmuni stefnanda.

 

 

 

 

IV.2

Skaðabótakröfur

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða fjárhæð greiddra launa og launatengdra gjalda frá 1. júní 2017 til síðasta starfsdags stefnda, samtals 8.005.423 krónur, og missi framlegðar, 18.000.000 króna auk dráttarvaxta frá sama upphafstíma, alls 26.005.423 krónur, en til vara að viðurkennd verði bótaskylda. Stefnandi byggir kröfur sínar á almennu sakarreglunni. Sé ábyrgð stefnda Pro rata í ljósi þess að ábyrgð hans og annarra stefndu í málum sem rekin séu samhliða þessu máli verði ekki aðgreind, og skipti hlutdeild hvers og eins ekki máli í því sambandi.

Í kafla IV.1 var komist að þeirri niðurstöðu að ekki lægi fyrir sönnun þess að stefndi hefði tekið gögn og/eða upplýsingar í eigu stefnanda sem hann væri að hagnýta sér og hvað sem öðru liði væri ekki hægt að segja til um að gögn eða upplýsingar, sem ekki er vitað hver eru, séu bundin trúnaði eða flokkist sem atvinnuleyndarmál. Sömu forsendur eiga við í þessum hluta málsins.

Fyrir liggur að enginn samningur var gerður um að trúnaðarskylda stefnda héldist eftir starfslok og stefndi mátti því freista þess að ná til sín viðskiptavinum stefnanda eftir að störfum hans fyrir stefnanda lauk. Jafnframt verður út frá dómafordæmum Hæstaréttar ályktað að stefndi hafi mátt leita sér að starfi meðan á uppsagnarfresti stóð, jafnvel hjá samkeppnisaðila, án þess að um trúnaðarbrot væri að ræða. Af gögnum málsins er ljóst að stefndi hóf ekki störf hjá samkeppnisaðila fyrr en eftir síðasta starfsdag hans fyrir stefnanda. Um kröfur stefnanda koma því eingöngu til skoðunar málsástæður um það hvort stefndi hafi á þeim tíma sem hann starfaði fyrir stefnanda, eftir atvikum á uppsagnartíma, brotið með saknæmum hætti gegn trúnaðarskyldum sínum sem hafi valdið stefnanda fjártjóni.

Í málinu liggja fyrir afrit skjala sem aðila málsins greinir á um hvort aflað hafi verið með lögmætum hætti af stefnanda af skýjadrifi í eigu M7 ehf. Í einu þeirra skjala, sem dagsett er 30. júlí 2017, kemur fram að þá hafði stefndi og sex aðrir starfsmenn stefnanda hafið undirbúning að stofnun samkeppnisreksturs. Ekki liggur fyrir hvenær undirbúningur hófst í raun, en á þessum tíma höfðu þrír aðilar, Davíð, Sverrir og Úlfar, þegar sagt upp störfum, og Elín, Eyjólfur og Hákon sögðu upp störfum degi síðar. Brynjar sagði upp störfum 31. ágúst 2017. Á það er fallist með stefnanda að framangreind samantekin ráð án þess að upplýsa stefnanda um þau hafi verið óheiðarleg og séu trúnaðarbrot að því leyti sem þau hafi átt sér stað áður en viðkomandi sagði upp starfi sínu hjá stefnanda.

Um fjárkröfur hefur stefnandi lagt fram skjöl sem útbúin eru af stefnanda sjálfum og eiga að sýna þróun verkefna hjá nokkrum lykilviðskiptavinum fyrir og eftir brotthvarf stefnda eins og það er orðað, áætlað tekjutap í 24 mánuði eftir brotthvarf stefnda, og línurit sem sýnir dæmi um þróun tímavinnu fyrir fjóra viðskiptavini auk upplýsinga um tekjur af tilteknum viðskiptavinum.

Ekki er annað komið fram en að stefndi hafi starfað fyrir stefnanda þann tíma sem til var ætlast. Ekki liggja fyrir gögn sem sýna sérstaklega meint fjártjón stefnanda í júní 2017 og til síðasta starfsdags stefnda 9. nóvember 2017. Af framlögðu gagni stefnanda, línuriti um tímavinnu fyrir fjóra viðskiptavini, verður alls ekki ráðið að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni á framangreindu tímabili, og má eins af því ráða að í einhverjum tilfellum hafi orðið aukning á útseldri vinnu á sama tímabili. Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi stefnda með því að greiða honum laun á framangreindu tímabili eða um missi framlegðar á sama tímabili.

Framlögð gögn stefnanda um missi framlegðar miðast einkum við tímabil eftir að stefndi hætti störfum, og eru eingöngu um nokkra tiltekna viðskiptavini. Í því sambandi verður að hafa í huga eins og fram hefur komið að stefnda var ekki óheimilt eftir starfslok að semja við viðskiptavini stefnanda um sömu þjónustu og stefnandi veitir. Sú staðreynd að einhverjir viðskiptavinir færðu þá viðskipti sín frá stefnanda hefur að sjálfsögðu í för með sér missi framlegðar varðandi þá tilteknu viðskiptavini. Stefnandi hefur að öðru leyti kosið að leggja ekki fram mat óháðs aðila, sem hann ber hallann af, og telst því ekki hafa fært fram nægar sönnur á meint fjártjón um missi framlegðar eftir að stefndi hætti störfum hjá honum.  

Um sakarmat liggur ekki fyrir sönnun þess að stefndi hafi tekið með sér og nýtt sér gögn eða upplýsingar í eigu stefnanda sem bundin eru trúnaði eða flokkast sem atvinnuleyndarmál, og þrátt fyrir leynimakk um stofnun samkeppnisrekstrar hefur stefnandi ekki sýnt fram á að orsakasamband sé milli þeirrar leyndar og meints tjóns hans. Með vísan til framangreinds ber að sýkna stefnda af bótakröfum stefnanda og viðurkenningu á bótaskyldu.

IV.3

Málskostnaður

Eftir úrslitum málsins að teknu tilliti til niðurstöðu í frávísunarhluta þess, og með vísan til þess að samhliða þessu máli er dæmt í sex öðrum málum um sama álitaefni, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, skv. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er hæfilegur þykir svo sem í dómsorði greinir að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ekki hefur verið sýnt fram á það að mati dómsins af hálfu stefnda að stefnandi hafi valdið drætti á málinu, hafi höfðað málið að þarflausu eða án tilefnis eða haft uppi kröfur, staðhæfingar eða mótbárur sem hann vissi að væru haldlausar eða rangar, og verður því hafnað kröfu stefnda um að stefnanda verði gert að greiða álag á málskostnað á grundvelli 1.- 3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð :

Stefndi, Brynjar Þór Bjarnason, er sýkn af kröfum stefnanda, Annötu ehf.

Stefnandi greiði stefnda 680.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                             Bogi Hjálmtýsson