• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 31. ágúst 2018 í máli nr. S-48/2018:

Ákæruvaldið

(Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Gunnari Steini Helgusyni

(Bjarni Hauksson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 17. ágúst sl., var höfðað með ákæru héraðssaksóknara 19. janúar 2018 á hendur ákærða, Gunnari Steini Helgusyni, kt. [...], [...], [...], og meðákærða, B, kt. [...], [...], [...];

„fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot,

 

1. Gegn ákærða B, með því að hafa skipulagt og fjármagnað innflutning á samtals 469,02 g af amfetamíni, sem hafði 64% styrkleika, sem samsvarar 87% af amfetamínsúlfati, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi, en ákærði fékk nafngreindan aðila til að flytja fíkniefnin hingað til lands frá Belgíu, en hann kom með fíkniefnin falin innvortis og innanklæða sem farþegi með flugi WW-202 frá London þann 18. september 2014. Meðákærði Gunnar Steinn varslaði síðan fíkniefnin fyrir B og framvísaði þeim til lögreglu er hún hafði afskipti af honum, sbr. ákærulið 2.  

Telst brot þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og 32/2001.

 

2. Gegn ákærða Gunnari Steini, með því að hafa fimmtudaginn 25. september 2014, á [...] og á heimili sínu að [...] í [...] haft í vörslum sínum í sölu og dreifingarskyni samtals 469,02 g af amfetamíni, sem hafði 64% styrkleika, sem samsvarar 87% af amfetamínsúlfati, 12,65 g af MDMA og 0,54 g af maríhúna, sem ákærði framvísaði til lögreglu við afskipti og leit.

 

Telst brot þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og 32/2001 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Krafist er upptöku á 469,02 g af amfetamíni, 12,65 g af MDMA og 0,54 g af maríhúna, með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. Þá er krafist upptöku á kr. 390.000 með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 og 69. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Kröfur ákærða Gunnars Steins í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist sem hann sætti frá 26. september 2014 til 2. október sama ár verði dregin frá refsingunni að fullri dagatölu, komi til fullnustu hennar. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

Mál þetta var þingfest 28. febrúar sl. Ákærði sótti þá þing en meðákærði ekki. Málið var næst tekið fyrir 17. þessa mánaðar. Af hálfu meðákærða var þá heldur ekki sótt þing. Ákærði mætti hins vegar og játaði skýlaust sök í málinu. Hann samþykkti jafnframt upptökukröfu ákæruvalds. Að framkominni þeirri afstöðu ákærða og í ljósi þess að meðákærði hafði enn ekki sótt þing í málinu ákvað dómari að kljúfa þátt meðákærða frá málinu með heimild í 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og dæma um þátt hans í eldra máli hans hér fyrir dómi, máli nr. [...].

Með vísan til játningar ákærða ákvað dómari enn fremur að fara með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 og var málið tekið til dóms 17. ágúst sl. án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Forsendur og niðurstaða:

Samkvæmt framansögðu játaði ákærði Gunnar Steinn brot sitt samkvæmt ákæru héraðssaksóknara við fyrirtöku málsins 17. ágúst sl. Játning ákærða samrýmist gögnum málsins. Brot hans telst því sannað og er það réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði er í málinu sakfelldur fyrir vörslur á umtalsverðu magni sterkra fíkniefna, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Ákærða til málsbóta horfir játning hans. Það gerir einnig sú samvinna sem hann sýndi við rannsókn málsins. Þá þykir verða að leggja til grundvallar að ákærði hafi einungis haft það hlutverk í málinu að geyma fíkniefnin tímabundið. Að lokum þykir verða að horfa til þess dráttar sem varð á meðferð málsins fyrir útgáfu ákæru. Samkvæmt öllu þessu og að atvikum máls að öðru leyti virtum þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin átta mánaða fangelsi. Í ljósi þess sem áður segir um hinn langa málsmeðferðartíma og þess að sakaferill ákærða er lítill þykir rétt að fresta fullnustu refsingar hans og skal refsingin falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til fullnustu refsingarinnar skal frá henni draga gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 26. september til 2. október 2014 að fullri dagatölu, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvalds, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæru verða gerð upptæk 469,02 grömm af amfetamíni, 12,65 grömm af MDMA, 0,54 grömm af maríhúna og 390.000 krónur, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns, sem eftir umfangi málsins og að teknu tilliti til tímaskýrslu lögmannsins þykir, vegna vinnu verjanda á rannsóknarstigi og eftir höfðun málsins hér fyrir dómi, hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir. Ákærði greiði einnig útlagðan ferðakostnað verjanda, 13.200 krónur. Þá þykir enn fremur rétt, eins og málið liggur fyrir og með vísan til 236. gr. laga nr. 88/2008, að gera ákærða að greiða helming sakarkostnaðar samkvæmt framlögðu sakarkostnaðaryfirliti héraðs­saksóknara, dagsettu 22. janúar 2018, 153.850 krónur.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Gunnar Steinn Helguson, sæti fangelsi í átta mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til fullnustu refsingarinnar skal frá henni draga gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 26. september til 2. október 2014 að fullri dagatölu.

Ákærði sæti upptöku á 469,02 grömmum af amfetamíni, 12,65 grömmum af MDMA, 0,54 grömmum af maríhúna og 390.000 krónum.

Ákærði greiði 968.090 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns, 801.040 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og útlagðan ferðakostnað verjanda, 13.200 krónur.

Kristinn Halldórsson