• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Skjalafals

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 3. maí 2019 í máli nr. S-219/2019:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Nur Hossen

(Daníel Reynisson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem þingfest var 17. apríl 2019 og dómtekið sama dag, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum 18. mars 2019 á hendur ákærða, Nur Hossen, fæddum [...], ríkisborgara Mjanmar

„fyrir skjalafals, með því að hafa, mánudaginn 11. febrúar 2019, framvísað við landamæragæslu í flugstöð Leifs Eiríkssonar, í blekkingarskyni, er hann kom til landsins frá London, Bretlandi, með flugi WW815, grunnfölsuðu vegabréfi frá Möltu, ánöfnuðu A, fd. [...], nr. [...] með gildistíma 06.08.2018 til 05.08.2028 og grunnfölsuðu kennivottorði ánöfnuðu sama aðila nr. [...], með gildistíma frá 12. september 2017 til 11. september 2027.

       Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði kom fyrir dóm og játaði skýlaust að hafa framið það brot sem honum er gefið sök. Krafðist hann þess að aðallega, með vísan til 1. mgr. 32. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, að honum yrði ekki gerð refsing, en til vara krafðist hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að þóknun skipaðs verjanda verði greidd úr ríkissjóði.

II

Eins og áður greinir játaði ákærði brot sitt án undandráttar. Fær játning hans stoð í gögnum málsins. Var því farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og skipuðum verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Samkvæmt því þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Engra gagna nýtur við um að ákærði hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, en eins og fram er komið kveðst hann vera ríkisborgari Mjanmar. Verður við ákvörðun refsingar tekið mið af því, sem og skýlausri játningu ákærða. Á hinn bóginn þykir ekki unnt að fallast á kröfu hans um að honum verði ekki gerð refsing með vísan til 1. mgr. 32. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, enda fær dómurinn ekki séð að aðstæður hans séu með þeim hætti sem þar greinir. Er í því sambandi bent á að við skýrslugjöf hjá lögreglu kvaðst hann hafa komið frá Bretlandi þar sem hann hafði dvalið frá árinu 2013, en þar áður í Suður-Afríku í 10 ár, þar sem hann rak tvær verslanir. Samkvæmt því hefur ákærði unnið sér til refsingar Með hliðsjón af fastmótaðri dómvenju í málum sem þessum ákveðst refsing ákærða fangelsi í 30 daga. 

Með hliðsjón af úrslitum málsins og vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar. Er þar um að ræða þóknun skipaðs verjanda hans, Daníels Reynissonar lögmanns, sem ákveðst hæfileg 170.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Nur Hossen, sem fæddur er [...], sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Daníels Reynissonar lögmanns, 170.000 krónur. 

 

Ingimundur Einarsson