• Lykilorð:

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 11. júlí 2018 í máli nr. S-436/2017:

Ákæruvaldið

(Einar E. Laxness aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jan Andrzej Morsztyn og

(Þorgils Þorgilsson lögmaður)

X

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 16. maí 2018, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 8. nóvember 2017 á hendur á hendur Jan Andrzej Morsztyn, kt. 000000-0000, [...], Hafnarfirði, og X, kennitala 000000-0000, óstaðsettum í hús, „fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 2. apríl 2014, í iðnaðarhúsnæði sem ákærðu höfðu til umráða við [...] í Hafnarfirði haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 10.620,72 g af marihuana, 61 kannabisplöntu og 50 kannabisplöntuhluta og að hafa um nokkurt skeið fram til þess dags staðið saman að ræktun greindra plantna en fíkniefnin fundust við leit lögreglu í húsnæðinu.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að öll ofangreind fíkniefni, sem hald var lagt á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.  Þá er þess enn fremur krafist að ákærðu sæti upptöku á 6 sigtum, kvörn, 11 viftum, vinnuljósi, hitateppi, 3 kolasíum, 23 spennum, 21 gróðurhúsalampa, þurrktjaldi, vog, kassa með gróðurnæringu, rakatæki og kassa með spennubreytum, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, sbr. munaskýrslu nr. 103163, samkvæmt heimild í 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 1. tl. 1 . mgr. 69. gr. a. laga nr. 19/1940.“

Ákærði Jan játar að hafa staðið að þeirri ræktun sem tilgreind er í ákæru og að hún varði við 173. gr. a almennra hegningarlaga. Hann telji hins vegar það magn marihuanas sem tilgreint er í ákæru, 10.620,72 g, meira en rétt sé.

Ákærði X neitar sök.

 

Málavextir

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var lögregla við fíkniefnaeftirlit í Hafnarfirði. Þegar lögregla hafi verið stödd utan við húsnæðið [...], iðnaðarhúsnæði með fjórum iðnaðarbilum, hafi komið þangað akandi ákærði Jan og B. Þeir haft sagt sig leigja eitt fjögurra iðnaðarbila hússins og hafi báðir verið með lykil að því. Þeir hafi hleypt lögreglu inn og þar hafi lögregla lögregla kannabislykt. Segir jafnframt í skýrslunni að ákærði Jan hafi tjáð lögreglu að kannabisræktun færi fram á efri hæð húsnæðisins. Stigi hafi legið upp á efri hæðina „en millihurð þar var læst“. Hafi ákærði Jan framvísað lykli. Í framhaldi af þessu hafi báðir verið handteknir.

Samkvæmt skýrslunni fór kannabisræktun fram á efri hæð húsnæðisins. Búið hafi verið að stúka hæðina af með grindum og klæða þær með plasti svo úr hafi orðið fimm rými. Þar hafi farið fram ræktun og þurrkun tilbúinna efna. Lagt hafi verið hald á plöntur og mikið af þurrkuðu efni auk búnaðar til ræktunar.

Loks segir í skýrslunni að á vettvang hafi komið C. Lögregla hafi haft tal af honum og hann verið mjög undrandi. Hafi hann borið að hann væri einn af leigjendum bilsins og leigði það með ákærða Jan, B og X, og gaf hann lýsingu á X þessum og símanúmer hans. Er haft eftir C að hann hafi aldrei farið á efri hæðina og að hann haldi að X sé með hana á leigu. Hafi hann ekki haft hugmynd um að kannabisræktun færi þar fram.

C gaf skýrslu hjá lögreglu 3. apríl 2014. Í skýrslunni er haft eftir honum að hann hafi leigt húsnæðið ásamt ákærða Jan og B „í kringum tvö ár“. Greiddi hver þeirra 33.000 krónur „og svo var einn með efri hæðina og mig minnir að hann borgi 50.000 krónur sem gera þá 150.000 krónur.“ Er nánar haft eftir C: „Síðan var mér sagt að [...] hefði mikinn áhuga á að leigja þetta. Ég sagði að ef hann borgar leigu þá er mér alveg sama. Síðan er peningurinn tilbúinn um hver mánaðamót og ég fer og borga leiguna. X fékk lykla að rýminu hjá mér fyrir svona 3-4 mánuðum síðan.“ E leigusali húsnæðisins gaf skýrslu hjá lögreglu 4. apríl 2014. Er haft eftir honum að C leigi af honum húsnæðið og greiði fyrir 150.000 krónur í reiðu fé mánaðarlega.

Ákærði X gaf skýrslu hjá lögreglu 3. apríl 2014 að viðstöddum verjanda sínum. Í skýrslunni er haft eftir honum að hann leigi efri hæðina af C og greiði fyrir 50.000 krónur á mánuði. Hafi hann haft þar aðstöðu í þrjá til fjóra mánuði. Hafi hann tekið húsnæðið á leigu til að framleiða kannabis. Hann þekki meðákærða Jan „voðalega lítið“. Meðákærði Jan tengdist ræktuninni ekki.

Í skýrslutökunni er ákærði beðinn um að gera grein fyrir þeim þurrkuðu kannabisefnum sem lögregla hafi lagt hald á. Ákærði svarar: „Ég var ekki búinn að vigta þetta. Það var svartur ruslapoki með sköffi í. Hann var í herberginu vinstra megin. Svo var efni í þurrk hinu megin.“ Ákærði var nánar spurður og svaraði: „Þetta sem var í þurrkun er úr ræktuninni sem búið var að taka niður. Sköffið í ruslapokanum fékk ég gefins. Einnig var sköff í fötum sem voru í rýminu.“ Þá er ákærði spurður um 50 kannabisplöntur sem búið hafi verið að klippa og lögregla hafi fundið í kerru á neðri hæð húsnæðisins. Ákærði segir að „eitthvað af því“ hafi verið úr fyrri ræktun sinni.

Ákærði Jan gaf skýrslu hjá lögreglu 3. apríl 2014 eftir dvöl í fangageymslu. Í skýrslunni kveðst hann leigja iðnaðarbilið með B og C. Meðákærða X kveðst hann hafa hitt „á diskóteki“, þeir séu „ekki einu sinni kunningjar.“ Ákærði segist hafa staðið að ræktuninni sjálfur, „ég gerði þetta allt. Ég tengdi lampana og smíðaði ræktunina.“ Hann hafi reynt að sinna ræktuninni einu sinni til tvisvar í viku. Ákærði segist greiða aukalega leigu vegna efri hæðarinnar en hafa sagt „B og C að það væri strákur að leigja efri hæðina.“ Meðleigjendur sínir viti ekki að í raun greiði hann sjálfur viðbótarleiguna fyrir efri hæðina. „Það er eins og ég taki peninginn frá þessum aðila, sem ég greiði í raun og veru.“ Spurður um meðákærða X segir ákærði að meðákærði tengist ræktuninni ekki og viti ekki af henni. Ákærði kveðst telja meðákærða ekki hafa komið á efri hæðina.

B gaf skýrslu hjá lögreglu 3. apríl 2014. Í skýrslunni kveðst hann leigja „hluta af skúrnum niðri“ en „uppi [sé] Jan með aðstöðu“. B kveðst hafa farið á efri hæðina af forvitni einu sinni eða tvisvar: „Ég fór þarna upp en það var ekkert í gangi. Jan var að smíða þetta allt saman. Í seinna skipti var búið að setja upp plast.“ B er spurður um ákærða X og segist einu sinni hafa séð hann, hann hafi verið „í iðnaðarbilinu rétt áður en lögreglan kom. Hann spurði um C og fór svo.“ B kveðst telja ákærða X ekki hafa lyklavöld að húsnæðinu. Myndi B ekki samþykkja það enda hefði B þar „tölvur og fleira dót“. B er spurður hverja hann hefði séð fara upp á efri hæðina og svarar: „Ég veit bara um Jan. Þegar það var verið að koma þessu upp þá var ég ekkert þarna. Jan bað mig um að vera ekkert að koma í bilið þegar hann var að gera eitthvað þarna. Ég stóð við það. Ég vissi að það væri ræktun þarna en ég tengist henni ekki á nokkurn hátt.“ Ákærði Jan hafi sagt sér „að hann væri að rækta kannabis á efri hæðinni.“ Hinn 24. apríl 2017 kom ákærði X að nýju til skýrslugjafar. Í samantekt um skýrsluna segir meðal annars: „X sagði að tveimur dögum áður en kannabisræktunin var upprætt af lögreglu hafði Jan sýnt honum ræktunina, og spurt hann hvort hann væri tilbúinn til þess að taka hana á sig ef lögregla kæmi til með að uppgötva hana. X sagði að Jan  hafi lofað honum peningagreiðslu fyrir það að taka sökina á sig en upphæð hafði ekki verið ákveðin. Síðan tveimur dögum síðar hafi lögregla upprætt kannabisframleiðsluna og því tók hann sjálfur sökina á sig eins og samkomulagið hafði kveðið á um.“

 

 Skýrslur fyrir dómi

Ákærði Jan kvaðst sjálfur hafa leigt umrætt húsnæði en hafa ranglega sagt frá því að meðákærði X hefði leigt það. Ákærði sagðist ótengdur meðákærða. Hann hefði ekki séð hann í húsnæðinu en hafa séð hann annars staðar.

Ákærði var spurður um þann framburð meðákærða hjá lögreglu að meðákærði hefði fengið að geyma vélhjól í húsnæðinu og kvaðst ákærði hafa beðið meðákærða um að segja þetta. Ákærði sagðist hafa ætlað að greiða meðákærða fyrir að taka á sig sök í málinu. Þeir hefðu hins vegar ekki verið búnir að semja um fjárhæðina.

Ákærði sagði að meðákærði hefði ekki haft lykil að húsnæðinu og hann verið ótengdur því.

Ákærði sagði að ræktunin hefði staðið yfir í þrjá til fjóra mánuði.

 Ákærði X sagði að nokkurum dögum áður „en að þetta var upprætt“ hefði meðákærði Jan spurt sig hvort hann gæti „tekið þetta á [sig]“. Ákærði hefði verið „í mikilli neyzlu á þessum tíma“ og „á leiðinni í fangelsi“. Þegar lögreglan hefði komið til sín hefði hann ákveðið að „taka þetta á [sig]“. Meðákærði hefði sagt sér hvað hann „ætti að segja, svona nokkurn veginn“ en svo hefði ákærði fyllt í eyðurnar. Sjálfur hefði ákærði ekki verið með lykla að húsnæðinu og ekki átt neitt „í þessu dóti.“ Hann hefði ekki haft aðgang að húsnæðinu heldur hafa einhvern tíma geymt vélhjól, „krossara“, á neðri hæð hússins.

Ákærði sagðist hafa komið einu sinni á efri hæð hússins, þegar meðákærði hefði sýnt sér efri hæðina nokkurum dögum áður en lögregla hefði stöðvað starfsemina.

Ákærði sagði að þeir meðákærði hefðu ekki verið búnir „að loka því“ hvað ákærði hefði átt að fá greitt fyrir að taka á sig sök í málinu.

Ákærði sagðist hafa tjáð saksóknara, sem þá hefði haft með málið að gera hjá lögreglu að hann væri saklaus „blóraböggull“ og hefði málið þá verið sent til rannsóknar að nýju. Ekki hefði verið talað við sig að nýju hins vegar.

Ákærði sagðist lítið þekkja meðákærða Jan. Hann hefði hitt hann einhvern tíma á „diskóteki“ og svo hitt hann einu sinni þegar ákærði hefði komið í umrætt húsnæði.

Ákærði sagðist hafa verið allsgáður í rúmt ár og vera í fullri vinnu.

 Vitnið B sagðist hafa verið með aðstöðu á neðri hæð umrædds húss og gert þar við bifreiðar. Vitnið kvaðst ekki muna hvenær það hefði fengið aðstöðuna, hugsanlega tveimur árum áður en atvik málsins hefðu orðið. Ákærði Jan hefði verið með sér á neðri hæðinni. Ákærði Jan hefði einnig verið með efri hæðina á sínum vegum en vitnið ekki. Þar hefði farið fram kannabisræktun.

Vitnið sagði að með þeim ákærða Jan hefði „C“ verið með aðstöðu á neðri hæðinni.

Vitnið sagðist hafa séð ákærða X af og til í húsinu. Vitnið hefði eingöngu séð ákærða á neðri hæðinni en telja hann einnig hafa verið á efri hæðinni og þá með ákærða Jan. Vitnið sagðist ekki muna hvort ákærði X hefði verið með nokkuð í höndum sem gæti komið ræktuninni við.

Vitnið sagðist ekki vita hvort ákærði X hefði haft lykla að húsnæðinu.

Vitnið sagði að aldrei hefði komið fram hjá ákærða Jan að ákærði X tæki þátt í ræktuninni. Ekki hefði heldur komið fram hjá honum að ákærði X gerði það ekki.

Vitnið sagði að á neðri hæðinni hefðu verið bæði bifreiðar og fjölmörg vélhjól, sem vitnið hefði ekki vitað hverjir ættu.

Vitnið var spurt um framburð sinn við skýrslutöku hjá lögreglu þar sem það hefði sagt að það hefði aðeins séð ákærða X einu sinni í húsnæðinu. Vitnið sagðist hafa verið hrætt, það hefði verið handtekið og ekki vitað hvers vegna. Þessi framburður sinn hjá lögreglu hefði ekki verið réttur.

 Vitnið C kvaðst hafa leigt húsnæðið um tveggja eða þriggja ára skeið ásamt ákærða Jan og B. Hefði húsnæðið verið „hálfgerður dótakassi hjá okkur, til þess að gera við bílana okkar og dunda ýmislegt“. Vitninu hefði svo verið sagt að annar maður „kæmi inn í þetta“, ákærði X, „en svo skilst mér að, eftir á að hyggja, sérstaklega eftir að þetta komst allt, kom allt í ljós hvað var að gerast þarna, að hann hefði ekki verið sá sem leigði þetta, heldur átti hann að þykjast leigja þetta, svo ég færi ekki að reka trýnið upp í loftið, að það væri einhver annar.“ Vitnið sagðist ekki hafa haft nein samskipti við ákærða X, aðeins séð hann nokkurum sinnum. Vitnið sagðist ekki muna hvort það hefði séð ákærða X í húsnæðinu áður en málið hefði komið upp. „Hann afhenti mér aldrei neina leigu, það kom allt saman í gegnum [ákærða] Jan, þannig að mér skildist bara að samskiptin væru þeirra á milli, það var bara kærkomið að fá þarna inn aukapening til þess að borga leiguna, því að við höfðum ekkert með þetta milliloft að gera í raun og veru, annað en að borga bara leigu af því.“ Vitnið sagði að nokkur vélhjól hefðu verið geymd í húsnæðinu, þar á meðal nokkurir „krossarar“. Í eitt skipti hefði ákærði X verið „eitthvað að leika sér á hjóli þarna fyrir utan og fór einhvern túr.“ Vitnið var spurt um orð sín í lögregluskýrslu þess efnis að það hefði látið ákærða X fá lykla að húsnæðinu. Vitnið sagði þetta ekki rétt, vitnið hefði látið ákærða Jan fá lykla.

  Vitnið F sérfræðingur í tæknideild lögreglu sagði efnið, sem lagt hefði verið hald á, hefði verið vigtað við komu til tæknideildar. Plöntur væru taldar og því næst vigtaðar saman. Þær kæmu til tæknideildar klipptar við rót, svo þeim fylgdi lítil sem engin mold.

Vitnið var spurt um efni sem samkvæmt skýrslu fannst í „svörtum ruslapoka“ og sagt vera „[l]auf og skunkar mulið“, alls 4.366,69 grömm. Vitnið sagði að greinilegt hefði verið að þetta væru „mulin laufblöð og skunkar“, en „skunkarnir“ væru „aðeins grófari en laufblöðin. Vitnið sagðist ekki muna eftir öðru í pokanum. Væru laufblöð að jafnaði nýtt.

Vitnið sagði að ef efnið, sem vigtað væri, væri svo blautt að sérstaka athygli vekti, væri það tekið fram í skýrslu. Ella væri ekki fjallað um það atriði.

Vitnið staðfesti efnaskýrslu.

 Vitnið H lögregluþjónn staðfesti skýrslu sína. Vitnið sagði að laufblöð sem yrðu til við ræktunina væru ýmist notuð eða þeim hent. Misjafnt væri hvaða hátt menn hefðu á þessu. Blöðin væru til dæmis þurrkuð, unnin úr þeim olía eða þau seld áfram.

 Vitnið I, líffræðingur og sérfræðingur í réttarrannsóknum, starfsmaður rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræðum, svaraði spurningum um matsgerðir rannsóknarstofunnar.

Vitnið sagði að árið 2014 hefði rannsóknarstofan fengið tólf sýni úr blómhluta plöntunnar, meðalstyrkur þeirra hefði verið 118 mg/g, en styrkur einstakra sýna verið á bilinu 81-165. mg/g. Sá styrkur, sem hefði verið mældur í þessu máli, hefði þannig verið „í neðri mörkunum á því“. 

Vitnið sagði um niðurstöður að því er varðaði efnaskrárnúmerin 27307-2-7. Þar hefði verið fjallað um þurrkuð sýni úr grænum plöntum. Mældur styrkur THC hefði verið á bilinu 12-21 mg/g. Til samanburðar hefði rannsóknarstofan fengið 205 slík sýni til athugunar þetta ár og meðalstyrkurinn þar hefði verið 28 mg/g. Meðalstyrkur sýna þessa máls hefði því verið minni, en í öðrum sýnum hefðu einnig verið blómstrandi plöntur með auknum styrk.

Vitnið var spurt um rýrnun plantna. Sagði það misjafnt hversu fljótt plönturnar bærust til rannsóknar. Kæmi mjög fersk planta inn klippti vitnið hana niður og léti þorna í nokkura daga. Á þeim tíma gæti hún misst allt að 70% heildarþyngdar sinnar. Eftir þann tíma hætti hún að missa þyngd. Strax við skurð byrjaði planta að missa raka.

Vitnið sagði að styrkur THC væri mældur sem hlutfall af þyngd sýnisins. Léttist sýni vegna þess að raki minnkaði ykist styrkurinn þótt magn THC væri óbreytt.

Einnig gáfu skýrslu fyrir dómi E og lögregluþjónarnir D og G, en ekki þykir ástæða til að rekja framburð þeirra sérstaklega.

Niðurstaða

Í frumskýrslu lögreglu segir meðal annars að lögregla hafi á neðri hæð húsnæðisins fundið poka sem geymt hafi fimmtíu kannabisstilka. Við munnlegan málflutning var á því byggt af hálfu ákærðu að engin gögn málsins styddu það ákæruatriði að fimmtíu kannabisplöntuhlutar hefðu verið í vörzlum ákærðu. Af hálfu ákæruvaldsins var við munnlegan málflutning fallizt á að í málinu hefði þetta atriði ekki verið sannað. Verður lagt til grundvallar að þetta hafi ekki verið sannað.

Ákærði Jan játar sök en telur sig hafa haft minna magn í vörzlum sínum en ákært er fyrir. Af hans hálfu var sértaklega nefnt að mikið magn, 4.366,69 grömm, hefði verið í svörtum ruslapoka. Þessu hafi átt að fleygja. Samkvæmt efnaskýrslu var um að ræða lauf og „skunka“. Samkvæmt framburði F er um nýtanlegt efni að ræða. Efninu hafði ekki verið fargað heldur var það í húsnæðinu og í sömu vörzlu og annað efni sem haldlagt var. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt það hafi verið í svörtum poka af því tagi sem ósjaldan mun notað undir rusl. Þá breyta sjónarmið um raka og með tímanum þurrkun efnis ekki þeim niðurstöðum mælinga og greint er frá í efnaskýrslum og ekki hefur verið hnekkt. Verður talið sannað með öllu framanrituðu að ákærði Jan hafi haft í vörzlum sínum umrætt sinn þau efni sem í ákæru greinir, önnur en kannabishlutana fimmtíu.

Ákærði X játaði skilmerkilega fyrir lögreglu við upphaf málsins árið 2014. Játning hans þar er skýr og virðist gefin af manni sem þekkt hafi til starfseminnar. Fyrir dómi gaf hann aðra sögu og hafði raunar gefið þá sömu sögu hjá lögreglu árið 2017. Frásögn ákærða X fyrir dómi fær stoð í frásögn ákærða Jans fyrir dómi, en ákærði Jan bar þar að hann hefði ætlað að greiða ákærða X fyrir að taka á sig sök í málinu. Við mat á þessu verður meðal annars að horfa til þess að við upphaf málsins játaði ákærði Jan sök í málinu en sagði ákærða X hvergi hafa komið nálægt ræktuninni. Er það ekki sérstaklega til stuðnings því að skömmu áður hafi hann samið við ákærða X um að sá síðarnefndi tæki sökina á sig, þótt þar verði einnig að horfa til þess að báðir báru að ekki hefði verið búið að semja um hvað ákærði X fengi fyrir. Fyrir dómi sagði ákærði Jan að rangt væri að ákærði X hefði geymt hjól í húsnæðinu, hið rétta væri að ákærði Jan hefði beðið ákærða X um að bera á þennan veg. Sjálfur bar ákærði X fyrir dómi að hann hefði geymt hjól í húsnæðinu og fær það vissa stoð í framburði C fyrir dómi þess efnis að ákærði X hefði eitthvað verið „að leika sér á hjóli þarna fyrir utan“. Þessi atriði þykja fremur draga úr trúverðugleika þess að ákærði X  hafi ranglega tekið á sig sök í málinu í öndverðu. Hins verður þó að gæta við mat á framburði vitna fyrir dómi, bæði í þessu samhengi og öðru í málinu, að rúm fjögur ár voru frá því málið kom upp þegar vitni gáfu skýrslu fyrir dómi.

Hjá lögreglu bar hvor ákærði í upphafi að hann sjálfur hefði smíðað aðstöðuna en hinn ekki komið þar að. Hjá lögreglu á sama tíma bar B að hann hefði farið upp og séð ákærða Jan „smíða þetta allt saman“. Hefur ákærði Jan hvorki fyrir lögreglu né dómi borið um að ákærði X hafi átt hlut að máli.

Ákærði X bar fyrir dómi að þegar hann hefði samþykkt að taka á sig sök í málinu hefði hann verið í „mikilli neyzlu“ og á leið í fangelsi. Á sakavottorði hans, sem liggur fyrir í málinu, kemur fram að hann var í [...] 2014 dæmdur í sextán mánaða fangelsi fyrir [...].

Dómur skal reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram fyrir dómi. Enginn þeirra sem kom fyrir dóm bar þar um að ákærði X hefði átt hlut að máli við þá kannabisræktun sem fram fór í húsnæðinu. Ákærði B kvaðst hafa séð ákærða X í húsnæðinu af og til, en aldrei séð hann á efri hæðinni þótt hann teldi hann hafa verið þar uppi með ákærða Jan. Vitnið C sagðist ekki muna til þess að hafa séð ákærða X inni í húsnæðinu. Er í raun ekki annað handfast um sekt ákærða X en sú játning hans fyrir lögreglu sem hann dró til baka hjá lögreglu, að vísu all löngu síðar, og svo fyrir dómi.

Þegar á allt framanritað er horft telur dómurinn að þrátt fyrir það sem dregur úr trúverðugleika þess að ákærði X hafi í raun ranglega tekið á sök í málinu þá verði ekki litið svo á að sök hans hafi verið sönnuð í málinu þannig að hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa. Verður því að sýkna hann af ákærunni.

Ákærði Jan hefur samkvæmt sakavottorði ekki verið sakfelldur áður. Hann játar sök allt frá upphafi. Málið kom upp í apríl 2014 en ákæra var gefin út meira en hálfu fjórða ári síðar, í nóvember 2017. Verður horft til alls þessa. Refsing ákærða Jans verður ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði en rétt þykir að fresta fullnustu hennar og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð svo sem nánar greinir í dómsorði. Fallast ber á upptökukröfur eins og í dómsorði greinir. Ákærða verður gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, 632.400 krónur, og annan sakarkostnað sem samkvæmt yfirliti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu nemur 583.312 krónum. Úr ríkissjóði greiðist málsvarnarlaun skipaðs verjanda X, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 737.800 krónur. Málsvarnarlaun verjenda eru ákveðin með virðisaukaskatti. Gætt var 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008. Af hálfu ákæruvaldsins fór með málið Einar Laxness aðstoðarsaksóknari.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Ákærði Jan Andrzej Morsztyn sæti fangelsi í fimmtán mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði X er sýkn af ákæru í málinu.

Ákærði Jan Andrzej Morsztyn greiði 632.400 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, og 583.312 króna annan sakarkostnað.

Ríkissjóður greiði 737.800 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns.

Upptæk eru gerð 10.620,72 g af marihuana, 61 kannabisplanta, fimmtíu kannabisplöntuhlutar, sex sigti, kvörn, ellefu viftur, vinnuljós, hitateppi, þrjár kolasíur, tuttugu og þrjár spennur, tuttugu og einn gróðurhúsalampi, þurrktjald, vog, kassi með gróðurnæringu, rakatæki og kassi með spennubreytum, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

 

Þorsteinn Davíðsson