• Lykilorð:
  • Skilnaðarsamningur
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 21. september 2018 í máli nr. E-1167/2017:

A

(Guðmundína Ragnarsdóttir lögmaður)

gegn

B

(Árni Helgason lögmaður)

 

Mál þetta, sem var höfðað 20. nóvember 2017, var dómtekið 29. ágúst 2018. Stefnandi er A, [...]. Stefndi er B, [...].

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 4.130.000 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 17. apríl 2016 til greiðsludags. Krafist er höfuðstólsfærslu vaxta. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað.

Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda. Þá gerir stefndi kröfu um að honum verði dæmdur málskostnaður.

I.

            Málsatvik eru þau að aðilar máls þessa gengu í hjúskap árið 1981 en skildu á árinu 2011. Málsaðilar gerðu með sér samning um skilnaðarkjör, dags. 8. desember 2011.

Í 4. gr. samningsins segir að þau hafi verið sammála um að fjárskipti færu fram með þeim hætti að stefndi yfirtæki allar skuldbindingar varðandi C ehf. og D ehf. Þá tæki stefndi yfir fasteign að E í [...] með áhvílandi lánum. Einnig tæki stefndi yfir lán á F í [...], með skilyrðum um að sala færi fram. Stefndi fengi til eignar allt hlutafé í C ehf., E, F og sumarhús með þeim lánum sem hvíldu á sumarhúsi með fastanúmer [...]. Enn fremur tæki stefndi yfir Toyota-bifreiðina [...] með áhvílandi láni og fornbíl sem væri á nafni stefnanda. Stefnandi fengi til eignar [...] með áhvílandi lánum og „litla hús“ í G. Þá sagði í samningnum: „Fyrirvari er gerður varðandi F: Reiknað er með að sala á húsinu verði á pari við skuldir en fyrirvari er sá að ef um verulegt tap verður að ræða við sölu á F þá verður fjárhæð á greiðslu til A endurskoðuð. sem áætluð er 8,000,000. átta miljónir króna.“

            Í 5. gr. var ákvæði um lögmannskostnað og 6. gr. um innbú. Þá var í 7. gr. svohljóðandi ákvæði: „Fjárhæð sem B mun greiða A er kr. 8.000.000.- áttamilljónir íslenskar krónur.  Og mun upphæðin minka ef um verulegt tap verður [að ræða] á sölu F. Upphæðin verður greidd á 4 árum eftir fjárhagsgetu B.“

Málsaðilar gerðu jafnframt með sér samkomulag, dags. 10. janúar 2012, um að stefnandi myndi starfa áfram í fyrirtækinu C ehf. meðan stefndi ræki fyrirtækið og þar til greiðslum til stefnanda væri lokið. Í samkomulaginu er tekið fram að rekstur fyrirtækisins myndi ganga fyrir og greiðslur samkvæmt samningi aðila frá 8. desember myndu berast í samræmi við arðsemi. Stefnandi átti að vinna í tímavinnu og umsamið tímagjald vera 2.400 kr.

Stefnandi telur að stefndi hafi ekki uppfyllt samningsskyldur sínar, þar sem hann hafi ekki greitt stefnanda að fullu 8.000.000 kr., sbr. 7. tölulið samningsins. Stefndi hafi greitt stefnanda samtals 760.000 kr. af samnings­fjárhæðinni árið 2012, 1.950.000 kr. árið 2013 og 1.160.000 kr. árið 2014. Samtals nemi greiðslur frá stefnda 3.870.000 kr. og eigi stefndi því enn eftir að greiða stefnanda 4.130.000 kr., en það sé stefnufjárhæð málsins.

Stefndi heldur því aftur á móti fram að hann hafi á árunum 2012-2015 greitt stefnanda alls 6.705.000 kr. og að um skeið hafi verið samkomulag milli aðila um að greiðslur til stefnanda samkvæmt skilnaðarsamningi aðila kæmu af reikningi C ehf. Stefndi telur sig hafa gert upp að fullu við stefnanda samkvæmt eftirfarandi atvikum.

Stefndi kveðst hafa skráð eignina að F, [...], á sölu í kjölfar þess að samkomulag aðila um skilnaðarkjör var gert en ekki hafi tekist að selja hana. Eignin hafi verið á sölu á árunum 2012-2014 án þess að kaupandi fengist. Eignin hafi svo loks verið seld á árinu 2015 fyrir 24.000.000 kr. en áhvílandi lán frá Landsbankanum hafi verið komið upp í um 38 milljónir króna. Þá hafi stefndi einnig verið búinn að tapa á eigninni í hverjum mánuði þar sem leigan, 130.000 kr., hafi ekki dugað fyrir öllum útgjöldum, þ.e. fasteignagjöldum, tryggingum og afborgunum. Stefndi hafi óskað eftir því að Landsbankinn kæmi til móts við sig varðandi lánið, t.d. með því að bankinn tæki eignina yfir en öllum slíkum umleitunum af hálfu stefnda hafi verið hafnað. Við söluna hafi þó loks náðst að gera samkomulag við bankann um að stefndi greiddi 1.200.000 kr. í eingreiðslu og að gefið yrði út skuldabréf að fjárhæð 1.500.000 kr. Tap stefnda af eigninni hafi því verið verulegt og stefndi talið forsendur brostnar fyrir frekari greiðslum til stefnanda.

Einnig segir stefndi að stefnandi hafi lagt mikla áherslu á að stefndi greiddi kröfu vegna skuldabréfs nr. [...], sem stefnandi hafi gefið út í Spron og verið síðar komið yfir í Arion banka. Þrátt fyrir að verulegur vafi væri á því hvort stefnda bæri að taka yfir skuldabréfið samkvæmt skilnaðarsamningnum hafi stefndi fallist á að fara í viðræður við Arion banka um lánið en staða þess hafi numið um 10,3 milljónum króna. Bankinn hafi fallist á að lækka skuldina um rúmar sex milljónir króna og að hún yrði gerð upp með greiðslu upp á 4.000.000 kr. Stefndi kveðst hafa gert skýran fyrirvara um málið og talið greiðslu á skuldinni vera umfram skyldu sína samkvæmt skilnaðarsamkomulaginu. Stefndi væri þar með búinn að gera miklu meira en hann hafi þurft samkvæmt samkomulaginu.

Þá segir stefndi að fallið hafi til leiðrétting á bílaláni vegna Toyota Land Cruiser bifreiðar, sem stefnda hafi borið að fá til sín, 2.300.000 kr., sem hafi verið greiddar út 10. apríl 2014, en stefnandi hafi tekið helming þeirrar fjárhæðar til sín.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 17. mars 2016, gerði stefnandi kröfu um að stefndi stæði við skuldbindingar sínar samkvæmt skilnaðarsamningnum.  Krafa stefnanda var í þremur liðum. Í fyrsta lagi að stefndi myndi greiða kröfu samkvæmt skuldabréfi nr. [...] eða kröfunni nafnabreytt, í öðru lagi að skuld vegna E yrði nafnabreytt og í þriðja lagi að stefndi myndi greiða stefnanda eftirstöðvar skuldar skv. 7. gr. skilnaðarsamningsins, 4.130.000 kr.  Þegar öllu þessu yrði lokið myndi stefnandi afsala til stefnda fornbíl þeim sem koma skyldi í hans hlut skv. 4. gr. samningsins. 

Stefndi svaraði kröfum stefnanda með bréfi lögmanns, dags. 29. apríl 2016, þar sem öllum kröfum stefnanda var hafnað.

Stefnandi og stefndi gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Verður vísað til framburðar þeirra síðar eftir því sem tilefni er til.

II.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt skilnaðarsamningi aðila, dags. 8. desember 2011, hafi stefndi lofað að greiða stefnanda 8.000.000 kr. en stefndi hafi ekki staðið við það loforð nema að hluta.

Stefnandi kveður að í skilnaðarsamningi aðila hafi verið gert ráð fyrir því að fasteignin að F yrði seld án nokkurs hagnaðar þegar skuldir hefðu verið gerðar upp eða „á pari“ eins og segi í samningnum. Þá megi lesa úr samningsákvæðunum að aðilar hafi jafnvel gert ráð fyrir því að eitthvert tap yrði á sölunni en alltént hafi ekki átt að skerða greiðslur til stefnanda nema að verulegt tap yrði á sölunni en því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að svo hafi verið.

Um hafi verið að ræða einbýlishús á [...] en stefndi hafi ráðið sig þangað í vinnu hjá [...]. Aðilar hafi ráðist í að byggja fasteignina og hafi fyrirtæki þeirra, C ehf., átt að vera skráður eigandi fasteignarinnar. Þegar komið hafi að því að fjármagna bygginguna hafi ekki verið unnt að fá fasteignalán út á fyrirtækið og hafi stefnandi því verið skráður eigandi.  Landsbankinn hafi lánað aðilum 25 milljónir króna 4. júlí 2007, sem hafi numið u.þ.b. byggingarkostnaði fasteignarinnar.

Stefnandi byggir á því að á þeim tíma sem skilnaðarsamningur aðila var gerður, í desember 2011, hafi afleiðingar efnahagshrunsins á Íslandi legið fyrir og verið alkunnar. Stefnda hafi þannig verið fullljóst við samningsgerðina að áhvílandi lán á fasteigninni hefðu hækkað mikið og að hrun hefði orðið á fasteignamarkaði á Íslandi með þeim afleiðingum að fasteignaverð hefði lækkað mikið og eignir úti á landi orðið illseljanlegar. Stefnda hafi verið þetta fyllilega ljóst og hann hafi samþykkt að taka að sér áhættu af tapi á sölu fasteignarinnar og því hafi greiðslur til stefnanda ekki átt að skerðast nema það yrði „verulegt tap“ á sölunni. Stefnda hafi einnig mátt vera ljóst að sala fasteignarinnar gæti tekið langan tíma. Þar sem ekki hafi verið getið um annað sé eðlilegt að líta svo á að stefndi hafi samþykkt að taka að sér allan rekstrarkostnað á fasteigninni þar til hún seldist.

Stefnandi heldur því fram að það sé rangt og ósannað að „verulegt tap“ hafi verið á sölu fasteignarinnar. Þvert á móti hafi stefndi farið „á pari“ út úr sölunni en í mesta lagi með lítils háttar tapi. Stefndi hafi hætt að greiða af áhvílandi láni frá og með júní 2013 og lánið verið fryst þar til því hafi verið skilmálabreytt 5. maí 2014.  Vanskilum hafi þá verið bætt við lánið sem hafi staðið eftir það í 37.947.452 kr. Á sama tíma og lánið hafi verið í frystingu hafi stefndi leigt fasteignina út og haft 130.000 kr. í leigutekjur mánaðarlega af henni og raunar allan tímann frá því að skilnaðarsamningurinn var gerður. Þetta hafi verið viðurkennt í bréfi lögmanns stefnda, dags. 29. apríl 2016.

Með kaupsamningi og afsali, dags. 12. janúar 2015, hafi stefndi selt fasteignina fyrir 24 milljónir. Kaupandi hafi þá þegar fullgreitt fyrir fasteignina, m.a. með skuldabréfum útgefnum 18. desember 2014, og hafi allt kaupvirði fasteignarinnar runnið til veðhafans, Landsbanka Íslands. Stefnandi hafi fengið senda kvittun frá Landsbankanum fyrir 1.200.000 kr. innborgun 29. desember 2014, sem teknar hafi verið út af reikningi stefnda. Eftir þá greiðslu hafi eftirstöðvar lánsins numið 37.486.351 kr. Greiðslan hafi því numið sem næst þeirri fjárhæð sem stefndi hafi fengið í leigugreiðslur á sama tíma og lánið var í frystingu.

Þegar kaupsamningsgreiðslunni hafi verið ráðstafað inn á lánið hafi eftirstöðvar lánsins verið 13.486.351 kr. Aðilar hafi náð að semja við Landsbankann um eftirstöðvar lánsins umfram söluverð. Eftirstöðvar lánsins, 13.737.675 kr., hafi verið felldar niður og afskrifaðar í mars 2015, og að teknu tilliti til 151.280 kr. skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar hafi Landsbankinn afskrifað 13.526.164 kr.

Stefnandi segir að það sé rangt og ósannað sem haldið er fram í bréfi lögmanns stefnda, dags. 29. apríl 2016, að stefndi hafi „tekið að sér“ fjárhæð vegna taps af sölu eignarinnar með skuldabréfi til Landsbankans að fjárhæð 1,5 milljónir kr. Stefnandi heldur því fram að í samræmi við framanritað hafi stefndi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir „verulegu tapi“ af sölu fasteignarinnar F, [...], sem leiði til þess að greiðsla til stefnanda ætti að minnka.

Stefnandi mótmælir því að stefndi hafi greitt stefnanda meira í beinum greiðslum en komi fram á yfirliti stefnanda, um innborganir samkvæmt skilnaðarsamningi, og að hann hafi greitt 6.370.000 kr. Stefnandi mótmælir því að greiðslur sem stefndi hafi greitt stefnanda í verktakagreiðslur vegna vinnu í C ehf. séu hluti af samningsgreiðslunni skv. 7. lið, sem og endurgreiðslur til stefnanda sem stefndi hafi lagt út með greiðslum af lánum sem stefndi yfirtók og átti að greiða vegna E og Land Cruiser bifreiðar sem stefndi fékk í sinn hlut við skilnaðinn.

Einnig mótmælir stefnandi því að stefnandi hafi fengið skulda­leiðréttingu vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar sem eigi að draga frá greiðslum stefnda til stefnanda. Stefnandi hafi fengið 600.000 kr. endurgreiddar með skuldaleiðréttingu vegna áhvílandi lána á fasteign að [...], sem hafi komið í hennar hlut samkvæmt skilnaðarsamningi aðila. Stefnandi segir að það sé rétt að hún hafi fengið í sinn hlut leiðréttingu á bílaláni vegna Toyota Land Cruiser bifreiðarinnar, frá Landsbankanum, að fjárhæð 1.150.000 kr., en stefndi hafi fengið sömu fjárhæð vegna sama bílaláns endurgreidda.

Þá segir stefnandi að stefndi hafi látið hjá líða að nefna að áhvílandi lán nr. [...], sem hafi verið tryggt með veði á E, og stefndi yfirtekið samkvæmt skilnaðarsamningi aðila, hafi við skilnaðinn verið að höfuðstól um 11 milljónir króna. Þetta hafi verið erlent lán sem hafi síðan verið afskrifað þann 1. júní 2013 um 5.560.131 kr., en þessa afskrift hafi stefndi fengið alfarið í sinn hlut.

Samkvæmt þessu hafnar stefnandi því alfarið að draga beri greiðslur vegna skuldaleiðréttinga frá greiðslu sem stefnda beri að greiða stefnanda samkvæmt skilnaðarsamningnum. 

Þá mótmælir stefnandi því sem stefndi haldi fram um að stefnandi hafi fengið greiddar vaxtabætur vegna lána sem hún hafi verið skráð fyrir en hvílt á E. Í samræmi við skilnaðarsamninginn hafi aðilar undirritað skiptayfirlýsingu 10. janúar 2012, þar sem því hafi verið lýst yfir að stefndi væri eigandi fasteignarinnar að E. Stefndi hafi því sjálfur fengið vaxtabætur frá þeim tíma enda hafi hann yfirtekið lán sem hafi verið tekin til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Réttur stefnanda til vaxtabóta vegna áhvílandi lána á þeirri fasteign hafi fallið niður frá sama tíma en vaxtabætur vegna ársins 2011 verið ákvarðaðar í samræmi við ákvæði skattalaga um hjón og hafa beri í huga að skilnaðarsamningur aðila sé dagsettur í desember það ár. Stefnandi hafnar því alfarið að hún hafi þegið vaxtabætur sem stefndi hafi átt rétt til og jafnframt er því hafnað að það skapi stefnda rétt til að draga fjárhæð vaxtabóta frá greiðslu stefnda til stefnanda. 

Stefnandi segir einnig að stefndi hafi um tíma haldið því fram að hann bæri ekki ábyrgð á láni sem hafi verið að baki tryggingarveðbréfi sem hafi hvílt á sumarhúsi með fastanúmer [...], sbr. 4. gr. skilnaðarsamningsins. Lánið hafi verið á nafni stefnanda, eins og reyndar flestöll lán sem tekin hafi verið í hjúskapartíð aðila. Stefndi hafi þó viðurkennt skyldu sína í þessum efnum og greitt lánið upp, sem upphaflega hafi verið tekið hjá SPRON en Arion banki yfirtekið.

Ástæða þess að lán hafi áfram verið skráð á nafn stefnanda eftir skilnað aðila hafi verið sú að stefndi hafi ekki getað sýnt fram á nægar tekjur til þess að standast greiðslumat til að geta yfirtekið lánin. Stefnandi hafi sýnt stefnda liðlegheit langt umfram skyldu að þessu leyti en þau hafi haft þær afleiðingar að kennitala stefnanda sé með „merkingu“ í Arion banka og Landsbanka Íslands, þar sem stefndi hafi fengið afskriftir á lán sem enn hafi verið á kennitölu stefnanda. Þetta hafi valdið stefnanda verulegum óþægindum.

Stefnandi telur að stefndi hafi með engu móti sýnt fram á réttmæti þeirra fullyrðinga sinna um að hann sé búinn að standa stefnanda skil á fullnaðargreiðslu samkvæmt 7. gr. skilnaðarsamnings aðila. Í samræmi við framangreint telur stefnandi augljóst að stefnda beri skylda til að efna samning aðila og greiða stefnanda eftirstöðvar greiðslusamkomulags aðila, 4.130.000 kr. Stefnandi byggir á því að krafan sé ekki fyrnd enda hafi stefndi greitt síðustu greiðslu þann 11. ágúst 2014, en ekki 2016 eins og misritast hafi á yfirliti um innborganir samkvæmt skilnaðarsamningi.

Við túlkun og til fyllingar á skilnaðarsamningi aðila telur stefnandi að taka beri tillit til þess að við skilnaðinn hafi hún gefið eftir fasteignina E, [...], sem hún hafi átt ein samkvæmt kaupmála á milli aðila, dags. 8. september 2000. Af þessum sökum hafi stefndi fengið meiri eignir en honum hafi borið í raun og veru við skilnaðinn. Við túlkun á 7. gr. samningsins og megin ákvörðunarástæðu þess að stefndi hafi samþykkt að greiða stefndu 8.000.000 kr., beri jafnframt að líta til þeirrar staðreyndar sem hafi legið fyrir þegar skilnaðarsamningurinn var gerður þótt ekki sé getið um hana í samningi aðila. Á þeim tíma er samningurinn var gerður hafi stefnandi skuldað 3,5 milljónir í yfirdrátt á bankareikningum sínum, en stefndi hafi ekki verið með neinn yfirdrátt á sínum reikningum. Yfirdráttarskuldirnar hafi verið tilkomnar vegna sameiginlegs fjárbús, neyslu og heimilis beggja aðila. Stefnandi telur að augljóst sé að skilnaðarsamningurinn halli með engu móti á stefnda, þvert á móti. Greiðsla stefnda til stefnanda skv. 7. gr. samningsins hafi m.a. átt að koma á móti þessari skuld. Krafa stefnanda byggist á þeirri meginreglu að samninga beri að efna.

Stefnandi krefst dráttarvaxta að einum mánuði liðnum frá því að stefnandi krafði stefnda sannarlega um greiðslu með bréfi lögmanns, 17. mars 2016.

Um lagarök byggir stefnandi á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga og á meginreglunni um að samningar skuli standa. Þá byggir stefnandi einnig á ákvæðum hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 með síðari breytingum. 

III.

            Stefndi mótmælir öllum málsástæðum og málatilbúnaði stefnanda. Stefndi andmælir sérstaklega því að hann hafi fengið meiri eignir en honum hafi borið í raun og veru við skilnaðinn. Stefndi kveðst hafa tekið á sig samkvæmt skilnaðarsamningi aðila nánast allar skuldir sem tilheyrðu fjárhag þeirra hjóna sem og afar þungan rekstur á fyrirtæki þeirra. Stefndi hafi þurft að leggja á sig gríðarlega vinnu til þess að halda rekstrinum gangandi.

Þá segir stefndi að yfirdráttarskuld stefnanda upp á um 3,5 milljónir króna hafi verið ástæða þess að stefndi hafi átt að greiða stefnanda 8 milljónir króna, að stefnandi fékk sérstaka greiðslu frá C þann 15. júní 2011 að fjárhæð kr. 4.000.000,- inn á sinn persónulega reikning.

Um fasteignina að F segir stefndi að í skilnaðarsamningi aðila sé tekið fram að eignin verði eign stefnda, ásamt því að hann taki yfir áhvílandi lán á eigninni. Í samningnum komi svo eftirfarandi fram: „Fyrirvari er gerður varðandi F: Reiknað er með að sala á húsinu verði á pari við skuldir en fyrirvari er sá að ef um verulegt tap verður að ræða við sölu á F þá verður fjárhæð á greiðslu til A endurskoðuð. sem áætluð er 8,000,000.átta milljónir króna.“  Í 7. gr. samningsins sé svo fjallað frekar um umrædda greiðslu til stefnanda: „Fjárhæð sem B mun greiða A er 8.000.000.- áttamilljónir íslenskar krónur. Og mun upphæðin minnka ef um verulegt tap verður á sölu F. Upphæðin verður greidd á 4 árum eftir fjárhagsgetu B.“

Í minnispunktum sem gerðir hafi verið í tengslum við samkomulagið komi fram að mat aðila hafi verið að í eigninni væri jákvætt eigið fé að fjárhæð 4-12 milljónir króna. Umrædd greiðsla sé því hugsuð út frá því að eigið fé hafi verið til staðar í eigninni sem kæmi þá í hlut stefnda.

Stefndi mótmælir því að túlka beri ofangreind samningsákvæði í þá veru að um sé að ræða afdráttarlausa skyldu stefnda til að greiða stefnanda 8.000.000 kr. Ákvæði hafi verið tengd við uppgjör á F og að það uppgjör yrði með þeim hætti að verðmæti eignarinnar yrði „á pari við skuldir“. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir þar sem söluandvirði eignarinnar hafi verið miklu minna en staða skulda.

 Um þetta vísar stefndi til framlagðs skjals þar sem óskað hafi verið eftir skuldskeytingu lánsins árið 2014 og komi þar fram að staða lánsins væri 36.658.206 kr. og hafi farið upp í rúmlega 38 milljónir þegar hæst stóð haustið 2014. Endanlega hafi verið gengið frá kaupsamningi 15. janúar 2015 upp á 24.000.000 kr. Ljóst sé því að skuldin sem stefndi tók á sig hafi á endanum numið um 14 milljónum króna. 

Eignin hafi verið á sölu allt frá því að skilnaðarsamningurinn var gerður og þar til loks hafi náðst að selja eignina en það tekið miklu lengri tíma en ráð var fyrir gert. Ástæðan hafi einfaldlega verið sú að það hafi ekki verið markaður fyrir hús sem þetta á [...], en um hafi verið að ræða 230 fm einbýlishús. Eignin hafi hins vegar verið í útleigu allan tímann fyrir 130.000 kr. á mánuði. 

Þetta atriði skilnaðarsamningsins hafi því þróast þannig að stefndi hafi fengið í fangið skuld við Landsbankann sem hafi á endanum numið um 14 milljónum króna, þ.e. mismun á verðmæti og eftirstöðvum. Tap stefnda af eigninni hafi raunar verið töluvert meira því að leigan hafi ekki staðið undir afborgunum, hvað þá fasteignagjöldum og öðrum gjöldum í þau þrjú ár sem stefndi hafi verið með eignina á sinni ábyrgð.

Í skilnaðarsamningnum segi að sú upphæð sem stefndi hafi átt að greiða skyldi „minnka“ ef „verulegt tap“ yrði á sölu eignarinnar. Þótt ekki sé skilgreint nákvæmlega hvað teljist verulegt tap megi ljóst vera að 14 milljónir, sem sé meira en helmingur af söluvirði eignarinnar, teljist verulegt. Að sama skapi sé ákvæðið ekki skýrt um með hvaða hætti upphæðin skuli minnka en eðlilegast sé að líta svo á að hún minnki krónu á móti krónu, þannig að í raun falli greiðsluskylda stefnda alfarið út og sex milljónum betur. Í öllu falli sé ljóst að þær forsendur sem samningurinn kveður á um fyrir greiðslu upp á 8.000.000 kr., þ.e. að verðmæti fasteignarinnar að F og áhvílandi skuldir séu „á pari“, hafi engan veginn gengið eftir og sé því ekki byggjandi á umræddu ákvæði.

Stefndi segir að hann hafi ítrekað leitað eftir því að Landsbankinn kæmi til móts við sig með því að lækka eftirstöðvar lánsins. Á það hafi ekki verið fallist. Bankinn hafi þó ákveðið á endanum að koma til móts við stefnda og semja um að eftirstöðvar lánsins yrðu gerðar upp með því að greiddar yrðu 1.200.000 kr. inn á lánið og gefið út skuldabréf að fjárhæð 1.500.000 kr. Með þessu hafi verið unnt að ljúka sölunni en út frá söluandvirði eignarinnar þá hafi verið ljóst að enginn kaupandi hefði verið tilbúinn að taka áhvílandi skuldir yfir.

Stefndi byggir á því að þessi eftirgjöf skulda, sem hafi fengist eftir langar samningaviðræður við bankann, með tilheyrandi skráningu á hans nafni vegna afskriftar, geti ekki verið það sem átt var við í skilnaðarsamningnum þar sem fram kom að eignin skyldi seld „á pari“ við áhvílandi skuldir. Telur stefndi því eðlilegt að horfa í stöðu eigin fjár eignarinnar, eins og hún hafi verið árið 2014, þ.e. neikvæð um 14 milljónir króna auk taps sem hann hafi orðið fyrir með því að greiða með eigninni á þessu tímabili. Telur stefndi að þetta atriði eitt og sér eigi að valda því að greiðsluskylda hans við stefnanda sé niður fallin.

Stefndi mótmælir þeim sjónarmiðum stefnanda að honum hafi mátt vera ljóst við gerð skilnaðarsamningsins að fasteignin að F myndi ekki seljast fyrr en löngu síðar og að verulegt tap myndi verða á eigninni og því eigi hann ekki neina kröfu vegna þessa atriðis. Þvert á móti sýni sú staðreynd að til afskriftar í bankanum þurfti að koma til, að verulegt tap varð á eigninni. Ekki sé hægt að leggja að jöfnu að bankinn hafi á endanum fallist á að afskrifa skuld stefnda, gegn greiðslu upp á 2,7 milljónir króna, við það að stefndi hafi komið út á sléttu og taplaus, líkt og stefnandi virðist byggja á.

Um greiðslur stefnda til stefnanda segir stefndi að í kjölfar skilnaðar aðila hafi stefndi greitt stefnanda tiltekna fjárhæð á árunum 2012-2015. Þær greiðslur sem stefnandi hafi talið upp séu réttar en það vanti inn á greiðslur að fjárhæð 2.835.000 kr. Heildarfjárhæð greiðslna stefnda til stefnanda nemi því 6.705.000 kr. Stefndi telur sig raunar hafa greitt fleiri greiðslur til stefnanda.

Umræddar greiðslur stefnda hafi verið greiddar í góðri trú og á þeirri forsendu að hann taldi sig vera að efna ákvæði skilnaðarsamningsins, þótt uppgjöri í tengslum við fasteignina að F væri ekki enn lokið. Stefndi hafi staðið í þeirri trú að eignin myndi seljast fljótlega eftir að skilnaðarsamningurinn væri gerður og að tap í tengslum við það mál myndi ekki vinda svo verulega upp á sig líkt og raunin varð. Í ársbyrjun 2015 hafi fljótlega farið að verða ljóst í huga stefnda að ekki væri tilefni til að greiða stefnanda frekar.

Hvað varðar greiðslu á skuld við Arion banka vísar stefndi til 4. mgr. 4. gr. skilnaðarsamnings aðila þar sem talið sé upp hvað stefndi fái til eignar og segi þar m.a.: „... sumarhús með þeim lánum sem á hvíla fastanúmer á sumarhúsi [...]“.

Umrætt fastanúmer vísi til sumarbústaðar að [...]. Þetta ákvæði skilnaðar­samningsins hafi verið túlkað með ýmsum hætti af aðilum málsins en svo virðist sem ákveðinn misskilningur hafi verið um þetta atriði.

Stefndi kveður að málsaðilar hafi ekki haft heimild til að ráðstafa þessari eign, þar sem hún hafi ekki verið þeirra, heldur hafi hún verið þinglýst eign sonar þeirra, G, og sé enn. Umrætt ákvæði samningsins sé því markleysa. Stefnandi virðist hins vegar byggja á því að umrætt ákvæði skilnaðarsamnings feli í sér að stefndi bæri ábyrgð á greiðslu tiltekins skuldabréfs sem hún hafi gefið út til SPRON en farið síðar yfir í Dróma og endað loks í Arion banka. Þetta skuldabréf hafi aldrei verið áhvílandi á sumarbústaðnum að [...] og falli þar af leiðandi ekki undir ákvæði samkomulagsins sem tilgreinir lán sem hvíli á bústaðnum. Á bústaðnum hafi um skeið verið áhvílandi tryggingarbréf sem stefnandi hafi gefið út til SPRON en það bréf hafi síðar verið fellt út af eigninni og sé hún veðbandalaus í dag.

Umrædd skuld hafi lengi vel verið á hrakhólum innan bankakerfisins, farið yfir í Dróma og lítið sem ekkert verið gert til þess að innheimta skuldina eða senda erindi vegna hennar í töluverðan tíma. Skuldin hafi svo farið yfir í Arion banka og stefnanda verið sent innheimtubréf frá bankanum þar sem fram komi að skuldin stæði í 9,5 milljónum. Stefnandi hafi þá ítrekað við stefnda að gera þyrfti eitthvað í málinu.

Stefndi segir að við hafi tekið nokkuð sérkennileg atburðarás. Stefndi hafi ekki talið sig bera ábyrgð á greiðslu umræddrar skuldar en þó viljað reyna að koma til móts við stefnanda, m.a. með það í huga að reyna að ljúka því erfiða uppgjöri sem hafi átt sér stað í kjölfar skilnaðar þeirra. Þar sem stefnandi hefði talið að stefndi ætti að greiða skuldina hafi stefndi í öllu falli talið rétt að kanna hvort unnt væri að ná samningum við bankann um skuldina, með þó þeim fyrirvara að það væri umfram skyldu.

Eftir að lögmaður stefnda hafi farið í viðræður við bankann hafi fengist sú niðurstaða að unnt væri að ná samkomulagi við bankann um að greiða skuldina upp fyrir 4.000.000 kr. en í því hafi falist að skuldin hafði lækkað um meira en helming. Samkomulag um uppgjör hafi verið undirbúið af hálfu bankans og þurft undirritun stefnanda á það til þess að það tæki gildi, enda skuldin á hennar nafni. Þegar óskað hafi verið eftir þeirri undirritun hafi borið svo við að stefnandi hafi neitað að skrifa undir samkomulagið og sett það sem skilyrði að stefndi greiddi henni fyrst 4.130.000 kr., þ.e. hinar meintu eftirstöðvar greiðslunnar samkvæmt skilnaðarsamkomulaginu. Þetta skilyrði hafi verið með miklum ólíkindum í ljósi þess að stefndi hafi verið að greiða upp skuld stefnanda við bankann umfram sína skyldu.

Í bréfi lögmanns stefnda 29. apríl 2016 hafi komið fram að greiðsla á umræddri skuld væri umfram skyldu samkvæmt skilnaðarsamningi og að fráleitt væri að tengja saman uppgjör á þessari skuld annars vegar og meintar eftirstöðvar á greiðslum stefnda hins vegar. Því hafi verið gerð sú krafa að stefnandi skrifaði undir uppgjörssamkomulagið innan tiltekins frests, ella yrði samkomulagið ekki undirritað og skuldin ekki greidd af hálfu stefnda. Stefnandi hafi að lokum fallist á að undirrita samkomulagið og stefndi greitt hina umsömdu fjárhæð til Arion banka, þ.e. 4.000.000 kr., en ítrekaðar tafir stefnanda á að undirrita samkomulagið hefðu valdið því að bankinn hafi lýst því yfir að hann væri við það að falla frá því góða tilboði um uppgjör sem fólst í samkomulaginu. 

Stefndi áréttar að umrædd greiðsla stefnda hafi verið umfram skyldu. Ekki sé hægt að finna því skýran stað í skilnaðarsamkomulaginu að stefnda hafi borið að taka yfir þessa skuld og hún tilheyri því þar af leiðandi stefnanda. Auk þess hafi aðilar ekki haft heimild til að ráðstafa sumarbústaðnum að [...] og hafi eignarhald þeirrar fasteignar ekki breyst. Því verður að telja þá fjárhæð í uppgjöri aðila sem greiðslu stefnda í þágu stefnanda. Krafan, þegar stefndi fór í málið, hafi numið 10,3 milljónum króna en svo verið lokið með samkomulagi um greiðslu upp á 4 milljónir. Byggir stefndi því á því að uppgjör á þessari kröfu dragist frá því sem honum beri að greiða stefnanda, beri honum að greiða eitthvað yfirhöfuð.

Hvað varðar leiðréttingu á bílaláni segir stefndi að fram hafi komið í bréfasamskiptum aðila að fengist hafi leiðrétting vegna ólögmætrar gengistengingar á samningi um bílalán nr. [...], dags. 28. apríl 2006, hjá SP Fjármögnun, sem hafi verið tekið á sínum tíma í tengslum við kaup á Toyota-jeppa, nr. [...], frá Landsbankanum. Leiðréttingin hafi numið alls 2.300.000 kr. og stefnandi gefið fyrirmæli um að helmingur af þeirri fjárhæð, 1.150.000 kr., yrði lagður inn á sinn reikning 10. apríl 2014. Líkt og rakið sé í skilnaðarsamningnum hafi stefndi tekið yfir umrætt lán og beri honum því leiðrétting sem til fellur vegna þess, enda hafi ekki verið gerður áskilnaður um annað af hálfu stefnanda í skilnaðarsamkomulaginu.

Telji dómurinn að ákvæði skilnaðarsamningsins um greiðsluskyldu stefnda sé enn virkt er á því byggt af hálfu stefnda að hann eigi kröfu á hendur stefnanda vegna þeirra fjárhæða sem hann hefur lagt út fyrir, umfram skyldu, og að skuldajöfnuði skuli beitt þannig að kröfurnar mætist enda séu skilyrði skuldajafnaðar uppfyllt, þar sem kröfurnar séu gagnkvæmar, gjaldfallnar og hæfar til að mætast hvað tíma varðar.

Enn fremur er á því byggt að stefndi eigi rétt á vöxtum, sbr. 4. gr., sbr. 10. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá því að umræddar kröfur voru greiddar og dráttarvöxtum frá og með 29. maí 2016 þegar mánuður var liðinn frá því að stefndi sendi erindi og krafði um þessar kröfur, sbr. 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, en gjalddagar voru sem hér segir: a) krafa vegna greiðslu á skuld hjá Arion banka, 4.000.000 kr., greitt 5. maí 2016. b) krafa vegna oftekinnar leiðréttingar, 1.150.000 kr., greitt 10. apríl 2014.

Að öllu framansögðu virtu telur stefndi ljóst að stefnandi eigi enga kröfu á hendur sér. Grundvöllur kröfugerðar stefnanda í þessu máli sé ákvæði í skilnaðarsamningi aðila þar sem fram kemur að greiða skuli 8.000.000 kr., að því gefnu að sala á fasteign að F á [...] sé á pari við skuldir en þá skuli greiðslan endurskoðuð og minnka ef tap er verulegt. Tapið á eigninni hafi verið verulegt, um 14 milljónir króna. Það atriði eitt og sér sé nægjanlegt til þess að sýkna beri stefnda af kröfu stefnanda, enda séu ekki forsendur fyrir því að ákvæði skilnaðarsamningsins varðandi greiðslu stefnda eigi við.

Stefndi hafi nú þegar greitt stefnanda 6.705.000 kr. í beinum greiðslum. Auk þess hafi stefndi tekið á sig, án þess að sér væri það skylt, að greiða fyrir stefnanda, að hennar beiðni, skuld hennar við Arion banka sem stóð í 10,3 milljónum en hafi verið unnt að semja niður í 4.000.000 kr. fyrir atbeina stefnda, sem hafi svo séð um að greiða þá skuld.

Enn fremur hafi stefnandi fengið leiðréttingu vegna bílaláns að fjárhæð 1.150.000 kr. sem hafi átt að renna til stefnda.

Því beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.

Stefndi ítrekar kröfu um að stefnandi gangi frá eigendaskiptum á Ford-bifreið, árgerð [...], númer [...], í samræmi við samkomulag aðila.

Um lagarök  vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar. Vísað er til laga nr. 38/2001, einkum 4., 5., 6. og 10. gr. um vexti.

Varðandi málskostnað er vísað til 129. gr., sbr. 1. mgr. 130. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt vísast til laga nr. 50/1988.

IV.

            Eins og rakið hefur verið gerðu málsaðilar með sér samkomulag um skilnaðarkjör, dags. 8. desember 2011. Samkvæmt 4. gr. samkomulagsins bar stefnda að greiða stefnanda 8.000.000 króna en sá fyrirvari var gerður við greiðsluna að reiknað var með að sala á fasteigninni að F, [...], yrði „á pari“ við skuldir og ef um „verulegt“ tap yrði að ræða við söluna þá yrði fjárhæð á greiðslu til stefnanda endurskoðuð. Þetta var áréttað í 7. gr. samkomulagsins. Þar var jafnframt kveðið á um að greiða ætti upphæðina eftir „fjárhagsgetu“ stefnda.

            Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi greitt henni samtals 3.870.000 krónur og hann eigi því enn eftir að greiða 4.130.000 krónur. Stefndi byggir hins vegar á því að hann hafi gert að fullu upp við stefnanda. Nánar tiltekið byggir stefndi á því að hann hafi greitt stefnanda samtals 6.705.000 krónur. Þá eigi stefndi kröfu til skuldajafnaðar á hendur stefnanda vegna skuldar sem hann hafi greitt við Arion banka, 4.000.000 króna, sem stefnanda hafi borið að greiða, og vegna leiðréttingar á bílaláni, að fjárhæð 2.300.000 krónur, en stefnandi hafi tekið til sín helminginn af þeirri fjárhæð, 1.150.000 krónur.

            Af orðalagi samkomulags aðila verður ekki annað ráðið en að gert hafi verið ráð fyrir því að salan á F kæmi nokkurn veginn út á sléttu en ef „verulegt“ tap yrði við söluna ætti að endurskoða fjárhæð greiðslu stefnda til stefnanda, án þess að það væri skilgreint nánar. Þar sem eignin kom í hlut stefnda samkvæmt samkomulagi aðila bar honum að greiða af áhvílandi lánum og rekstrarkostnað af eigninni þar til hún var seld. Fyrir liggur að erfiðlega gekk að selja eignina. Að lokum seldist hún á árinu 2015 fyrir 24.000.000 króna en áhvílandi lán var komið upp í um 38 milljónir króna. Við mat á því hvort um verulegt tap hafi verið að ræða við sölu eignarinnar verður ekki hjá því litið að eftirstöðvar áhvílandi láns á eigninni voru felldar niður og afskrifaðar en til þess mun stefndi hafa þurft að greiða til bankans 1.200.000 krónur og gefa út skuldabréf að fjárhæð 1.500.000 krónur. Er því ekki unnt að fallast á þá málsástæðu stefnda að um verulegt tap hafi verið að ræða við sölu á eigninni.

            Eins og áður segir heldur stefndi því fram að hann hafi greitt stefnanda alls 6.705.000 krónur af 8.000.000 króna, þ.e. 2.835.000 krónur til viðbótar við þá fjárhæð sem stefnandi kveður að hann sé búinn að greiða. Við aðalmeðferð málsins kom fram hjá aðilum að eftir skilnað aðila var stefnandi enn skráð fyrir lánum sem stefndi átti að yfirtaka. Stefndi eða fyrirtæki hans hafi því innt af hendi greiðslur til stefnanda og hún séð um að borga af lánunum. Þá liggur fyrir að stefnandi vann áfram hjá fyrirtækinu samkvæmt tilteknu tímakaupi. Að þessu virtu og gögnum málsins er afar óljóst fyrir hvað hver greiðsla var sem stefndi eða fyrirtæki hans innti af hendi til stefnanda, að öðru leyti en því að fallast ber á með stefnda að hann hafi á árinu 2012 greitt til viðbótar við það sem stefnandi heldur fram eftirfarandi greiðslur vegna samkomulags aðila, enda var við greiðslurnar tilvísun til uppgjörs eða samkomulags: 1. mars 100.000 krónur, 3. apríl 200.000 krónur, 6. júlí 100.000 krónur, 31. ágúst 200.000 krónur, 8. október 2012 krónur, 26. október 200.000 krónur og 4. desember 200.000 krónur. Þannig hefur stefndi greitt stefnanda 1.000.000 króna til viðbótar við þær 3.870.000 krónur sem stefnandi kveður að stefndi hafi greitt, eða samtals 4.870.000 krónur. Samkvæmt þessu eru eftirstöðvar skuldar stefnda við stefnanda 3.130.000 krónur. Fyrir dómi kom fram hjá báðum aðilum að greiðslur af áhvílandi láni á bifreiðinni [...], sem kom í hlut stefnda, stöfuðu frá stefnda og átti stefnandi því ekki rétt á að fá helminginn af leiðréttingu á láninu. Er því fallist á að stefndi eigi kröfu á hendur stefnanda til skuldajafnaðar, að fjárhæð 1.150.000 krónur. Því er hins vegar hafnað að stefndi eigi kröfu til skuldajafnaðar vegna greiðslu á skuld hjá Arion banka, 4.000.000 króna, sem hann ákvað að eigin sögn að greiða án skyldu. Þá verður ekki fallist á með stefnanda að líta eigi til annarra atriða við úrlausn þessa máls, s.s. hvort áhvílandi lán á E hafi verið afskrifað, vaxtabóta sem aðilar kunna að hafa fengið greiddar, yfirdráttar sem aðilar voru með á bankareikningum eða að stefnandi hafi upphaflega ein átt E samkvæmt kaupmála, enda kvað samkomulag aðila um skilnaðarkjör ekkert á um slíkt og engir fyrirvarar voru gerðir þess efnis.

            Með vísan til alls framagreinds ber stefnda að greiða stefnanda 1.980.000 krónur.

            Við ákvörðun málskostnaðar ber að líta til þess að stefnandi hefur unnið málið að hluta. Ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

            Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

            Stefndi, B, greiði stefnanda, A, 1.980.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá dómsuppsögu til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.

 

Sandra Baldvinsdóttir