• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 22. febrúar 2019 í máli nr. S-633/2018:

 

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 15. febrúar, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 10. desember 2018, á hendur X, kt. 000000-0000, [...], „fyrir eftirgreind hegningarlagabrot gagnvart sambýliskonu sinni, B, kt. 000000-0000, framin á árinu 2017, sem hér greinir: 1. Fyrir líkamsárás, gagnvart B með því að hafa, þann 13. mars 2017, á þáverandi heimili þeirra [...], tekið í hana fast með báðum höndum og rifið utan af henni peysuna sem hún var í og dregið hana út úr húsinu á hárinu með þeim afleiðingum að B hlaut sár á hægri framhandlegg. Telst þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 2. Fyrir líkamsárás gagnvart B með því að hafa, þann 17. október 2017 á þáverandi heimili þeirra að [...], kýlt hana með krepptum hnefa einu höggi í andlitið þannig að hún kastaðist aftur fyrir sig og skall með höfuðið í stofugólfinu. Afleiðingarnar urðu þær að B hlaut skurð á ennið. Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“ Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði kom fyrir dóm og játaði sök. Með játningu sinni, sem fær næga stoð í gögnum málsins og ekki þykir ástæða til að draga í efa, telst hann sannur að sök og verður háttsemi hans heimfærð til 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Af hálfu ákærða var lagt fram vottorð D geðlæknis, dags. 13. febrúar. Þar segir meðal annars: „[Ákærði] hefur glímt við þunglyndi lengi og komið til undirritaðs til meðferðar á lækningastofu reglulega frá febrúar 2017. Hann hefur ýmist komið einn eða með sambýliskonu sinni. Þau hafa komið saman og í sitt hvoru lagi undanfarið og það er gott samkomulag milli þeirra nú og hann er styðjandi við hana vegna andlegra veikinda hennar. Hann hefur verið miður sín vegna atviksins sem hann er sakaður um, hún óttast hann ekki og bæði hafa þau náð nokkrum árangri og bata og ekkert hefur komið fram sem bendir til að hætta sé á endurtekningu brots.“

Við ákvörðun refsingar verður horft til þess að brotin beindust að sambýliskonu ákærða og var framið á heimili þeirra. Eru ákærði og brotaþoli nákomin í skilningi 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Á hinn bóginn verður horft til þess að ákærði hefur samkvæmt sakvottorði ekki sakaferil, til játningar hans og þess sem kemur fram í vottorði D geðlæknis. Fyrir dómi lýsti ákærði iðrun sinni vegna brotanna og kemur það heim og saman við það sem segir í vottorði D. Þegar á allt er horft verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í fimm mánuði en fullnustu hennar skal frestað og niður falli hún niður að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð. Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 189.720 krónur með virðisaukaskatti og annan sakarkostnað, sem samkvæmt yfirliti lögreglustjóra nemur 28.000 krónum. Af hálfu ákæruvaldsins fór Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari með málið. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Ákærði, X, sæti fangelsi í fimm mánuði. Fullnustu refsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 189.720 króna málsvarnarþóknun Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, skipaðs verjanda síns, og 28.000 króna annan sakarkostnað.

 

Þorsteinn Davíðsson