• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Tilraun
  • Vopnalagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 7. maí 2019 í máli nr. S-72/2019:

 

Ákæruvaldið

(Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Róberti Sólberg Jósefssyni

(Halldóra Aðalsteinsdóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. apríl sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 7. febrúar sl. á hendur ákærða, Róberti Sólberg Jósefssyni, kt. 000000-0000, Fífumóa 7 í Reykjanesbæ:

„fyrir eftirgreind brot framin í Reykjanesbæ að morgni laugardagsins 15. september 2018:

I

Fyrir brot gegn valdstjórninni, vopnalögum og tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar, með því að hafa á heimili sínu að Fífumóa 7 ráðist með ofbeldi gegn lögreglumönnunum A og B, sem voru við skyldustörf, sveiflað öxi ítrekað í átt til þeirra og reynt þannig að valda þeim líkamstjóni og haldið áfram að ógna lögreglumönnunum með sama hætti eftir að þeir höfðu hörfað út á bifreiðastæði fyrir utan Fífumóa 7 uns þeir yfirbuguðu hann.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 30. gr. sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

II

Fyrir eignaspjöll, með því að hafa, í tengslum við háttsemina sem lýst er í ákærulið I, höggvið ítrekað með öxi í lögreglubifreiðina [...], þar sem hún stóð á bifreiðastæði við Fífumóa 7, með þeim afleiðingum að rúður, listar og vélarhlíf skemmdust.

Telst þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafist upptöku á öxi sem lögreglan lagði hald á, með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Í ákæru er einnig tekin upp einkaréttarkrafa embættis ríkislögreglustjóra, kt. 000000-0000, sem krefst þess að ákærða verði gert að greiða embættinu skaðabætur að fjárhæð 1.036.534 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi þann 15. september 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna að liðnum mánuði frá birtingu til greiðsludags.

Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa vegna verjandastarfans.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hefur játað sakargiftir og fallist á einkaréttarkröfu ríkislögreglustjóra. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Gerð var geðrannsókn á ákærða meðan á rannsókn málsins stóð. Samkvæmt henni er hann sakhæfur og ekkert sem bendir til annars en að refsing geti borið árangur.

Refsing ákærða verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum ekki áður verið gerð refsing. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1. og 3. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga sem báðir horfa til þyngingar á refsingu ákærða. Aftur á móti horfa 5. og 8. töluliðir 1. mgr. sömu lagagreinar ákærða til málsbóta, sbr. skýlausa játningu hans á sakargiftum í málinu og það að hann var samvinnuþýður við lögreglu meðan á rannsókn málsins stóð. Refsing ákærða þykir að brotum hans virtum hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu sex mánaða refsingarinnar og skal sá hluti falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þá verður öxi ákærða gerð upptæk eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Á grundvelli samþykkis ákærða verður hann dæmdur til þess að greiða embætti ríkislögreglustjóra 1.036.534 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. september 2018 til 20. apríl 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, en ákæra ásamt greinargerð kröfuhafa var birt ákærða 20. mars sl.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns og málsvarnarþóknun tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi, en þær þóknanir eru ákveðnar með virðisaukaskatti í dómsorði.

Arnaldur Hjartarson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Róbert Sólberg Jósefsson, sæti fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu sex mánaða refsingarinnar og skal sá hluti falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Til frádráttar refsingu ákærða kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 17. september 2018 til 21. september 2018, að fullri dagatölu.

Ákærði sæti upptöku á þeirri öxi sem í ákæru greinir.

Ákærði greiði embætti ríkislögreglustjóra 1.036.534 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. september 2018 til 20. apríl 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns, 421.600 krónur ásamt 40.320 krónum vegna útlagðs kostnaðar, og þóknun tilnefnds verjanda síns á rannsóknarstigi, Daníels Reynissonar lögmanns, 295.120 krónur ásamt 20.380 krónum vegna útlagðs kostnaðar. Þá greiði ákærði 634.956 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                               Arnaldur Hjartarson