• Lykilorð:
  • Endurgreiðslukrafa
  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Riftunarmál þrotabúa

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 8. maí 2019, í máli nr. E-975/2018:

Þ.b. SS Hús ehf.

(Katla Lovísa Gunnarsdóttir lögmaður)

gegn

Í-mat ehf.

(Jóhannes Már Sigurðarson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 10. apríl 2019, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness með stefnu birtri 4. október 2018.

Stefnandi er þrotabú SS Húsa ehf., kt. 000000-0000, Efstaleiti 5, 103 Reykjavík.

Stefndi er Í-mat ehf., kt. 000000-0000, Vesturhrauni 5, 210 Garðabæ.

Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi veðrétti samkvæmt veðskuldabréfi upphaflega að fjárhæð 20.000.000 króna, tryggðu með 6. veðrétti í fasteigninni að Lambhagavegi 25, 113 Reykjavík, fastanr. [...], dags. 1. ágúst 2017. Þá er þess krafist að stefndi greiði stefnanda skaðabætur að fjárhæð 20.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2017 til 14. mars 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst þess jafnframt að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til framlagðrar vinnuskýrslu.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

I

Málsatvik

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 10. janúar 2018, var bú SS Húsa ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og var Heiðar Ásberg Atlason lögmaður skipaður skiptastjóri. Frestdagur við gjaldþrotaskiptin er 8. september 2017.

Stefndi hefur með höndum veitingasölu og seldi hann SS Húsum ehf. hádegismat fyrir starfsmenn SS Húsa ehf., frá byrjun árs 2016 og fram á haustið 2017.

 

Þann 1. ágúst 2017, eða rúmum mánuði fyrir frestdag, gáfu SS Hús ehf. út veðskuldabréf til stefnda, tryggt með 6. veðrétti í fasteigninni Lambhagavegi 25 í Reykjavík, eign SS Húsa ehf. Bréfið var gefið út til að tryggja uppsafnaða skuld SS Húsa ehf. við stefnda vegna framangreindra viðskipta. Veðandlagið var selt einhverju síðar eða haustið 2017, og þann 15. desember 2017 fékk stefndi greiddar inn á sinn reikning 20.000.000 króna frá þeirri fasteignasölu sem hafði annast um söluna.

Þann 14. febrúar 2018 sendi skiptastjóri bréf til stefnda þar sem lýst var yfir riftun á framangreindri tryggingaráðstöfun með vísan til 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og þess krafist á grundvelli 142. gr. laganna að stefndi endurgreiddi búinu 20.000.000 króna. Stefndi hafnaði kröfum skiptastjóra með bréfi, dags. 9. apríl 2018. Á skiptafundi í þrotabúinu þann 10. apríl 2018 var samþykkt af kröfuhöfum búsins að höfða dómsmál þetta.

Í málinu liggur meðal annars fyrir afrit af umþrættu veðskuldabréfi, millifærslukvittun, dags. 15. desember 2017, yfirlýsing skiptastjóra um riftun, bréf frá lögmanni stefnda til skiptastjóra, dags. 9. apríl 2018, fundargerð skiptafundar þann 10. apríl 2018, útskrift viðskipayfirlits, upplýsingar með ársreikningi SS húsa ehf. árið 2015 og útskrift frá CreditInfo.

Við aðalmeðferð málsins gaf Sigurður Magnús Sigurðsson, fyrirsvarsmaður stefnda, aðilaskýrslu.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að framangreind tryggingaráðstöfun sé riftanleg ráðstöfun á grundvelli 137. gr. laga nr. 21/1991 en þar komi fram að krefjast megi riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingaréttindum sem kröfuhafi fékk á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag en ekki um leið og stofnað var til skuldarinnar. Reglan byggist á hlutlægum grunni, og sé ekki sé gerð sérstök krafa um að ráðstafanir þær sem gerðar séu á grundvelli hennar séu óvenjulegar, og skipti því ekki máli hvort ráðstöfunin sé venjuleg eftir atvikum eða ekki.

Stefnandi bendir á að ráðstöfun sú sem um ræði hafi verið gerð rúmum mánuði fyrir frestdag, eða þann 1. ágúst 2017, og veðskuldabréfið móttekið til þinglýsingar þann 4. ágúst 2017. Óumdeilt sé að tryggingaréttur þessi hafi komið til seinna en skuldin sem þar sé að baki, enda sé það viðurkennt í bréfi stefnda, þar sem segi að í byrjun ársins 2016 hafi stefnandi verið kominn í skuld við stefnda og að aðilar hafi þá gert samning sín á milli þess efnis að stefndi fengi tryggingu fyrir skuldinni. Verði því að telja skilyrði ákvæðisins uppfyllt og ráðstöfunina riftanlega á grundvelli þess.

Þá byggir stefnandi enn fremur á því að framangreind ráðstöfun sé riftanleg með vísan til hinnar almennu riftunarreglu 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem segi að krefjast megi riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar, og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.

Stefnandi telur ljóst að framangreind ráðstöfum hafi verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og hafi leitt til þess að eignir þrotabúsins voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Á þeim tíma sem umrædd ráðstöfun hafi verið framkvæmd hafi stefnandi auk þess verið ógjaldfær, og stefnda mátt vera það ljóst, enda hafi  tryggingaráðstöfunin verið gerð vegna ógjaldfærni stefnanda. Mátti stefndi því enn fremur vita að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Af fræðiritum og dómaframkvæmd megi ráða að ef ráðstöfun feli í sér brot á jafnræði kröfuhafa þá sé sú háttsemi ótilhlýðileg, sérstaklega ef kröfuhafa mátti vera það ljóst. Umrædd ráðstöfun hafi verið sett fram sem trygging fyrir eldri skuldum hins gjaldþrota félags og staða stefnda þannig tryggð fram yfir aðra kröfuhafa.

Um fjárkröfu stefnanda vísar stefnandi til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að því leyti sem riftunarkrafan byggist á 1. mgr. 137. gr. sömu laga en 3. mgr. 142. gr. laganna að því leyti sem riftunarkrafan sé reist á 141. gr. laganna. Stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni sem nemi andvirði ráðstöfunarinnar, 20.000.000 króna. Hefði framangreind ráðstöfun ekki átt sér stað hefðu fjármunirnir nýst stefnanda til úthlutunar til kröfuhafa. Þá sé engum vafa undirorpið að stefnda hafi verið fullkunnugt um riftanleika þeirrar ráðstöfunar sem að framan greinir. Því beri að dæma stefnda til greiðslu tjónsbóta, sbr. lokamálslið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.

Verði ekki fallist á að stefnda hafi verið kunnugt um riftanleika veðskuldabréfsins vísar stefnandi til fyrsta málsliðar 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 sem leiði til sömu fjárkröfu vegna ráðstöfunarinnar. Stefnandi byggir á því að sú ráðstöfun hafi komið stefndu að sömu notum og svarar til andvirðis hennar.

Að því leyti sem riftunarkrafa byggist á 141. gr. laga nr. 21/1991 er byggt á því að stefnda beri að greiða bætur eftir almennum reglum skaðabótaréttarins sem leiðir til sömu fjárkröfu og að framan greinir vegna ráðstöfunarinnar, sbr. 3. mgr. 142. gr. Af hálfu stefnanda er byggt á því að tjón hans vegna ráðstöfunarinnar sé 20.000.000 króna sem er sú fjárhæð sem stefndi fékk greidda á grundvelli hinnar riftanlegu tryggingaráðstöfunar. Er þess því krafist að félagið greiði þá fjárhæð auk vaxta.

Gerð er krafa um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi sem umrædd tryggingaráðstöfun fór fram þann 1. ágúst 2017 en það sé sá dagur sem hið bótaskylda atvik átti sér stað. Í öllu falli beri að greiða vexti samkvæmt sama ákvæði frá 15. desember 2017 þegar greiðsla fór fram. Þá sé gerð krafa um dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001, frá 14. mars 2018, eða að liðnum mánuði frá því að riftunaryfirlýsing var send og stefnandi sannanlega krafði stefnda um greiðslu vegna hennar.

Stefnandi bendir á að skiptastjóri hafi í allra fyrsta lagi átt þess kost að höfða dómsmál þetta um riftun á framangreindri tryggingaráðstöfun eftir fyrsta skiptafund. Við lok kröfulýsingarfrests hafi stefnandi ekki haft haldbært fé til að standa að málsókn á hendur stefnda. Ekki hafi því verið tilefni til að taka afstöðu til málshöfðunar gegn stefnda fyrr en á fyrsta skiptafundi í þrotabúinu 10. apríl 2018, enda málsóknin háð því að lánardrottnar, einn eða fleiri, tækju að sér að standa straum af málaferlum þessum. Marki skiptafundur því fyrsta mögulega upphaf málshöfðunarfrests samkvæmt 148. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Stefnandi mótmælir þeirri málsástæðu stefnda sem fram kom við aðalmeðferð málsins um að vísa beri málinu frá dómi ex officio með vísan til 148. gr. laga nr. 21/1991. Vísar stefnandi til ákvæða 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, um að sú krafa sé of seint fram komin.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum ákvæða 1. mgr. 137. gr., 1. mgr. 141. gr. og 1. og 3. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Þá vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins. Um fyrirsvar skiptastjóra vísar stefnandi til XIX. kafla laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Um vexti vísar stefnandi til III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. laganna. Dráttarvextir eru reiknaðir frá 14. mars 2018, eða að liðnum mánuði frá því að stefnandi sannanlega krafði stefnda um greiðslu með riftunarbréfi, dags 14. febrúar 2018. Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr.

 

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að viðskipti hans við stefnanda hafi verið eðlileg, gerð í góðri trú á jafnréttisgrundvelli, og án þess að raskað hafi verið hagsmunum kröfuhafa stefnanda. Um hefðbundna ráðstöfun hafi verið að ræða þar sem stefnandi og stefndi hafi átt í viðvarandi viðskiptum um langan tíma. Hafi þau viðskipti bæði átt sér stað fyrir og eftir það samkomulag sem gert var milli aðila í ársbyrjun 2016 um tryggingu fyrir efndum stefnanda. Ekki þurfi að fjölyrða um þann mikla kostnað sem stefndi hafi lagt í við veitingu þeirrar þjónustu, s.s. kostnað við hráefni, greiðslu virðisaukaskatts og fleiri kostnaðarliði. Hafi tryggingin verið eðlileg og nauðsynleg stefnda til að tryggja efndir stefnanda, líkt og sjá megi af hreyfingarlista úr bókhaldi stefnda, sem sýni skuldastöðu stefnanda á hverjum tíma og innborganir á skuld hans við stefnda. Samkomulag um tryggingarréttindin til handa stefnda hafi aðeins verið liður í því að hann yrði tryggður fyrir áframhaldandi viðskiptum, sem og því sem hafi verið útistandandi í upphafi ársins 2016, þar sem úttektir starfsmanna stefnanda hafi haldið áfram. Nefndur hreyfingarlisti úr bókhaldi stefnda gefi glögga mynd af viðvarandi viðskiptum milli aðila, en þar megi m.a. sjá að úttektir stefnanda eftir frestdag hafi verið yfir fjórar milljónir króna, sem sýni grandleysi og góða trú stefnda um efndir stefnanda. Við blasi að í öllu hafi verið staðið að viðskiptum aðila í samræmi við viðtekna venju í þessum viðskiptum. Því beri að taka kröfur stefnda um sýknu til greina.

Stefndi telur að við mat á því hvert beina eigi kröfu um riftun þurfi að meta þau atvik sem hafi leitt til þess að stefnandi innti af hendi greiðslur til veðhafa. Sú ráðstöfun hafi falist í sölu fasteignarinnar að Lambhagavegi 25, 113 Reykjavík, og sú ráðstöfun í raun það sem leiddi til tjóns stefnanda, fyrir milligöngu fasteignasala. Ljóst hafi verið á þeim tímapunkti að stefnandi var kominn í slík fjárhagsleg vandræði að um ólögmætan gjörning var að ræða, enda felist það m.a. í starfsskyldum fasteignasala að gæta að því að viðskipti séu í öllum tilfellum lögmæt. Beri honum skylda til að kanna líkur á því að aðilum sé heimilt að ganga til þeirra samninga sem hann hafi milligöngu um, m.a. með úttekt á vanskilaskrá Lánstrausts. Stefndi telur augljóst að sala fasteignarinnar og þar með tjón stefnanda megi rekja til gáleysis fasteignasala og eftir atvikum annarra sérfræðinga sem önnuðust söluna, enda verið augljóst að hún myndi leiða til tjóns fyrir þrotabú stefnanda eins og glögglega sjáist á yfirliti vanskilaskrár Lánstrausts, þar sem fram komi fjöldi færslna eftir frestdag.

Stefndi bendir á að við sölu fasteignarinnar að Lambhagavegi hafi stefnandi greitt veðskuldabréf það sem samið var um í upphafi árs 2016. Stefndi hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að tryggja sig gagnvart skuldheimtumönnum, m.a. með ítrekun á útgáfu bréfsins og þinglýsingu, þar sem það hafi verið á valdi stefnanda að efna loforð sitt um trygginguna sem hafi falist í samkomulagi aðila í upphafi árs 2016. Stefndi hafi verið í góðri trú og grandlaus um þá alvarlegu stöðu sem rekstur stefnanda var kominn í þegar hann fékk greiðslu í samræmi við þá tryggingu sem þó var ekki næg til að greiða að fullu skuldir stefnanda við stefnda. Skilyrði riftunar skv. 137. gr., sbr. einnig 141. gr., sbr. einnig 142. gr., laga nr. 21/1991, séu ekki fyrir hendi og beri því að sýkna stefnda að öllum kröfum stefnanda í þessu máli.

Stefndi byggir á því að samkomulag aðila í byrjun árs 2016 er varð grundvöllur umrædds tryggingarbréfs hafi ekki leitt til þess að eignir þrotabúsins voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Útgáfa bréfsins varði því hvorki við ákvæði 137. gr. né 141. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi SS Hús ehf. verið að fullu greiðslufær þrátt fyrir ráðstöfunina. SS hús ehf. hafi á þeim tímapunkti verið með yfir milljarð í tekjur og Ebitda vel yfir 20 milljónir skv. stöðu félagsins í lok árs 2015. Þá hafi tryggingarbréfið ekki verið tryggingarréttur fyrir eldri skuld í skilningi 137. gr. laganna heldur umsamin réttindi sem tengjast viðvarandi viðskiptum aðila og hafði verið lofað stefnda með nefndu samkomulagi í ársbyrjun 2016. Stefndi hafi með engu móti verið grandsamur um ógjaldfærni stefnanda, hvernig sem á málið sé litið. Með vísan til umfjöllunar um 131., 134., 137. og 141. gr. laga nr. 21/1991 sé ljóst að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda um að þola riftun á veðréttinum.

Stefndi byggir á því að verði fallist á riftun sé ekki um að ræða neina auðgun stefnda og beri því að hafna endurgreiðslukröfu stefnanda. Í ljósi málsatvika hafi stefndi ekki auðgast af umræddum greiðslum. Þvert á móti hafi hann borið kostnað af greiðslunum. Því beri að sýkna stefnda af endurgreiðslukröfu stefnanda.

Við munnlegan flutning málsins krafðist stefndi þess að málinu yrði vísað frá dómi ex officio, með vísan til 148. gr. laga nr. 21/1991, enda hefði málshöfðunarfrestur stefnanda til riftunar byrjað að líða við kröfuhafafund þann 18. mars 2018 og því hafi sex mánaða frestur verið liðinn þegar mál þetta var höfðað þann 4. október 2018.

Þá vísaði stefndi við munnlegan flutning málsins til ákvæða 145. gr. laga nr. 21/1991, á þann hátt að ef sérstaklega stæði á, mætti lækka eða fella niður kröfu á þann sem hefði hag af ráðstöfun, ef greiðsla kröfunnar væri svo miklum erfiðleikum bundin að ósanngjarnt mætti teljast og önnur atvik leiddu til þess sama. 

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá er byggt á 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944. Málskostnaðarkrafan byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum á 3. mgr. 129. gr., sbr. 1. mgr. 130. gr., laganna. Stefndi krefst þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til virðisaukaskatts, sbr. lög nr. 50/1988.

IV

Forsendur og niðurstöður

Krafa um frávísun málsins IV.1, riftunarkröfur IV.2, fjárkrafa IV.3, ákvörðun málskostnaðar IV.4.

IV.1

Frávísunarkrafa

Stefndi krafðist þess við aðalmeðferð málsins að málinu yrði vísað frá dómi ex officio, á þeim forsendum að krafa stefnanda væri of seint fram komin.

Í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. kemur fram að ef höfða þurfi dómsmál til þess að koma fram riftun, skuli það gert áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna, þó aldrei fyrr en við lok kröfulýsingarfrests.

Skiptastjóri lýsti yfir riftun í bréfi til stefnda, dags. 14. febrúar 2018, og krafðist endurgreiðslu. Kröfulýsingarfresti lauk þann 18. mars 2018 og rann frestur til málshöfðunar því í fyrsta lagi út þann 18. september 2018. Með bréfi stefnda, dags. 9. apríl 2018, var kröfum skiptastjóra fyrst hafnað að því er séð verður. Fyrsti skiptafundur í þrotabúinu var degi síðar þar sem tekin var ákvörðun um að höfða dómsmál til riftunar á veðrétti stefnda. Tiltekið er í stefnu að ekki hafi verið tilefni til að taka afstöðu til málshöfðunar fyrr en þá, enda hafi ekki verið haldbært fé í búinu og málsóknin háð því að lánardrottnar tækju að sér að standa straum af þeim kostnaði.

Samkvæmt framangreindu var ekki tilefni til þess fyrir skiptastjóra að taka afstöðu til málsóknar á hendur stefnda fyrr en höfnun stefnda lá fyrir þann 9. apríl 2018, og í síðasta lagi á skiptafundi þann 10. apríl 2018, sem markar þannig upphaf málshöfðunarfrests skv. 148. gr. Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu þann 4. október 2018, og var málið því höfðað innan málshöfðunarfrests. Er kröfu stefnda um frávísun málsins án kröfu því hafnað.

IV.2

Riftunarkröfur

Samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum sem kröfuhafi fékk á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag en ekki um leið og stofnað var til skuldarinnar.

Frestdagur gjaldþrotaskiptanna miðast við 8. september 2017 og umþrætt veðskuldabréf var útgefið 1. ágúst 2017. Fyrir liggur í málinu að veðskuldabréfið var til tryggingar viðskiptaskuld sem féll til á tímabilinu 1. ágúst 2016 til 1. ágúst 2017, og nam viðskiptaskuldastaðan þann 1. ágúst 2017 20.292.200 krónum. Til skuldarinnar var því stofnað áður en veðskuldabréfið var gefið út.

Byggt er á því af hálfu stefnda að samningur eða loforð hafi verið gefið af hálfu SS Húsa ehf. um útgáfu veðskuldabréfsins þegar í ársbyrjun 2016. Af gögnum málsins og skýrslu fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi verður ætlað að viðskipti aðila hafi í reynd hafist í upphafi ársins 2016 en ekki fyrr. Óveruleg viðskiptaskuld var þá til staðar og í júlí 2016 var engin skuld. Þá kom jafnframt fram í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi að hann teldi að samið hefði verið um veðið seinni hluta ársins 2016 án þess að það tímamark væri nánar tilgreint. Af framangreindu telst ósennilegt að samið hafi verið um útgáfu veðskuldabréfsins í upphafi ársins 2016, og að öðru leyti liggja engin gögn fyrir til stuðnings nefndri málsástæðu, og er hún því alls ósönnuð. Samkvæmt framangreindu eru þegar uppfyllt ákvæði 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991. Ber því að fallast á kröfu stefnanda um riftun á nefndum veðréttindum.

Stefnandi byggir einnig á því að útgáfa veðskuldabréfsins sé riftanleg með vísan til 141. gr. laga nr. 21/1991. Skilyrði þess ákvæðis er að stefndi vissi eða mátti vita um ógjaldfærni SS Húsa ehf. Með uppsöfnun viðskiptaskuldar án innborgana um lengri tíma mátti stefnda vera ljóst um vangetu SS Húsa ehf. til að greiða. Hugtakið „ógjaldfærni“ í nefndu ákvæði ber hins vegar að skýra svo að það taki einnig til vitneskju stefnda um eignastöðu skuldara. Staðreynt er að SS Hús ehf. veittu stefnda veð í eign sinni þann 1. ágúst 2017 fyrir nánast allri skuldinni. Stefndi mátti því ætla að SS Hús ehf. ættu eignir til tryggingar vangreiddum kröfum. Ekkert annað er fram komið í málinu um vitneskju stefnda um eignastöðu SS Húsa ehf., eða hver eignastaða félagsins var á þessum tíma. Með vísan þessa verður að hafna því að ráðstöfunin sé riftanleg með vísan til 141. gr. laga nr. 21/1991.

 

 

IV.3

Fjárkrafa

Í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. segir að ef riftun fari fram með stoð í 131.–138. gr. skal sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun, greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Hafi hann fengið peninga greidda eða hafi greiðsla þrotamannsins verið seld og greiðsla fengist fyrir hana í peningum skiptir notkun peninganna engu um kröfu þrotabúsins.

Óumdeilt er að stefndi fékk greiddar 20.000.000 króna í peningum þann 15. desember 2017 vegna veðréttindanna og sölu á veðandlagsins. Notkun stefnda á þeim peningum skiptir engu fyrir stefnanda, og nemur tjón þrotabúsins sömu fjárhæð.

Stefndi krafðist lækkunar með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991, og var vísað til þess að hann hafi verið í góðri trú. Riftun samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 byggir á hlutlægum grunni, óháð góðri trú stefnda. Af hálfu stefnanda var upplýst að fjöldi einstaklinga hefði lýst rétthærri kröfum í búið en stefndi, um laun og bætur, og óvíst hvort þeir aðilar fengju kröfur sínar greiddar að fullu. Ósanngjarnt væri með tilliti til hagsmuna þeirra að fallast á lækkun kröfunnar.

 Af hálfu stefnda hafa engin gögn verið lögð fram er snúa að fjárhag hans sjálfs þannig að dóminum sé unnt að meta hvort endurgreiðslan sé bundin svo miklum erfiðleikum fyrir stefnda að ósanngjarnt megi teljast, né hefur verið sýnt fram á önnur atvik fyrir því að fallast megi á kröfu hans.

Með vísan til framangreinds ber að fallast á endurgreiðslukröfu stefnanda, og verður stefnda gert að greiða stefnanda 20.000.000 krónur. Dráttarvaxtakröfu stefnanda var ekki sérstaklega mótmælt, en rétt þykir þó að krafan beri ekki dráttarvexti fyrr en frá þeim tíma sem greiðsla barst stefnda, eða þann 15. desember 2017.

IV.4

Málskostnaður

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.686.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Bogi Hjálmtýsson kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Rift er veðrétti samkvæmt veðskuldabréfi upphaflega að fjárhæð 20.000.000 króna, tryggðu með 6. veðrétti í fasteigninni að Lambhagavegi 25, 113 Reykjavík, fastanr. [...], sem gefið var út af SS húsum ehf. til stefnda, Í-mats ehf., þann 1. ágúst 2017.

Stefndi greiði stefnanda 20.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 15. desember 2017 að telja til greiðsludags. 

Stefndi greiði stefnanda 1.686.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                             Bogi Hjálmtýsson