• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 28. júní 2018 í máli nr. S-185/2018:

 

Ákæruvaldið

(Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Ólafi Þór Þrastarsyni

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 22. júní 2018, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 10. apríl 2018, á hendur Ólafi Þór Þrastarsyni, kt. 000000-0000, [...] ,,fyrir eftirtalin umferðarlagabrot á árinu 2017 með því að hafa:

I

Aðfaranótt þriðjudagsins 2. maí í Reykjanesbæ ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 6,0 ng/ml) suður vegslóða frá hringtorgi á Þjóðbraut við Skólaveg að hliði við knattspyrnuvöll Njarðvíkur þar sem aksturinn var stöðvaður, og í sama skipti haft í vörslum sínum í öskubakka bifreiðarinnar og í tösku í bifreiðinni 0,23 g af maríjúana og 1, 51 g af tóbaksblönduðu kannabis sem lagt var hald á.

II

Aðfaranótt laugardagsins 13. maí í sveitarfélaginu Garði ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 10 ng/ml) norður Garðveg við Hólmabergskirkjugarð uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar á Garðvegi, og við framhaldsrannsókn málsins á lögreglustöð haft í vörslum sínum innan klæða 0,95 g af maríjúana, sem hann framvísaði og lagt var hald á.

III

Aðfaranótt sunnudagsins 21. maí í sveitarfélaginu Grímsnes- og Grafningshreppi ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 4,2 ng/ml) vestur Biskupstungnabraut við afleggjarann að Þingvallavegi uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

IV

            Aðfaranótt sunnudagsins 24. september ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist 1,68 ‰) suður Lækjargötu í Reykjavík þar sem hann ók aftan á bifreiðina [...], sem var kyrrstæð gegn rauðu umferðaljósi, ekki sinnt skyldum sínum við umferðaróhapp heldur ekið á brott af vettvangi uns aksturinn var stöðvaður á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ skammt frá Arnarnesi.

V

Aðfaranótt sunnudagsins 12. nóvember ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist 1,50 ‰) um Reykjanesbraut móts við N1 Lækjargötu uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Teljast brot í öllum liðum varða við 1. mgr. 48. gr., og brot í liðum IV og V auk þess við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., en brot í liðum I, II og III auk þess við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a, og brot í lið IV einnig við 1. mgr. 10. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987, þá varðar brot í liðum I og II ennfremur við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006, og jafnframt að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/ 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 23/2001.“

 

Við fyrirtöku málsins 22. júní 2018 kom ákærði fyrir dóm og játaði sök. Í ljósi játningar ákærða var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framkomnum gögnum. Brot ákærða teljast því sönnuð og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur árið 1989 og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2014. Við úrlausn þessa máls hefur áhrif að 11. mars 2014 gekkst ákærði undir sektargerð lögreglustjóra þess efnis að ákærði samþykkti að greiða 160.000 krónur í sekt og sæta sviptingu ökuréttar í átján mánuði fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2016 var ákærði dæmdur til greiðslu 350.000 króna sektar og gert að sæta sviptingu ökuréttar í þrjú ár og sex mánuði, meðal annars fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þá var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2017 fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. og 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.

Brot þau sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu voru framin 2. maí, 13. maí, 21. maí, 24. september og 12. nóvember 2017, eða fyrir uppkvaðningu áðurnefnds dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 12. desember 2017. Við ákvörðun refsingar ákærða er því litið til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940,  sbr. og einnig 77. gr. sömu laga.  Að þessu gættu og að virtum sakaferli ákærða þykir refsing hans samkvæmt dómvenju réttilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.

Ákærði var sviptur ökurétti ævilangt með dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2017. Með vísan til framangreinds og í samræmi við kröfugerð ákæruvalds og með vísan til 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er ævilöng svipting ökuréttar ákærða áréttuð.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvaldsins, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæru verða gerð upptæk 1,51 g af tóbaksblönduðu kannabisefni og samtals 1,18 g af maríhúana.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti sækjanda, samtals 265.823 krónur.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Ólafur Þór Þrastarson, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

            Ákærði sæti upptöku á 1,18 g af maríhúana og 1,51 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.

            Ákærði greiði 265.823 krónur í sakarkostnað.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir