• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Rán
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Vopnalagabrot
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 9. nóvember 2018 í máli nr. S-385/2018:

Ákæruvaldið

(Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Þór Magnússyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 2. nóvember 2018, er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 21. ágúst 2018 á hendur Þór Magnússyni, kt. 000000-0000, óstaðsettum í hús í Kópavogi, „fyrir eftirgreind hegningar- og umferðarlagabrot:

 

I.

Þjófnaðarbrot með því að hafa:

1.       Fimmtudaginn 29. mars 2018 í verslun Krónunnar, Vallakór 4 í Kópavogi, stolið matvörum, samtals að verðmæti kr. 2.512.

(Mál 007-2018-20030)

2.       Mánudaginn 2. apríl 2018 í verslun Byko, Breidd, Skemmuvegi 2 í Kópavogi, stolið afgreiðslutölvu fatadeildar að verðmæti kr. 209.900.

(Mál 007-2018-23033)

3.       Aðfaranótt sunnudagsins 15. apríl 2018 í félagi við nafngreindan aðila, brotist inn í skrifstofur og lager verslunar Tæknibæjar að […] í Reykjavík, með því að spenna upp glugga á annarri hæð, farið þar inn og stolið þaðan 7 Lenovo fartölvum, samtals að söluverðmæti kr. 684.570.

(Mál 007-2018-23805)

Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

Rán í félagi við nafngreindan aðila, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 14. apríl 2018 í undirgöngum við Tjarnarvelli á móts við Bónus í Hafnarfirði, hótað A með því að slá hann í andlitið með krepptum hnefa og leggja skrúfjárn að hálsi hans, tekið af honum Samsung S-7 síma, Casio armbandsúr og veski sem innihélt ýmis verðmæti og neytt hann til að gefa upp pinnúmer símans og öryggisnúmer debetkortsins og í kjölfarið kl. 6:48 stolið  kr. 3.175 úr hraðbanka Íslandsbanka við Strandgötu 8-10 í Hafnarfirði, með heimildarlausri notkun debetkorts A og öryggisnúmeri reikningsins, sem ákærði hafði komist yfir svo sem rakið er.

(Mál  007-2018-23656)

Teljast brot þessi varða við 252. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

III.

Tilraun til fjársvika með því að hafa, föstudaginn 6. apríl 2018, í félagi við nafngreindan aðila í verslun Byko, Breidd, Skemmuvegi 2, Kópavogi, tekið saman ýmis verkfæri í versluninni að söluandvirði kr. 191.900 og gert tilraun til að fá vörurnar reiknisfærðar á viðskiptareikning […] án þess að hafa til þess heimild en starfsfólk verslunarinnar bar kennsl á mennina vegna fyrri afskipta og neituðu þeim um viðskiptin.

(Mál  007-2018-23031)

Telst brot þetta varða við 248. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

IV.

Umferðarlagabrot, með því að hafa:

Aðfaranótt föstudagsins 13. apríl 2018 ekið bifreiðinni […] sviptur ökurétti, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 895 ng/ml og kókaín 650 ng/ml) frá Engihjalla 1 í Kópavogi að húsi nr. 17, þar sem lögregla hafði afskipti af honum. Á sama tíma haft í vörslum sínum hafnarbolta-kylfu [sic] sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.

(Mál 007-2018-23250)

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og c.liðar 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt er krafist upptöku á hafnarboltakylfu skv. samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.“

 

 

 

Við þingfestingu málsins 15. október 2018 játaði ákærði skýlaust sök samkvæmt töluliðum 1-3 í I. lið ákærunnar. Þá gekkst hann við ráni samkvæmt II. ákærulið, en neitaði því að hafa stolið 3.175 krónum úr hraðbanka Íslandsbanka í kjölfar þess. Hann neitaði jafnframt sök samkvæmt III. ákærulið. Að því er IV. ákærulið varðar játaði hann því að hafa ekið bifreiðinni […] í umrætt sinn og samþykkti kröfu um upptöku á hafnaboltakylfu, en neitaði að hafa verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna við aksturinn. Bar hann því við að hafa neytt efna eftir að akstri lauk.

Af hálfu sækjanda var því lýst yfir að fallið væri frá þeirri lýsingu á háttsemi ákærða í II. ákærulið, að hann hefði í kjölfar ránsins stolið 3.175 krónum. Jafnframt féll sækjandi frá III. ákærulið í ákæru. Þá lýsti sækjandi því yfir við fyrirtöku málsins 2. nóvember sl. að fallið væri frá þeirri lýsingu í IV. ákærulið að ákærði hafi verið óhæfur um að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna.

Í ljósi játningar ákærða og að teknu tilliti til framangreindar breytinga sem ákæruvaldið hefur gert á ákærunni ákvað dómari að fara með mál hans samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að þóknun skipaðs verjanda verði greidd úr ríkissjóði. 

II

Eins og áður greinir hefur ákærði gengist við brotum sínum og fær játning hans stoð í gögnum málsins. Er ekki ástæða til að draga í efa að játning hans sé sannleikanum samkvæm. Er því sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem ákæruvaldið gerði á ákærunni samkvæmt framansögðu. Varðar háttsemi hans við 244. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og c-lið 2. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998. 

Ákærði er fæddur í […] árið […] og á að baki nokkurn sakaferil. Samkvæmt framlögðu sakavottorði var hann með dómi Héraðsdóms Reykjaness 16. ágúst 2016 dæmdur í 18 mánaða fangelsi, þar af voru 15 mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára, vegna þjófnaðar, ráns og nytjastuldar. Hinn 28. febrúar 2017 var hann aftur dæmdur af sama dómstól til 18 mánaða fangelsisvistar fyrir líkamsárás, þjófnaði, fjársvik, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Að auki var hann þá sviptur ökurétti í þrjú ár frá 18. mars 2017. Með þeim dómi var fyrrnefndur skilorðsdómur dæmdur upp.

Að öllu framanrituðu virtu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Í ljósi sakaferils hans þykja ekki efni til að skilorðbinda refsinguna.

Í ákæru er þess krafist að ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, en samkvæmt yfirliti lögreglunnar nemur sá kostnaður alls 232.808 krónum, og sundurliðast þannig:

1.    Kostnaður Vöku vegna flutnings á bifreiðinni […], sbr. 3. tl. I. ákæruliðar kr. 21.755,-.

2.    Lækniskostnaður vegna skoðunar á brotaþola, sbr. II. ákærulið kr. 44.900,-.

3.    Matsgerð rannsóknarstofu HÍ, sbr. ákærulið IV., kr. kr. 166.1653,-.

Ákærði hafði umráð bifreiðarinnar […] er hann var handtekinn við innbrot og þjófnað í verslun Tæknibæjar 15. apríl 2018, sbr. 3. tl. I. ákæruliðar, og verður hann því dæmdur til greiðslu þess kostnaðar sem hlaust af flutningi bifreiðarinnar. Einnig verður hann dæmdur til greiðslu lækniskostnaðar vegna skoðunar á brotaþola, sbr. II. ákærulið. Þar sem ákæruvaldið féll hins vegar frá þeirri lýsingu á háttsemi ákærða samkvæmt IV. ákærulið að hann hafi verið óhæfur um að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, verður ákærða ekki gert að greiða þann kostnað sem hlaust af rannsókn á blóð- og þvagsýni hans. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður hann dæmdur til að greiða sakarkostnað lögreglu að fjárhæð 66.655 krónur. Þá verður ákærði einnig dæmdur til greiðslu þóknunar skipaðs verjanda síns fyrir dómi, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 252.960 krónur, og einnig 252.960 krónur til skipaðs verjanda á rannsóknarstigi málanna, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns. Við ákvörðun þóknunar til lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. 

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Þór Magnússon, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Upptæk skal gerð hafnaboltakylfa sem lögregla fann við leit í bifreiðinni […].

Ákærði greiði samtals 572.575 krónur í sakarkostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns fyrir dómi, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 252.960 krónur, svo og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, einnig 252.960 krónur.

 

Ingimundur Einarsson