• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 7. maí 2019 í máli nr. S-106/2019:

 

Ákæruvaldið

(Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi)

gegn

Birgi Ómari Jónssyni

(Eva Dóra Kolbrúnardóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. apríl sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 19. febrúar sl. á hendur ákærða, Birgi Ómari Jónssyni, kt. 000000-0000, Álalind 5 í Kópavogi:

„fyrir hegningar-, umferðar- og lögreglulagabrot, með því að hafa að morgni mánudagsins 19. júní 2017, ekið bifreiðinni [...] frá Reykjavík til Selfoss, sviptur ökuréttindum, ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist kókaín 155 ng/ml), án þess að sinna fyrirmælum lögreglu um að stöðva bifreiðina sem gefin voru til kynna með forgangsljósum lögreglubifreiðar, svo að eftirför lögreglu eftir bifreiðinni hófst, án nægilegrar tillitssemi og varúðar og án þess að gefa stefnuljós, nota öryggisbelti og miða ökuhraða við aðstæður og hraðatakmarkanir, sem hér greinir:

Ákærði ók bifreiðinni suður Súðavog frá Kleppsmýrarvegi, jók ökuhraðann og beygði til vinstri inn á Sæbraut til suðurs þar sem lögregla gaf ákærða merki um að stöðva bifreiðina án árangurs, eins og fyrr greinir, en ók þess í stað suður Sæbraut, þaðan inn á Miklubraut til austurs, upp Ártúnsbrekkuna og inn á Vesturlandsveg á 115 km hraða á klukkustund, þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km á klukkustund, til hægri inn á Suðurlandsveg til suðurs, þar sem önnur lögreglubifreið með forgangsljósum og hljóðmerkjum hóf einnig eftirför, þaðan til hægri upp frárein í átt að Árbæ, inn á hingtorg við Selás, án þess að virða biðskyldu, þar sem ákærði ók heilan hring á hringtorginu og aftur út á Suðurlandsbraut til suðurs, fram úr öðru ökutæki yfir óbrotna miðlínu svo að umferð úr gagnstæðri átt þurfti að hörfa, á ný fram úr öðru ökutæki yfir óbrotna miðlínu rétt áður en ákærði ók í gegnum hringtorg við Breiðholtsbraut, án þess að virða biðskyldu, og áfram austur Suðurlandsveg á 110 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km á klukkustund, fram hjá verslun Olís og í gegnum hringtorg, án þess að virða biðskyldu, áfram austur Suðurlandsveg og til Hveragerðis, en á þeirri leið ók ákærði, sem þá var veitt eftirför af fjórum lögreglubifreiðum, á 120 km til 140 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km á klukkustund, ítrekað á miðri akbraut yfir miðlínu, bæði á milli akreina með gagnstæða akstursstefnu og sömu akstursstefnu, á röngum vegarhelmingi og fram úr fjölda bifreiða án nokkurrar aðgæslu svo að umferð úr báðum áttum þurfti margsinnis að hörfa til hliðar auk þess að fleygja í eitt skipti hlut á stærð við gosflösku út úr bifreiðinni. Ákærði stöðvaði bifreiðina á Suðurlandsvegi í Hveragerði við naglamottu sem lögregla hafði komið fyrir á akreininni, ók fram hjá mottunni utan vegar til hægri og aftur inn á veginn til suðausturs, inn á hringtorg við Þorlákshafnarveg, án þess að virða biðskyldu, þar sem lögregla ók á bifreið ákærða í því skyni að stöðva för hans, án árangurs, þaðan yfir rangan vegarhelming með vinstri beygju út af Suðurlandsvegi inn á grasbala samsíða veginum sem ákærði ók eftir nokkurn spöl, aftur inn á veginn yfir rangan vegarhelming með hægri beygju í veg fyrir lögreglu og áfram til Selfoss, en á þeirri leið ók ákærði, á 120 km til 140 km hraða á klukkustund (rafræn hraðamæling lögreglu við Gljúfurholt sýndi 128 km hraða á klukkustund) þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km á klukkustund, í nokkur skipti á miðri akbraut milli akreina með gagnstæða akstursstefnu og fram úr fjölda bifreiða án nokkurrar aðgæslu svo að umferð úr báðum áttum þurfti margsinnis að hörfa til hliðar. Að lokum ók ákærði um Suðurlandsveg á Selfossi í átt að Ölfusárbrú á miklum hraða, í gegnum hringtorg við Árbæjarveg, án þess að virða biðskyldu, þannig að vinstri dekk bifreiðarinnar fóru upp á umferðareyju hringtorgsins, fram hjá verslun Olís, fram úr öðru ökutæki yfir óbrotna miðlínu, inn á rangan vegarhelming rétt norðan við Ölfusárbrú, þar sem lögregla hafði stöðvað umferð og lokað brúnni, út af veginum til vinstri, yfir grasbala og gangstíg og út í Ölfusá.

Með akstrinum raskaði ákærði umferðaröryggi á alfaraleið og stofnaði á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu vegfarenda í augljósan háska, þar á meðal lögreglumanna sem reyndu að stöðva aksturinn, en töluverð umferð var á allri leið ákærða.

Telst þetta varða við 1. mgr. 168. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 5. gr. a., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 1. mgr. 19. gr., a. og d. liði 2. mgr. og 3. mgr. 20. gr., 2. mgr. 31. gr., 1. mgr. 36. gr., sbr. a. og c. liði 2. mgr. sömu greinar, 1. og 2. mgr. 37. gr., 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 71. gr. og 1. mgr. 77. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðalaga nr. 50/1987 og 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.“

Hinn 5. mars 2019 gaf lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu út ákæru á hendur ákærða:

„fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 20. október 2018, ekið bifreiðinni [...], vestur Hallsveg, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist kókaín 1450 ng/ml) og ekki sinnt fyrirmælum lögreglu um að stöðva bifreiðina sem gefin voru til kynna með forgangsljósum, heldur ekið áfram vestur Hallsveg, gegn rauðu ljósi á gatnamótum Hallsvegs og Gullinbrúar, í framhaldi ekið suður Gullinbrú og um Höfðabakka, ekið gegn rauðu ljósi á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls, ekið austur Bæjarháls í átt að Suðurlandsveg og því næst um Suðurlandsveg á 111 km hraða á klst. þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km hraði á klst., í framhaldi ekið áfram um Suðurlandsveg á 127 km hraða á klst. þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km hraði á klst, því næst ekið austur Suðurlandsveg, gegn akstursstefnu á köflum, og á 131 km hraða á klst. þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km hraði á klst., því næst ekið áfram Suðurlandsveg þar til lögregla stöðvaði akstur ákærða við Bolöldunámur.

Telst þetta varða við 1. og 3. mgr. 5. gr., [...] 2. mgr. 37. gr., og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a., allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 og 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“

Upphaflega var brot ákærða samkvæmt þessari ákæru einnig heimfært til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1987, en við þingfestingu málsins kvaðst ákæruvaldið falla frá þeirri tilvísun.

Með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var ákveðið að sameina mál þessi og reka þau og dæma sem eitt mál.

Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa vegna verjandastarfans.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hefur játað sakargiftir og var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru, en ekki kemur að sök þótt heiti lögreglulagabrots sé ekki sérstaklega tilgreint í ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 5. mars 2019, enda verður skýrlega ráðið af ákærunni sú háttsemi sem ákært er fyrir og við hvaða lagaákvæði hún varðar.

Ákærði er fæddur í desember árið [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann í þrígang gengist undir lögreglustjórasátt vegna brota á lögum nr. 50/1987. Ákærði er nú í annað sinn fundinn sekur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Refsing ákærða verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem brot í ákæru héraðssaksóknara, dags. 19. febrúar 2919, voru framin áður en ákærði gekkst undir lögreglustjórasátt 26. júní 2017, en þar af leiðandi verður ákærða dæmdur hegningarauki vegna þeirra, sbr. 78. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1., 3. og 6. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, sem allir horfa til þyngingar á refsingu ákærða í máli þessu. Á hinn bóginn þykir til þess mega líta að ákærði hefur gengist greiðlega við brotum sínum, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem hann hefur leitað sér aðstoðar vegna fíknivanda síns. Loks leið óþarflega langur tími frá brotum ákærða 19. júní 2017 og þar til ákæra var gefin út.

Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til framangreinds þykir, í samræmi við kröfugerð ákæruvalds og með vísan til 101. gr. og 102. gr. laga nr. 50/1987, rétt að svipta ákærða ökurétti í þrjú ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarþóknun málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns sem ákveðin er með virðisaukaskatti í dómsorði.

Arnaldur Hjartarson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Birgir Ómar Jónsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði sæti sviptingu ökuréttar í þrjú ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Evu Dóru Kolbrúnardóttur lögmanns, 337.280 krónur. Þá greiði ákærði 315.006 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                                        Arnaldur Hjartarson