• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Skjalafals

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 3. maí 2019 í máli nr. S-267/2019:

Ákæruvaldið

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Luan Kokomani

 

Mál þetta, sem þingfest var 23. apríl 2019 og dómtekið sama dag, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum 1. apríl 2019 á hendur ákærða, Luan Kokomani, fæddum [...], ríkisborgara Albaníu,

fyrir skjalafals, með því að hafa, mánudaginn 18. mars 2019, framvísað við landamæragæslu í flugstöð Leifs Eiríkssonar, í blekkingarskyni, er hann var á leið til Dublin, Írlandi, með flugi WW852, grunnfölsuðum ítölskum skilríkjum, öllum ánöfnuðum A, fd. [...], kennivottorði, nr. [...] með gildistíma frá 27.07.2017 til 26.07.2017, ökuskírteini nr. [...] útgefnu 22.09.2016 og sjúkratryggingakorti nr. [...].

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“ 

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og boðaði ekki forföll, en í fyrirkalli sem var ásamt ákæru birt fyrir honum 16. apríl 2019, var tekið fram að yrði ekki sótt þing af hans hálfu mætti hann búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið það brot sem hann væri ákærður fyrir og að dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til ofanritaðs og gagna málsins að öðru leyti telur dómurinn þannig sannað að ákærði hafi framið það brot sem hann er sakaður um í ákæru og er þar rétt færð til refsiákvæðis.

Engra gagna nýtur við um að ákærði hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, en í yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst hann vera albanskur ríkisborgari. Við ákvörðun refsingar verður tekið mið af því og refsing ákærða ákveðin í samræmi við fastmótaða dómvenju í málum sem þessum, fangelsi í 30 daga. Þá verður ákærði, með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, dæmdur til greiðslu þóknunar skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns, sem ákveðst 98.580 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Luan Kokomani, albanskur ríkisborgari, sem fæddur er [...], sæti fangelsi í 30 daga. .

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns, 98.580 krónur. 

 

Ingimundur Einarsson