• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 3. maí 2019 í máli nr. S-529/2018:

Ákæruvaldið

(Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Gísli Kr. Björnsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 8. apríl 2019, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 18. október 2018 á hendur ákærða, X, kt. 000000-0000, [...] í [...]:

„fyrir kynferðis- og barnaverndarlagabrot gagnvart A, fæddri [...], framin á heimili ákærða að [...] í [...], sem hér greinir:

1. Með því að hafa í eitt skipti árið 2014, þegar A var 13 ára gömul, áreitt hana kynferðislega með því að strjúka maga hennar innanklæða og niður undir buxnastreng hennar er hún lá með honum í sófanum í stofunni.

Telst brot þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2. Með því að hafa í eitt skipti árið 2015 viðhaft kynferðislegt tal við A, sem þá var 14 ára gömul, um kynlíf og kynlífstæki og með þeim hætti sært blygðunarsemi hennar.

Telst brot þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

3. Með því að hafa laugardaginn 27. ágúst 2016, þegar A var 15 ára gömul, áreitt hana kynferðislega með því að leggjast upp í rúm til hennar, strjúka henni um hárið og lærið og viðhafa kynferðislegt tal við hana um sjálfsfróun og þannig sært blygðunarsemi hennar.

Telst brot þetta varða við 199. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kt. 000000-0000, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A, kt. 000000-0000, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 27. ágúst 2016 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt en með dráttarvöxtum, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukskatti á málflutningsþóknun.

Kröfur ákærða í málinu eru aðallega þær að ákærði verði sýknaður en til vara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Hvað bótakröfu brotaþola varðar krefst ákærði þess aðallega að kröfunni verði vísað frá dómi en til vara að krafan verði lækkuð verulega. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa samkvæmt framlagðri tímaskýrslu, sem greiðist úr ríkissjóði.

 

I

Hinn 13. febrúar 2017 lagði B fram kæru á hendur ákærða hjá lögreglu vegna meintra kynferðisbrota gagnvart dóttur hennar, A, á heimili ákærða. Sjálfur er ákærði kvæntur systur B og fyrir liggur að mikill samgangur var milli fjölskyldna þeirra systra fram til haustsins 2016.

   Brotaþoli, sem fædd er árið [...], gaf skýrslu fyrir lögreglu 14. febrúar 2017. Greindi hún þar nánar frá ásökunum sínum á hendur ákærða. Kvaðst hún hafa þekkt ákærða frá blautu barnsbeini, en hann hefði á köflum verið henni sem faðir, þ.e. „svona pabbi númer tvö“. Algengt hefði verið að brotaþoli hefði gætt barna ákærða og eiginkonu hans. Ekki gat brotaþoli tímasett atvikin þrjú nákvæmlega, en eins og nánar er vikið að hér á eftir kannast ákærði við þau öll, enda þótt þau greini nokkuð á um hvað nákvæmlega átti sér stað í umræddum samskiptum þeirra.

Fyrir lögreglu lýsti brotaþoli því að fyrsta atvikið, sbr. ákærulið nr. 1, hefði átt sér stað þegar hún hefði verið í [...]. bekk í grunnskóla, þ.e. 2014 eða 2015. Brotaþoli hefði verið við barnapössun að helgi til heima hjá ákærða. Eina nóttina hefði hún vaknað með magaverk. Hún hefði farið fram á baðherbergi til að fá sér vatnssopa. Á leiðinni aftur inn í svefnherbergi hefði ákærði kallað á hana úr stofunni og spurt hvernig hún hefði það. Ákærði hefði spurt hvort hún vildi ekki bara reyna að sofna í sófanum. Hún hefði lagst í sófann en ákærði hefði síðan farið að strjúka á henni magann og fært höndina sífellt neðar þar til höndin hefði verið komin undir buxnastrenginn. Þá hefði brotaþoli staðið upp og sagst ætla að fara að sofa inni í svefnherbergi. Atvikið hefði þó haldið fyrir henni vöku.

Annað atvikið, sbr. ákærulið nr. 2, sagði brotaþoli að átt hefði sér stað um einu eða einu og hálfu ári síðar, þ.e. þegar brotaþoli hefði verið í [...]. bekk grunnskóla. Brotaþoli hefði verið að aðstoða við barnapössun á heimili ákærða þegar hann hefði farið að ræða um kynlíf og kynlífsleikföng við hana. Nefndi hún í þessu samhengi við lögreglu að ákærði [...] Hann hefði rætt um „alls konar kynlífsdót og hvernig þetta virkar“. Henni hefði þótt þetta óþægilegt. Barnungur frændi brotaþola, þ.e. sonur ákærða, hafi verið sofandi í fanginu á henni umrætt sinn.

Þriðja atvikið, sbr. ákærulið nr. 3, sagði brotaþoli að átt hefði sér stað um ári síðar. Ákærði og eiginkona hans hefðu verið úti að skemmta sér og hefði brotaþoli eins og áður sinnt barnapössun. Hún hefði verið sofandi aðfaranótt sunnudags, en vaknað upp við það að ákærði hefði allt í einu legið við hlið hennar í rúminu á nærbuxum eða stuttbuxum. Hann hefði strokið á henni hárið og lærið. Síðan hefði hann byrjað að tala um fyrstnefnda atvikið hér að framan og fullyrt að brotaþoli hefði stundað sjálfsfróun við það tilefni. Brotaþoli hefði reynt að draga sængina yfir sig, en ákærði hefði sífellt togað á móti og haldið áfram að endurtaka tal um meinta sjálfsfróun brotaþolans. Hún hefði beðið ákærða um að rétta sér símann hennar en hann hefði hunsað þá beiðni. Hefði hún þá staðið upp í framhaldinu. Ákærði hefði þá sagst hafa verið búinn að færa spjaldtölvu og farsíma brotaþola fram á gang. Brotaþoli hefði þá ætlað að strunsa út úr herberginu en dyrnar hefðu reynst læstar. Hún hefði loks fundið lykilinn og getað opnað dyrnar. Hefði hún haldið rakleitt inn á baðherbergi, læst að sér og reynt árangurslaust að ná símleiðis í móður sína, stjúpföður og móðursystur. Ákærði hefði loks náð að opna dyrnar á baðherberginu í þann mund er brotaþoli hefði verið að undirbúa að hringja í neyðarlínuna. Hann hefði reynt að afsaka sig. Brotaþoli hefði þá farið aftur inn í svefnherbergið sitt og þá fyrir nokkru verið farin að hágráta. Ákærði hefði viljað knúsa hana góða nótt, en brotaþoli hefði ekki viljað það. Eiginkona ákærða hefði verið lengur úti að skemmta sér en hann umrætt kvöld. Hún hefði komið heim síðar um nóttina og tekið eftir því að brotaþoli hefði verið hágrátandi með ljósin kveikt í svefnherbergi sínu.

Brotaþoli tjáði lögreglu loks að hún hefði brotnað niður að kvöldi sunnudags og sagt móður sinni allt framangreint.

Hinn 23. febrúar 2017 gaf ákærði skýrslu fyrir lögreglu vegna málsins. Neitaði hann öllum ásökunum brotaþola. Hann kannaðist þó í grófum dráttum við að hafa átt í samskiptum við brotaþola í umrædd þrjú skipti, en lýsti því sem á milli þeirra fór að mestu leyti á töluvert ólíkan hátt en brotaþoli. Ákærði gaf aftur skýrslu vegna málsins 16. nóvember sama ár. Fyrir dómi hélt ákærði sig við fyrri framburð sinn hjá lögreglu, eins og nánar er rakið hér á eftir. Við sama tækifæri var ákærða kynnt einkaréttarkrafa brotaþola.

Við rannsókn málsins tók lögregla einnig skýrslu af móður brotaþola og eiginkonu ákærða. Þá var aflað vottorðs C sálfræðings sem hafði brotaþola í meðferð um tíma vegna afleiðinga meintra brota ákærða.

 

II

Ákærði neitar sök vegna ákæruliðanna þriggja. Í skýrslu sinni fyrir dómi lýsti ákærði atvikum máls nánar svo að tímasetningar brotaþola fái ekki alveg staðist. Þannig hefði fyrsta atvikið, sbr. ákærulið nr. 1, átt sér stað árið 2013 en ekki 2014. Nánar tiltekið hefði þetta verið 21. september 2013. Ákærði hefði verið úti að skemmta sér með eiginkonu sinni fyrr um kvöldið. Hann hefði verið andvaka og aðeins ölvaður í sófanum heima hjá sér um líklega kl. 4 að nóttu til. Hann hafi vissulega strokið magann á brotaþola. Hann hafi sjálfur róast og sofnað út frá því. Síðan hafi hann vaknað við hristing og heyrt skrítinn andardrátt í brotaþola. Hún hafi þá sagt að sér liði betur í maganum og hafi hún farið aftur inn í svefnherbergi.

Hvað ákærulið nr. 2 varðaði kvaðst ákærði hafa átt spjall í mýflugumynd við brotaþola um eitt kynlífstæki. Talið hefði borist að þessu á þann hátt að brotaþoli hefði spurt ákærða hvort elsta dóttir hans hefði fengið að fara [...]. Í samtalinu kvaðst ákærði hafa sagt að brotaþoli gæti [...] ef móðir hennar leyfði henni það. Gott væri að „læra inn á sjálfan sig“ áður en maður færi að „sofa hjá“. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa vitað hvort brotaþoli hefði verið farin að ræða kynlíf við foreldra sína á umræddum tíma.

Hvað ákærulið nr. 3 varðaði kvaðst ákærði muna eftir því atviki. Ekki væri hann stoltur af sjálfum sér vegna þess jafnvel þótt atvik hefðu verið önnur en byggt væri á í ákæru. Hann hefði innbyrt mikið magn áfengis og fíkniefna frá um kl. 11 að morgni umrædds dags. Hann og eiginkona hans hefðu verið úti að skemmta sér. Ákærði hefði komið heim á undan eiginkonu sinni, fengið sér einn bjór og frekari fíkniefni. Hann hefði litið inn í herbergið þar sem brotaþoli svaf og hefði séð að spjaldtölva og farsími hefðu verið í rúminu. Hann hefði, rétt eins og venja væri á hans heimili, fjarlægt þessi tæki úr rúminu. Síðan hefði hann kíkt inn í svefnherbergi sonar síns, sem hefði verið sofandi. Eftir þetta hefði hann farið í nærbuxur og bol. Síðan hefði hann drukkið meira. Mat hann það svo fyrir dómi að ástand sitt hefði verið slæmt. Hann hefði eflaust innbyrt 10 grömm af kókaíni þann daginn. Síðan hefði hann farið inn til brotaþola, lagst upp í rúmið, sem væri 120 cm að breidd, og fært hár brotaþola frá andliti hennar. Brotaþoli hefði legið á hlið og ákærði hefði lagt hönd sína ofan á sængina. Hún hefði vaknað og hann hefði spurt hana hvort hún hefði verið að stunda sjálfsfróun við ákveðið tækifæri tveimur árum áður. Hún hefði neitað því og viljað nálgast farsímann sinn. Hún hefði staðið upp og gengið að dyrunum. Þá hefði ákærði sagt henni að dyrnar væru læstar. Aðspurður fyrir dómi gat hann ekki útskýrt af hverju hann hefði læst herberginu. Brotaþoli hefði í kjölfarið farið inn á baðherbergi og læst. Ákærða hefði tekist að opna dyrnar á baðherberginu án erfiðismuna þar sem læsingin væri fremur einföld. Hann hefði þá séð að brotaþoli sat mjög skelkuð úti í horni inni á baðherberginu. Ákærði hefði beðist afsökunar. Aðspurður fyrir dómi um hvað honum hefði gengið til kvaðst hann ekki vita það. Þá neitaði hann að hafa strokið annað lærið á brotaþola. Það væri heldur ekki rétt að hann hefði dregið niður sængina hennar. Þann næsta dag eftir að brotaþoli hefði verið farin heim til sín hefði ákærði lýst atvikum næturinnar fyrir eiginkonu sinni.

Um aðstæður sínar nú bar ákærði fyrir dómi að hann hefði undanfarin tvö ár tekið þátt í starfi samtakanna AA. Hann hefði verið í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi frá 6. október 2016 til 18. nóvember 2016. Þá hefði ákærði hitt meðferðarfulltrúa 35 sinnum frá 27. febrúar 2017.

 

III

Brotaþoli lýsti málsatvikum svo fyrir dómi að umrædd atvik hefðu átt sér stað á því tímabili sem hún stundaði nám í 8. til 10. bekk í grunnskóla. Hún hefði margsinnis verið að gæta barna þeirra móðursystur sinnar og ákærða. Mjög náið samband hefði verið á milli hennar og fjölskyldu ákærða.

Hvað varðaði ákærulið nr. 1 sagði brotaþoli að hún hefði verið heima hjá ákærða að gæta barna hans. Um nóttina hefði hún vaknað með slæman magaverk. Hún hefði farið fram á baðherbergi. Ákærði hefði verið í sófa í stofunni þar sem hann hefði gjarnan sofið. Hann hefði spurt hana hvort ekki væri „allt í góðu“. Brotaþoli hefði tjáð ákærða að henni væri illt í maganum. Hann hefði spurt hvort hún vildi reyna að sofna í sófanum. Hún hefði þáð það boð. Síðan hefði hann farið að færa sig sífellt nær henni og því næst sett hönd sína undir klæði hennar og byrjað að strjúka magann á henni. Síðan hefði hann farið að færa höndina neðar og þannig undir buxnastreng á náttbuxum hennar. Henni hefði liðið óþægilega og ákveðið að fara tafarlaust út úr stofunni. Síðan hefði hún reynt að gleyma atvikinu.

Hvað varðaði ákærulið nr. 2 þá kvaðst brotaþoli hafa verið að gæta barna ákærða og móðursystur sinnar, en hin síðarnefnda hefði verið úti á landi umrætt sinn. Sonur ákærða hefði þá verið sofandi í fangi brotaþola þegar ákærði hefði fyrirvaralaust farið að spyrja brotaþola um kynlíf, kynlífstæki og hvort hún vissi hvernig fólk stundar sjálfsfróun. Ákærði hefði hvatt brotaþola til að prófa sig áfram og nota kynlífstæki, en ákærði gæti hjálpað brotaþola að finna eitthvað slíkt. Ákærði hefði sagt henni að hann hefði aðstoðað dóttur sína hvað þetta varðar. Brotaþoli bar fyrir dómi að hún hefði ekkert spurt ákærða út í málefni sem þessi.

Hvað varðaði ákærulið nr. 3 þá kvaðst brotaþoli hafa verið að gæta barna ákærða á laugardagskvöldi meðan hún var enn í 10. bekk í grunnskóla. Hann hefði farið út að skemmta sér ásamt eiginkonu sinni. Brotaþoli hefði vaknað um klukkan hálf þrjú eða þrjú að nóttu. Þá hefði ákærði allt í einu legið við hlið hennar og sængin hefði ekki lengur verið yfir henni. Ákærði hefði strokið lærið á henni og upp bak hennar. Brotaþoli bar að henni hefði brugðið mjög mikið við þetta. Ákærði hefði sagt við hana að hún hefði verið að stunda sjálfsfróun í atvikinu í ákærulið nr. 1 hér að framan. Hefði ákærði spurt hana af hverju svo hefði verið. Tónninn í rödd hans hefði ekki verið eins og venjulega. Hún hefði sífellt verið að draga sængina yfir sig en ákærði hefði dregið sængina niður aftur. Hann hefði hunsað beiðnir hennar um að fá farsímann sinn. Hann hefði síðan sagt að farsíminn væri frammi. Þegar brotaþoli hefði ætlað að ganga út úr herberginu hefði hún ekki komist út þar sem hurðin hefði verið læst. Hún hefði fundið lykil á gólfinu og opnað hurðina, haldið síðan rakleitt inn á baðherbergi, læst þar að sér og reynt að ná símleiðis í móður sína, stjúpföður og móðursystur sína. Loks hafi hún ætlað að hringja í lögregluna en þá hefði ákærði opnað hurðina. Hann hefði sagt hana bregðast allt of harkalega við, þ.e. „overreact-a“. Hann hefði komið á eftir henni inn í svefnherbergi og viljað knús. Einni og hálfri klukkustund síðar hefði móðursystir hennar komið heim. Þá hefði brotaþoli setið útgrátin inni í herberginu og bjórdós hefði verið við hlið hennar sem ákærði hefði skilið eftir. Móðursystir hennar og ákærði hefðu þá sett son sinn, sem hefði verið sofandi, upp í rúm til brotaþola, en þá loks hefði hún róast niður og getað sofnað. Að kvöldi sunnudags hefði brotaþoli síðan sagt móður sinni frá þessu öllu saman. Ekki hefði hún nokkru sinni eftir þetta farið aftur heim til ákærða.

B, móðir brotaþola, bar fyrir dómi að brotaþoli hefði upplýst sig um málið umrætt sunnudagskvöld í lok ágúst 2016. Vitnið hefði séð að eitthvað mikið hefði verið að. Brotaþoli hefði brotnað niður, farið að hágráta og sagt henni frá háttsemi ákærða. Í febrúar 2017 hefðu mæðgurnar ákveðið að kæra málið til lögreglu. Aðspurð fyrir dómi um það af hverju málið hefði ekki verið kært fyrr bar vitnið að í millitíðinni hefði hún leitað með brotaþola til barnaverndarnefndar. Í sjálfu sér hefði hún búist við því að kerfið myndi bregðast við, en það hefði ekki gerst. Þá hefði brotaþoli einnig í upphafi virst hafa haft miklar áhyggjur af því hvernig háttsemi ákærða gagnvart brotaþola gæti bitnað á móðursystur hennar og börnum hennar. Brotaþoli hefði ekki viljað „skemma fyrir þeim“.

Vitnið kvaðst hafa skynjað breytingar á líðan og hegðun brotaþola. Hún hefði verið mikið fyrir að vera úti með vinum sínum en væri í mun ríkari mæli heima fyrir í seinni tíð. Eftir á að hyggja hefði vitnið áttað sig á því að brotaþoli hefði ekki virst eins áhugasöm um að gæta barna ákærða um það leyti sem hún hefði verið í 8. eða 9. bekk í grunnskóla. Heilt á litið hefði mál þetta reynst brotaþola gríðarlega erfitt. Hún hefði hitt sálfræðing, farið í Stígamót og Barnahús. Þá muni hún þurfa lengri tíma til að ljúka námi sínu.

D, móðurbróðir brotaþola, kom einnig fyrir dóm. Kvaðst hann hafa frétt af málinu í gegnum móður brotaþola. Hefði hann síðar rætt málið við eiginkonu ákærða. Hefði hún þá sagt að hann hygðist axla ábyrgð í málinu. Þá hefði vitnið rætt við brotaþola eftir að skýrsla hefði verið tekin af henni hjá lögreglu. Hún hefði grátið og brotnað niður en þó verið skýr í frásögn sinni. Hann hefði skynjað breytingu á líðan brotaþola.

E, eiginkona ákærða, kvaðst ekki hafa greint neinar breytingar á samskiptum við brotaþola á því tímabili sem ákæruliðir nr. 1 og 2 taka til. Aðspurð um atvikið sem ákæruliður nr. 1 tekur til kvaðst vitnið minnast þess að hafa verið heima umrætt sinn. Hún hefði litið inn í sjónvarpsherbergið og þá hefði verið teppi yfir ákærða og brotaþola. Hefði hún ekki orðið vör við neitt óeðlilegt. Hvað varðaði þriðja ákæruliðinn þá minntist hún þess að hafa komið heim eftir að hafa verið að skemmta sér. Hún hefði verið ölvuð. Aðspurð minntist hún þess að hafa séð bjórdós í herbergi brotaþola. Daginn eftir hefði andrúmsloftið verið þrúgandi. Lítið hefði verið talað á heimilinu þá. Hún hefði keyrt brotaþola heim til sín. Næsta dag hefði ákærði brotnað niður og sagt henni hvað gerst hefði umrædda nótt, þ.e. einkum að hann hefði farið inn í herbergi til brotaþola, lokað og læst. Síðan hefði hann spurt brotaþola hvort hún hefði stundað sjálfsfróun við ákveðið tilefni tveimur árum áður.

Þegar borin voru undir vitnið ummæli D um að hún hefði sagt ákærða ætla að axla ábyrgð, þá sagði hún að þau ummæli væru rétt en að sú ábyrgð fælist einungis í því að ákærði viðurkenndi að hafa farið inn í herbergi til brotaþola og upp í rúm hennar fyrrnefnt laugardagskvöld í ágúst 2016.

Þá kom fyrir dóm F guðfræðingur sem annaðist meðferðarráðgjöf við ákærða. Staðfesti hann vottorð sitt, dags. 5. apríl 2019, þar sem fram kom að ákærði hefði sýnt einbeittan vilja til að bæta líf sitt og bæta fyrir misgjörðir sínar. Vitnið hefði hitt ákærða samtals í 35 skipti frá 27. febrúar 2017.

Einnig kom fyrir dóm G, sem kvaðst hafa aðstoðað ákærða í rúmlega tvö ár við sjálfsskoðun samkvæmt viðmiðum samtakanna AA. Vinnan hefði gengið með ágætum og kæmi til með að halda áfram.

Í gögnum málsins er að finna ódagsett vottorð C sálfræðings sem barst lögreglu 8. desember 2017 í kjölfar beiðni lögreglu frá 14. nóvember 2017 um slíkt vottorð. C kom fyrir dóm og staðfesti vottorð sitt, en leiðrétti það að nokkru leyti og veitti auk þess fyllri upplýsingar varðandi efni þess. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi fyrst komið til vitnisins ásamt móður sinni 21. mars 2017. Brotaþoli hefði farið í gegnum greiningarviðtal, en niðurstöður þess hefðu bent til þess að brotaþoli væri með [...] sem og að hún væri á jaðri þess að ná svokölluðum greiningarskilmerkjum fyrir áfallastreituröskun. Fyrir dómi kom þó fram í máli vitnisins að hún teldi brotaþola hafa þjáðst af fyrrnefndri [...] áður en öll hin meintu brot ákærða hefðu átt sér stað. Þá sagði hún að þegar brotaþoli hefði fyrst komið til sín hefði hún virst hafa verið farin að hressast miðað við lýsingar á líðan hennar fram að því. Í vottorðinu kemur fram að í uppfærðri greiningu haustið 2017 hafi það verið metið svo að áfallastreitueinkenni brotaþola væru alvarlegri en í fyrstu hefði verið talið. Einkenni brotaþola komi heim og saman við þau sem fólk sýni gjarnan eftir „kynferðisofbeldi/misnotkun“. Brotaþoli hafi tekið meðferð vel en þó hafi orðið bakslög haustið 2017 vegna yfirþyrmandi kvíða og depurðar. Fyrir dómi kvaðst vitnið telja áfallastreituröskun brotaþola afleiðingu meintra brota ákærða.

 

IV

Tímasetningar í ákæru eru nokkuð á reiki, en fyrir liggur að bæði ákærði og brotaþoli kannast við öll atvikin þrjú, enda þótt þau greini á um hvað nákvæmlega átti sér stað í samskiptum þeirra. Verður því ekki séð að vörn ákærða hafi verið áfátt vegna þessa, sbr. 2. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Brotaþoli og ákærði eru ein til frásagnar af umræddum atvikum í öllum ákæruliðunum þremur.

Hvað varðar ákærulið nr. 1 þá hefur ákærði viðurkennt að hafa strokið maga brotaþola, en hann bar því við að ástæðan hefði verið sú að brotaþola hefði verið illt í maganum og sjálfur hefði hann strokið maga barna sinna með þessum hætti. Í því fælust engir kynferðislegir tilburðir. Brotaþoli bar sjálf fyrir dómi að hún hefði vaknað umrædda nótt með slæman magaverk. Hún hefði farið fram á baðherbergi. Ákærði hefði verið í sófa í stofunni þar sem hann hefði gjarnan sofið. Hann hefði spurt hana hvort ekki væri „allt í góðu“. Brotaþoli hefði tjáð ákærða að henni væri illt í maganum. Hann hefði spurt hvort hún vildi reyna að sofna í sófanum. Hún hefði þáð það boð. Við skýrslugjöf hjá lögreglu hafði brotaþoli greint frá því að hún hefði verið náin ákærða og að hann hefði verið henni „svona pabbi númer tvö“. Sjálfur kvaðst ákærði hafa þekkt til brotaþola frá því að hún fæddist og hafa verið henni ákveðin föðurímynd eftir að faðir hennar fluttist af landi brott. Hefði hann litið á hana sem eitt af sínum eigin börnum. Við þessar tilteknu aðstæður er að mati dómsins ekki unnt að leggja til grundvallar að sú háttsemi ein að strjúka maga brotaþola, með þeim hætti sem ákærði hefur sjálfur viðurkennt að hafa gert, teljist refsiverð háttsemi. Ákærða er aftur á móti einnig gefið að sök í þessum ákærulið að hafa síðan fært hönd sína niður undir buxnastreng brotaþola er hún lá með honum í sófanum í stofunni. Enda þótt brotaþoli hafi verið trúverðug í framburði sínum um þetta atriði þá hefur ákærði staðfastlega neitað sök hvað þetta varðar. Eru þau ein til frásagnar um atvik þessa ákæruliðar og ekki eru fram komin önnur fullnægjandi gögn um það sem þá átti sér stað. Þannig verður sakfelling ákærða ekki byggð á því að brotaþoli hafi um tveimur til þremur árum eftir að meint atvik áttu sér stað skýrt móður sinni frá framangreindri ásökun í garð ákærða, þ.e. í beinu framhaldi af öðru atviki sem varðar ákærulið nr. 3. Þá er ekki unnt að slá því föstu að afsökunarbeiðni ákærða sem send var móður brotaþola með skilaboðum á samfélagsmiðlinum Facebook 14. september 2016, þ.e. stuttu eftir meint brot ákærða í ákærulið nr. 3, sé vegna annarra atvika en þeirra sem ákæruliður nr. 3 tekur til. Loks hróflar vottorð C sálfræðings, einkum að teknu tilliti til leiðréttinga hennar og nánari skýringa á vottorðinu fyrir dómi, ekki við framangreindri niðurstöðu.

Að öllu framangreindu virtu telst ákæruvaldið ekki hafa axlað sönnunarbyrði samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um að ákærði hafi framið það brot sem hann er sakaður um samkvæmt ákærulið nr. 1. Verður hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins hvað þann ákærulið varðar.

Öll sömu sjónarmið eiga að meginstefnu við um ákærulið nr. 2, en þar er ákærða gefið að sök brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002 með því að hafa í eitt skipti árið 2015 viðhaft kynferðislegt tal við brotaþola, sem þá var 14 ára gömul, um kynlíf og kynlífstæki og með þeim hætti sært blygðunarsemi hennar. Fyrir dómi kvaðst ákærði aðeins hafa átt spjall í mýflugumynd við brotaþola um eitt kynlífstæki. Talið hefði borist að þessu á þann hátt að brotaþoli hefði spurt ákærða hvort elsta dóttir hans hefði fengið [...]. Í samtalinu kvaðst ákærði hafa sagt að brotaþoli gæti [...] ef móðir hennar leyfði henni það. Gott væri að „læra inn á sjálfan sig“ áður en maður færi að „sofa hjá“. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa vitað hvort brotaþoli hefði verið farin að ræða kynlíf við foreldra sína á umræddum tíma.

Brotaþoli bar aftur á móti fyrir dómi að ákærði hefði gengið mun lengra en hann sjálfur viðurkennir. Þannig hélt hún því fram að ákærði hefði fyrirvaralaust farið að spyrja brotaþola um kynlíf, kynlífstæki og hvort hún vissi hvernig fólk stundar sjálfsfróun. Ákærði hefði hvatt brotaþola til að prófa sig áfram og nota kynlífstæki, en ákærði gæti hjálpað brotaþola að finna eitthvað slíkt.

Með vísan til þeirra röksemda sem greinir um ákærulið nr. 1 hér að framan telst ósannað gegn staðfastri neitun ákærða að málsatvik hafi verið með þeim hætti sem brotaþoli heldur fram, enda þótt hún hafi verið trúverðug í framburði sínum. Eftir stendur það álitaefni hvort ákærði hafi eigi að síður gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið nr. 2 með þeim ummælum sem hann sjálfur kveðst hafa viðhaft við þær aðstæður sem hann lýsir. Í þeim efnum verður ekki fram hjá því litið að samband ákærða og brotaþola var náið. Eins og áður greinir leit brotaþoli á ákærða sem hálfgerða föðurímynd og sagði hún að hann væri „svona pabbi númer tvö“. Sjálfur kvaðst ákærði hafa þekkt til brotaþola frá því að hún fæddist og að hann hefði litið á hana sem eitt af sínum eigin börnum. Við þessar tilteknu aðstæður gátu þau orð, sem ákærði kveðst að hafa látið falla eftir spurningu þá sem hann segir brotaþola hafa borið upp, ekki talist til þess fallin að særa blygðunarsemi brotaþola í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga eða á annan hátt varðað við 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002.

Að öllu framangreindu virtu verður ákærði því einnig sýknaður af kröfum ákæruvaldsins hvað varðar ákærulið nr. 2.

Í ákærulið nr. 3 er ákærða gefið að sök að hafa laugardaginn 27. ágúst 2016, þegar brotaþoli var 15 ára gömul, áreitt hana kynferðislega með því að leggjast upp í rúm til hennar, strjúka henni um hárið og lærið og viðhafa kynferðislegt tal við hana um sjálfsfróun og þannig sært blygðunarsemi hennar. Ákærði neitar sök en hefur viðurkennt að hafa farið inn í herbergi til brotaþola umrætt sinn, en hún var þá stödd á heimili hans. Af framburði ákærða og brotaþola fyrir dómi verður ráðið að umrætt atvik átti sér stað aðfaranótt sunnudagsins 28. ágúst 2016 en ekki fyrrnefnt laugardagskvöld.

Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa neytt verulegs magns áfengis og fíkniefna á laugardeginum. Viðurkenndi hann að hafa lagst upp í rúmið sem brotaþoli svaf í, en það sagði hann vera 120 cm að breidd, og hefði hann fært hár brotaþola frá andliti hennar. Brotaþoli hefði legið á hlið og ákærði hefði lagt hönd sína ofan á sængina. Hún hefði vaknað og hann hefði spurt hana hvort hún hefði verið að stunda sjálfsfróun við ákveðið tækifæri tveimur árum áður. Hún hefði neitað því og viljað nálgast farsímann sinn. Hún hefði staðið upp og gengið að dyrunum. Þá hefði ákærði sagt henni að dyrnar væru læstar. Aðspurður fyrir dómi gat hann ekki útskýrt af hverju hann hefði læst herberginu. Brotaþoli hefði í kjölfarið farið inn á baðherbergi og læst. Ákærða hefði tekist að opna dyrnar á baðherberginu án erfiðismuna þar sem læsingin væri fremur einföld. Hann hefði þá séð að brotaþoli sat mjög skelkuð úti í horni inni á baðherberginu. Ákærði hefði beðist afsökunar. Aðspurður fyrir dómi um hvað honum hefði gengið til kvaðst hann ekki vita það. Þá neitaði hann að hafa strokið annað lærið á brotaþola. Þá væri það heldur ekki rétt að hann hefði dregið niður sæng brotaþola.

Að mati dómsins felst í framburði ákærða fyrir dómi viðurkenning á þeirri hlutrænu háttsemi sem honum er gefin í sök í ákærulið nr. 3, að því undanskildu að hann kveðst ekki hafa strokið læri brotaþola. Hvað það atriði varðar þá hefur ákærði að mati dómsins ekki verið trúverðugur í framburði sínum, en hann hefur raunar viðurkennt að hafa verið undir áhrifum verulegs magns áfengis og fíkniefna umrætt sinn. Þá hefur ákærði engar skýringar getað gefið á háttsemi sinni umrætt sinn, en kvaðst ekki vera stoltur af henni. Í gögnum málsins er enda að finna afsökunarbeiðni ákærða sem send var móður brotaþola með skilaboðum á samfélagsmiðlinum Facebook stuttu eftir meint brot ákærða í þessum ákærulið, þ.e. 14. september 2016. Loks verður að telja að sú áfallastreituröskun brotaþola, sem C sálfræðingur rekur til háttsemi ákærða gagnvart brotaþola, hljóti einkum að stafa af framgöngu ákærða gagnvart brotaþola umrædda nótt. Verður því trúverðugur framburður brotaþola um að ákærði hafi einnig strokið læri hennar lagður til grundvallar niðurstöðu dómsins.

Ákærði hefur lagt áherslu á það að enda þótt hann hafi eflaust farið út fyrir mörk velsæmis umrætt sinn þá hafi hann ekki haft neitt kynferðislegt í huga. Þegar málsatvik vegna þessa ákæruliðar eru virt heildstætt verður að mati dómsins að teljast fjarstæðukennt að leggja til grundvallar að ákærði hafi ekki haft uppi kynferðislega tilburði umrætt sinn. Verður því ekki vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið nr. 3, þó þannig að umrætt atvik átti sér stað aðfaranótt sunnudagsins 28. ágúst 2016 en ekki laugardagskvöldið 27. ágúst sama ár, en eins og áður greinir verður ekki séð að vörn ákærða hafi verið áfátt af þessum sökum, sbr. 2. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Háttsemi ákærða er réttilega heimfærð í ákæru til 199. gr. almennra hegningarlaga sem tæmir sök í þessu tilviki.

Í samræmi við framangreinda niðurstöðu ber að sakfella ákærða vegna ákæruliðar nr. 3, en sýkna hann af ákæruliðum nr. 1 og 2.

 

V

Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt sakavottorði hefur honum ekki áður verið gerð refsing. Við ákvörðun refsingar verður ekki fram hjá því litið að ákærði framdi brot sitt gegn barni, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá þykir 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga mæla með þyngingu refsingar, en eins og áður greinir var ákærði nokkurs konar föðurímynd í augum brotaþola og sjálfur kvaðst ákærði hafa litið á brotaþola sem eitt af sínum eigin börnum. Á hinn bóginn verður að líta til þess langa tíma sem leið frá því að rannsókn lögreglu hófst og þar til ákæra var gefin út, en um það er ekki við ákærða að sakast. Þá bera gögn málsins loks með sér að ákærði hafi nú náð einhverjum tökum á vímuefnafíkn sinni. Að öllu þessu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Með vísan til þess að ákærða hefur ekki áður verið gerð refsing og að teknu tilliti til áðurnefnds dráttar á útgáfu ákæru þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í málinu krefst brotaþoli eins og áður segir miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. ágúst 2016 þar til mánuður var liðinn frá því að bótakrafa þessi var birt en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir samkvæmt ákærulið nr. 3 hefur hann bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þegar litið er til þess að ákærði hefur verið sýknaður af ákæruliðum nr. 1 og 2 og að teknu tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga um miska brotaþola verður ákærði dæmdur til að greiða henni 600.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Við mat á upphafstíma dráttarvaxta verður litið til þess að óumdeilt er að ákærða var birt bótakrafan 16. nóvember 2017. Ber krafa brotaþola því dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Eins og áður segir er ákærði sakfelldur fyrir það brot sem honum er gefið að sök í ákærulið nr. 3, en sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruliðum nr. 1 og 2. Í samræmi við 2. málslið 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 þykir hæfilegt að ákærða verði gert að greiða helming sakarkostnaðar, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dóm þennan kveður upp Arnaldur Hjartarson héraðsdómari. Dómarinn tók við meðferð málsins 15. mars sl. en hafði fram til þess tíma engin afskipti haft af málinu.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði brotaþola, A, 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. ágúst 2016 til 16. desember 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 698.445 krónur í sakarkostnað, þ.e. helming kostnaðar vegna sálfræðivottorðs, sem í heild nemur 42.500 krónum, helming þóknunar skipaðs verjanda síns, Gísla Kr. Björnssonar lögmanns, sem í heild nemur 843.200 krónum, að meðtöldum virðisaukaskatti, og helming þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, sem í heild nemur 511.190 krónum, að meðtöldum virðisaukaskatti. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.

 

                                                                        Arnaldur Hjartarson