• Lykilorð:
  • Fjártjón
  • Kyrrsetning
  • Skaðabætur
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, fimmtudaginn, 22. mars 2018, í máli nr. E-465/2017:

Perlur slf.

(Valgerður Björk Benediktsdóttir hdl.)

gegn

Logalandi ehf.

(Gunnar Egill Egilsson hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 7. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness með stefnu birtri 10. apríl 2017.

Stefnandi er Perlur slf., kt. 000000-0000, Stekkjarhvammi 10, 220 Hafnarfirði.

Stefndi er Logaland ehf., kt. 000000-0000, Tunguhálsi 8, 110 Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 9. september 2015 til 26. maí 2017, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að álitum með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. maí 2017 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati réttarins.

Stefndi gerir þær dómkröfur að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

I

Málsatvik

Fyrirsvarsmaður stefnanda hóf störf hjá stefnda þann 1. apríl 2008 og þá sem sölustjóri en var ráðinn framkvæmdastjóri þann 1. júní 2015, og tók hann þá við af A. Var samið um laun B samkvæmt reikningi að viðbættum virðisaukaskatti, útgefnum af stefnanda, og að B ætti rétt til fullra launa í þrjá mánuði án vinnuskyldu ef samningi yrði sagt upp við hann án sakar.

A tók aftur við stjórn stefnda þann 24. ágúst 2015 og hætti B þá störfum og fékk á grundvelli framangreinds samnings greiddar 6.529.831 krónu þegar hann hætti störfum.

Þann 9. september 2015 fór fram kyrrsetning hjá stefnanda að kröfu stefnda á vegum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, mál nr. 20/2015, þar sem kyrrsettar voru 2.576.498 krónur á bankabók stefnanda nr. 0135-26-100008, þar sem stefndi taldi að stefnandi hefði ekki átt rétt til framangreindrar greiðslu við starfslok, en auk þess var gerðin árangurslaus að hluta. Var stefnda gert að greiða 1.000.000 króna sem tryggingu fyrir greiðslu bóta og tjóns sem af gerðinni gæti hlotist.

Þann 30. september 2015 þingfesti stefndi mál til staðfestingar kyrrsetningunni og til innheimtu á framangreindri greiðslu sem stefnandi hafði fengið greitt við starfslok. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness þann 11. maí 2016 í máli nr. E-1009/2015 var stefnandi sýknaður af kröfum stefnda og var sú niðurstaða staðfest í dómi Hæstaréttar nr. 376/2016 þann 2. febrúar 2017.

Þann 6. febrúar 2017 var þess krafist af stefnanda að sýslumaður varðveitti framangreint tryggingarfé þar til niðurstaða þessa máls lægi fyrir, í samræmi við 4. tölulið 1. mgr. 17. gr. og 42. gr. laga nr. 31/1994, en kyrrsetningu á inneign framangreindrar bankainnistæðu var aflétt tveimur dögum síðar.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu stefnandi málsins og vitnið C, starfsmaður Líftækni ehf.

 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi upplýsir að ekki hafi náðst samningar við stefnda eftir uppkvaðningu sýknudóms Hæstaréttar, þrátt fyrir tvímælalausa skyldu þar um, sbr. 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl., og því sé nauðsyn að höfða þetta mál. Sé málið höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness þar sem gerðin hafi farið fram í þinghá réttarins, sbr. lokamálslið 2. mgr. 43. gr. laga nr. 31/1990.

Stefnandi byggir bótakröfu sína á því að kyrrsetningin sem fram fór hjá honum hafi bakað honum fjártjón sem stefndi beri ábyrgð á, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990. Felist það fjártjón í þeim kostnaði sem stefnandi hafi orðið fyrir ásamt spjöllum á lánstrausti og viðskiptahagsmunum sem felist meðal annars í því hann hafi ekki getað nýtt sér hið kyrrsetta fé til að mæta greiðslu opinberra gjalda sem hafi fallið í eindaga eftir kyrrsetninguna og fram til 15. janúar 2017 auk þess sem stefnandi hafi þurft að greiða dráttarvexti. Sé stefnandi enn að vinna að því að koma skuld sinni við innheimtumann ríkissjóð í rétt horf. Hafi forsvarsmaður stefnanda þannig þurft að ganga í eigin sjóði, meðal annars sparnaðarlíftryggingu sína hjá Sjóvá Líf, með afföllum. Verði stefnandi að standa forsvarsmanni félagsins skil á því fé svo að hann verði eins settur að þessu leyti. Stefnandi mótmælir lýsingu stefnda á meintri fjárhagsstöðu stefnanda sem um geti í greinargerð og því að stefnandi hafi skammtað sér sjálfur greiðslur frá stefnda, enda um það dæmt áður, og þá er því mótmælt að ekki hafi verið haldið til haga peningum fyrir sköttum, það hafi verið gert og sú fjárhæð verið kyrrsett ólöglega af stefnda.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 feli í sér hlutlæga bótareglu, enda geti verið ómögulegt fyrir tjónþola að sýna nákvæmlega fram á tjón sitt, og þá sé í ákvæðinu slakað á sönnunarkröfum þannig að dæma megi bætur að álitum.

Stefnandi byggir og á því að hann hafi orðið fyrir tjóni í formi röskunar á viðskiptavild í kjölfarið á kyrrsetningunni og vanskila á sköttum. Viðskiptabanki stefnanda, Landsbankinn hf., virðist hafa tekið málsóknina til sín og fyrirsvarsmaður stefnanda fundið greinilega fyrir breytingu á viðmóti og upplifað það þannig að bankinn treysti honum ekki, enda hafi bankinn skyndilega hafnað allri fyrirgreiðslu, svo sem yfirdrætti, hækkun á VISA-heimild ásamt því að synja um raðgreiðslur. Eðli málsins samkvæmt sé ekki unnt að leiða í ljós nákvæmlegt fjárhagslegt tjón, enda sé farið til vara fram á að bætur verði dæmdar að álitum.

Stefnandi bendir á að umfjöllun um málið hafi ratað í fjölmiðla, sbr. umfjöllun í DV. Hafi sú umfjöllun valdið fyrirsvarsmanni stefnanda og fjölskyldu hans óþægindum og röskun, enda hafi hann verið nafngreindur auk þess sem fjallað hafi verið um erfiða tíma í lífi hans og hann sakaður um lögbrot í starfi. Ljóst sé að stefndi beri einn ábyrgð á því að málið hafi ratað í fjölmiðla, enda hann sem hafi staðið fyrir tilefnislausri málshöfðun. Stefnandi mótmælir því sem of seint fram komnu að byggt sé á aðildarskorti af hálfu stefnda um miskabótakröfu.

Stefnandi byggir á því að upphafsdagur vaxtakröfu sé miðaður við þann dag sem hin óréttmæta kyrrsetning hafi átt sér stað, 9. september 2015, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Um lagarök er einkum vísað til 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann og almennra reglna skaðabótaréttar eftir því sem þær geti átt við. Krafan um dráttarvexti byggist á II., III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og um málskostnað er byggt á 1. mgr. 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála.

 

 

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi bendir á að stefnandi setji fram bótakröfur á grundvelli ýmissa ólíkra þátta en geri ekki grein fyrir orsakasamhengi eða með hvaða hætti hin meintu tjón tengist kyrrsetningargerðinni, svo sem kröfu um ótilgreindar bætur skv. mati dómsins, og miskabætur. Sé á því byggt að fjártjón stefnanda sé tilkomið vegna þess að hann hafi ekki getað nýtt fé sitt til greiðslu opinberra gjalda. Um sé að ræða vangoldin gjöld, álögð árið 2016 vegna tekna 2015. Þannig megi ráða að stefnandi hafi eftir lok rekstrarársins 2015 ekki gætt að því að halda til haga fjármunum til greiðslu skatta af hagnaði félagsins í álagningu árið eftir. Af því verði ráðið að skuldastaða stefnanda hafi fyrir löngu verið komin í óefni og kyrrsetning ekki þurft til að koma. Þá virðist sem stefnandi hafi átt greiðan aðgang að lánsfjármagni til greiðslu lögmannsreikninga sinna þótt hann hafi ekki getað greitt opinber gjöld. Stefndi telji að ætla megi að þau vanskil hafi verið leyst eftir að kyrrsetningunni var aflétt, en þó beri stefnandi því við að hann hafi þá enn ekki bætt úr vanskilum sínum með opinber gjöld. Stefndi bendir og á í þessu samhengi að stefnandi hafi greitt sér sjálfur 6.529.831 krónu með millifærslu á bankareikning sinn þann 24. ágúst 2015. Þegar kyrrsetning hafi átt sér stað aðeins örfáum dögum síðar hafi stefnandi þegar ráðstafað 3.953.333 krónum af þeirri fjárhæð. Eftir starfslok stefnanda hjá stefnda hafi hann getað aflað annarra tekna. Þannig hafi hagur fyrirsvarsmanns stefnanda vænkast verulega við það að hann lauk störfum í þágu stefnda.

Um þá málsástæðu að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi þurft að innleysa sparnaðarlíftryggingu sína kveður stefndi að engin gögn liggi fyrir í málinu og af öðrum gögnum um þá málsástæðu verði ekkert ráðið um meint tjón, og hljóti stefnandi að þurfa að leggja fram afrit af hinni eiginlegu innlausnarbeiðni, ætli hann sér að byggja á því að hafa sótt um innlausn í kjölfar kyrrsetningarinnar.

Um þá málsástæðu stefnanda að hann og fyrirsvarsmaður hans hafi orðið fyrir röskun á viðskiptavild þá komi fram í stefnu að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi fundið fyrir minna trausti til sín, eftir að rekstur kyrrsetningarmálsins hófst. Stefndi telji mikinn ólíkindablæ vera á þessari málsástæðu stefnanda. Verði að hafa í huga að í tvígang hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá fyrirsvarsmanni stefnanda og hafi upplýsingar um fjárnám verið öllum aðgengilegar, m.a. í gagnagrunni Lánstrausts, sem allar fjármálastofnanir noti. Fráleitt sé að ætla að lánstraust aðila með slík fjárnám á bakinu rýrni við það að lögaðili sem hann tengist sæti kyrrsetningu fjármuna, sér í lagi þar sem ekki sé um verulega fjárhæð að ræða í þessu máli.

Kröfu stefnanda um bætur fyrir miska er hafnað af hálfu stefnda. Ekkert tilefni sé til þess að dæma bætur vegna miska, enda hafi stefnandi með öllu látið hjá líða að fjalla um í hverju sá miski sé fólginn. Sú fjölmiðlaumfjöllun sem stefnandi vísi til snerti stefnanda eða fyrirsvarsmann hans lítið sem ekkert. Þá kom fram í munnlegum málflutningi stefnda að fyrirsvarsmaður stefnanda sé ekki persónulega aðili þessa máls.

Stefndi hafnar dráttarvaxtakröfu stefnanda, enda sé engin lagaheimild fyrir því að dæma dráttarvexti vegna kyrrsetningar fjármuna. Gengið sé út frá því að almennar reglur skaðabótaréttar verndi gerðarþola kyrrsetningargerða og hafi kyrrsettir fjármunirnir setið á innlánsreikningi sem hafi borið vexti sem stefnandi hafi notið á reikningum sínum, og því ekki orðið fyrir tjóni vegna vaxtamissis af innstæðunni.

Stefndi telur að í heild skorti verulega á að fullnægjandi gögn séu færð til sönnunar á málsástæðum stefnanda og hafi verið skorað á stefnanda að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings en án árangurs. Telur stefndi vegna þessa að ástæða sé til að vísa málinu frá ex officio.

Um lagarök vísar stefndi einkum til laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggist á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og áskoranir byggjast á 67. og 68. gr. sömu laga.

 

IV

Forsendur og niðurstaða

Ekki var gerð krafa um frávísun málsins af hálfu stefnda og ekki þykja nægar forsendur til þess að málinu verði vísað frá án kröfu vegna vanreifunar málsins í heild eins og fram kom í máli stefnda, og verður því kveðinn upp efnisdómur í málinu.

Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni og miska vegna kyrrsetningar sem fór fram hjá honum þann 9. september 2015 að kröfu stefnda, þar sem kyrrsettar voru 2.576.498 krónur á bankabók stefnanda, en auk þess var gerðin árangurslaus að hluta. Með dómi Hæstaréttar nr. 379/2016, þann 2. febrúar 2017, var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness þar sem kyrrsetningin var felld úr gildi.

Krafa stefnanda um skaðabætur er byggð á 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., þar sem fram kemur að falli kyrrsetning niður vegna sýknu skuli gerðarbeiðandi bæta þann miska og það fjártjón, þar á meðal spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum, sem telja megi að gerðin hafi valdið. Heimilt er að dæma skaðabætur eftir álitum ef ljóst þykir að fjárhagslegt tjón hafi orðið en ekki sé unnt að sanna fjárhæð þess. Svo nefnt ákvæði geti átt við þarf að sýna fram á að líkur séu á því að tjón hafi orðið, en með því að framangreind kyrrsetning var felld úr gildi með nefndum sýknudómi og með vísan til nefnds lagaákvæðis telst bótagrundvöllur vera fyrir hendi í málinu.

Stefnandi sundurliðar ekki meint fjártjón sitt í stefnu en byggir á því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna dráttarvaxta sem lögðust á opinber gjöld, enda ekki verið innistæða fyrir gjöldunum vegna kyrrsetningarinnar, og að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi þurft að taka út sparnaðarlíftryggingu sína með afföllum til að greiða þau gjöld.

Um fyrra tilvikið, að stefnandi hafi ekki getað greitt álögð gjöld á eindaga, er staðreynt að þegar kyrrsetningin fór fram þann 9. september 2015 var kyrrsett öll bankainnistæða stefnanda, en jafnframt var kyrrsetningin árangurslaus að hluta. Hefur stefnandi þannig gert það líklegt að hann hafi ekki getað greitt opinber gjöld.

Í gögnum málsins er tilkynning til stefnanda um gjaldfallin opinber gjöld þann 18. janúar 2017, 3.296.592 krónur. Upplýst var af fyrirsvarsmanni stefnanda fyrir dómi að nú sé búið að greiða öll opinber gjöld en engin gögn liggja fyrir um það, og þá hvaða dráttarvexti stefnandi greiddi að endingu. Er því óvíst hvort stefnandi þurfti að greiða nokkra dráttarvexti. Að mati dómsins hefði með einföldum hætti verið hægt að sanna fjárhæð greiddra gjalda og dráttarvaxta og kemur því jafnframt ekki til skoðunar að dæma skaðabætur að álitum.

Um seinna tilvikið kemur fram að fyrirsvarsmaður stefnanda tók út 311.606 krónur af eigin reikningi, skv. uppgjöri, dags. 12. október 2016. Engin gögn liggja hins vegar fyrir um það hvort afföll hafi verið af þeirri úttekt eða hvernig sú úttekt hafi valdið stefnanda málsins fjártjóni. Þá er með vísan til framangreinds óvíst hvort eða hvað stefnandi greiddi í opinber gjöld. Er því ekki hægt að fallast á að líkur hafi verið leiddar að tjóni stefnanda vegna framangreindra atvika.

Krafist er bóta fyrir miska og vísað í því sambandi til umfjöllunar í DV þann 10. febrúar 2017. Í nefndri umfjöllun kemur nafn fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir því tengt að hann hafi verið fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður stefnda, en nafn stefnanda þessa máls kemur hvergi fyrir og ekki er fjallað um umþrætta kyrrsetningu, en hlekkur er þó inn á dóm Hæstaréttar í máli 379/2016. Að mati dómsins standa lagaskilyrði ekki til þess að stefnanda þessa máls, sem er lögaðili, verði dæmdar miskabætur á framangreindum forsendum samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990.

Á því er byggt að stefnandi hafi orðið fyrir röskun á lánstrausti og viðskiptahagsmunum sem hafi valdið stefnanda tjóni. Vísað er í því sambandi til þess að stefnandi hafi ekki fengið fyrirgreiðslur sem hann hefði mátt vænta í bankanum, eins og yfirdrátt og hækkun heimilda. Eins og fram er komið þá var allt fé stefnanda kyrrsett að kröfu stefnda þann 9. september 2015 og var það fé ekki laust fyrr en í febrúar 2017 auk þess sem gerðin var árangurslaus að hluta. Þykir með vísan til þess nægilega leitt í ljós að telja megi að kyrrsetningin hafi valdið spjöllum á viðskiptahagsmunum stefnanda, en eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að sanna fjárhæð tjóns í því tilviki. Þykir því mega beita heimild í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 og dæmdar bætur vegna þess fjártjóns að álitum, sem þykja hæfilega ákveðnar 400.000 krónur auk dráttarvaxta eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Logaland ehf., greiði stefnanda, Perlum slf., 400.000 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 26. maí 2017 til greiðsludags að telja.

Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                             Bogi Hjálmtýsson