• Lykilorð:
  • Aðild
  • Kröfusamlag
  • Vanreifun
  • Vátryggingamál

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjaness, mánudaginn 19. mars 2018, í máli nr. E-1150/2017:

 

                                                                        Helena Bergsveinsdóttir

                                                                        f.h. ólögráða sonar síns

                                                                        Gunnars Breka Hjaltasonar

                                                                        gegn

                                                                        Rakel Rún Karlsdóttur

                                                                        og

                                                                        Allianz Ísland hf.

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 14. nóvember 2017. Stefnandi er Helena Bergsveinsdóttir, kt. 000000-0000, Grænásbraut 1219, 235 Reykjanesbæ, f.h. ólögráða sonar síns, Gunnars Breka Hjaltasonar, kt. 000000-0000, sama stað. Stefndu eru Rakel Rún Karlsdóttir, kt. 000000-0000, Skólagerði 27, 200 Kópavogi, og Allianz Ísland hf., kt. 000000-0000, Dalshrauni 3, 220 Hafnarfirði, til að fá tilnefningu rétthafa samkvæmt vátryggingu hnekkt og til greiðslu sem nemur þriðjungi af líftryggingarfjárhæð.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir in solidum, en til vara annar hvor hinna stefndu, til að greiða stefnanda, Gunnari Breka Hjaltasyni, fjárhæðina 41.667 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 9. mars 2017 til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess einnig að viðurkennt verði með dómi að stefnandi, Gunnar Breki Hjaltason, teljist rétthafi að einum þriðja hluta líftryggingarfjárhæðar sem tilgreind er í vátryggingarskírteini nr. 33 028 659 3.

Í öllum tilvikum er þess krafist að stefndu verði dæmd, in solidum, til að greiða stefnanda málskostnað.

Stefnda Rakel Rún Karlsdóttir krefst þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar.

Stefndi Allianz Ísland hf. krefst þess að málinu verði vísað frá dómi. Fór málflutningur um þá kröfu fram 28. febrúar sl.

Málsatvik.

Samkvæmt gögnum málsins sótti Hjalti Bergmann Hjaltason, kt. 000000-0000, um líftryggingu Allianz þann 20. nóvember 2013. Var rétthafi dánarbóta sögð vera Rakel Rún Karlsdóttir, þáverandi sambúðarkona Hjalta. Var líftryggingarfjárhæð 125.000 evrur og slysatryggingarfjárhæð 125.000 evrur. Undirritaði Hjalti umsóknina auk þess sem ráðgjafi undirritaði einnig umsóknina.

            Þann 10. desember 2013 sendi Allianz Lebensversicherungs-AG Hjalta bréf þar sem umsókn hans var staðfest. Er það bréf á þýsku. Kemur fram í bréfinu hver sé vátryggjandi og hver sé umboðsaðili eða milliliður, sem er stefnda Allianz Ísland hf., söluumboð. Tryggingarskilmálar liggja fyrir í málinu og eru þeir á bréfsefni Allianz Lebensversicherungs-AG. Samkvæmt sóknaraðila slitu Hjalti og Rakel Rún samvistir snemma árs 2016 en Hjalti Bergmann lést þann 18. desember 2016. Lét hann eftir sig þrjú börn, tvö sem hann og varnaraðili áttu saman og síðan Gunnar Breka.

            Samkvæmt gögnum málsins hafa aðilar reynt að ná samkomulagi um skiptingu líftryggingarinnar en ekki gengið. Þann 9. febrúar 2017 sendi lögmaður stefnanda Allianz Ísland hf. söluumboð bréf og óskaði eftir öllum gögnum varðandi líftryggingu Hjalta.

            Með tölvupósti þann 13. febrúar 2017 sendi starfsmaður Allianz Ísland hf. lögmanni stefnanda afrit af umsókn Hjalta þar sem stefnda er tilgreind sem rétthafi dánarbóta. Þá segir að þau séu búin að biðja Allianz í Þýskalandi um að bíða með að greiða út bætur til Rakelar. Síðar þann sama dag svaraði starfsmaður Allianz Ísland hf. lögmanni stefnanda og kvað alla tryggingarfjárhæðina verða greidda út. Í tölvupósti sendum 16. febrúar 2017 segir starfsmaður stefnda Allianz að þau séu búin að heyra í lögmanni Allianz og hafi fengið þau svör að félaginu beri skylda til að greiða vátryggingarfjárhæð til þess rétthafa sem vátryggingartaki hafi tilnefnt og skráð hafi verið í líftryggingarskrá. Þá bendir starfsmaður stefnda Allianz Ísland hf. á að telji stefnandi að ákvæði 1. mgr. 105. gr. laga nr. 30/2004 eigi við verði að hafa slíka kröfu uppi með málshöfðun gegn rétthafanum skv. skýrum fyrirmælum í 3. mgr. 105. gr. laganna. Með tölvupósti frá starfsmanni stefnda Allianz Ísland hf. segir að Allianz ytra muni leggja upphæðina inn á reikning viðkomandi rétthafa. Með tölvupósti þann 27. apríl 2017 hafnaði lögmaður stefndu Rakelar kröfu stefnanda. Fyrir liggur að líftryggingin var greidd stefndu Rakel þann 34. febrúar 2017, samtals 125.000 evrur.

            Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting frá Creditinfo þar sem kemur fram að Allianz Ísland hf. söluumboð sé með aðsetur að Dalshrauni 3 í Hafnarfirði. Kemur þar fram að eigendur Allianz Ísland hf. söluumboð sé Hringur eignarhaldsfélag ehf. og OIF ehf. Bæði þessi félög eru í eigu Íslandsbanka.

Stefna.

Rétt þykir að gera grein fyrir stefnu í þessum þætti málsins.

Stefnandi er Gunnar Breki Hjaltason, kt. 000000-0000, sonur hins líftryggða. Stefndu eru Rakel Rún Karlsdóttir og Allianz Ísland hf., kt. 000000-0000, Dalshrauni 3, Hafnarfirði, og fer Eyjólfur Lárusson, kt. 000000-0000, framkvæmdastjóri félagsins, með fyrirsvar stefnda Allianz.

            Um tilefni málshöfðunar segir í stefnu að það sé bersýnilega ósanngjarnt að öll fjárhæð líftryggingarinnar renni til tilgreinds rétthafa og fyrrverandi sambýliskonu hins látna, stefndu í máli þessu. Sé málinu þannig beint gegn tilgreindum rétthafa, Rakel Rún Karlsdóttur, til samræmis við skýrt orðalag 105. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/20014, ásamt stefnda Allianz Ísland hf., enda hafi vátryggingafélagið verið grandsamt um kröfu stefnanda áður en til útborgunar kom og gætti ekki að hagsmunum hans. Að mati stefnanda séu öll skilyrði fyrir því að fá tilnefningu hnekkt til staðar á grundvelli 105. gr. laga um vátryggingarsamninga. Í fyrsta lagi sé stefnandi einn af þremur skylduerfingjum hins látna og hafi hinn látni verið framfærsluskyldur gagnvart stefnanda sem hefði átt kröfu til vátryggingarfjárhæðarinnar ef tilnefningar rétthafa hefði ekki notið við. Í öðru lagi hafi aðstæður vátryggingartaka breyst verulega fyrir andlát en vátryggingartaki hafi slitið samvistir við tilnefndan rétthafa í byrjun árs 2016 og hafi við andlát hvorki verið í hjúskap né skráðri sambúð. Í þriðja lagi sé það bersýnilega ósanngjarnt að öll vátryggingarfjárhæðin renni til barnsmóður tveggja af þremur börnum hins látna og þar með sé tveimur skylduerfingjum hins látna hyglað á kostnað stefnanda. Vilji hins látna hljóti, í ljósi atvika, að hafa staðið til þess að láta vátryggingarfjárhæðina renna til jafns til skylduerfingja sinna þriggja, enda framfærsluskyldur gagnvart þeim öllum. Þá mæla sanngirnisrök með því, sbr. m.a. 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936.

Kröfugerð, aðild og málatilbúnaður stefnanda taki mið af því að hann telji ljóst að báðum stefndu hafi verið kunnugt um kröfu hans og hagsmuni áður en til útborgunar kom, sbr. einkum bréf stefnanda til stefndu, dags. 9. febrúar 2017. Engu að síður hafi hið stefnda tryggingafélag tekið þá ákvörðun að hlutast til um að hin stefnda Rakel Rún fengi bætur greiddar án frekari skoðunar á hagsmunum stefnanda.

Það hafi verið ákvörðun hins stefnda félags Allianz Ísland hf. að hafna beiðni stefnanda um að bíða með útgreiðslu bóta líkt og stefnandi hafi verið upplýstur um með tölvuskeyti hinn 17. febrúar 2017. Það hafi hins vegar verið ákvörðun hins stefnda félags Allianz Ísland hf. að hlutast til um að greiða alla líftryggingarfjárhæðina til stefndu Rakelar Rúnar án þess að upplýsa stefnanda um fjárhæð greiðslunnar og réttarstöðu hans að öðru leyti. Sé bent á, í því sambandi, að stefndi Allianz Ísland hf. upplýsti ekki fyrr en hinn 5. apríl 2017 hvenær greiðsla hafi verið innt af hendi. Stefnandi hafi meðtekið fullnægjandi upplýsingar frá hinum stefnda í nóvember 2017 til samræmis við ítrekaða beiðni stefnanda.

2. Nánar um kröfugerð og aðild stefndu.

Stefnandi stefnir Rakel Rún Karlsdóttur sem tilnefndum rétthafa samkvæmt þeim persónutryggingum sem Hjalti Bergmann Hjaltason hafi tekið hjá tryggingafélaginu Allianz. Stefnda Rakel Rún hafði slitið samvistir við hinn látna töluvert áður en hann lést, en hún eigi með honum tvö börn. Stefnandi sé sonur hins látna. Ljóst sé að stefnda hafi þegar fengið líftryggingarfjárhæðina greidda að fullu til samræmis við tilgreiningu hins látna á rétthafa. Krefur stefnandi því rétthafa um greiðslu sem nemi þriðjungi af líftryggingarfjárhæð, eins og hún sé tilgreind í vátryggingarskírteini og samþykktri umsókn. Í framangreindu sambandi vísist í 3. mgr. 105. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, þar sem fram komi að kröfur samkvæmt 1. og 2. mgr. verði að hafa uppi með málshöfðun gegn rétthafanum eða makanum innan árs frá andlátinu. Ljóst sé að fyrrnefnt ákvæði 3. mgr. 105. gr. komi  ekki í veg fyrir né útiloki að dómsmáli sé einnig beint að hlutaðeigandi tryggingafélagi, í þessu tilviki útibúi tryggingafélagsins Allianz hér á landi sem lúti ákvæðum íslenskra laga að öllu leyti í starfsemi sinni, þ.m.t. gagnvart stefnanda í máli þessu. Stefnandi stefni tryggingafélaginu Allianz Ísland hf., enda ljóst að félagið hafi tekið þá ákvörðun að líftryggingarfjárhæðin yrði greidd að fullu til tilnefnds rétthafa vitandi um kröfu stefnanda um greiðslu á hluta vátryggingarfjárhæðarinnar og mögulega betri rétti hans í þeim efnum. Hafi stefndi Allianz Ísland hf. einnig brotið gegn lögum um vátryggingarsamninga, sbr. m.a. 69. gr. laganna. Sé gerð krafa um greiðslu in solidum af hálfu stefndu til stefnanda, líkt og í dómkröfum greinir.

Til vara sé gerð krafa á hendur öðrum hvorum stefnda, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Telur stefndi það bæði vera rétt og nauðsynlegt að gera til vara kröfu á hendur öðrum hvorum stefnda, þannig að unnt verði að dæma um greiðsluskyldu annars hvors þeirra, verði ekki fallist á kröfu stefnanda um greiðslu af hendi stefndu in solidum. Í því sambandi tekur stefnandi fram að verði stefnda Rakel Rún sýknuð af kröfum stefnanda, enda þótt greiðsluskylda skv. ákvæðum laga um vátryggingasamninga kunni að vera fyrir hendi, telji stefnandi í öllu falli ljóst að samningsaðili hins látna, Allianz Ísland hf., sé greiðsluskyldur einn og sér gagnvart stefnanda. Beri hið stefnda félag sjálfstæða skaðabótaábyrgð. Nánar tiltekið telur stefnandi að tryggingafélagið hafi bakað sér sjálfstæða skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda með því að greiða líftryggingarfjárhæðina að fullu til stefndu Rakelar Rúnar, vitandi um mögulegan betri rétt stefnanda. Sú ákvörðun hins stefnda vátryggingafélags um að láta framkvæma greiðslu til stefndu Rakelar Rúnar hafi haft í för mér tjón fyrir stefnanda sem nemi allt að þriðjungi af tilgreindri líftryggingarfjárhæð skírteinis nr. 33 028 659 3. Hafi stefnda Allianz Ísland hf. verið í lófa lagið að hlutast til um að halda eftir greiðslu að hluta uns ágreiningur hafi verið til lykta leiddur, e.a. fyrir dómstólum. Hinu stefnda félagi hafi í öllu falli borið að gæta að 69. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, enda hafi stefnandi sérstakra hagsmuna að gæta. Þar sem það hafi ekki verið gert sé kröfum stefnanda beint til vara eingöngu að tryggingafélaginu, verði niðurstaðan sú að stefnda Rakel Rún verði sýknuð af kröfu stefnanda um greiðslu. Telur stefnandi að stefndi hafi með háttsemi sinni sýnt af sér ásetning, í það minnsta stórfellt gáleysi, með því að greiða út fjárhæðina til stefndu Rakelar Rúnar, vitandi um kröfu stefnanda um greiðslu bóta úr líftryggingunni og mögulegan betri rétt hans til greiðslu bóta úr umræddri tryggingu. Sé meðal annars stuðst við almennar reglur kröfu- og skaðabótaréttarins, bæði innan og utan samninga auk ákvæða laga nr. 30/2004. Einnig sé kröfu til vara eingöngu beint að stefndu Rakel Rún ef niðurstaða dómstólsins sé að sýkna beri hið stefnda félag af kröfum stefnanda um greiðslu in solidum af hálfu stefndu.

Hvað varði aðild Allianz Ísland hf. skal sérstaklega tekið fram að samkvæmt vátryggingarskilmálum frá árinu 2013, sem voru í gildi á þeim tíma er umrædd vátrygging var tekin, megi höfða mál sem byggjast á tryggingarsamningnum fyrir dómstóli sem hefur lögsögu þar sem útibú tryggingafélagsins sem annast samninginn er að finna, sbr. 5. gr. C-hluta skilmálanna. Sé og vísað til ákvæða einkamálalaga, sbr. m.a. 33. gr. þeirra um varnarþing. Útibú tryggingafélagsins Allianz hér á landi sé Allianz Ísland hf., staðsett í Dalshrauni 3, 220 Hafnarfirði. Eigandi félagsins séu tvö einkahlutafélög sem bæði séu í 100% eigu Íslandsbanka. Samkvæmt upplýsingum, m.a. af heimsíðu stefnda Allianz Ísland hf., starfi um 20 einstaklingar hjá félaginu, sem allir komi með einum eða öðrum hætti að ráðgjöf, undirritun og ákvarðanatöku vegna fyrirkomulags vátrygginga sem félagið bjóði aðilum hverju sinni. Stefnandi hafi samið við starfsmenn og fulltrúa Allianz Ísland hf. og annaðist það félag um öll samskipti vegna samningsins ásamt undirritun skjala. Hafi hinum látna ítrekað verið sérstaklega bent á að setja sig í samband við stefnda Allianz Ísland hf. varðandi frekari upplýsingar eða spurningar, bæði fyrir og eftir að umsókn hans um líftryggingu var samþykkt. Þá hafi hið stefnda félag hafnað beiðni stefnanda um frestun á greiðslu ásamt því að neita að veita upplýsingar um líftrygginguna. Telur stefnandi að stefndi Allianz Ísland hf. hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 30/2004, en félaginu beri að fara að lögum í starfsemi sinni. Sé málssókn því réttilega beint að hinu stefnda félagi. Sé dómkröfum stefnanda þannig aðallega beint gegn stefndu sameiginlega (in solidum) hverjum með öðrum, en til vara á hendur hvorum þeirra um sig.  

Málsástæður.

Líkt og að framan greinir sé málshöfðun þessi til komin vegna þess að stefnanda sé nauðsynlegt að höfða mál til að framfylgja kröfum sínum um greiðslu hluta þeirrar vátryggingarfjárhæðar sem greidd hafi verið út til tilnefnds rétthafa við andlát líftryggingartaka. Stefnandi hafi leitast við af fremsta megni að semja um úrlausn þessa máls en ekki mætt neinum vilja af hálfu stefndu, Rakelar Rúnar. Þá hafi tryggingafélagið ekki orðið við kröfum stefnanda um að bíða með uppgjör tryggingar, þrátt fyrir að hafa haft vitneskju um mögulegan rétt stefnanda til greiðslu fjárhæðar og kröfu hans um greiðslu úr hluta líftryggingar.

Stefnandi krefst þess að tilnefningu stefndu sem rétthafa verði hnekkt að hluta og krefst sér til handa greiðslu sem nemi þriðjungi af tilgreindri líftryggingarfjárhæð samkvæmt vátryggingarskírteini nr. 33 028 659 3. Sé fjárhæð líftryggingar tilgreind í heild samtals 125.000 evrur. Er krafa stefnanda um þriðjung af líftryggingarfjárhæð bæði réttmæt og sanngjörn.

Krafa stefnanda byggist í fyrsta lagi á ákvæðum 105. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, en samkvæmt ákvæðinu sé mögulegt að hnekkja tilnefningu rétthafa í heild eða að hluta. Sé það bersýnilega ósanngjarnt gagnvart maka eða öðrum skylduerfingjum, sem voru á framfæri vátryggingartaka eða hann var skuldbundinn til að framfæra og hefðu ella átt kröfu til vátryggingarfjárhæðarinnar skv. 100. gr., að vátryggingarfjárhæðin renni til rétthafa, geti sá er framfærslu naut eða átti að njóta krafist þess að vátryggingarfjárhæðin verði greidd sér í heild eða að hluta.

Ljóst sé að hinn látni hafi verið framfærsluskyldur gagnvart öllum sínum börnum og hefði tilnefndur rétthafi ekki verið fyrrverandi sambýliskona hins látna, hefðu skylduerfingjar hans átt jafna kröfu til vátryggingarfárhæðarinnar. Af þeim sökum hefðu öll börn hins látna átt kröfu til jafns, sbr. 3. mgr. 100. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, sbr. 1. mgr. 2. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, en hinn látni var hvorki skráður í hjúskap né sambúð við andlát.

Stefnandi telur ljóst að ákvæði 105. gr. laganna eigi við í þessu tilviki enda hljóti það að vera vilji sérhvers foreldris að gera jafnt við öll börn sín eftir sinn dag, en ekki hygla einu á kostnað annars líkt og uppi væri í máli þessu fari svo að fyrrverandi sambýliskona og móðir tveggja af þremur barna hins látna haldi eftir allri vátryggingarfjárhæðinni. Þá hafi aðstæður vátryggingartaka breyst verulega frá því að líftryggingin var tekin og hafi vilji hins látna ekki staðið til þess að halda fyrrverandi sambýliskonu sinni sem tilnefndum rétthafa, einkum í ljósi skilnaðar, og láta þar með alla fjárhæð tryggingarinnar renna til hennar fremur en að láta vátryggingarfjárhæðina renna til jafns til skylduerfingja sinna. En óumdeilt sé að vátryggingartaki hafi verið framfærsluskyldur til jafns gagnvart öllum sínum börnum og hafði slitið sambúð við rétthafa. Stefnandi telur að við úrlausn málsins beri sérstaklega að líta til breyttra aðstæðna hins látna frá því að hann tók líftrygginguna. Fullvíst sé að vilji hins látna hafi staðið til þess að tryggja hagsmuni allra sinna skylduerfingja til jafns, þ.e. allra barna sinna. Í samræmi við það sem sanngjarnt er og eðlilegt hafi vilji hans staðið til þess að vátryggingarfjárhæðin rynni jafnt til barna sinna þriggja.

Þá beri einnig að líta til hagsmuna stefnanda sem skylduerfingja hins látna. Um afar mikilsverða hagsmuni sé að ræða fyrir stefnanda málsins, sem sé ungur að árum og hefur hann átt erfitt uppdráttar, sérstaklega í kjölfar andláts föður síns, en stefnandi mæti reglulega til sálfræðings vegna áfallastreitu og til að fá hjálp við að vinna úr sorginni. Stefnandi sé í 10. bekk í Heiðarskóla í Keflavík. Hann er greindur með lesblindu og á erfitt með nám. Stefnandi hyggst hefja nám í kokkaskóla á Akureyri að grunnskólanámi loknu. Vart þurfi að rökstyðja frekar að það varði verulega persónulega hagsmuni barnsins, sem nýlega hefur misst föður sinn, að fá úr því skorið hvort unnt sé að hnekkja tilnefningu rétthafans að hluta svo vátryggingarfjárhæðin renni til jafns til allra skylduerfingja hins látna.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá stefnda Allianz Ísland hf. tilkynnti félagið einhliða að það hygðist greiða bæturnar til tilgreinds rétthafa, eins og fram komi í tölvuskeyti þess hinn 13. febrúar 2017. Síðar eða hinn 5. apríl 2017 hafi hið stefnda tryggingafélag  staðfest að greiðsla hafi þegar verið innt af hendi hinn 24. febrúar 2017, en ekki upplýst um fjárhæð í krónum talið. Félagið hafi ekki upplýst um fjárhæð greiðslunnar á fyrri stigum, þrátt fyrir beiðni stefnanda þar um, en slíkar upplýsingar hafi verið afhentar lögmanni stefnanda hinn 13. nóvember 2017 þegar beiðni var áréttuð.

Þrátt fyrir vitneskju um tilvist kröfu stefnanda og ágreining um tilnefningu rétthafans hafi fjárhæðin verið innt af hendi til stefndu Rakelar Rúnar. Hið stefnda félag hafi ekki gætt að skyldum sínum m.a. samkvæmt 69. gr. laga nr. 30/2004. Er kröfu stefnanda aðallega beint að stefndu báðum sameiginlega þar sem stefnandi telur stefndu bera óskipta og sameiginlega ábyrgð. Verði ekki fallist á greiðsluskyldu þeirra in solidum sé  þess krafist til vara að annar hvor hinna stefndu verði dæmdur til greiðslu fjárhæðar til samræmis við dómkröfur, sbr. m.a. 2. mgr. 19. gr. eml.

Krafa stefnanda grundvallist einnig á þeim meginsjónarmiðum er búi að baki 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, en varla þurfi að hafa um það mörg orð að það teljist verulega ósanngjarnt gagnvart stefnanda, sem jafnframt sé skylduerfingi hins látna, í ljósi aðstæðna í máli þessu, að öll fjárhæð umræddrar líftryggingar renni til barnsmóður tveggja af þremur barna hins látna. Hvíla ákvæði laga um vátryggingarsamninga öðrum þræði á ákvæðum laga nr. 7/1936, ekki síst þeim sanngirnissjómarmiðum er sú löggjöf hvíli á. Ákvæði 36. gr. sml. heimili að efni samnings sé breytt í þá átt að samningurinn verði í heild sinni ekki ósanngjarn. Sé þess því krafist að tilnefningu rétthafa samkvæmt líftryggingu verði hnekkt á þann hátt að stefnandi sé réttmætur rétthafi að þriðjungi líftryggingarfjárhæðarinnar. Þannig fáist sem sanngjörnust niðurstaða í málið með því að stefnandi fái greitt sér til handa þriðjung útgreiddrar líftryggingarfjárhæðar, eða 41.667 evrur. Miði kröfugerð stefnanda þannig að því að tilnefningu rétthafans verði hnekkt að hluta þannig að viðurkennt verði að stefndu séu greiðsluskyldir sem nemi þriðjungi af tilgreindri vátryggingarfjárhæð, sbr. m.a. 2. mgr. 25. gr. eml., annaðhvort þannig að þeir verði dæmdir sameiginlega til greiðslu fjárhæðar, eða til vara annar hvor þeirra, sbr. framangreinda umfjöllun.

Með því að krefjast þess að tilnefningu sé aðeins hnekkt að hluta er tekið tillit til þarfa tilgreinds rétthafa, sem heldur þá eftir tveimur þriðju hluta fjárhæðarinnar sér og börnum sínum tveimur til ráðstöfunar. Taki dómkröfur stefnanda mið af því, sem eru sem fyrr segir sanngjarnar í ljósi atvika.

Stefnandi krefst dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr., laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 9. mars 2017. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna er heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara með réttu um greiðslu. Það sé mat stefnanda að stefndu hafi sannanlega verið upplýstir um kröfu hans um mögulega greiðslu úr vátryggingum hins látna, Hjalta Bergmanns, hinn 9. febrúar 2017. Í öllu falli sé unnt að halda því fram að hinn 9. febrúar 2017 hafi stefndu verið krafan kunn, enda þótt stefnandi hafi ekki á þeim tíma haft upplýsingar um nákvæma fjárhæð þeirrar greiðslu sem hið stefnda tryggingafélag hlutaðist til um að innt yrði af hendi til stefndu Rakelar Rúnar. En hinn 7. apríl 2017 var formleg krafa send til stefndu Rakelar Rúnar, á grundvelli þeirra gagna sem þá hafi legið fyrir um fjárhæð kröfu stefnanda. Stefnandi miðar upphafsdag dráttarvaxta við 9. mars 2017, eða mánuði eftir að fyrsta formlega kröfubréf hans var sent til stefndu. Stefnandi styður kröfu sína um málskostnað við ákvæði 129.-131. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þá sé þess óskað að tekið verði tillit til þess við málskostnaðarákvörðun að stefnanda beri að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns. Í málinu liggi fyrir gjafsókn til handa stefnanda.

Vísað sé til ákvæða laga nr. 30/2004, sbr. einkum 69. gr., 100. gr. og 105. gr. laganna. Þá sé vísað til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, einkum 36. gr. laganna. Þá vísar stefnandi einnig til erfðalaga, nr. 8/1962. Stefnandi vísar einnig til almennra bótareglna kröfu- og skaðabótaréttarins, einkum sakarreglunnar, meginreglunnar um fullar bætur fyrir fjártjón. Dráttarvaxtakrafa byggist á ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Þá sé enn fremur vísað til laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 32. gr., 1. mgr. 33. gr. og 1. mgr. 42. gr. einkamálalaga. Um aðild sé m.a. vísað til 19. gr. eml. Um málskostnað sé vísað til 129. gr., sbr. 130. gr., laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila Allianz Ísland hf. umboð í þessum þætti málsins.

Stefndi krefst þess að máli þessu verði vísað frá dómi. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins og/eða samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti.

            Hið stefnda félag byggir frávísunarkröfu sína m.a. á því að í stefnu sé það sagt vera vátryggingafélag en svo sé ekki. Félagið hafi ekki heimild að íslenskum lögum til þess að starfa sem slíkt, eins og firmaheiti þess beri augljóslega með sér.

Stefndi gerir verulegar athugasemdir við lýsingu málsatvika í stefnu, sem er röng, ófullkomin og vanreifuð hvað varðar þátt stefnda. Hið stefnda félag reki söluumboð fyrir þýsku tryggingasamsteypuna Allianz og miðli m.a. líftryggingum líftryggingarfélagsins Allianz Lebensversicherungs AG. Skráður tilgangur stefnda samkvæmt samþykktum félagsins sé að reka söluumboð fyrir Allianz AG í Þýskalandi og sé stefndi skráður umboðsmaður þýska vátryggingafélagsins, sbr. 39. gr. laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga, en vátryggingafélagið hafi heimild til að veita þjónustu hér á landi, sbr. 124. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingarstarfsemi. Starfsemi stefnda felist því í miðlun trygginga fyrir framangreind vátryggingafélög eins og í því tilviki sem um ræðir í þessu máli, en vátryggingartaki hafi sótt um líftryggingu hjá þýska líftryggingafélaginu 20. nóvember 2013. Þá felist starfsemi stefnda auk þess í því að veita vátryggingartökum ýmiss konar aðstoð og að hafa milligöngu um samskipti þeirra við viðkomandi vátryggingafélag, t.a.m. í kjölfar vátryggingaratburða og annast þýðingar á tilkynningum, yfirlitum og bréfum á milli samningsaðila.

Málsatvikalýsing í stefnu sé því í grundvallaratriðum röng hvað varði meint samningssamband stefnda og hins látna vátryggingartaka, Hjalta Bergmanns Hjaltasonar. Sé í stefnu margítrekað vísað til stefnda sem vátryggingafélags, sem tryggingafélags vátryggingartakans, sem samningsaðila vátryggingartakans og sem greiðanda þeirra vátryggingarbóta sem málshöfðun þessi snýst um. Þrátt fyrir þessar ítrekuðu rangfærslur stefnanda komi þó réttilega fram að hið stefnda félag sé ekki þýskt vátryggingafélag heldur íslenskt félag sem sé alfarið í eigu innlendra aðila en ekki vátryggingafélagsins Allianz Lebensversicherungs AG og með stefnu sé auk þess lagt fram endurrit af gildandi skráningu stefnda hjá Fyrirtækjaskrá og þar sem skráður tilgangur félagsins sé að reka söluumboð.  Þá sé einnig lagt fram tryggingarskírteini vátryggingartaka, sem þýska vátryggingafélagið hafi sent vátryggingartaka þegar umsókn hans um líftryggingu hafi verið samþykkt. Í tryggingarskírteininu komi fram að vátryggingafélagið Allianz Lebensversicherungs AG hafi verið samningsaðili vátryggingartaka. Með tryggingarskírteininu fylgdi bréf frá Allianz Lebensversicherungs AG, bæði á þýsku og íslensku, þar sem vátryggingafélagið bendi vátryggingartaka á að hann geti leitað til umboðsmanns félagsins á Íslandi, stefnda, ef frekari upplýsinga eða leiðbeininga sé óskað. Stefnandi hafi engu að síður af einhverjum ástæðum kosið að beina máli sínu að stefnda en ekki vátryggingafélaginu en hvorki ástæður þess eða grundvöllur fyrir þeirri málshöfðun koma fram í stefnu.

Þá sé ástæða til að mótmæla rangri lýsingu stefnanda á samskiptum stefnda við lögmenn hans. Því sé ítrekað haldið fram í stefnu að lögmenn stefnanda hafi ekki fengið upplýsingar um vátryggingarfjárhæð þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan. Þetta sé alrangt. Eins og gögn málsins beri skýrlega með sér hafi stefndi veitt lögmanni stefnanda upplýsingar um rétthafa bóta líftryggingarinnar og fjárhæð vátryggingarbóta einungis nokkrum dögum eftir að fyrirspurn barst frá lögmanninum, en þessara upplýsinga hafi verið aflað frá Allianz Lebensversicherungs AG. Veitti stefndi lögmanni stefnanda í þrígang upplýsingar um líftryggingarfjárhæð og greiðslu til tilgreinds rétthafa, með tölvupósti 17.  febrúar 2017, 5. apríl 2017 og enn og aftur 13. nóvember 2017.

Stefndi byggi kröfu sína um frávísun á þeirri málsástæðu að málatilbúnaður stefnanda sé svo vanreifaður að ekki verði hjá því komist að vísa málinu frá dómi. Sé málatilbúnaður stefnanda svo í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars um glöggan og ljósan málatilbúnað, að hann uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála (eml.) og er því ekki tækur til efnismeðferðar.

Samkvæmt e-lið framannefnds ákvæðis verði í stefnu að greina svo glöggt sem verða megi málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þurfi að tilgreina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Í stefnu sé ekki stafkrók að finna um ástæður þess að stefnandi kýs að beina kröfum sínum að stefnda en ekki vátryggingafélagi hins látna vátryggingartaka, Allianz Lebensversicherungs AG, sem hafi greitt vátryggingarbætur til tilgreinds rétthafa á grundvelli vátryggingarsamnings viðkomandi. Stefndi sé hvorki vátryggingafélag né hafi heimild til þess að stofna til réttarsambands sem tryggingaraðili og hafi heldur ekkert slíkt gert. Málsatvikalýsing í stefnu sé því í grundvallaratriðum röng hvað varði samningssamband stefnda og hins látna vátryggingartaka, þ.m.t. þær fullyrðingar stefnanda að hinn látni hafi verið með tryggingar hjá stefnda þegar hann lést sem og að stefndi hafi greitt vátryggingarbætur á grundvelli vátryggingarinnar, hvað þá að starfmenn eða fulltrúar varnaraðila hafi samið við sóknaraðila, eins og ranglega sé haldið fram á bls. 4 í stefnu.

Eins og framan greinir reki stefndi söluumboð fyrir vátryggingafélagið Allianz Lebensversicherungs AG. Vátryggingarumboðsmaður miðlar vátryggingum á vegum eins eða fleiri vátryggingafélaga og á ábyrgð þeirra, samkvæmt skilgreiningu laga um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005. Stefndi verður ekki aðili að þeim vátryggingarsamningum sem hann miðlar og tekur ekki á sig neinar skyldur gagnvart vátryggingartökum. Stefndi hafi því engar skyldur borið gagnvart hinum látna vátryggingartaka á grundvelli vátryggingarsamnings hans og Allianz Lebensersicherungs AG, né hafi stefndi tekið á sig aðrar skyldur gagnvart vátryggingartakanum eða öðrum aðilum.  Í framlögðum gögnum málsins, sem og í stefnu, komi fram að vátryggingarfélag hins látna, þ.e. samningsaðili hans, hafi verið Allianz Lebensversicherungs AG, það komi fram að stefndi sé söluumboð vátryggingafélagsins hér á landi en stefnandi láti alfarið hjá líða að upplýsa hvers vegna málssókninni sé beint að stefnda en ekki vátryggingafélaginu.

Megininntak 1. mgr. 80. gr. eml. sé að málatilbúnaður skuli vera skýr og glöggur, þannig að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Er tilgangurinn sá að stefndi geti með góðu móti áttað sig á þeim kröfum sem fram séu settar í stefnu og atvikum að baki þeim, og tekið til varna ef svo beri undir. Á þetta skorti í stefnu og sé málatilbúnaður stefnanda svo stórlega vanreifaður að ekki sé mögulegt fyrir stefnda að greina á hverju málsókn stefnanda gegn honum sé byggð.  Stefndi geti því ekki með góðu móti, án þess að grípa til túlkunar eða fyllingar, tekið til varna í málinu. Vegna þessa annmarka sé stefnda ómögulegt að verjast því að vera með þeim hætti sem fram kemur í stefnu samsamaður með vátryggingafélaginu Allianz Lebensversicherungs AG.

Í ljósi framangreinds telur stefndi að stefna og málatilbúnaður stefnanda sé svo vanreifaður og langt frá því að fullnægja áskilnaði 1. mgr. 80. gr. eml., að stefnda sé sá kostur nauðsynlegur að krefjast frávísunar nú þegar, sbr. lokamálslið 2. mgr. 99. gr. eml., enda er óhjákvæmilegt að málinu verði vísað frá dómi.

Um lagarök fyrir frávísunarkröfu þessari og framlagningu greinargerðar er vísað til 2. mgr. 99. gr. eml. Jafnframt er vísað til 1. mgr. 80. gr. eml. Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130. gr. eml.

Málsástæður og lagarök varnaraðila í þessum þætti málsins.

Varnaraðili í þessum þætti málsins hafnar frávísunarkröfu sóknaraðila. Mótmælir varnaraðili málsástæðum sóknaraðila sem ekki koma fram í greinargerð sem of seint fram komnum. Kveður varnaraðili enga annmarka vera á samaðild skv. 19. gr. einkamálalaga, aðild stefnda Allianz Íslands sé gerð greinagóð skil í stefnu og fari ekki á milli mála hverjum sé stefnt og hvers vegna. Kvað varnaraðili málsástæður  sóknaraðila falla undir efnismeðferð málsins og aðildarskortur leiði til sýknu en ekki frávísunar. Varnaraðili hafi samið við sóknaraðila og því sé hann réttur aðili sem beri að stefna vegna grandsemi sóknaraðilavið útgreiðslu líftryggingarinnar. Þá sé málavaxtalýsing í stefnu í samræmi við gögn málsins og sé öðru hvað það varði mótmælt. Þá sé það of seint fram komið að ósamræmi sé í málatilbúnaði í stefnu og framlögðum gögnum. Mótmælir varnaraðili þeirri fullyrðingu sóknaraðila að félaginu hafi verið nóg að vísa almennt til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 varðandi ófullnægjandi málatilbúnað varnaraðila. Sóknaraðili hafi orðið að koma því að, ætli hann sér að byggja á því, hvaða stafliði í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 varnaraðili hafi ekki uppfyllt. Það hafi sóknaraðili ekki gert og sé frekari málsástæður nú of seint fram komnar. Þá skipti engu máli varðandi varnir sóknaraðila í aðalmálinu hvort hann sé nefndur sem útibú eða tryggingafélag. Það komi ekki niður á vörnum sóknaraðila.

Forsendur og niðurstaða.

Sóknaraðili krefst þess að máli varnaraðila  gegn honum verði vísað frá dómi. Byggir hann aðallega á því að aðild sóknaraðila sé svo vanreifuð í stefnu að ekki verði lagður efnisdómur á málið. Þá séu framlögð gögn ekki í samræmi við málsástæður varnaraðila og málatilbúnaður hans svo vanreifaður í heild sinni, svo sem kröfugerð, að vísa verði málinu frá dómi. Varnaraðili mótmælir málsástæðum sóknaraðila í þessum þætti málsins.

            Í stefnu er aðalkrafa stefnanda að bæði stefndu, Rakel Rún Karlsdóttir og Allianz Íslands hf., verði dæmd in solidum til greiðslu 41.667 evra auk vaxta. Til vara er öðru hvoru stefnt til greiðslu sömu fjárhæðar auk vaxta.

            Þá krefst stefnandi þess einnig að viðurkennt verði með dómi að stefnandi teljist rétthafi að einum þriðja hluta líftryggingarfjárhæðar sem tilgreind er í vátryggingarskírteini nr. 33  028 659 3.

            Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála leiðir aðildarskortur til sýknu. Aðild í málatilbúnaði getur þó verið svo vanreifuð í heild sinni að það varði frávísun frá dómi.

Til að dómkröfur í stefnu séu dómtækar þurfa þær að vera svo skýrar að dómari geti gert þær að sínum í dómsniðurstöðu og að úrlausnin sé endalok þrætu, hvort sem það er um greiðslu skuldar, athöfn, athafnaleysi eða viðurkenningu á skyldu.

Ekki er vikið að því í stefnu hvaða réttarsamband er á milli stefnanda og Allianz Lebensversicherungs AG í Þýskalandi né á hvaða grundvelli stefndi Allianz Ísland hf. beri sömu skyldur og vátryggingafélagið sem er vátryggingarsali samkvæmt gögnum málsins. Er um vanreifun þar að ræða en í stefnu má ætla að hið stefnda félag sé útibú Allianz Lebensversicherungs AG eða sjálfstætt tryggingafélag. Er réttarsamband þeirra félaga ekki útlistað í stefnu heldur söluaðilanum stefnt. Stafa gögn þau er stefnandi lagði fram í málinu, og byggir dómkröfur sína á, frá Allianz Lebensversicherungs AG en ekki Allianz Ísland hf. söluumboði. Enga skýringu er að finna í málatilbúnaði stefnanda á þessu misræmi. Er málið vanreifað að þessu leyti.

            Í stefnu er vísað til almennra reglna kröfu- og skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar. Ekki er að finna sjálfstæða umfjöllun um grundvöll skaðabótaábyrgðar stefndu og þá hvernig stefndu hafa bakað sér skaðabótaskyldu með ólögmætum og saknæmum hætti og ekki er gerð nein grein fyrir því hvernig stefnda Rakel Rún beri skaðabótaábyrgð í máli þessu með saknæmum eða ólögmætum hætti en samkvæmt dómkröfum er henni einnig stefnt til að þola viðurkenningardóm í aðalsök.

Nauðsyn ber til að gera sjálfstæða grein fyrir því hvers vegna framangreindar reglur eigi að leiða til skaðabótaábyrgðar. Samkvæmt þessu hefur dómurinn ekki möguleika til þess að leggja mat á dómkröfur stefnanda og verður því ekki dæmt um bótaskyldu stefndu í máli þessu, enda er málatilbúnaður stefnanda og kröfugerð í senn ónákvæmt og óljós og ekki í samræmi við ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Úr þessum annmarka verður ekki bætt undir rekstri málsins, enda miðast varnir í héraði við málið eins og það var við þingfestingu þess.

            Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið hefur dómurinn ekki möguleika til þess að leggja mat á aðalkröfur sem og viðurkenningarkröfu stefnanda og verður því ekki dæmt um valkvæðar dómkröfur stefnanda né bótaskyldu stefndu í máli þessu, enda er málatilbúnaður stefnanda og kröfugerð í senn ónákvæm og óljós og ekki í samræmi við ákvæði 2. mgr. 19. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þessu felst m.a. að stefnandi hefur ekki með viðhlítandi hætti reifað atriði sem varða skilyrði fyrir viðurkenningarkröfu hans á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gagnvart báðum stefndu. Eru slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að ekki er hjá því komist að vísa málinu frá dómi að kröfu stefnda Allianz og ex officio vegna vanreifunar vegna stefndu Rakelar Rúnar Karlsdóttur.

            Eftir úrslitum málsins og með vísun til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefndu, hvoru um sig, 500.000 krónur í málskostnað.

Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu og gerir þá kröfu, eins og áskilið er í gjafsóknarleyfinu, að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Kristínar Ólafsdóttur lögmanns, sem ákveðin er samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga um meðferð einkamála, 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Ástríður Grímsdóttir kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð

Krafa Allianz Ísland hf. söluumboði um að máli þessu verði vísað frá dómi er tekin til greina.

            Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu varðandi málsókn á hendur stefndu Rakel Rán Karlsdóttur.

            Stefnandi greiði stefndu, Rakel Rán Karlsdóttur og Allianz Ísland hf. söluumboði, hvoru um sig 500.000 krónur í málskostnað.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Unnar Ástu Bergsteinsdóttur lögmanns, 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

                                    Ástríður Grímsdóttir.