• Lykilorð:
  • Skaðabætur
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, þriðjudaginn 19. mars 2019, í máli nr. E-820/2018:

A

(Jóhannes Stefán Ólafsson lögmaður)

gegn

B

(Þórdís Bjarnadóttir lögmaður)

 

Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu þann 6. september 2018 og dómtekið þann 19. febrúar 2019.

Stefnandi er A, kt. 000000-0000, [...].

Stefndi er B, kt. 000000-0000, [...].

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 1.545.312 krónur. Til vara er gerð krafa um að stefndi greiði stefnanda skaðabætur að álitum. Í báðum tilvikum er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 22. mars 2017 til greiðsludags. Til þrautavara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að stefndi hafi ekki afhent búslóð hennar að fullu í samræmi við úrskurð Héraðsdóms Reykjaness, dags. [...] 2017, í máli nr. A-[...]. Þá krefst stefnandi í öllum tilvikum málsmálskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krafðist aðallega frávísunar málsins. Með úrskurði dómsins þann 30. nóvember 2018 var þeirri kröfu hafnað. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til þrautavara verulegrar lækkunar á kröfum. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins og í samræmi við framlagt málskostnaðaryfirlit, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.  

 

I

Málsatvik

Aðilar málsins voru í sambúð á árunum [...] og eignuðust saman [...] börn. Í mars 2016 urðu samvistarslit þegar stefnandi flutti út og fór í Kvennaathvarfið ásamt börnum þeirra.

Í málinu liggja fyrir útprentanir af smáskilaboðum sem stefndi sendi stefnanda eftir samvistarslitin í mars 2016. Í fyrstu skilaboðunum kemur meðal annars fram: „Hef ekkert heyrt frá þér líka varðandi dótið þitt hvort þú vilt fötin þín. Ég verð þá að láta fara með þau í Rauða Krossinn.“ Í næstu skilaboðum stefnda kemur fram: „Komdu og spjöllum og taktu föt. Kl. 16 í dag fara þín föt í Rauða Kross gáminn hérna ef þú vilt þau ekki.“ Í þriðju skilaboðunum kemur meðal annars fram; „Er mjög til í að þú kíkir á mig í kvöld eða morgun og ég hjálpa þér að fylla bílinn. Þarft enga löggu eða vesen. Vil að börnin hafi e-h og þú átt dót og snyrtidót. Eina sem ég bið um í staðinn er stutt spjall yfir kaffi og að fá að kveðja börnin á facetime fyrir háttatíma á morgun.“ Í fjórðu skilaboðunum kemur fram: Ok. Þú vilt þá ekkert dót? Alltílagi sko en mig langar að kveðja börnin. ... Þú dílar við mömmu um dótið og framhaldið.“

Í tölvupóstsamskiptum frá 22. mars 2016 milli lögmanna aðila kemur fram að stefnandi hafi farið í lögreglufylgd á heimili stefnda degi áður en stefndi hafi neitað að afhenda eigur hennar. Í svarpósti stefnda kemur fram að eigur stefnanda verði á heimili móður hans seinnipart næsta dags. Lögmaður stefnanda sendir lögmanni stefnda lista yfir eigur stefnanda og spyr hvort mögulegt sé að fá tímasetningu til að sækja þær eigur. Í tölvupósti lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda í maí 2016 kemur fram að stefnandi hafi ekki enn fengið eigur sínar þrátt fyrir tvær tilraunir með lögreglu. Hafi stefnandi séð að stefndi væri að auglýsa eigur hennar til sölu á sölusíðu Facebook. Lögmaður stefnanda spyr lögmann stefnda hvort hann sé með tillögu að því hvernig stefnandi geti nálgast eigur sínar. Í tölvupósti frá 21. júlí 2016 frá lögmanni stefnanda til lögmanns stefnda kemur fram að stefnandi hafi því miður ekki fengið afhentar eigur sínar, og spurt er hvort það sé einhver séns að það muni gerast á næstunni. Sá tölvupóstur er ítrekaður 24. ágúst 2016 og enn 21. september 2016, án þess að séð verði af gögnum málsins að svör hafi borist.

Lögmaður stefnanda sendi í maí 2016 tölvupóst til lögreglustjórans á Suðurnesjum þar sem spurt var hvort það sé ekki eitthvað sem stefnanda geti gert til þess að stöðva sölu á eigum sem séu sannanlega hennar. Í svarpósti lögreglu kom fram að haft yrði samband við lögmann stefnda og reynt yrði að fá stefnda til þess að láta af þessu ef rétt reyndist. Í bréfi lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 2. desember 2016, kom fram: „Að mati lögreglu er um hjónaskilnað að ræða og því falla eignaskipti undir hjúskaparlög nr. 31/1993.“

 

Í málinu liggja fyrir útprentanir af Facebook-auglýsingum þar sem stefndi auglýsir til sölu ýmsa muni, meðal annars ilmvötn fyrir konur, kvenmannsveski og snyrtivörur. Þá liggja fyrir útprentanir af Facebook-auglýsingum þar sem vinkona stefnda auglýsir til sölu ýmsa muni sem stefnandi upplýsti fyrir dómi að væru hennar munir, en meðal þeirra voru sömu munir og stefndi hafði áður auglýst. Þá liggja fyrir útprentanir af Facebook-síðu núverandi sambýliskonu stefnda, þar sem auglýst er til sölu fyrir norðan, þar sem stefndi býr nú, fatnaður og skartgripir sem stefnandi kveður sína, og hafi hún sjálf gert einhverja þeirra skartgripa.

Í skýrslu stefnda fyrir dómi kom fram að þegar stefnandi hefði farið af heimilinu hefðu einhverjir munir orðið eftir sem stefnandi hafi nú fengið eða móðir hennar. Stefndi kvaðst fyrir dómi kannast við að hafa reynt að selja einhverja muni stefnanda og hafa selt „eitthvað óverulegt í kassa“ sem stefnandi hafi átt, að verðmæti um 10.000 krónur.

Í skýrslu móður stefnda fyrir dómi kom fram að hún hefði séð að svartir plastpokar hafi verið í bifreið þeirri sem stefnandi var á þegar hún yfirgaf heimilið. Þá hefði hún afhent móður stefnanda eitthvert dót auk þess sem hún hafi við tæmingu á fasteign þeirri sem málsaðilar hefðu búið í, og hún átti, tekið saman muni stefnanda og geymt á bretti og afhent stefnanda þá, einu og hálfu ári eftir samvistarslitin.

Í skýrslu vitnis fyrir dómi kom fram að hún hefði séð auglýsingu stefnda á Facebook. Hafi hún farið heim til stefnda og vinkonu hans og séð þar á borði fullt af dóti sem þau hafi verið að selja. Hafi stefndi gefið þá skýringu að stefnandi hafi ekki viljað fá dótið sitt aftur og samkomulag verið um að það yrði selt. Hafi vitnið keypt snyrtivörur og mittistösku, að hana minnti fyrir 6.000 krónur.

Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjaness í byrjun árs 2017, þar sem hún krafðist þess að fram færi bein innsetningargerð hjá stefnda um nánar tilgreinda 207 muni samkvæmt framlögðum lista, á grundvelli 12. kafla laga um aðför nr. 50/1989. Með úrskurði dómsins í máli nr. A-[...], þann [...] 2017, var fallist á kröfu stefnanda eftir útivist stefnda.

Stefndi flutti norður á land skömmu eftir þetta og var aðfararbeiðni um afhendingu munanna tekin fyrir hjá sýslumanninum á Norðurlandi vestra þann 11. janúar 2018. Í endurriti þeirrar gerðar kemur fram að 43 munum hafi verið skilað að fullu til gerðarbeiðanda, og 15 munum að hluta. Lagður var fram uppfærður listi vegna þeirra muna. Fært var til bókar að framhald gerðarinnar tæki til nefndra 15 muna að hluta og þeirra 149 muna sem eftir stæðu. Þá kom fram að aðilar myndu reyna sættir í gegnum lögmenn sína. Var gerðinni frestað til 8. febrúar 2018. Við fyrirtöku þeirrar gerðar kom fram að sættir hefðu ekki tekist. Við framhald gerðarinnar kvaðst stefndi ekki vita hvar umrædda muni væri að finna, en eitthvað gæti hafa orðið eftir í Grindavík hjá eiganda þess húss, þ.e. móður hans. Var ákveðið að gerðinni yrði framhaldið á heimili stefnda síðar þann sama dag. Við þá skoðun fundust engir af þeim munum sem stefnandi saknaði. Í málinu krefst stefnandi skaðabóta í samræmi við framlagðan lista, sem er að hluta til studdur gögnum um kaup eða listaverð.

Í málinu liggja fyrir gögn um framangreint, tölvupóstur með samskiptum aðila, útprentanir af reikningum og kvittunum, myndir af ýmsum munum og skjáskot af Facebook. Stefndi lagði fram staðfestingu á því að stefnandi hefði þann 3. ágúst 2017 sótt tvö bretti með munum til móður hans, 11 kassa, 1 körfu, 2 töskur, einn svartan ruslapoka með fötum o.fl., 1 ryksugu og fylgihluti, 3 innskotsborð og 1 stórt borð. Þá lagði stefndi fram myndir af framangreindum munum, reikningsyfirlit, skattframtöl auk gagna um ökutækið [...], Ford Focus, sem hann kveður sína eign, og stefnandi hafi farið á þegar samvistarslitin urðu.

Aðilar  málsins gáfu skýrslur fyrir dómi. Vitnaskýrslur gáfu C, móðir stefnda, og D.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið henni tjóni með því að afhenda ekki búslóð hennar, og ljóst sé af gögnum málsins að stefndi seldi og/eða henti munum stefnanda. Sé því ljóst að stefndi hafi skapað sér bótaábyrgð gagnvart stefnanda sem nemi verðgildi búslóðar og muna.

Stefnandi byggir á því um skyldu stefnda til greiðslu skaðabóta að fyrir liggi endanlegur úrskurður Héraðsdóms Reykjaness frá [...] 2017, í máli nr. A-[...]. Hafi stefndi ekki mætt við þingfestingu þess máls, og þannig ekki mótmælt því að hann eða aðrir væru með muni stefnanda undir höndum. Stefndi hafi heldur ekki nýtt sér þá heimild sem hann hafði til að láta endurupptaka málið, sbr. 137. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Ef stefndi hefði haft eitthvað við framlagðan lista að athuga eða haft einhver mótmæli við málatilbúnaði stefnanda hefðu slíkar málsástæður þurft að koma fram í fyrrnefndu máli eða í síðasta lagi við endurupptöku málsins. Hafi stefndi notið aðstoðar lögmanns á þessum tíma og greitt dæmdan málskostnað athugasemdalaust. Í ljósi þessa hafi niðurstaða héraðsdóms í máli nr. A-[...] falið í sér endanlega og bindandi úrlausn um úrslit sakarefnis þessa milli aðila, um þær kröfur sem dæmdar voru að efni til, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga um aðför nr. 90/1989.

Samkvæmt framangreindu byggir stefnandi á því að stefndi geti ekki í þessu máli komið að neinum málsástæðum eða mótmælum gegn þeim kröfum sem dæmt hafi verið að efni til í framangreindu máli, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Úrskurður héraðsdóms í  málinu feli í sér endanlega niðurstöðu um það atriði að stefndi hafi haft búslóðina undir höndum og honum hafi borið að skila henni. Þá sé óumdeilanlegt hvaða muni hafi verið um að ræða, enda hafi málið grundvallast á framlögðum lista yfir þá muni, og liggi sami listi fyrir í þessu máli.  

Þá er einnig byggt á því af hálfu stefnanda að jafnvel þótt ekki yrði fallist á framangreint og stefndi kæmi að vörnum hvað þetta varðar, sé engu að síður ljóst að hann sé skaðabótaskyldur fyrir tjóni stefnanda, enda stefndi margsinnis viðurkennt að hafa muni stefnanda undir höndum, og komi það fram í gögnum málsins. vísað til allra þeirra skilaboða og Facebook-auglýsinga sem stefndi og núverandi sambýliskona hans hafi birt, og vitnisburðar stefnda fyrir dóminum. Aldrei hafi verið ágreiningur um vörslur eða eignarrétt heldur hafi stefndi viljað setja stefnanda alls kyns skilmála fyrir því að hún fengi muni sína afhenta. Hafi stefndi þannig reynt að nota búslóðina til að koma sér í þá stöðu að geta haft samskipti við stefnanda. Einnig komi fram í gögnum málsins að stefndi hafi reynt að selja snyrtidót og aðra muni stefnanda á netinu. Í ljósi þessara málsatvika sé hvað sem öðru líður byggt á því að öll sönnunarbyrðin um nánara innihald búslóðarinnar eigi að hvíla á stefnda en ekki stefnanda. Verði niðurstaðan sú að stefndi geti komið að ágreiningi um einstaka muni þá beri honum að sanna að umræddir munir hafi ekki verið hluti af búslóðinni.

Stefnandi bendir á að það sé í samræmi við þá meginreglu einkamálaréttarfars að sá sem sé í betri stöðu til að geta fært sönnur á tiltekið atriði skuli bera sönnunarbyrðina. Óumdeilt sé í málinu, eða a.m.k. augljóslega sannað, að stefndi tók búslóð stefnanda og hafi neitað að afhenda hana. Sé því ljóst að stefndi sé og hafi alla tíð verið í betri stöðu til að sýna fram á hvaða muni hafi verið um að ræða, áður en hann seldi eða henti þeim. Stefnandi hafi hins vegar verið í ómögulegri stöðu, enda ekki með munina undir höndum auk þess að vera þolandi brota stefnda. Þessi augljósi aðstöðumunur aðila leiði samkvæmt viðurkenndum sönnunarreglum til þess að stefndi eigi að bera sönnunarbyrði málsins.

Einnig telur stefnandi að leggja beri sönnunarbyrðina á stefnda, enda hafi hann gerst sekur um refsivert brot. Stefndi hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að brjóta gegn almennum hegningarlögum með því að neita stefnanda um að fá afhentar eigur sínar, og með því að selja í leyfisleysi eigur stefnanda og hirða ágóðann sjálfur, sem og að henda eigum stefnanda í leyfisleysi. Þessi brot stefnda geti m.a. varðað við 257. gr., 244. gr., 246. gr. og 247. gr. almennra hengingarlaga nr. 19/1940. Stefnandi byggir á því að erfið sönnunarstaða hennar leiði einmitt af brotum stefnda sem framin hafi verið af ásetningi og beri því að leggja sönnunarbyrðina á stefnda auk þess sem skýra beri allan mögulegan vafa eða sönnunarskort stefnanda í hag. Hinn brotlegi eigi ekki að hagnast á sönnunarskorti sem leiði beinlínis af lögbrotum hans sjálfs.

Auk framangreinds telur stefnandi ljóst að hún hafi gert allt sem í hennar valdi stóð til að sýna fram á og sanna hvaða muni hafi verið um að ræða. Í tilvikum sem þessum sé sönnunarstaðan eðli málsins samkvæmt gríðarlega erfið þar sem ofbeldismaðurinn haldi eignunum hjá sér. Stefnandi hafi lagt fram ítarlegan lista og lagt fram allar þær kvittanir og reikninga sem hægt hafi verið að hafa uppi á, sem sýni fram á tilvist einstakra muna og eignarheimildar stefnanda. Þessi gögn hafi öll verið lögð fram í innsetningarmálinu, og eins og fram hafi komið hafi engar athugasemdir verið gerðar af hálfu stefnda við upptalninguna eða nefnd sönnunargögn. Þessi gögn séu nú öll lögð fram aftur fyrir héraðsdómi til öryggis, verði niðurstaða dómsins sú að stefndi geti komið að nýjum málsástæðum þrátt fyrir 5. mgr. 101. gr. og 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Stefnandi vísar til þess að lögð hafi verið fram í málinu gríðarlega umfangsmikil gögn sem sýni það svart á hvítu að stefndi og þáverandi kærasta hans auglýstu til sölu stóran hluta þeirra muna sem finna má á lista stefnanda yfir búslóð hennar. Ganga megi út frá því að þessir munir hafi allir verið seldir og að stefndi hafi hirt ágóðann. Í mörgum tilvikum séu einnig lagðar fram kvittanir og reikningar sem sýni fram á kaup stefnanda á þessum nákvæmlega sömu munum. Þá megi sjá að stefndi sé að selja snyrtivörur og kvenmannsföt í miklu magni, sem augljóst sé að eru eign stefnanda. Stefnandi byggir á því að sú staðreynd að stefndi hafi orðið uppvís að þeirri iðju að selja eigur stefnanda leiði til þess að skýra beri allan vafa og sönnunarskort um einstaka muni stefnda í óhag. Beri því að leggja til grundvallar lista stefnanda yfir eigur hennar eða í hið minnsta leggja að fullu sönnunarbyrðina á stefnda telji hann að einstaka munir á listanum eigi ekki rétt á sér.

Stefnandi bendir á að aðalkrafa hennar sé skaðabótakrafa sem byggist á ólögfestum almennum reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga. Vísar stefnandi til sakarreglunnar í þessu sambandi. Stefnandi telur ljóst að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið henni tjóni með þeirri háttsemi að neita að afhenda eigur hennar eins og fram er komið. Þá hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi ítrekað gerst sekur um að selja og henda eigum stefnanda og að hann hafi jafnframt viðurkennt margsinnis að vera með eigur stefnanda undir höndum. Sé skaðabótaábyrgð stefnda í málinu því skýr.

Varakrafa stefnanda er um skaðabætur að álitum. Stefnandi telur ljóst að hún eigi erfitt um vik með að sanna nákvæma fjárhæð tjónsins en þeir erfiðleikar séu án nokkurs vafa allir tilkomnir vegna ólögmætrar háttsemi stefnda, þ.e.a.s. vegna þess að hann tók búslóðina ófrjálsri hendi og seldi/henti munum stefnanda. Af þessu leiði að stefnandi sé sett í mjög erfiða stöðu en hafi þó gert allt sem af henni verði ætlast til þess að reyna sanna tjón sitt. Verði hins vegar af einhverjum ástæðum ekki fallist á það að stefnanda hafi tekist nákvæm sönnun tjónsins, þá sé þess til vara krafist að dómari ákvarði bætur að álitum. Í því sambandi sé þá hægt að horfa til þeirra gagna sem stefnandi hafi lagt fram og hún styðji aðalkröfu sína við. Hvað varðar heimild til að krefjast bóta að álitum vísar stefnandi til hliðsjónar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 309/2007. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar hafi einkum verið fallist á að dæma bætur að álitum í málum þar sem tjónþola sé sérstaklega erfitt um vik að sanna tjón sitt en hafi þó gert það sem í hans valdi stendur til að sanna tjónið, og/eða þegar sönnunarvandkvæði stafa af háttsemi stefnda af einhverjum ástæðum, m.a. vegna þess að stefndi er í betri stöðu til að sýna fram á fjárhæð tjóns.

Stefnandi setur fram viðurkenningarkröfu til þrautavara á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sé krafan sett fram til öryggis verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á aðalkröfu eða varakröfu stefnanda um að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem leitt hafi af því að hann afhenti ekki búslóðina að fullu í samræmi við úrskurð héraðsdóms. 

Stefnandi kveður að allar kröfur byggist á sömu sjónarmiðum og réttarheimildum skaðabótaréttarins, á almennu skaðabótareglunni og öðrum ólögfestum réttarreglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga.

Stefnandi bendir á að hún hafi þrátt fyrir sönnunarvanda engu að síður tekið saman yfirlit yfir þær eigur sem hún telji mikilvægar, sem og þær sem hún eigi skjalfesta eignarheimildir yfir eða geti fundið upplýsingar um núgildandi verðmæti. Heildarfjárhæðin samkvæmt þessum lista myndi stefnufjárhæðina í aðalkröfu. Sé miðað við verð muna í dag á sömu eða sambærilegum munum. Í öllum tilvikum þar sem yfirstrikað hafi verið yfir muni sé um að ræða muni sem stefndi hafi þegar skilað til stefnanda. Í einhverjum tilvikum sé merkt við „verð frá stefnanda“ en í þeim tilvikum hafi ekki fundist skjal til að staðfesta verð á viðkomandi munum. Séu munir án verða á listanum sé einfaldlega ókunnugt um verðgildi á þeim og/eða ekki hafi fundist nokkur gögn til að staðfesta verðmæti þeirra.

Stefnandi ítrekar að ekki sé um tæmandi lista að ræða og búslóðin innihaldi mun fleiri muni. Hér sé eingöngu um að ræða eigur sem stefnandi hafi fundið gögn um sem staðfesti verðmæti munanna. Sé því ljóst að tjón stefnanda sé umfangsmeira en listinn gefi til kynna en stefnandi hafi þó ákveðið að láta þar við sitja til að forma aðalkröfu sína á grundvelli þessara gagna. Stefnandi veki einnig athygli á þessu atriði til hækkunar bótaákvörðunar, fari svo að dómur verði byggður á varakröfu um bætur að álitum. Stefnandi telur að það sé gríðarlegum vandkvæðum háð að fá matsmenn til að meta búslóðina, jafnvel ómögulegt, í ljósi þess að stefndi hafi selt eða hent mununum.

Stefnandi bendir á að bæði í aðalkröfu og varakröfu sé að finna sömu vaxtakröfur. Í báðum tilvikum er krafist dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 22. mars 2017 til greiðsludags. Stefnandi krefst dráttarvaxta frá þeim degi er stefndi var úrskurðaður til að afhenda stefnanda eigur hennar með úrskurði héraðsdóms í máli nr. A-[...].

Um lagarök byggir stefnandi á almennum reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga, þ. á m. sakarreglunni. Vaxtakröfur eru byggðar á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Um heimild til að krefjast bóta að álitum í varakröfu vísar stefnandi til hliðsjónar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 309/2007, sem og reglna skaðabótaréttarins um skaðabætur að álitum. Um heimild til að krefjast viðurkenningardóms í þrautavarakröfu stefnanda sé vísað til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá vísar stefnandi til 116. gr. sömu laga sem og 5. mgr. 101. gr. Um varnarþing er vísað til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 þar sem aðilar hafa samið um varnarþing. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við 21. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. gr. og 130. gr. laganna, og til framlagðs gjafsóknarleyfis innanríkisráðuneytisins, dags. 15. febrúar 2019.

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að fram komi í stefnu að stefnandi telji sönnunarvanda í málinu og þar af leiðandi skuli sönnunarbyrðin liggja hjá stefnda. Slík sönnun sé gegn öllum meginreglum um sönnunarbyrði í einkamálum, og hún verði ekki lögð á stefnda í þessu máli. Hafi stefnanda því hvorki tekist sönnun á því að stefndi hafi haft af henni búslóð eða hafi stefndi framið lögbrot hvað búslóðina varði. Listi sá sem stefnandi hafi tekið saman um þær eigur, sem hún kveður stefnda halda frá sér, sé ekki studdur neinum gögnum, því síður að farið hafi fram nokkurt verðmat þeirra eigna.

Stefndi bendir á að í stefnu sé á því byggt að „stefndi geti ekki í þessu máli komið að neinum málsástæðum eða mótmælum gegn þeim kröfum, málsástæðum og sakarefni sem dæmt var að efni til í framangreindu máli“, og eigi þá við mál nr. A-[...]. Þessu sé mótmælt af hálfu stefnda, enda séu hafðar uppi allt aðrar kröfur í því máli. Ef um sama mál væri að ræða myndi það varða frávísun ex officio, skv. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en ef um nýtt mál væri að ræða sé alls ekki hægt að útiloka varnir stefnda. Þar sem úrskurður í framangreindu máli nr. A-[...] hafi byggst á IV. þætti aðfararlaga nr. 90/1989, og fjalli um annað en peningakröfu, sé hann ekki bindandi skv. 1. mgr. 116. gr. sömu laga.

Stefndi mótmælir kröfu um skaðabætur sérstaklega, enda sé krafan ósundurliðuð, órökstudd, og engum gögnum studd.

Varakröfu sína um lækkun byggir stefndi á því að komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi haldið frá stefnanda einhverjum munum, þá hafi stefnandi fengið afhentan hluta þeirra eigna sem hún telji sig eiga tilkall til. Auk þess sé verðmat stefnanda á þeim munum sem hún telji stefnda hafa haldið eftir allt of hátt, og oftast miðað við verði nýrra muna. Verði hins vegar fallist á kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta, sé krafist skuldajafnaðar vegna bifreiðar þeirrar sem stefnandi hafi tekið í sína vörslur, enda hafi stefndi einn staðið skil á kaupverði hennar og greitt afborganir lána. Með vísan til þess er þess krafist að stefnukrafan sæti verulegri lækkun.

Krafa varnaraðila um málskostnað styðst við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og krafan um greiðslu virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 

 

 

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi byggir á því að þegar liggi fyrir með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, frá [...] 2017, í máli nr. A-[...], skylda stefnda til greiðslu skaðabóta.

Í kröfugerð nefnds úrskurðar krafðist stefnandi þess að munir yrðu teknir úr vörslum stefnda og afhentir henni. Í þessu máli gerir stefnandi hins vegar fjárkröfur og kröfu um viðkenningu á skaðabótaskyldu. Að mati dómsins er framangreindur úrskurður ekki bindandi, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um úrlausn sakarefnis þessa máls, enda er málsgrundvöllur hér annar og málsástæður aðrar.

Stefnandi byggir í annan stað á því að vörslur stefnda á eigum stefnanda séu sannaðar, og að stefndi hafi selt og/eða hent eigum stefnanda. Þá sé sannað um saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda varðandi muni stefnanda.

Þegar stefnandi fór út af sameiginlegu heimili aðila ásamt börnum þeirra hafði hún meðferðis eigur í svörtum plastpokum sem komust fyrir í bifreið sem þau fóru á. Óumdeilt er af málsgögnum og skýrslu stefnda fyrir dómi að hluti af eigum stefnanda urðu eftir hjá stefnda. Þá er ljóst að stefnandi reyndi síðar með aðstoð lögreglu og lögmanns að nálgast eigur sínar en án árangur. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi nú fengið allar eigur sínar afhentar með milligöngu móður hans.

Í nefndum úrskurði í máli nr. A-[...] er upptalning 207 muna stefnanda. Útivist varð af hálfu stefnda og var vörslum hans á þeim munum því ekki mótmælt. Við fyrirtöku aðfararmáls til fullnustu úrskurðinum lagði stefnandi fram sama lista að frádregnum þeim munum sem skilað var af móður stefnda. Stefndi gerði við það tækifæri engar athugasemdir við listann og muni hans, en upplýsti að engir af þeim munum væru í hans vörslum og að hann hefði ekki hugmynd um hvar þeir væru niðurkomnir, en eitthvað gæti hafa orðið eftir hjá móður hans.

Í framlögðum útprentunum af Facebook-síðu stefnda, er stefndi að selja ýmsa muni sem stefnandi hefur borið að hún sakni og getið sé um á framangreindum lista. Í skýrslu stefnda fyrir dómi upplýsti hann að hafa reynt að selja einhverja muni hennar og hafi selt „eitthvað óverulegt í kassa“, að hann taldi að verðmæti um 10.000 krónur. Í auglýsingu vinkonu stefnda á Facebook voru meðal annars auglýstir sömu munir og stefndi hafði sjálfur áður auglýst, og bar stefndi fyrir dómi að vel gæti verið að þeir munir væru frá honum komnir. Var sala munanna staðfest af vitni, og þykir ljóst af þeim vitnisburði, og gögnum málsins að öðru leyti, að stefndi var ekki í góðri trú um heimild sína til þeirrar sölu. Stefndi hefur ekki gert neinn reka að því að sýna fram á hvað varð um þá muni sem hann reyndi að selja skv. framangreindu.

Um þá muni, sem mál þetta varðar og gerðar eru bótakröfur um, verður með hliðsjón af framangreindu við það að miða að munirnir hafi allir verið í vörslum stefnda við sambúðarslit aðila. Þá hefur stefndi viðurkennt atvik máls sem er honum óhagstætt, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991, þ.e. viðurkenning um ólögmæta og saknæma háttsemi hans um sölu á munum stefnanda, háttsemi sem er skaðabótaskyld að lögum, og er tjón stefnanda afleiðing af þeirri háttsemi stefnda.

Stefnandi hefur lagt fram í málinu lista yfir 207 muni. Á listanum er getið um verð á 119 munum, sem innihalda stefnufjárhæð málsins, 47 munir eru ekki með verð, og 41 eru yfirstrikaðir vegna afhendingar. Er þannig um að ræða 166 muni alls sem mál þetta tekur til. Stefnandi hefur ekki lagt fram matsgerð um tjón sitt, og verður að telja að matsgerð gæti ekki komið að fullu gagni með hliðsjón af málsatvikum sem teljast sönnuð. Til sönnunar á fjárhæð tjónsins hefur stefnandi lagt fram afrit kvittana og staðfestinga fyrir 75 muni af 119, en 44 munir eru verðmetnir af stefnanda. Er á það fallist með stefnanda að hún hafi með öllum tiltækum ráðum reynt að sýna fram á tjón sitt, og því verður fallist á að meta tjón stefnanda að álitum.

Við mat á tjóni stefnanda ber að mati dómsins að líta til eftirfarandi atriða: Stefndi hefur ekki mótmælt verði á einstökum munum en almennt telur hann verð allt of hátt, enda oftast miðað við verð nýrra muna. Stefnandi hefur lagt fram kvittanir og aðrar staðfestingar á kaupum muna, rúmlega ein milljón króna, aðrar fjárhæðir byggja á verðmati hennar sjálfrar. Ekki liggur fyrir verðmat á 47 munum. Upplýst er í málinu að einhverjir af þeim munum sem stefndi reyndi að selja voru ónotaðir og nýir, jafnvel enn með verðmiðum. Aðrir munir, sérstaklega dýrari munir eins og sjónvörp og stór heimilistæki voru eldri og notaðir, þar sem kvittanir sýna verð nýrra muna. Að mati dómsins geta bætur sem dæmdar eru að álitum aldrei bætt tjón með sama hætti og ef fyrir lægju nákvæm gögn um fjárhæð tjóns. Samkvæmt öllu framangreindu þykja bætur til handa stefnanda hæfilega ákvarðaðar 750.000 krónur.

Stefndi gerir þá kröfu í greinargerð að bifreið sú sem stefnandi fór á þegar hún yfirgaf sameiginlegt heimili þeirra, komi til skuldajafnaðar kröfu stefnanda, enda hafi stefndi einn staðið skil á kaupverði bifreiðarinnar og greitt afborganir lána. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili haft uppi gagnkröfu ef skilyrði skuldajafnaðar eru fyrir hendi.

Í kröfu stefnda er ekki getið um fjárhæð meintrar gagnkröfu með öðrum hætti en að bent var á skattframtal hans þar sem fram kemur að bifreiðin hafi verið seld þann 12. mars 2015 á 1.000.000 króna. Samkvæmt sama skjali kemur fram að kaupandi bifreiðarinnar var stefnandi þessa máls, og hafði hún því verið eigandi bifreiðarinnar í eitt ár áður en samvistarslit urðu. Þegar af þeirri ástæðu er ósannað að stefndi eigi gagnkröfu á hendur stefnanda, enda verður bifreið sem skráð var í eigu hennar sjálfrar ekki notuð sem gagnkrafa til skuldajafnaðar gegn hennar eigin kröfu.

Með vísan til framangreinds verður stefnda gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 750.000 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 22. mars 2017 til greiðsludags.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi frá 15. febrúar 2019. Allur gjafsóknarkostnaður hennar greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Jóhannesar S. Ólafssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 868.000 krónur.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða 868.000 krónur í málskostnað, sem skal renna í ríkissjóð.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, B, greiði stefnanda, A, 750.000 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 22. mars 2017 til greiðsludags.

Stefndi greiði 868.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Jóhannesar S. Ólafssonar lögmanns, 868.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

                                                                             Bogi Hjálmtýsson