• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 7. september 2018 í máli nr. S-117/2018:

 

Ákæruvaldið

(Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi)

gegn

Sævari Þór Óskarssyni

(Sigmundur Hannesson lögmaður)

 

 

Mál þetta er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 8. marz 2018, á hendur Sævari Þór Óskarssyni, kt. 000000-0000, [...], „fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 26. júní 2015, í skrifstofuhúsnæði við Akralind 4 í Kópavogi, haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni samtals 579,61 g af kókaíni (að styrkleika 30-31%), sem lögreglan fann við húsleit. Telst brot þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk 579,61 g af kókaíni, sem hald var lagt á, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.“

Ákærði játar sök samkvæmt ákærunni. Hann krefst vægustu refsingar sem lög leyfi og að sakarkostnaður, þar með talin þóknun verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði.

Með játningu ákærða, sem fær stoð í gögnum málsins og ekki þykir ástæða til að draga í efa telst hann sannur að sök og hefur unnið sér til refsingar, en háttsemi hans er rétt færð til refsiheimildar í ákæru.

Af sakaferli ákærða skal þess getið að í maí 2015 var hann dæmdur til níu mánaða fangelsisvistar fyrir fíkniefnalagabrot og brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og var jafnframt sviptur ökurétti í tólf mánuði. Samkvæmt sakavottorði lauk hann samfélagsþjónustu vegna þessa dóms í desember 2014.

Ákærði er sakfelldur fyrir að hafa haft 579,61 g af kókaíni í vörzlum sínum og ætlað til sölu og dreifingar. Hann hefur áður verið dæmdur til refsingar fyrir fíkniefnalagabrot. Lauk samfélagsþjónustu hans, vegna þess dóms, um hálfu ári áður en hann framdi brot sitt nú. Verður refsing hans nú ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Þegar horft er til skýlausrar játningar ákærða, bæði hjá lögreglu og við meðferð málsins fyrir dómi, til styrks efnisins sem telja verður fremur vægan en einkum til þess að brot ákærða er framið í júní 2015 en ákæra er gefin út meira en hálfu þriðja ári síðar, án þess að sá dráttur hafi verið skýrður, þykir rétt að ákveða að fullnustu tíu mánaða af refsingunni skuli frestað og hún falla niður að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð. Ákærði verður dæmdur til greiðslu málsvarnarþóknunar Sigmundar Hannessonar lögmanns, verjanda síns fyrir dómi og á rannsóknarstigi, 682.000 króna að virðisaukaskatti meðtöldum, og annars sakarkostnaðar sem samkvæmt yfirliti lögreglustjóra nemur 155.060 krónum. Fallast ber á gerða upptökukröfu. Af hálfu ákæruvaldsins fór Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi með málið. Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Sævar Þór Óskarsson, sæti fangelsi í tólf mánuði. Fullnustu tíu mánaða af refsingunni skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 682.000 króna málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar lögmanns, og 155.060 króna annan sakarkostnað.

Upptæk eru gerð 579,61 g af kókaíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

 

Þorsteinn Davíðsson