• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 7. maí 2019 í máli nr. S-100/2019:

 

Ákæruvaldið

(Haukur Gunnarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Jósúa Einarssyni

(Guðmundur Njáll Guðmundsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl sl., höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 19. febrúar sl. á hendur ákærða, Jósúa Einarssyni, kt. 000000-0000, Birkiholti 11 í Garðabæ:

„Fyrir eftirtalin umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa:

1.            Föstudaginn 2. mars 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist vínandamagn 0,89‰, kókaín 20 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 1,1 ng/ml) norður Hafnarfjarðarveg við Arnarnesbrú í Hafnarfirði, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn og fyrir að hafa haft í vörslum sínum 0,83 g af marihúana sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.

2.            Miðvikudaginn 21. mars 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í þvagi mældist tetrahýdrókannabínólsýra) um Hafnarfjarðarveg í Garðabæ, uns lögregla stöðvaði aksturinn á Hafnarfjarðarvegi við Lyngás í Garðabæ.

3.            Föstudaginn 27. apríl 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og með 91 km hraða á klukkustundur austur Hringbraut við Njarðargötu í Reykjavík þar sem leyfður hámarkshraði er 60 km hraði á klukkustund.

4.            Laugardaginn 23. júní 2018 við tónlistarhátíðina Secret Solstice í Laugardal í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,47 grömm af kókaíni sem fundust við leit lögreglu á ákærða.

5.            Miðvikudaginn 4. júlí 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í þvagi mældist tetrahýdrókannabínól 0,5 ng/ml) á Álftanesvegi við Garðaveg á Álftanesi, uns lögregla stöðvaði aksturinn.

6.            Sunnudaginn 29. júlí 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í þvagi mældist kókaín) austur Sæbraut, uns lögregla stöðvaði aksturinn á Sæbraut austan við Snorrabraut í Reykjavík.

Teljast brot í 1., 2., 3., 5. og 6. lið varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., auk þess sem brot í 3. lið varðar við 1., sbr. 3. mgr. 37. gr., auk þess sem brot í 1. lið varðar við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, auk þess sem brot í 1. og 4. lið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006. Þá er krafist upptöku á 0,83 g af maríhúana og 0,47 g af kókaíni sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa vegna verjandastarfans.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hefur játað sakargiftir og var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í september árið [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann fjórum sinnum undirgengist lögreglustjórasátt, ýmist vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða minni háttar fíkniefnabrota. Ákærði hefur nú í þriðja sinn verið fundinn sekur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.

 

 

Með vísan til tilvitnaðra ákvæða laga nr. 50/1987 í ákæru ber að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá dómsbirtingu að telja.

Þá verða fíkniefni gerð upptæk eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarþóknun verjanda síns sem ákveðin er með virðisaukaskatti í dómsorði.

Arnaldur Hjartarson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Jósúa Einarsson, sæti fangelsi í 60 daga.

Ákærði sæti sviptingu ökuréttar ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði sæti upptöku á 0,83 g af maríhúana og 0,47 g af kókaíni.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Njáls Guðmundssonar lögmanns, 105.400 krónur. Þá greiði ákærði 408.350 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Arnaldur Hjartarson