• Lykilorð:
  • Dráttur á máli
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 26. október 2018 í máli nr. S-110/2018:

Ákæruvaldið

(Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Ástþóri Elís Jónssyni

(Daníel Reynisson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 9. október 2018, er höfðað af héraðssaksóknara með ákæru 1. mars 2018 á hendur Ástþóri Elís Jónssyni, kt. 000000-0000, [...],

„fyrir kynferðisbrot, með því að hafa að morgni laugardagsins 1. ágúst 2015, er hann var farþegi í leigubifreiðinni [...], þar sem henni var ekið frá Herjólfsdal að [...] í Vestmannaeyjum, áreitt ökumann bifreiðarinnar, A, með óviðeigandi og kynferðislegum snertingum og kynferðislegu og ósiðlegu orðbragði, meðal annars með því að gera tilraun til og grípa utanklæða í brjóst og kynfæri A, spyrja hana hvernig hún væri í henni, spyrja hana hvernig hún væri í bólinu og kalla hana tussu.

Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, en til vara við 209. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Af hálfu A, kt. 000000-0000 er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni bætur samtals að fjárhæð 500.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2015, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða þóknun réttargæslumanns ásamt virðisaukaskatti samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara vægustu refsingar sem lög framast leyfa og að refsing verði þá að öllu leyti bundin skilorði. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara krefst hann sýknu af henni. Til þrautavara gerir hann kröfu um verulega lækkun kröfunnar. Loks er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.  

Málsatvik

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar í Vestmannaeyjum kom brotaþoli, A, á lögreglustöðina 4. ágúst 2015 og kvaðst hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða að morgni 1. ágúst 2015. Kvaðst hún hafa verið að störfum sem leigubifreiðarstjóri og hafa verið að aka ákærða að [...] í Vestmannaeyjum þegar hann hafi byrjað að áreita hana kynferðislega. Sagði hún að ákærði hefði káfað á brjóstum hennar og klofi utanklæða, auk þess sem hann hafi verið mjög ógnandi og með ýmsar óviðeigandi athugasemdir. Hafi hann meðal annars spurt hana hvernig hún væri í rúminu og hvernig hún væri í henni. Sagðist brotaþoli hafa sagt ákærða að hætta þessu, en það hafi ekki borið árangur fyrr en hún bað um að hringt yrði í lögregluna.

Þegar borin var undir brotaþola bókun lögreglu um afskipti af ákærða að morgni 1. ágúst 2015, þess efnis að tilkynnt hefði verið um að ákærði væri með einhver leiðindi og vildi ekki greiða fargjaldið, en án þess að þar væri getið um áreitni ákærða, sagðist brotaþoli ekki muna hvað hún hefði sagt við lögregluna þegar hún kom á vettvang, þar sem hún hafi þá verið orðin mjög hrædd. Þá var ritað eftir brotaþola „að ástæða þess að hún vildi tilkynna um þetta er að henni finnist óþolandi að geta ekki stundað vinnu sína án þess að eiga á hættu svona framkomu.“

Brotaþoli kom aftur á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum 20. ágúst 2015 og kvaðst þá vilja leggja fram kæru á hendur ákærða. Lýsti hún atvikum þannig að hún hafi að morgni 1. ágúst  verið að keyra ákærða úr Herjólfsdal að [...], þegar ákærði hafi allt í einu reynt að grípa í brjóstið og klofið henni. Hann hafi einnig spurt hana hvernig hún væri í henni og hvernig hún væri í bólinu. Þegar hún hafi beðið ákærða um að hætta að tala svona við sig, þar sem hún væri í vinnunni, sagði brotaþoli að hann hefði trompast og farið að garga á hana og kalla hana tussu. Við þetta hafi hún orðið mjög hrædd og kallað á aðstoð lögreglu. Jafnframt sagðist hún hafa haldið niðri takkanum á talstöðinni svo að aðrir leigubílstjórar gætu heyrt í ákærða, en hann hafi einnig neitað að greiða fargjaldið. Fljótlega hafi tveir starfsfélagar hennar komið á staðinn og lögreglan nokkru síðar.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 23. október 2015.

Framburður fyrir dómi

Ákærði sagðist ekki minnast þess að neitt hafi gerst í leigubílnum með brotaþola, annað en að hann hafi eitthvað talað við hana, en mundi ekki um hvað þar sem langt væri um liðið. Þó viðurkenndi hann að hafa rifið kjaft og verið dónalegur þegar brotaþoli rukkaði hann um fargjaldið. Hafi honum þótt gjaldið of hátt. Ekki mundi hann nákvæmlega hvað hann sagði við brotaþola, vel gæti þó verið að hann hafi kallað hana tussu, enda ætti hann það til að vera ljótur í kjaftinum. Hins vegar sagðist hann ekki muna eftir því að hafa spurt brotaþola hvernig hún væri í henni eða hvernig hún væri í bólinu. Tók hann fram að þótt hann hafi verið drukkinn, þá hafi hann ekki verið svo drukkinn að hann myndi ekki eftir því hvað hann gerði. Sérstaklega aðspurður mótmælti ákærði með öllu að hann hefði fálmað í brotaþola, reynt að káfa á brjóstum hennar eða klofi, eða verið með tilburði í þá átt.

Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þar sem haft var eftir honum að vel gæti verið að hann hafi spurt brotaþola hvernig hún væri í bólinu, og sagði hann að vel gæti verið að hann hafi spurt brotaþola að þessu, þótt hann myndi það ekki nú.

Brotaþoli sagði að ákærði hefði komið í leigubílinn til hennar inni í Herjólfsdal, sest í framsætið og beðið um að honum yrði ekið í [...]. Hafi hann verið mjög drukkinn. Á leiðinni hafi hann haft orð á því að þau væru á svipuðu reki, en síðan snúið sér að henni og farið að grípa í brjóstin á henni og spurt hvernig hún væri í henni. Hafi hún beðið hann um að hætta þessu, en hann hafi haldið þessu áfram nokkrum sinnum. Einnig hafi hann reynt að fara í klofið á henni. Sagðist brotaþoli þá hafa slegið hönd ákærða í burtu og sagt honum að þetta væri ekki viðeigandi þar sem hún væri í vinnunni. Við það hafi ákærði orðið mjög reiður og farið að öskra á hana og spyrja hvað hún héldi að hún væri, jafnframt því sem hann hafi kallað hana helvítis tussu. Hafi ákærði verið mjög ógnandi og hafi hún verið hrædd.

Þegar komið var á leiðarenda sagði brotaþoli að ákærði hefði stokkið inn og náð í greiðslukort til að borga bílinn. Síðan hafi hann sest aftur inn í bílinn og haldið áfram að garga á hana. Hafi hann neitað að borga fargjaldið og að fara út úr bílnum. Hann hafi þó ekki gert athugasemdir við upphæð fargjaldsins, en aðeins neitað að borga það. Kvaðst brotaþoli þá hafa beðið um lögregluaðstoð í gegnum talstöðina. Taldi hún sig hafa sagt í talstöðina að hún þyrfti lögregluaðstoð þar sem hún væri í vandræðum með farþega. Þá sagðist hún hafa haft kveikt á talstöðinni til þess að aðrir bílstjórar gætu heyrt í ákærða garga að henni. Nokkru síðar hafi tveir starfsfélagar hennar komið á vettvang og lögreglan strax í kjölfarið. Ákærði hafi þá farið út úr bílnum, svo og hún sjálf. Ekki kvaðst brotaþoli muna hvað hún hafi þá sagt lögreglunni um samskipti sín við ákærða. Hins vegar hefði hún síðar um morguninn hitt alla leigubílstjórana og greint þeim frá því sem gerst hefði. Aðspurð sagðist brotaþoli ekki vita ástæðu þess að hún greindi lögreglu ekki strax frá broti ákærða, hvorki á vettvangi þegar lögreglan var kölluð til, né þann sama dag, en taldi líklegt að hún hefði verið sjokki. Sagðist brotaþoli eftir þetta ætíð hafa vara á sér þegar karlmaður kæmi í leigubíl til hennar og hafi hún þurft að leita sér aðstoðar sálfræðings eftir atvikið.   

Vitnið B kvaðst lítillega þekkja til brotaþola og sagði að þær báðar hafi verið að keyra leigubíl á þjóðhátíð. Hafi hún heyrt þegar brotaþoli kallaði í talstöðina og bað um að kallað yrði á aðstoð lögreglu þar sem hún ætti í vandræðum með farþega. Nokkru síðar hafi brotaþoli kallað aftur í talstöðina og spurt hvort búið væri að kalla á lögreglu. Kvaðst vitnið þá hafa skynjað á rödd brotaþola að eitthvað væri að og ákveðið að bruna til brotaþola. Þegar þangað kom hafi ákærði og brotaþoli bæði setið inni í bílnum, en brotaþoli hafi verið grátandi og frosin og titraði öll. Brotaþoli hafi sagt að ákærði hafi verið að snerta hana, koma við brjóstin á henni, og verið ógnandi og alveg upp við andlitið á henni. Kvaðst vitnið hafa spurt ákærða hvort hann vildi koma út úr bílnum og tala við hana, en hann hafi ekki viljað það. Þess í stað hafi hann talað niðrandi til hennar og brotaþola, en ekki mundi vitnið hvað hann sagði. Skömmu síðar hefði C komið á staðinn, en hann var einnig að aka leigubíl á þessum tíma. Hafi honum tekist að tala ákærða til og fá hann út úr bíl brotaþola. Fljótlega hafi lögreglan einnig komið á vettvang og hafi ákærði þá róast. Sérstaklega aðspurt sagði vitnið að sér hefði ekki fundist ákærði vera ofurölvi, en þó hafi hann augljóslega verið búinn að drekka eitthvað.

Vitnið C sagðist hafa ekið leigubíl á þjóðhátíð í umrætt sinn og kvaðst þekkja brotaþola ágætlega. Hann sagðist hafa heyrt óttaslegna manneskju kalla í talstöðina og sagt hvar hún væri stödd. Ekki mundi hann hvað sagt var, en kvaðst hafa skynjað að viðkomandi væri mjög hræddur. Hafi hann því ekið hratt á staðinn. Þegar þangað kom sagði vitnið að ákærði hafi verið að atast í brotaþola, sem hafi verið skelfingu lostin. Bæði ákærði og brotaþoli hafi staðið fyrir utan bílinn og hafi ákærði verið „alveg ofan í henni“ og mjög „agressívur“. Kvaðst vitnið hafa gengið á milli þeirra og dregið ákærða frá og haldið honum þannig frá brotaþola þar til lögreglan kom á staðinn. Ákærði hafi engu að síður viljað ræða áfram við brotaþola, en ekki kvaðst vitnið muna um hvað. Sagðist vitnið lítið hafa getað rætt við brotaþola þar sem hún hafi verið miður sín af hræðslu. Þó kvaðst vitnið minnast þess að brotaþoli hafi haft orð á því að ákærði hafi verið að leita á hana.

Vitnið D sagðist kannast við brotaþola í gegnum vinnuna og hefði hún um morguninn tekið við akstri leigubíls sem brotaþoli hafði ekið. Hefði brotaþoli þá sagt sér að ráðist hefði verið á hana og að farþegi hefði klipið í hana. Tók vitnið fram að brotaþoli hefði verið miður sín vegna þessa. 

Vitnið E gaf skýrslu í gegnum síma og kvaðst umrætt sinn hafa verið að keyra leigubíl í Vestmannaeyjum. Hann sagðist hafa heyrt brotaþola kalla tvisvar í talstöðina og hafi hún sagt að verið væri að ráðast á sig og beðið um að kallað yrði á lögregluna. Vitnið sagði að síðar um morguninn hefði brotaþoli rætt um þetta atvik við fleiri leigubílstjóra og hefði honum skilist á brotaþola að ákærði hefði ekki viljað borga fargjaldið.  

Vitnið F gaf einnig skýrslu í gegnum síma. Sagðist hann hafa kynnst brotaþola þegar þau bæði keyrðu leigubíl í Eyjum um verslunarmannahelgi 2015. Hann kvaðst minnast þess að brotaþoli hafi kallað á aðstoð vegna manns sem hún var með bílnum og hefði veist að henni og neitað að borga. Hafi brotaþoli verið í miklu uppnámi og óskað eftir að kallað yrði á lögreglu. Seinna um morguninn sagðist vitnið hafa hitt brotaþola og hafi hún verið í sjokki vegna þessa atviks. Taldi vitnið sig minnast þess að brotaþoli hafi þá haft orð á því að ákærði hefði eitthvað tekið í hana og verið með einhverjar kynferðislegar athugasemdir við hana.

Vitnið G leigubílstjóri gaf símaskýrslu. Sagði vitnið að brotaþoli hefði í umrætt sinn verið að keyra leigubíl fyrir sig. Ekki sagðist hann vita neitt um atvik annað en það sem brotaþoli hefði sagt honum er hún skilaði bílnum, en þá hefði hún sagt að farþegi hefði verið að áreita sig og verið með leiðindi og hálfgerðan óþverraskap. Hafi hún verið í uppnámi.

Borinn var undir vitnið framburður þess hjá lögreglu 21. janúar 2016 þar sem vitnið greindi frá því að brotaþoli hefði sagt vitninu frá því að ákærði hefði farið að káfa á brjóstum hennar, og sagði vitnið að líklega væri þar rétt eftir sér haft.

Vitnið H lögreglumaður kannaðist við mál þetta og sagðist hafa komið á vettvang eftir að brotaþoli kallaði á aðstoð. Hann sagði að tilkynnt hefði verið um farþega í leigubíl sem væri erfiður og með læti við bílstjórann. Þegar á staðinn var komið hafi ákærði og brotaþoli staðið fyrir utan leigubílinn, svo og annar leigubílstjóri sem komið hefði á staðinn. Ástandið hafi þá verið þokkalega rólegt, en brotaþoli þó í uppnámi og ákærði eitthvað í glasi. Hafi brotaþoli sagt að ákærði hafi orðið erfiður og ekki viljað borga fargjaldið. Ekki mundi vitnið eftir því að brotaþoli hafi sagt að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða. 

Vitnið I sálfræðingur gaf skýrslu í gegnum síma. Hún sagði að brotaþoli hefði leitað til hennar í nóvember 2015 vegna kvíða og vanlíðunar eftir að hafa orðið fyrir kynferðisbroti nokkrum mánuðum áður. Hafi brotaþoli aðeins komið í eitt viðtal til hennar. Vitnið staðfesti að hafa ritað það vottorð sem liggur frammi í málinu og er dagsett 22. desember 2015.

Einnig gaf skýrslu fyrir dómi lögreglumaðurinn J, en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans hér.

Niðurstaða

Fyrir dómi neitaði ákærði því að hafa í umrætt sinn fálmað í brotaþola, reynt að káfa á brjóstum hennar eða klofi eða verið með tilburði í þá átt. Hið sama gerði hann í skýrslutöku hjá lögreglu 23. október 2015. Hins vegar viðurkenndi hann fyrir dómi að hafa rifið kjaft og verið dónalegur við brotaþola þegar hann var rukkaður um fargjaldið, sem honum þótti of hátt. Nánar spurður sagði hann að vel gæti verið að hann hafi kallað brotaþola tussu, og tók fram að hann ætti það til að vera ljótur í kjaftinum. Einnig sagði hann að vel gæti verið að hann hafi spurt brotaþola hvernig hún væri í bólinu. Í áðurnefndri skýrslu lögreglunnar er einnig haft eftir ákærða „að það gæti verið að hann hafi kallað á eftir A og öðrum leigubílstjóra að þær væru helvítis tussur.“

Brotaþoli tilkynnti lögreglunni í Vestmannaeyjum um umrætt atvik 4. ágúst 2015 og kvaðst þá hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða. Hafi hann káfað á brjóstum hennar og klofi utanklæða, auk þess sem hann hafi verið mjög ógnandi og með ýmsar óviðeigandi athugasemdir. Hafi hann m.a. spurt hvernig hún væri í rúminu og hvernig hún væri í henni. Hinn 20. ágúst sama ár lagði brotaþoli síðan fram kæru á hendur ákærða. Við það tækifæri var brotaþoli að því spurð hve oft ákærði hefði gripið í brjóst hennar og sagði hún þá að ákærði hefði nokkrum sinnum reynt það, en einhvern veginn hefði henni tekist að stoppa það. Einnig hefði hann nokkrum sinnum reynt að fara í klofið á henni, en hún hafi alltaf ýtt honum frá. Að lokum hafi hún sagt ákærða að hætta þessu og hafi hann þá loks hætt. Í kjölfarið hafi hann hins vegar trompast, farið að garga á hana og verið mjög ógnandi. 

Fyrir dómi sagði brotaþoli að ákærði hefði ítrekað gripið í brjóst hennar, en einnig reynt að fara með höndina í klof hennar. Að auki hefði hann spurt hvernig hún væri í henni. Sagðist brotaþoli haf slegið hönd ákærða í burtu og sagt honum að þetta væri ekki viðeigandi þar sem hún væri í vinnunni. Við það hefði ákærði orðið mjög reiður og farið að öskra á hana og kalla hana helvítis tussu. Hafi hún þá orðið mjög hrædd. Ekki kvaðst brotaþoli vita ástæðu þess að hún greindi lögreglu ekki strax frá broti ákærða, hvorki á vettvangi né þann sama dag, en taldi líklegt að hún hafi þá verið í sjokki.

Eins og fram er komið kallaði brotaþoli tvívegis eftir aðstoð lögreglu umrætt sinn og hafa öll vitni sem heyrðu kall hennar borið um að hún hafi virst óttaslegin og í miklu uppnámi. Vitnið B, sem fyrst kom á vettvang, sagði fyrir dómi að brotaþoli hafi verið grátandi og titrað öll, og sagt sér að ákærði hefði verið að snerta hana, koma við brjóstin á henni, auk þess sem hann hefði verið ógnandi og alveg upp við andlitið á henni. Vitnið C sagði einnig að brotaþoli hafi verið skelfingu lostin og miður sín af hræðslu þegar hann kom á staðinn og haft orð á því að ákærði hefði verið að leita á hana. Lögreglumaðurinn H staðfesti einnig að brotaþoli hefði verið í uppnámi þegar lögreglan kom á vettvang. Hins vegar kvaðst hann ekki minnast þess að brotaþoli hefði sagt að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu ákærða. Fyrrverandi starfsfélagar brotaþola, D, E, F og G, sögðu hins vegar fyrir dómi að brotaþoli hefði síðar sama morgun sagt þeim að farþegi hefði „ráðist á hana, klipið í hana, tekið í hana eða verið að áreita hana“, svo notuð séu þeirra eigin orð.

Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um það sem gerðist umrætt sinn í leigubifreið brotaþola. Ákærði hefur viðurkennt að hafa rifið kjaft og verið dónalegur við brotaþola þegar hann var rukkaður um fargjaldið, sem honum þótti of hátt. Einnig sagði hann að vel gæti verið að hann hafi kallað brotaþola tussu og spurt hana hvernig hún væri í bólinu, og tók fram að hann ætti það til að vera ljótur í kjaftinum. Hins vegar neitaði hann því alfarið að hafa fálmað í brotaþola eða reynt að káfa á brjóstum hennar eða klofi. Tók hann fram að hann hafi verið drukkinn, en þó ekki svo að hann myndi ekki eftir því sem gerðist.

Brotaþoli ber á annan veg um samskipti hennar og ákærða umrætt sinn. Hefur hún ekki aðeins greint frá ógnandi framkomu ákærða og ósiðlegu og kynferðislegu orðbragði hans, heldur  hefur hún einnig haldið því fram að ákærði hafi ítrekað áreitt hana kynferðislega með því að reyna að grípa í brjóst hennar og klof utanklæða, en hún varist áreitni hans með því að slá hönd hans jafnharðan í burtu. Er frásögn hennar af atvikum samhljóða hjá lögreglu og fyrir dómi og þykir trúverðug. Jafnframt á frásögn hennar sér stoð í framburði þeirra vitna sem fyrst komu á vettvang og rakinn hefur verið hér að framan. Þá bera viðbrögð brotaþola og geðshræring vitni um eitthvað annað og meira en ákærði hefur haldið fram að gerst hafi, og er þá bæði vísað til ákalls hennar um aðstoð lögreglu og lýsinga vitna af ástandi hennar þegar vitnin komu á vettvang. Að þessu virtu þykir dóminum sannað að ákærði hafi í umrætt sinn gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Fellur sú háttsemi að verknaðarlýsingu 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefur ákærði því unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur í [...] og hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar verður til þess litið. Hins vegar ber einnig að horfa til þess að atvik þessa máls gerðust 1. ágúst 2015, en ákæra var ekki gefin út fyrr en 1. mars 2018 þrátt fyrir að rannsókn lögreglu væri þá löngu lokið. Töf þessi á meðferð málsins verður hvorki rakin til ákærða sjálfs né hefur hún verið réttlætt á annan hátt. Að þessu gættu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga, sem bundin verður skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.

Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur. Brot ákærða var til þess fallið að valda brotaþola andlegri vanlíðan og kvíða, auk annarra einkenna sem lýst er í framlögðu vottorð I sáfræðings. Samkvæmt því og með vísan til b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 350.000 krónur, auk vaxta eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Er þar um að ræða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Daníels Reynissonar lögmanns, 505.920 krónur, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 37.120 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Trausta Ágústs Hermannssonar lögmanns, 140.000 krónur, svo og sakarkostnaður lögreglu að fjárhæð 153.450 krónur. Við ákvörðun þóknunar til lögmanna hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts. Þá hefur við ákvörðun þóknunar til réttargæslumanns brotaþola einnig verið tekið tillit til þess að sakarkostnaður lögreglu er vegna greiðslu til tilnefnds réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi málsins.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Ástþór Elís Jónsson, sæti fangelsi í 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 350.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2015 til 17. maí 2018, en dráttarvexti samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Daníels Reynissonar lögmanns, 505.920 krónur, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 37.120 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Trausta Ágústs Hermannssonar lögmanns, 140.000 krónur, og annan sakarkostnað að fjárhæð 153.450 krónur.

 

Ingimundur Einarsson