• Lykilorð:
  • Fyrirframgreiddur arfur
  • Skaðabætur
  • Umboð
  • Skaðabótamál

Ár 2018,  19. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, kveðinn upp í máli nr. E-470/2018:

 

 

A

(Björgvin Þorsteinsson lögmaður)

gegn

B

(Hilmar Gunnarsson lögmaður)

svofelldur

d ó m u r :

 

Mál þetta, sem þingfest var 23. maí sl. og dómtekið 13. desember sl., var höfðað með stefnu, birtri 22. maí 2018.

            Stefnandi er A, kt. 000000-0000, […].

            Stefndi er B, kt. 000000-0000, […].

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 4.000.000 króna, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri upphæð frá 23. júní 2014 til greiðsludags, sbr. 9. gr. s.l. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar úr hendi stefnanda auk virðisaukaskatts.

            Aðalmeðferð málsins fór fram þann 13. desember sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum. 

Málsatvik.

Tildrög máls þessa má rekja til skipta á dánarbúi móður aðila, C, kt. 000000-0000, sem lést þann […] 2013. Hún sat í óskiptu búi eftir föður aðila, D, kt. 000000-0000, sem lést þann […]2013. Aðilar sammæltust í upphafi um að leita einkaskipta. Var leyfi þar um veitt þann 6. janúar árið 2014. Þar sem stefnandi var búsettur í Noregi var ákveðið að stefnda skyldi veitt umboð til að koma fram fyrir hönd dánarbúsins. Í umboðinu fólst jafnframt heimild til að undirrita og skila inn opinberri skýrslugerð til sýslumanns, svo sem getið er í leyfi til einkaskipta. Endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið KPMG var fengið til aðstoðar við uppgjör búsins og opinbera skýrslugerð.  Aðkoma KPMG að skiptaferlinu hófst strax í upphafi árs 2014. Samkvæmt tímaskýrslu starfsmanna hófst vinna þann 3. janúar. Þann 22. febrúar, það sama ár, var haldinn fundur í húsakynnum KPMG, þar sem verulegur ágreiningur var milli aðila varðandi uppgjör og frágang skipta. Laut sá ágreiningur einkum að fjármunum er arfleiðandi hafði greitt til stefnanda þann 15. ágúst árið 2012. Í framhaldi af þeim fundi ákvað stefnandi að afturkalla umboð sitt til stefnda til að ganga frá skiptum búsins.

            Í gögnum málsins liggur fyrir vinnusamningur undirritaður af C og stefnanda þann 17. mars 2011 þar sem þau gera samkomulag um greiðslu fyrir vinnu vegna viðhalds og efniskaupa á […]. Er um viðamiklar endurbætur og viðhald að ræða sem er tíundað í samningnum, bæði fyrir tíma sem liðinn er og sem eftir er. Þá liggur fyrir yfirlit yfir vinnu, sundurliðað eftir dagsetningum og framkvæmdum, vegna […] fyrir árin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2011. Er hver blaðsíða undirrituð af móður aðila, C, og þann 31. júlí 2012 undirritar hún þannig að skjalið sé yfirfarið og samþykkt. Þann 15. ágúst 2012 millifærði C 4.000.000 króna af bankareikningi sínum yfir á bankareikning stefnanda. Er beiðnin um millifærsluna undirrituð af móður aðila. Faðir aðila lést þann […] 2013 og sat eftirlifandi maki, móðir aðila máls þessa, í óskiptu búi. Móðir aðila lést […] 2013 og fengu erfingjar leyfi til einkaskipta þann 6. janúar 2014. Ekki er ágreiningur um að aðilar hafi fengið KPMG til að aðstoða þá við að ljúka einkaskiptum í upphafi. 

            Samkvæmt tímaskýrslu, sem liggur fyrir í málinu og stafar frá KPMG, kemur fram að fundur var haldinn þann 22. febrúar 2014 með erfingjum. Í framhaldi af þeim fundi sendi stefnandi tölvupóst til stefnda og á starfsmenn KPMG, þau E og F. Í tölvupóstinum er tilgreint að stefnandi afturkalli umboð sitt til stefnda til að koma fram fyrir hans hönd við skipti á dánarbúi foreldra þeirra. Þá segir orðrétt í niðurlagi tölvupóstsins: „Allar ráðstafanir úr búinu sem ekki eru gerðar af mér sjálfum frá og með deginum í dag teljast því ógildar.“  Tölvupóstinum var svarað degi síðar af hálfu áðurnefnds starfsmanns KPMG, E. Þar kom m.a. fram að til þess að afturköllun umboðs hefði fullt gildi þyrfti jafnframt að senda tilkynningu til sýslumanns. Afrit af tölvupóstinum var sent til stefnda. Stefnandi sendi í framhaldi þess tilkynningu til sýslumanns um afturköllun umboðsins. Þann 24. febrúar 2014 kemur fram í verkskýrslu KPMG eftirfarandi: „ath m afturköllun umboðs, tp og símtal + mótt skjöl ofl.“ Stefnandi veitti G lögmanni fullt umboð til að gæta hagsmuna sinna varðandi dánarbú foreldra sinna þann 22. febrúar 2014. Samkvæmt verkskýrslu KPMG unnu þeir að málinu fyrir hönd stefnda til 23. apríl 2014.

            Þann 23. maí 2014 lagði stefndi fram, hjá sýslumanninum í Reykjavík, erfðafjárskýrslu vegna dánarbús foreldra aðila. Kemur þar fram undir liðnum 5.8 að krafa sé á A að fjárhæð 4.000.000 króna og var sú krafa talin til eigna búsins. Skiptust eignir búsins til helminga á aðila máls þessa samkvæmt erfðafjárskýrslunni. Henni fylgdi sundurliðun uppgjörs/skipting eigna unnið af KPMG þar sem tekið er fram að stefnandi hafi áður fengið greitt sem fyrirfram greiddan arf 4.000.000 króna. Kemur þar fram að stefnandi fái 50.601.694 krónur og stefndi sömu fjárhæð. Í peningum fékk stefnandi 14.851.694 krónur  og stefndi 27.851.694 krónur. Var þá búið að gera ráð fyrir því að stefnandi hefði þegar fengið 4.000.000 króna í fyrirframgreiddan arf.

            Þann 23. febrúar 2014 sendi stefnandi tölvupóst til starfsmanna KPMG og stefnda þar sem hann afturkallaði umboð sitt til stefnda um að koma fram fyrir hans hönd við skipti á dánarbúi foreldra þeirra. Var þeim tölvupósti svarað daginn eftir af starfsmanni KPMG og stefnanda einnig bent á að senda tilkynninguna til sýslumanns. Er þessi tölvupóstur einnig sendur á stefnda. Samkvæmt gögnum málsins sendi stefnandi sama tölvupóst til sýslumannsins þann 23. febrúar 2014. Þann 24. febrúar 2014 sendi lögmaður stefnanda fyrirspurn til sýslumanns og óskaði eftir upplýsingum um dánarbúið og tilkynnti jafnframt að stefnandi hefði afturkallað umboð sitt til stefnda um að koma fram fyrir hans hönd varðandi dánarbúið.

            Tölvupóstur frá stefnanda til lögmanns síns þann 17. maí 2014 liggur fyrir. Þar tiltekur hann að hann og H hafi uppfært skjalið frá KPMG þar sem 4.000.000 króna hafi verið teknar út. Þá kvaðst hann senda lögmanninum uppgjörið frá KPMG sem sé nánast það sama fyrir utan þessar fjórar milljónir. Þá segir hann m.a. að stefndi muni koma til hennar í næstu viku og biður lögmanninn að lesa erfðafjárskýrsluna yfir og undirrita hana fyrir hönd stefnanda.

Þann 23. maí 2014 fór stefndi með erfðafjárskýrslu ásamt tilheyrandi gögnum til sýslumanns og greiddi erfðafjárskatt. Ritaði stefndi einn undir erfðafjárskýrsluna en með henni lét stefndi fylgja afrit af umboði stefnanda til lögmanns síns, G, dagsett 22. febrúar 2014. Var erfðafjárskýrslan yfirfarin og staðfest af fulltrúa sýslumanns þann 23. maí 2014.

Samskipti fulltrúa sýslumanns og stefnanda á samfélagsmiðlum liggja fyrir í málinu og má sjá að þau eiga sér stað í ágúst 2015. Biður stefnandi fulltrúann að senda sér gögn er varði dánarbúið sem hann fékk send rafrænt í lok ágúst 2015.

Þann 22. ágúst 2016 sendi lögmaður stefnanda stefnda greiðsluáskorun og krafði hann um endurgreiðslu á þeim 4.000.000 króna sem stefndi hafði tilgreint sem fyrirframgreiddan arf í útreikningum um skiptingu arfsins. Þann 6. september 2016 svaraði lögmaður stefnda lögmanni stefnanda og kvað stefnda ekki kannast við að stefnandi hafi afturkallað umboð sitt til stefnda til að ganga frá erfðafjárskýrslu og einkaskiptagerð til sýslumanns. Þann 23. september sendi lögmaður stefnanda lögmanni stefnda bréf þar sem hann krafði stefnda um endurgreiðslu vegna uppgjörs á dánarbúinu. Þann 12. mars 2018 sendi lögmaður stefnanda lögmanni stefnda lokaaðvörun vegna uppgjörs á dánarbúinu og þann 21. maí 2018 var stefna í máli þessu gefin út.

 Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi valdið stefnanda fjártjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi sinni við frágang og uppgjör á dánarbúi arfleiðanda. Hin saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda hafi falist í því að draga fjórar milljónir króna frá hlut stefnanda við uppgjör búsins. Sú fjárhæð sé tilgreind undir lið 5.8 í erfðafjárskýrslunni sem krafa á hendur stefnanda. Í fylgiskjali með erfðafjárskýrslunni sé tilgreint að umrædd fjárhæð sé fyrirframgreiddur arfur til stefnanda. Slík greiðsla geti aldrei talist fyrirframgreiðsla á arfi, skv. 29. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Ráðstöfun á fé sé einungis skilgreind sem fyrirframgreiddur arfur ef um hana er gerð erfðafjárskýrsla eða erfðafjárskattur greiddur skv. henni, sbr. 3. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 15.  gr. laga nr. 14/2004 um erfðafjárskatt.

Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið fullkunnugt um að ekki væri um fyrirframgreiðslu arfs að ræða heldur greiðslu vegna vinnu við viðhald á fasteign dánarbúsins að […] og sumarbústað í […]. Um þá vinnu hafi verið gert skriflegt samkomulag milli stefnanda og arfleiðanda þann 17. mars 2011. Vinnustundir stefnanda hafi jafnframt verið skráðar af hálfu arfleiðanda að kröfu móður aðila og hafi það verið fyrir hennar tilstuðlan að greitt var fyrir vinnuna, sem stefnandi innti af hendi. Þann vilja hafi hún staðfest með greiðslu til stefnanda í ágúst 2012, svo sem sjá megi af millifærslukvittun sem sé undirrituð af henni sjálfri. Hvorki efnis- né lagarök hnígi til þess að líta á greiðsluna sem fyrirframgreiddan arf. Gögn er stafi frá arfleiðanda sjálfri styðji enda hið gagnstæða. Arfleiðanda hafi verið frjálst að ráðstafa fjármunum sínum að eigin vild í lifanda lífi. Jafnvel þótt greiðslan sé talin gjöf þá sé fjárhæðin ekki þess eðlis, miðað við stöðu búsins, að hún teljist óhæfilega há. Ef stefndi telji að arfleiðanda hafi ekki verið heimilt að ráðstafa fjármunum sínum með þessum hætti, og hefði rýrt eignir búsins með óhæfilegri fjárstjórnun, þá hafi honum borið, á meðan arfleiðandi var á lífi, að krefjast skipta á hinu óskipta búi sér til handa. Slíkt hafi hann ekki gert.

Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi ekki haft umboð til að ganga frá opinberri skýrslugerð fyrir búið og koma fram sem umboðsaðili þess. Umboð hans hafði enda verið afturkallað af hálfu stefnanda. Til staðfestingar sé vísað til áðurnefndra tölvubréfa sem send hafi verið til hlutaðeigandi aðila, þ.e. stefnda, starfsmanna KPMG auk sýslumanns. Þá liggi fyrir svarpóstur af hálfu starfsmanns KPMG vegna afturköllunar umboðsins, en sá póstur hafi jafnframt verið sendur á stefnda. Auk þess liggi fyrir tímaskýrsla starfsmanna KPMG þar sem skráð sé þann 24. febrúar 2014: „ath m afturköllun umboðs, tp og símtal + mótt skjöl ofl“. Af tímaskýrslunni sé auk þess ljóst að stefndi átti í samskiptum við starfsmenn KPMG eftir að umboðið var afturkallað. Stefndi hafi því ekki verið í góðri trú er hann undirritaði og skilaði inn gögnunum til sýslumanns. Til frekari staðfestingar vísar stefnandi til þess að tveimur dögum áður en gögnunum var skilað inn höfðu aðilar verið í samskiptum þar sem samkomulag hafi verið um að þáverandi lögmaður stefnanda myndi hlutast til um frágang og opinbera skýrslugerð fyrir dánarbúið. Þá hafði stefnandi sent kröfu um breytingu á útreikningum KPMG, sem lagðir hafi verið fram til grundvallar erfðafjárskýrslu og einkaskiptagerð, til stefnda í tölvupósti þann 20. maí 2014. Það sé því hreinlega rangt, svo sem stefndi hafi haldið fram í aðdraganda að málshöfðun þessari, að honum hafi ekki verið kunnugt um umboðsleysi sitt og mótmæli stefnanda við útreikningunum. Afturköllun umboðs sé ákvöð. Leiði það af eðli máls og ákvæðum II. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Það sé því haldlaust fyrir stefnda að reyna að réttlæta uppgjör búsins með framangreindum hætti. Ákvæði 40. gr. laga nr. 7/1936, er varði takmörkun á gildissviði þeirra, standi því ekki í vegi að unnt sé að beita meginreglum um umboð og afturköllun þess, þrátt fyrir að um erfðaréttarleg málefni sé að ræða. Stefnandi notaði hliðstæða aðferð við afturköllunina og hann notaði við veitingu umboðsins, þ.e. hann tilkynnti öllum hlutaðeigandi með skriflegum hætti um afturköllunina. Stefnandi ítrekar því að stefndi geti ekki borið fyrir sig að honum hafi ekki verið kunnugt um afturköllunina og sem fyrr sé ekki nauðsyn að sýna fram á að hún hafi borist til vitundar hans þrátt fyrir að slíkt verði að teljast óumdeilt ef horft sé til fyrirliggjandi gagna málsins.

Stefnandi byggir á því að fjártjón stefnanda sé sennileg afleiðing af þeirri saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnda að ljúka uppgjöri búsins, umboðslaus, og skerða hlut stefnanda um fjórar milljónir með því að tilgreina ranglega, við hina opinberu skýrslugerð, að um fyrirframgreiddan arf væri að ræða. Stefnandi telji því einsýnt að fallast beri á kröfu hans um greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð fjórar milljónir króna auk dráttarvaxta.

Um lagarök vísar stefnandi einkum til almennra reglna skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga, sakarreglunnar auk ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum II. kafla laganna og þeirrar meginreglu sem við á varðandi afturköllun umboðs.

Stefnandi krefst dráttarvaxta af dómkröfu, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. einnig 9. gr. þeirra laga.

Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi hafnar öllum kröfum stefnanda og byggir á því að hann hafi haft lögmætt umboð frá stefnanda til að ganga frá einkaskiptagerð í dánarbúi foreldra aðila. Þá kveður stefndi að stefnandi hafi samþykkt að endurgreiða dánarbúinu 4.000.000 króna sem móðir þeirra hafði millifært á bankareikning stefnanda.

            Þá mótmælir stefndi því að hann hafi valdið stefnanda tjóni við frágang og uppgjör á dánarbúi móður þeirra en uppgjörinu hafi lokið þann 22. maí 2014 þegar stefndi afhenti sýslumanninum í Reykjavík einkaskiptagerð um uppgjör dánarbúsins.

            Stefndi byggir í fyrsta lagi á tómlæti stefnanda. Tómlæti stefnanda sé margþætt og verði að skýra með þeim hætti að hann hafi viðurkennt og samþykkt að endurgreiða dánarbúinu 4.000.000 króna sem ágreiningur málsaðila lúti að. Í fyrsta lagi liggi fyrir að stefnandi hafi verið upplýstur um efni einkaskiptagerðarinnar áður en hún hafi verið afhent sýslumanninum í Reykjavík en drög að skýrslunni hafi verið útbúin af KPMG og afhent stefnanda til yfirlestrar. Þá hafi stefnandi vitað, eða mátt vita, að stefndi myndi afhenda hana sýslumanni til að ljúka dánarbússkiptunum, sbr. 13. kafla dánarbúslaga. Þrátt fyrir það hafi stefnandi ekkert gert til að koma í veg fyrir að stefndi myndi ljúka skiptunum með þessum hætti. Því sé mótmælt að stefnandi hafi afturkallað umboð sitt til stefnda en engin gögn liggi fyrir því til stuðnings. Afturköllun umboðs án frekari aðgerða hafi jafnframt enga þýðingu. Hafi stefnandi verið ósáttur við einkaskiptagerðina hafi honum borið að óska eftir opinberum skiptum og skila öllum greiðslum sem hann hafði móttekið samkvæmt einkaskiptagerðinni. Þar sem hann hafi ekki gert það væri einkaskiptagerðin bindandi fyrir stefnanda.

            Í öðru lagi liggi fyrir að stefnandi hafi ekkert aðhafst vegna dánarbússkiptanna fyrr en rúmlega tvö ár voru liðin frá lokum þeirra. Þá hafi stefnandi látið rúmlega fjögur ár líða áður en hann höfðaði mál á hendur stefnda. Einkaskiptagerð sé samningur milli erfingja um arfshlut hvers og eins og á grundvelli þessa samnings sé greiddur erfðafjárskattur. Stefnandi geti ekki gert slíkan samning og komið mörgum árum síðar og krafist endurskoðunar. Ekki síst í ljósi þess að stefnandi hafi fengið í sinn hlut verðmæta lóð og önnur verðmæti sem hann hefði aldrei fengið nema hann endurgreiddi umrædda fjármuni til dánarbúsins. Með vísan til grunnreglunnar um að samninga skuli halda þá beri að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda.

            Í þriðja lagi geti stefnandi ekki haldið því fram að stefndi hafi farið út fyrir umboð sitt eða að um gjöf hafi verið að ræða. Slík mótmæli hefðu þurft að koma fram áður en einkaskiptagerðin var lögð fram. Þá hafi engin gögn verið lögð fram til stuðnings því að um gjöf hafi verið að ræða. Slíkar upplýsingar hafi ekki komið fram í skattskýrslu móður málsaðila og var skorað á stefnanda að sýna fram á hvernig greiðslan hafi verið meðhöndluð í skattskilum hans.

            Í fjórða lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi aldrei átt neitt tilkall til 4.000.000 króna framlags sem móðir aðila hafi millifært til hans. Stefnanda hafi því ávallt verið skylt að endurgreiða dánarbúinu peninginn. Stefndi geti ekki verið skaðabótaskyldur vegna þess að stefnandi hafi samþykkt að greiða þessa kröfu. Því skuli haldið til haga að stefnandi hafi fyrst haldið því fram tveimur árum eftir að búið var að skipta dánarbúinu að um greiðslu hafi verið að ræða vegna vinnu hans í þágu dánarbúsins. Samt sem áður hafi hann aldrei sýnt fram á að hann hafi gefið út reikninga vegna vinnunnar. Dánarbúinu geti ekki verið gert að greiða honum fyrir vinnu án þess að reikningur hafi verið gefinn út. Slíkt fæli í sér brot á lögum um virðisaukaskatt.

            Í fimmta lagi byggir stefndi á því að meint krafa stefnanda sé fyrnd. Um skaðabótakröfu sé að ræða sem fyrnist á fjórum árum, sbr. 9. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Ef um skaðabótaskylda háttsemi hafi verið að ræða felist hún í því að stefndi hafi útúið einkaskiptagerð sem síðar hafi verið afhent sýslumanni. Einkaskiptagerðin hafi verið útbúin í apríl 2014. Upphafsdagur fyrningar hafi því verið í lok apríl 2014. Krafa stefnanda hafi því verið fyrnd þann 22. maí 2018 þegar stefna hafi verið birt stefnanda.

            Stefndi mótmælir að öðru leyti öllum málsástæðum stefnanda. Fjárhæð kröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt. Það liggi fyrir að stefnandi hafi greitt erfðafjárskatt af umræddri greiðslu enda hafi stefnandi ekki talið greiðsluna til skatts. Stefnda geti ekki verið gert að endurgreiða stefnanda skatt sem honum hafi sannanlega verið skylt að greiða.

            Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til þeirra lagaákvæða sem vísað sé til hér að framan. Þá vísar hann til grunnreglu skaðabótaréttar um eigin sök sem leiði til missis bótaréttar. Kröfuna um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, aðallega 129. og 130. gr.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningslaust er í máli þessu að móðir aðila máls þessa, C, lagði 4.000.000 króna inn á bankareikning stefnanda þann 15. ágúst 2012. Á þeim tíma voru báðir foreldrar aðila máls þessa á lífi og engin gögn færð fram í málinu um að þau hafi ekki verið andlega fær um að sjá um fjármál sín sjálf. Faðir aðila máls þessa lést […] 2013 og sat móðir þeirra í óskiptu búi eftir lát hans þar til hún féll frá þann […] 2013.

            Í gögnum málsins liggur fyrir tímaskrá og útlistun á verkum vegna viðhalds og fleira tengdum […], eign foreldra málsaðila. Eru þau verk unnin á árunum 2007 til 2012. Þá liggur fyrir vinnusamningur dagsettur 17. mars 2011, undirritaður af móður málsaðila og stefnanda. Er ítarlega farið í þeim samningi yfir þau verk sem höfðu verið unnin á árunum fyrir undirritun samningsins. Í kjölfar þess samnings millifærði C fjórar milljónir króna inn á reikning stefnanda. Af þeirri lýsingu sem kemur fram í tíma- og verkskýrslu stefnanda, samningi aðila og að hálfum mánuði eftir að C undirritaði og samþykkt vinnustundir stefnanda greiddi hún inn á reikning stefnanda, verður ekki annað ráðið en að millifærslan tengist því uppgjöri. Stefndi kvaðst vefengja þá tímaskráningu sem kæmi þar fram og ekki vita hverjir hafi unnið verkin eða hvort þau hafi verið unnin á þeim tíma sem þar komi fram.

Á þeim tíma sem umþrætt fjárhæð var millifærð á bankareikning stefnanda voru báðir foreldrar málsaðila á lífi, voru fjár síns ráðandi og höfðu fulla ráðstöfunarheimild yfir fjármunum sínum. Stefndi hefur ekki sýnt fram á það með nokkrum trúverðugum hætti, eins og hann hefur haldið fram við aðalmeðferð málsins, að umrædd fjárhæð hafi verið fyrirframgreiddur arfur til stefnanda. Sú meginregla gildir í íslenskum rétti að fjárráða einstaklingar eru fjár síns ráðandi og frjálsir að ráðstafa eignum sínum að eigin vild, séu því ekki settar sérstakar skorður með lögum, s.s. fjárræðissvipting, skipun fjárhaldsmanns, seta í óskiptu búi eða aðrar tálmanir. Ekkert af því á við í þessu máli.  Að því virtu að ekkert hefur komið fram um að C hafi ekki verið heimilt að ráðstafa fjármunum sínum í lifandi lífi, verður sú málsástæða stefnanda, að um greiðslu vegna vinnu hafi verið að ræða um nokkurra ára skeið fyrir móður aðila, tekin til greina. Engin áhrif hefur sú málsástæða stefnda, að óskilgreindar úttektir hafi verið framkvæmdar af bankareikningi móður málsaðila á árunum 2011 til dánardags hennar, við úrlausn máls þessa. Þá hefur það heldur engin áhrif við úrlausn málsins að stefnandi hafi ekki tilkynnt greiðslu til sín þann 15. ágúst 2012 sem skuld við dánarbúið enda greiðslur sem áttu sér stað um einu og hálfu ári áður. Að auki hefur það engin áhrif við úrlausn málsins, eins og stefndi heldur fram, hvort stefnandi hafi gert grein fyrir þessari greiðslu hjá skattyfirvöldum eða ekki. Stefndi hefur einnig haldið því fram að undirritun móður þeirra sé jafnvel fölsuð. Engir vitundarvottar séu að undirritun hennar né hún staðfest á nokkurn hátt. Stefndi hefur ekki lagt neitt fram sem styður þessa málsástæðu hans.Verður ekki fjallað frekar um þessar málsástæður stefnda þar sem þeim er alfarið hafnað sem röngum og tilgangslausum.

            Eins og rakið er í kaflanum um málsatvik létust foreldar málsaðila á árinu 2013. Einkaskiptaleyfi var gefið út 6. janúar 2014 og veitti stefnandi, sem bjó erlendis, stefnda, bróður sínum, umboð til að sjá um einkaskiptagerð og uppgjör á dánarbúinu með aðstoð KPMG. Stefnandi heldur því fram að honum hafi ofboðið framkoma stefnda á fundi með KPMG þann 22. febrúar 2014 og í framhaldi ákveðið að afturkalla umboð sitt til hans. Gerði hann það með því að senda tölvupóst til stefnda, á starfsmenn KPMG og til fulltrúa sýslumanns. Þann sama dag veitti hann G lögmanni umboð til að koma fram fyrir sína hönd vegna skipta á dánarbúi foreldra málsaðila. Í gögnum málsins liggur fyrir svarpóstur sem starfsmenn KPMG sendu á stefnanda og afrit til stefnda. Stefndi kannast ekkert við að hafa fengið umræddan tölvupóst og kvaðst ekki hafa vitað um afturköllun umboðsins þegar hann lagði einkaskiptagerðina fram hjá sýslumanni þann 23. maí 2014. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu stefnda lagði hann fram, með gögnum til sýslumanns, afrit af umboði stefnanda til lögmanns síns undirritað 22. febrúar 2014. Telur dómurinn því alveg ljóst, þrátt fyrir neitun stefnda um að hafa verið kunnugt um afturköllunina, að honum hafi þá þegar og í síðasta lagi þann 23. maí 2014 verið kunnugt um umboðsleysi sitt þar sem hann afhenti sjálfur sýslumanni, í andstöðu við meint umboð til síns sjálfs, umboð til lögmanns stefnanda. Þá er einnig bókað í verkskrá KPMG þann 24. febrúar 2014 að athuga þurfi með afturköllun umboðs o.fl. Þrátt fyrir að starfsmenn KPMP hafi ekki verið leiddir fyrir dóminn, telur dómurinn afar ósennilegt að þessi athugasemd hafi verið gerð þann 24. febrúar í verkskrá þeirra ef hún hefur ekki verið rædd við stefnda á næstu fundum sem m.a. voru þann sama dag, daginn eftir, 4. mars og 16. apríl 2014. Telur dómurinn því sannað að stefnda hafi verið ljóst að hann hafði ekki lengur umboð stefnanda til að undirrita erfðafjárskýrsluna og ljúka skiptum á dánarbúinu. Breytir þar engu um hvort fulltrúi sýslumanns hafi gert mistök með því að taka við erfðafjárskýrslunni með þessum hætti.

            Í erfðafjárskýrslunni er skráð að stefnandi skuldi dánarbúinu 4.000.000 króna. Þrátt fyrir það segir í sundurliðun uppgjörs vegna skiptingar eigna sem fylgdi erfðafjárskýrslunni að fyrirframgreiddur arfur til stefnanda hafi verið 4.000.000 króna. Undir gögn þessi ritar stefndi einn utan fulltrúa sýslumanns.

Í gögnum málsins liggja fyrir samskipti stefnanda og G, lögmanns stefnanda, þann 17. maí 2014, þar sem stefnandi kveðst hafa hitt stefnda deginum áður og gengið vel. Kvaðst stefnandi hafa uppfært skjalið í samráði við starfsmann KPMG þar sem fjórar milljónir hafi verið teknar út úr uppgjörinu. Þá kvaðst hann senda henni uppgjörið frá KPMG þar sem það sé nánast það sama fyrir utan þessar fjórar milljónir. Þá muni stefndi koma til G með gögnin, hún lesa þau yfir og undirrita erfðafjárskýrsluna fyrir hönd stefnanda. Eins og fram kemur að framan var erfðafjárskýrslan eingöngu undirrituð af stefnda þegar hún var lögð inn hjá sýslumanni og var án þeirra breytinga sem stefnandi hafði gert ráð fyrir.

            Að þessu virtu telur dómurinn sannað að stefndi hafi vísvitandi tilgreint á erfðafjárskýrslunni skuld stefnanda við dánarbúið, hvort sem það var skuld eða fyrirfram greiddur arfur eins og kemur fram í fylgigögnum um skiptingu arfsins. Með því skerti stefndi arfshluta stefnanda við uppgjör á dánarbúinu. Telur dómurinn sannað að stefndi hafi, með ólögmætri háttsemi, lagt inn til sýslumannsins ranga erfðafjárskýrslu, án undirritunar umboðsmanns stefnanda og með upplýsingum sem voru rangar og gegn betri vitund stefnda.

            Stefndi byggir sýknukröfu sína m.a. á tómlæti. Eins og rakið er lagði stefndi erfðafjárskýrsluna inn til sýslumanns 23. maí 2014 án undirritunar stefnanda eða umboðsmanns hans. Gegn mótmælum stefnanda hefur stefndi ekki sýnt fram á að stefnandi hafi vitað um efni þeirrar skýrslu sem stefndi lagði inn til sýslumanns. Stefndi hefur heldur ekki sýnt fram á að stefnanda hafi verið send sú skýrsla sem lögð var inn til skoðunar. Í gögnum málsins liggja fyrir samskipti stefnanda og fulltrúa sýslumanns frá því í lok ágúst 2015 en þar biður stefnandi um að fá öll gögn send varðandi uppgjör á dánarbúi foreldra hans. Í kjölfar þess fór stefnandi fram á það við stefnda með bréfum 22. ágúst 2016, 23. september 2016 og 12. mars 2018 að stefndi endurgreiddi stefnanda þær fjórar milljónir sem dregnar voru frá uppgjöri stefnanda við skiptin á dánarbúinu. Stefna var birt stefnda 22. maí 2018. Telur dómurinn að í fyrsta lagi hafi stefnandi ekki fyrirgert rétti sínum með tómlæti þar sem hann ítrekað krefur um leiðréttingu eftir að honum varð ljóst í ágúst 2015 hvernig málum var háttað auk þess sem upphafsdagur fyrningar getur ekki talist fyrr en við móttöku sýslumanns á erfðafjárskýrslunni sem var stimpluð 23. maí 2014. Breytir engu hvaða dag stefndi undirritaði erfðafjárskýrsluna. Var krafan þá ekki fyrnd. Var málið því höfðað innan tilskilins frests. Er þessari málsástæðu stefnda því hafnað.

            Að öllu framangreindu virtu telur dómurinn sannað að stefndi hafi, með saknæmum og ólögmætum hætti, bakað stefnanda tjón með því að skila inn rangri erfðafjárskýrslu án hans undirritunar eða umboðsmanns hans og gegn betri vitund.

            Verða kröfur stefnanda því teknar til greina og skal stefndi greiða stefnanda dómkröfur eins og segir í dómsorði. Þá skal stefndi skv. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiða stefnanda málskostnað eins og segir í dómsorði.

                        Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndi, B, greiði stefnanda, A, 4.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. júní 2014 til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 1.300.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                        Ástríður Grímsdóttir